16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. vegna ummæla hæstv. forsrh. í framhaldi af ræðu minni hér áðan. Hann leyfði sér nú að taka mig í kennslustund í þeim ágæta málefnasamningi. Ég hef að vísu verið í kennslustundum hjá honum fyrr, og ég verð að játa það, að sú kennsla var sýnu geðfelldari en fræðslustundir um málefnasamning núv. ríkisstj. En látum það vera.

Í fyrsta lagi skildi hann orð mín svo hér áðan, að ég væri á móti því, að fjárlög væru afgreidd án greiðsluhalla. Þetta er mikill misskilningur og alveg ástæðulaust að vera að snúa út úr orðum mínum með þessum hætti. Ég sagði í ræðu minni, — ég geri ráð fyrir, að allur þingheimur hafi skilið, — að hæstv. fjmrh. hafi lýst yfir því, bæði í fjölmiðlum og hér á þingi, að fjárlög skyldu afgreidd án greiðsluhalla, hvað sem það kostaði. Þetta get ég vel skilið, en ef þau eiga að vera hallalaus og með tilliti til þeirra stórkostlegu hækkana, sem nú þegar hafa komið fram í dagsljósið, nú jafnvel á milli 2. og 3. umr., var ég að velta því fyrir mér, hvernig hann ætlaði að ná þessum fjárlögum hallalausum nema með aukinni skattbyrði á þjóðina. Það var allt og sumt, sem ég átti við með þessum orðum, og ég vil taka það mjög skýrt fram. að orð mín mátti ekki skilja svo, að ég væri að tala um, að þau ætti að afgreiða með greiðsluhalla, síður en svo.

Þá var það vegna þeirra tilvitnana minna í málefnasamninginn, hvað snertir Framkvæmdastofnun ríkisins, um það, að hún ætti að beita sér fyrir lækkun á rekstrarkostnaði. Þetta las ég upp og vitnaði til til þess að leggja áherzlu á, að, að því er virtist, væri það vilji þessarar hæstv. ríkisstj. að lækka rekstrarkostnaðinn. A.m.k. er sá vilji kominn á pappír í þessum ágæta samningi. Ef það er áhugi hjá hæstv. ríkisstj. að lækka rekstrarkostnaðinn, jafnvel þótt það verði gert, eins og málefnasamningurinn segir, með tilstuðlan Framkvæmdastofnunar, þá get ég ekki skilið, hvaða samræmi er í þeim vinnubrögðum nú, áður en stofnunin er sett á laggirnar, að hækka þennan rekstrarkostnað, eða er það kannske leikurinn til þess gerður að hækka fyrst rekstrarkostnaðinn til þess að fara að semja svo um að lækka hann aftur! Hvaða skynsemi er í slíkum vinnubrögðum? Þetta var inntak tilvitnana minna í þetta ákvæði.

Þá er það rétt, að ég gerði því skóna í ræðu minni áðan, að það væru viss öfl, sem styddu þessa ríkisstj. og væru jafnvel innan hennar, sem hugsuðu ekki allt of vel til atvinnurekstrarins, og þegar ég tala um atvinnurekstur, á ég við hið frjálsa atvinnulíf, hið frjálsa einkaframtak. Fulltrúar Alþb. ýmsir hafa bæði í ræðu og riti lýst yfir því hvað eftir annað, að þeir vildu hlut hins frjálsa einkaframtaks sem allra minnstan. Þeir tala um atvinnurekendaklíkur, þeir tala um gróðahyggju. þeir tala um auðvaldið í þjóðfélaginu, þeir vilja koma hér á sósíalískri stefnu. Það er í samræmi við þeirra málflutning og ekkert við því að segja í sjálfu sér. Þeir vilja koma hér á félagslegum atvinnurekstri, ríkisrekstri í meira eða minna mæli, og það hlýtur náttúrlega að vera á kostnað hins frjálsa atvinnurekstrar. Þetta skulu þeir bara viðurkenna og horfast í augu við. Ég trúi því ekki, að ágætir framsóknarmenn séu svo einfaldir í samstarfi sínu við Alþb„ að þeir haldi, að Alþb. sé í ríkisstj. og vinni að því öllum árum alla daga að hæta hag hins frjálsa atvinnurekstrar. Það er a.m.k. eitt að segja og annað að gera í þessu sambandi.

Ég vildi aðeins gera þessar leiðréttingar á ræðu hæstv. forsrh., koma þessu á framfæri, til þess að ekki fari á milli mála, hvað ég átti við með þessum fyrri ummælum mínum. Ég get vel skilið, að ráðh. séu hörundssárir fyrir því, að nú sé verið að deila á ýmislegt, sem fram kom í málefnasamningnum. Mér er það ljóst, að þessi málefnasamningur er settur fram til þess, að hann sé framkvæmdur á lengra tímabili en nokkrum mánuðum. En staðreyndin er sú, að nú þegar eftir nokkra mánuði hriktir mjög verulega í honum.