16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka til máls aftur, en hæstv. forsrh. beindi beint til mín nokkrum spurningum, sem ég tel sjálfsagt að svara.

Í fyrsta lagi spurði hæstv. forsrh. um það, hvort ég teldi ekki, að vinnufriður í landinu væri nokkurs virði. Ég get svarað þessu á þann hátt, að ekki einasta ég, heldur hver einasti þm. og hver einasti þjóðfélagsþegn telji það mikils virði, að vinnufriður haldist í landinu. En ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Er vinnufriður í landinu hjá okkur í dag? Er honum ekki kunnugt um, að allur kaupskipafloti landsmanna er annaðhvort bundinn í höfn við landsteina eða verður bundinn, þegar hann kemur að landi? Vitað er, að það er undirstöðuatriði fyrir atvinnuvegina, að kaupskipaflotinn geti siglt milli landa, tekið afurðir til útflutnings og fært okkur það, sem okkur vantar, bæði til framfærslu og í sambandi við atvinnuvegina.

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. forsrh., hvort honum sé það ekki kunnugt, að sjómannasamningar renna út um n. k. áramót, og því miður, ég segi, því miður, þá er mjög mikill ótti í mönnum um það, að samningar náist ekki fyrir þann tíma og að til stöðvunar hjá útveginum komi. Við skulum öll vona, að þetta fari á annan veg og að til þess komi ekki, en um það verður ekkert sagt í dag.

Í þriðja lagi vil ég benda hæstv. forsrh. á það, að þótt samningar hafi verið undirritaðir við stéttarfélögin nú í þessum mánuði, þá er enn þá ósamið um öll eða flest sérákvæði, sem fram voru sett hjá hinum ýmsu verkalýðs- og stéttarfélögum. Það hefur verið sagt, að viðræður um þetta ætti að taka upp milli aðila vinnumarkaðarins eftir áramót. Hvernig um þær viðræður fer, veit enginn í dag, hvort til vinnustöðvunar kemur eða ekki. Því miður er útlitið á allt annan veg en þann, að forsrh. sé þess umkominn hér og nú að lýsa því yfir, að vinnufriður sé í landinu eða vinnufriður muni haldast áfram. Þetta ber að harma, en þetta eru staðreyndir, sem hvorkí hæstv. forsrh. eða öðrum þýðir að líta fram hjá.

Þá beindi hæstv. forsrh. þeirri fsp. til mín, hver væri stefna mín í kaupgjaldsmálum. Ég vil benda hæstv. forsrh. á, að fyrrv. ríkisstj. fylgdi ávallt þeirri reglu að stuðla að því, að launþegar fengju sinn hluta af auknum þjóðartekjum, eins og þær voru á hverjum tíma. Ég er sannfærður um, að launþegasamtökin mátu þetta mikils, og þau sýndu það í verki, þegar harðnaði á dalnum árin 1967 og 1968. Þá stilltu þau öllum sínum kröfum í hóf, því að þeim var ljóst, að þá voru erfiðleikar fram undan fyrir þjóðfélagið í heild, og þau vildu ekki stuðla að því að gera þá erfiðari úrlausnar með auknum kröfum. Þetta ber sannarlega að meta og þakka launþegasamtökum fyrir þann skilning, sem þau sýndu á þessum málum og er sönnun þess, að þau mátu það mikils, að þannig skyldi vera staðið að málum, að þeim var ljóst, að það var reynt að stuðla að því af stjórnvöldum. að þau fengju á hverjum tíma eðlilegan hluta út úr auknum þjóðartekjum.

