16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þótt mér eins og fleiri stjórnarandstæðingum finnist lítið til þess frv. koma, sem hér er á dagskrá, þá er fátt svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Og ég vildi nota hér tækifærið til að láta í ljós ánægju mína með eina breytingu, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Breytingin kemur fram í 3. gr. frv. og fjallar um breytingu á 7. gr. laganna. Þar er um að ræða breytingu á skattskyldu vegna söluhagnaðar á íbúðum. Á þskj. 90 lagði ég fram frv. til I. um breytingu á tekju- og eignarskattslögum, sem fól í sér breytingar til lagfæringar á mjög ósanngjörnu og íþyngjandi ákvæði í núgildandi lögum.

Hæstv. ríkisstj. hefur brugðizt mjög myndarlega við þessari till. minni, því að í frv., sem hún leggur nú fram, er till. mín á þskj. 90 lögð nánast orðrétt fram og sett inn í þetta frv. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því, að þarna er brugðizt við með skjótum og myndarlegum hætti, sem ég kann vel að meta.

Í þessu ákvæði frv. eru hins vegar tvær lítilfjörlegar orðalagsbreytingar, sem ekki skipta meginmáli, hvað snertir sjálft inntak þessarar till. Mér sýnist þó hvort tveggja vera til hins verra. En þessar tvær orðalagsbreytingar eru annars vegar, þar sem segir í þessari till., með leyfi forseta:

„Selji skattþegn íbúðarhúsnæði, sem verið hefur íbúðarhæft í eigu hans skemur en þrjú ár, en kaupi annað íbúðarhúsnæði innan árs, eða byggi hús til íbúðar, áður en þrjú ár eru liðin frá söludegi“, o.s.frv.

En í till. minni er talað um, að skattþegn hafi þurft að selja íbúð, sem hann hefur haft eða ætlað til eigin afnota. Með till. minni vakti það fyrir mér að tryggja, að menn stæðu ekki í braski með íbúðir, að þetta miðaði að því, að menn þyrftu ekki að greiða skatt af íbúðasölu, þegar um er að ræða íbúðir, sem þeir nota sjálfir.

Samkv. frv., sem hér er lagt fram, er þessu orðalagi, til eigin afnota“, sleppt úr, þannig að mér sýnist, að þarna sé opnaður aftur möguleiki til þess, að menn geti verið að kaupa og selja íbúðarhúsnæði án tillits til þess, hvort þeir nota það sjálfir, og þá fellur það undir það, sem við höfum kallað í daglegu tali „brask“. Ég vil vekja athygli á þessari breytingu og tel, að það orðalag, sem fólst í frv. mínu, hafi verið heppilegra og næði betur tilgangi sínum.

Hitt atriðið snýr að orðalagi, sem fjallar um það, hvenær nýbyggt hús sé íbúðarhæft. Það er gert ráð fyrir því, að það þurfi að líða þrjú ár frá söludegi, eða það verði gert innan þriggja ára, frá því hann selur íbúð, þangað til hann kaupir aðra eða reisir nýtt hús, og þetta nýreista hús skuli vera íbúðarhæft, en það gefur auga leið, að menn geta hafið byggingu á húsi innan þriggja ára, en kannske staðið mjög lengi í þeirri byggingu, jafnvel í fjölda ára, þangað til þetta hús er orðið íbúðarhæft, og er þetta mjög teygjanlegt og áreiðanlega mjög erfitt í öllum meðförum, og sýnist mér vera heppilegra að orða það með þeim hætti, sem kom fram í frv. mínu, þar sem þetta ákvæði er tengt öðrum ákvæðum laganna, þar sem talað var um tímamörk þau, er um ræðir í 5. mgr. þessarar gr. Það er kannske erfitt að átta sig á þessu. En þetta var sett inn í frv. á þskj. 90 til að tengja það öðrum ákvæðum og hafa þarna fullt samræmi á milli. Ég er ekki að segja endilega, að þetta sé það allra bezta, sem fram kemur í frv. mínu, en vek líka athygli á, að þetta mætti gjarna betur fara í því frv„ sem nú liggur her fyrir, hvað snertir þetta ákveðna ákvæði.

Ég lýsi yfir ánægju minni, hversu myndarlega er brugðizt við, og raunar er það árétting á því, sem ég sagði hér í máli mínu til stuðnings þessu frv. fyrr í vetur, að þarna er um að ræða réttlætismál, þarna er um að ræða nauðsynlega leiðréttingu, sem kemur tvímælalaust til góða þeim fjölda fólks, sem þarf af ýmsum ástæðum, skiljanlegum og eðlilegum, að skipta um íbúðir, stækka við sig, bæði af efnalegum ástæðum eða hreinlega vegna stækkunar á fjölskyldu, innan þessa tímamarks. Sérstaklega er þetta til hagshóta fyrir sumt ungt fólk, sem gjarnan byrjar á því að byggja sér litlar íbúðir og þarf svo fljótlega að stækka við sig.

Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessar umr. hér um þetta frv. né heldur að karpa við mér fróðari menn um þau ýmsu ákvæði, sem fjallað er um í þessum umr. En úr því ég hef staðið upp, þá vildi ég leyfa mér að benda á ýmis þau atriði, sem mér sýnist hafa komið mjög glöggt fram í þessum umr. og raunar hæði í máli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga.

Það liggur fyrir bæði í umr. í dag um þetta frv. og eins um fjárlögin fyrr í þessari viku, að fjárlög hækka mjög verulega, það fer ekki á milli mála. Spurningin er eingöngu sú, hversu mikið þau hækka. Einnig liggur fyrir, að skattar muni hækka mjög verulega. Þetta hefur verið staðfest af hæstv. fjmrh. og spurningin er því ekki sú, hvort þeir hækka, heldur hversu mikið þeir hækka. Nýlega hefur kaupgjald hækkað mjög verulega í þessu landi, sem að sjálfsögðu leiðir af sér, að rekstrarkostnaður alls atvinnulífsins mun hækka meira eða minna. Þetta hefur verið viðurkennt af ýmsum hæstv. ráðh., og þeir hafa látið í það skína, að verðlag muni að meira eða minna leyti hækka í kjölfar þessara kauphækkana.

Það hefur komið fram með þeim frv., sem lögð hafa verið fram af hæstv. ríkisstj., að nú er stefnt að ákveðinni verkaskiptingu milli ríkisstj. og sveitarfélaga, en í þessari verkaskiptingu fer ekki á milli mála, að hlutur sveitarfélaga mun minnka mjög, bæði hvað snertir tekjuöflun og einnig ýmis önnur verkefni. Þetta liggur ljóst fyrir, og eru, held ég, allir sammála um þessa meginniðurstöðu, hvað snertir verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Þá hefur því verið haldið fram hér í umr. í dag, að vísitalan muni breytast launþegum til óhagræðis, og jafnframt, að líkur séu taldar á því, að niðurgreiðslur verði lækkaðar, einnig launþegum til óhagræðis.

Allt þetta leiðir að sjálfsögðu til einnar ákveðinnar niðurstöðu, sem er algjörlega útilokað að ganga fram hjá og sem ég held, að allir þeir, sem hafa afskipti af stjórnmálum, eigi að horfast í augu við. Og sú niðurstaða er, að verðbólgan muni aukast mjög á næstunni sem afleiðing af þessum frv. og þessum aðgerðum öllum. Og þá er spurningin þessi: Hvað er eiginlega að gerast? Nú er hér komin fram ný ríkisstj. Hún hefur boðað stefnubreytingu, hún boðar vinstri stefnu í þessu þjóðfélagi, og hún vill breyta frá þeirri slælegu stefnu, sem haldið var hér uppi heilan áratug af viðreisnarstjórn, sem hún taldi flest til foráttu og taldi leiða til ófarnaðar fyrir þessa þjóð.