Það, sem hefur gerzt hjá núv. ríkisstj., er það, að hún hefur fyrir fram með hinum margumrædda sáttmála stuðlað að því, að launþegasamtökin gerðu mjög háar kröfur, alveg án tillits til þess, að stjórnin væri farin að gera sér nokkra grein fyrir því, hvort atvinnuvegirnir og þjóðfélagið í heild þyldu þær kröfur, sem þar var stuðlað að. Það er vitað og viðurkennt, að ákvæðin um styttingu vinnuvikunnar þýða svo og svo mikil útgjöld fyrir mjög stóran hluta af atvinnurekstrinum í landinu. Það er einnig öllum ljóst, að aukning kaupmáttar um 20% á 2 árum hlýtur að þýða, sérstaklega eins og nú er komið, með því verðbólguskeiði, sem er að skella á, verulegar kauphækkanir. Öðruvísi varð það ekki framkvæmt. Það er þetta, sem er að gerast, og það er þessi stefna ríkisstj., sem ég var að gagnrýna, því að það er hún fyrst og fremst, sem hefur stuðlað að þessu, án þess að vita, hvað hún var að gera, þegar hún setti þessi ákvæði inn í sáttmálann. Ég get fullvissað hæstv. forsrh. um það, að mér sem atvinnurekanda er það mjög mikið ánægjuefni, ef það fyrirtæki, sem ég stend fyrir, getur greitt fólki það kaup, sem ég veit að hægt er að gera og það er ánægt með. Það er geysimikið atriði fyrir vinnuveitendur, að það sé samstaða og samstarf milli þessara aðila og hægt sé að mæta eðlilegum kröfum launþega.

Þá kom hæstv. forsrh. hér fram. sem mér þykir nokkuð óvanalegt, með fsp. og kröfur til okkar stjórnarandstæðinga, hvað við vildum taka út úr fjárlögum, hvernig við vildum standa að því að lækka fjárlögin. Ég tel þetta sýna mjög litla þekkingu hjá hæstv. forsrh. á uppbyggingu fjárlaga eða fjárhagsáætlana, t.d. sveitarfélaga, og efnahagsmálum almennt. Ég held, að það sé hverjum einasta manni, bæði sveitarstjórnarmanni og alþm., kunnugt, að í hvert einasta skipti, sem fjárhagsáætlanir eru samdar eða fjárlög hér á Alþ., þá er mjög mikill fjöldi mála, sem allir eru sáttir á, að tekin verði inn á fjárlög og fjárhagsáætlanir. Það er hægt að færa rök fyrir því, að hvert einasta þessara mála er eðlilegt, og það væri mjög gott og gagnlegt í mörgum tilfellum að geta orðið við óskum um að taka þetta inn, en það, sem ráðandi menn verða að gera, hvort sem eru sveitarstjórnarmenn eða ráðh. í ríkisstj., er, að meta á hverjum tíma, hverju hægt er að verða við af þeim kröfum, sem fram eru settar. Með því móti móta þeir efnahagsmálastefnuna, bæði í sveitarfélögunum og í þjóðfélaginu, ef um ríkisstj. er að ræða. Það er þetta atriði, sem hæstv. forsrh. virðist ekki gera sér grein fyrir. Það skal viðurkennt, að hann er óvanur fjármálum og efnahagsmálum, en hann ætti að hafa menn með sér í ríkisstj. og sérfræðinga, sem gætu bent honum á, að þetta er eðlilegur hlutur. Kröfurnar hljóta alltaf að verða til hins opinbera miklu meiri en nokkur stjórn, sveitarstjórn eða ríkisstj., getur á einu bretti mætt. Ef ætti að mæta öllum kröfum, sem fram koma, bæði til sveitarstjórna í landinu, um hin þörfustu mál. og til ríkisstj. í sambandi við fjárlög, veit ég ekki, hvernig efnahagsmál þjóðarinnar litu út. Ég skal láta þetta nægja um það.

En fyrst hæstv. forsrh. er að biðja mig og aðra stjórnarandstæðinga um ráðleggingar í sambandi við þessi mál, þá vil ég fyrir mitt leyti gefa honum eitt ráð, og það er, að hann segi af sér, og það nú þegar. Ég vil benda honum á það til rökstuðnings þessu, að hann er núna í dag í nákvæmlega sömu aðstöðu og hæstv. forsrh. vinstri stjórnarinnar var á sinum tíma, þegar Hermann Jónasson veitti henni forstöðu. Hann sá fram á það, að það voru að skella yfir þjóðina geysilegar verðhækkanir, sem hann kallaði hér úr ræðustól óðaverðbólgu. Því miður þá er þetta að gerast enn þá, aðeins 5 mánuðum eftir að núv. hæstv. forsrh. tók við embætti sinu, og ég mundi telja hann mann að meiri, og það væri von um, að þannig gæti hann orðið þjóðinni að gagni, ef hann fetaði í fótspor fyrrv. forsrh. vinstri stjórnar, Hermanns Jónassonar, og segði af sér, og það sem fyrst.