Ég skal viðurkenna, að ég hef ekki farið að ráðum hæstv. forsrh. og lesið málefnasamninginn frá morgni til kvölds, en ég þykist þó hafa kynnt mér hann svo vei. að ég geti vitnað í hann hér á örfáum stöðum. Ég vildi vekja athygli á örfáum setningum, sem skipta máli í þeim umr., sem hér fara fram. Með leyfi forseta, þá vildi ég fyrst grípa niður, þar sem svo segir í þessum málefnasamningi:

Ríkisstj. leggur ríka áherzlu á, að takast megi að koma í veg fyrir háskalega verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu.“

Á öðrum stað stendur:

„Í trausti þess, að ríkisstj. hljóti stuðning til að ná sem beztum tökum á þróun verðlagsmála og í því skyni, að hægt verði að tryggja láglaunafólki árlegar og eðlilegar kjarabætur, mun ríkisstj. beita sér fyrir“, o.s.frv.

Þarna á að tryggja láglaunafólki árlegar og eðlilegar kjarabætur.

Á öðrum stað stendur í þessum samningi:

„Að endurskoða lög og reglur um ýmiss konar gjöld, sem nú hvíla á framleiðsluatvinnuvegunum, og stefna að því, að þau verði lækkuð eða felld niður.“

Enn annars staðar gríp ég niður, og þar segir, þegar talað er um Framkvæmdastofnun ríkisins:

„Stofnunin skal hafa náið samstarf við aðila atvinnulífsins um það, hvað unnt sé að gera til að búa í haginn fyrir hverja atvinnugrein í því skyni að lækka rekstrarkostnað“, o.s.frv., lækka rekstrarkostnað atvinnulífsins.

Enn gríp ég niður þar sem segir:

„Endurskoða her skiptingu verkefna og valds milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði sveitarfélaganna. Haft verði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun.“

Og að lokum, síðast en ekki sízt:

„Að endurskoða tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum, að skattabyrðinni verði dreift réttlátlegar en nú er gert,“ — að dreifa skattabyrðinni réttlátlegar en nú er gert.

Og nú er spurningin, og þá snýr þetta sérstaklega að því fólki, sem hefur búið til þennan málefnasamning, því fólki, sem styður þessa ríkisstj., studdi hana til valda og trúir á, að hún geti komið ýmsum góðum málum til leiðar. Hvernig hefur tekizt að efna þessi atriði, sem þarna koma svo skilmerkilega fram í þessum málefnasamningi?

Til þess að koma í veg fyrir háskalega verðlagsþróun eða óðaverðbólgu, eins og heinlínis segir í samningnum, þá eru fjárlög nú hækkuð um, að menn telja, 6 milljarða kr.

Til þess að stefna að því, að ýmiss konar gjöld á framleiðsluatvinnuvegunum lækki eða verði jafnvel felld niður, þá er gripið til þess ráðs að afnema ýmis þau skatthlunnindi og þau ákvæði, sem stuðluðu að því, frá fyrri lögum, sem komu til góða fyrir atvinnureksturinn. Hæstv. fjmrh. fór mörgum orðum um það í dag í ræðu sinni, hvernig ætti að breyta þessu hið skjótasta. Til þess að lækka rekstrarkostnað atvinnulífsins, þá er spjótunum beint sérstaklega gegn þessum atvinnurekstri og atvinnulífinu yfirleitt og m.a. með Framkvæmdastofnun ríkisins, sem ég skal ekki fara náið út í hér að þessu sinni, en mun gera betri skil seinna hér á Alþ. En enginn vafi er á því, að fyrir miklum fjölda þeirra manna, sem standa að þessari ríkisstj. og sitja í ríkisstj., vakir það að beina spjótunum að atvinnurekstrinum og uppbyggingu atvinnulífsins.

Þá er komið að klausunni, þar sem talað er um, að endurskoða beri skiptingu verkefna og valds milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Á það hefur verið bent í umr. í dag af hv. 11. landsk. þm., að enda þótt ýmislegt horfði í rétta átt í frv. um tekjuskiptinguna, þá segir hann, að það spor hafi ekki verið stigið til fulls. Ég vil leyfa mér að orða það þannig, að það hafi kannske verið stigið eitt spor fram á við, en um leið tvö aftur á bak. En enginn vafi er á því, að Samband ísl. sveitarfélaga, sá aðili, sem er kjörinn til þess að hafa forustu fyrir sveitarfélögum í landinu, hefur að meira eða minna leyti verið gjörsamlega sniðgenginn í þessari endurskoðun.

Hvað snertir það ákvæði, þar sem talað er um að tryggja láglaunafólki bætt kjör, þá er verið að gera því skóna hér í umr., að beinlínis sé verið að falsa vísitöluna og lækka niðurgreiðslur, sem vitaskuld leiðir til hækkaðs verðlags og aukins kostnaðar fyrir það fólk, sem þarf fyrst og fremst á því að halda, að þeirra kjör séu bætt.

Og síðast, en ekki sízt, þá er talað um það í þessum málefnasamningi, að skattbyrðinni verði skipt réttlátlegar en nú er gert, og það eru ekki nema nokkrar mínútur síðan að því voru leidd rök, sem ég skal hafa þann fyrirvara á, að hæstv. fjmrh. mun kannske geta mótmælt, en þó sýnist mér það nokkuð ljóst, að þær breytingar, sem eru boðaðar, koma verst niður á þeim mikla fjölda fólks, sem hefur millitekjur, eins og sagt er, en það er hinn breiði fjöldi í þessu þjóðfélagi. Jafnvel er það svo, að talað er um, að það lendi verst á fólkinu, sem er með lægstu tekjurnar, en hlutfallslega sleppi þeir bezt, sem eru með hæstu tekjurnar. Ég segi eins og hv. 11. landsk., að þetta vakir sjálfsagt ekki fyrir hæstv. ríkisstj., en sýnir eingöngu það, hversu illa þetta frv. er undirbúið og hversu það raunverulega hnígur í allt aðra átt en til er stofnað. Það, sem skiptir mestu máli, hvað þessar klausur snertir, er, að skattar eru að hækka hér mjög verulega, og get ég ekki séð, hvernig nokkurt réttlæti er í því á þessum tímum að vera að byrja á því í stjórnaraðgerðum að hækka skatta með svo gegndarlausum hætti sem hér er talað um.

Ég spyr enn: Hvað er að gerast? Og sjálfsagt spyrja fleiri að því, hvað sé að gerast og hvað sé fram undan. Hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir því, að fjárlög verði afgreidd hallalaus, hvað sem það kostar, hversu hátt, sem útgjöldin fari, þá skuli endarnir mætast, og þá liggur ljóst fyrir, að það verður að hækka skattbyrðina á þjóðfélaginu til þess að ná þessum endum saman, „og ef það er ekki“, segir hann, „þá er þetta allt í endurskoðun. Það má endurskoða söluskattinn, það má endurskoða aðflutningsgjöldin, og það má velta fyrir sér virðisaukaskatti, svo að það er ýmislegt fleira á ferðinni ef endar ná ekki saman.“ Til þess að kóróna þetta allt saman þá segir hann svo að lokum: „Ef þetta gengur ekki allt saman, þá er þetta, góðir hálsar, jú allt saman gert bara í tilraunaskyni. Þetta er svona tilraun, sem á sér stað núna í eitt ár, og svo stendur til heildarendurskoðun að ári.“ Það er sem sagt verið bara svona að spekúlera með þessi skattamál þjóðarinnar og gera svona tilraunir, koma með einhver ákvæði og breytingar á skattalögunum, bara til þess að sjá svona, hvernig þetta gengur fyrir sig, hvaða áhrif þetta hefur á þjóðina.

Ég lýsi vanþóknun minni á þessum vinnubrögðum, en segi um leið: Er þetta vinstri stefnan, sem átti að framkvæma í þjóðfélaginu? Eru þetta umbæturnar, sem nú er verið að gera, frá því að viðreisnarstjórnin óskaplega var hér við völd? Ég vona það eitt, að þessi tilraunastarfsemi verði ekki of dýru verði keypt.