16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Við þá umr. um skattalagafrv., það, sem hér er til umr., vildi ég segja örfá orð um þá stefnu, sem birtist í því frv. og öðrum frv., sem hér liggja fyrir hv. Alþ„ um stefnu ríkisstj. í skattamálunum.

Fyrst vil ég þó lýsa aðdáun minni á hæstv. fjmrh. fyrir það að koma hér og reyna að fullvissa þingheim um, að hann þyrfti ekki að leggja aukna skatta á þjóðina, þótt hann sé nú að fara fram á afgreiðslu fjárlaga, sem hækka sennilega um 6–7 þús. millj. kr. Ég verð að segja, að þetta er alveg furðulegur málflutningur frá mínu sjónarmiði, og jafnvel þótt tekið sé tillit til þess, að nokkrar tilfærslur verða á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga í þessu dæmi, þá liggur það fyrir hér skjalfest, að hæstv. ráðh. lagði fram fjárlagafrv., þar sem gert var ráð fyrir 3 þús. millj. kr. til ríkisins að óbreyttum skattalögum, en nú verða afgreidd fjárlög, sem eru hækkuð um mörg þús. millj. kr., einfaldlega vegna hækkana á fjárlögum, en ekki vegna tilfærslna frá sveitarfélögunum, og þetta hlýtur að fela í sér mjög mikla skattbyrði og mjög aukna skattbyrði þjóðarinnar. Ef þetta frv., sem hér er til umr., verður að lögum, verður allur almenningur í landinu skattlagður með hæsta skattstiga laganna, 45 kr. af hverjum 100, sem fólkið vinnur sér inn síðustu mánuði hvers árs. Það hlutfall fer beint í ríkiskassann.

Ég skal með örfáum orðum renna stoðum undir þessa fullyrðingu mína. Einstaklingar hafa í persónufrádrátt samkv. þessu skattalagafrv. 140 þús. kr. og oftast sáralítinn annán frádrátt, áður en kemur til skattskyldu. Þeim er gert að greiða 25% af 50 þús. kr., þannig að þeir lenda í hæsta skattstiga, þegar kemur yfir 200 þús. kr. tekjumark. Hvað halda menn, að margir fullvinnandi einstaklingar á Íslandi hafi undir 200 þús. kr. árstekjum árið 1971? Ég hef ekki um þetta beinar tölur hér, en hæstv. fjmrh. eða aðrir ráðh. hljóta að vita þetta, og því spyr ég: Hve mikill hluti fullvinnandi einstaklinga lendir í hæsta skattstiga, sem er samkv. framlögðu frv. 45% skatttekna? Hjón hafa 220 þús. kr. í persónufrádrátt, og eigi þau 3 börn, 90 þús. kr. í viðbót. Hafi þau 40 þús. kr. í annan frádrátt, fá þau 25% tekjuskatt af bilinu milli 350 og 400 þús. kr. brúttótekna, en 45% tekjuskatt, þegar kemur yfir 400 þús. kr. Hvað álíta menn, að mörg heimili á Íslandi hafi undir 400 þús. kr. brúttótekjum? Eftir nýjustu athugunum skilst mér, að 3/4 hlutar allra hjóna í landinu hafi yfir 450 þús. kr. í tekjur. Ég spyr ráðh., alla sem hér eru: Er þeim þetta ljóst? Er þeim ljóst, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar verður skattlagður með 45% skattstiga til ríkissjóðs, ef þetta frv. verður að lögum?

Þetta er ekki nóg. Í viðbót greiðir þetta fólk um 10% af launum sínum í útsvar, þegar komið er yfir 450 þús. kr. brúttótekjur. Þegar laun eru orðin jafnhá og raun ber vitni hér á landi, er alveg ljóst, að slík skattheimta, 55% af tekjum, sem fara yfir 450 þús. kr., hlýtur að bitna hart á öllum almenningi í landinu.

Ég óttast mjög viðbrögð almennings við þessum skattaálögum. Ég lít svo á, að þær muni draga verulega úr vilja fólks til að vinna. Ekki getum við lagt skatt á tekjur, sem fólk vinnur ekki fyrir, vegna þess að það vill ekki afla 55 kr. af hverjum 100 fyrir ríki og bæ. Ég held líka, að þetta ýti mjög undir kaupkröfur fólks. Fólk getur ekki sætt sig við slíka skattlagningu. Og það hlýtur að reyna að komast undan henni á einhvern hátt, annaðhvort með auknum kaupkröfum eða eftir því, sem hver og einn getur bezt.

E.t.v. segja hæstv. stjórnarsinnar: Gleymir þm. þá ekki, að við ætlum að leggja niður almannatryggingagjald og við ætlum að leggja niður sjúkrasamlagsgjald? Ég hef engu gleymt af þessu. Þetta kann að koma sér vel, og þetta kemur sér vel fyrir einstaklinga, sem eru við nám, og ýmsa, sem þannig er ástatt um, að þeir vinna ekki, en ég minni á í sambandi við þetta, að ég lít svo á, að það sé fyrst og fremst ætlun ríkisstj. með þessu að lækka vísitöluna um 3.7 stig. Hér kom meira að segja fram í ræðu hæstv. ráðh. í dag, að vegna þess að ríkisstj. felldi niður almannatryggingagjald og sjúkrasamlagsgjald, þá mundi vísitalan lækka um 3.7 stig, og þess vegna væri óhætt að draga úr niðurgreiðslum um 450 millj. kr. á helztu neyzluvörum almennings. Með tilliti til þess, sem hæstv. ráðh. sagði hér um neyzluskatt áðan, en hann sagði, að það mundi lenda á þeim, sem hefðu stærstu fjölskyldurnar, er þetta undarleg ráðstöfun. Lendir þetta ekki á þeim, sem hafa stærstu fjölskyldurnar, þegar verðlag á almennum nauðsynjavörum í landinu hækkar, svo að nemur um 450 millj. kr.?

Ég vil líka minna á í þessu sambandi, þegar hæstv. ríkisstj. er að guma af því, að hún felli niður nefskatta, að þá er hún samtímis að hækka fasteignaskatta. Allir þjóðfélagsþegnar þurfa að búa í íbúð, hvort sem þeir leigja hana eða eiga hana. Þessir skattar hljóta því að lenda á öllum þegnum þjóðfélagsins, annaðhvort sem hærri húsaleiga eða þá beint á þeim, sem eiga íbúðir. Ég verð að lýsa alveg sérstakri furðu minni yfir þessari stefnu hæstv. ríkisstj., ekki sízt vegna þess, að hún hefur margtuggið það hér í okkur alþm., sem hún telur heldur tornæma almennt, að hún ætlaði að fara að snúa öllu við. Nú ætti ekki að fara að eins og áður, nú ætti að leggja skatt á þá, sem gætu horið skattana, nú ætti að leggja skatt á breiðu bökin.

Ég satt að segja fæ ekki skilið þá stefnu, sem kemur fram í þessum skattafrv., sem hér liggja fyrir Alþ. Ég held það hljóti að vera svo, að hæstv. ríkisstj. geri sér ekki grein fyrir því, hvað hún er að gera. A.m.k. tel ég, að það sé mjög athugavert, sem hér hefur komið fram, að hér væri um miklu réttlátari skattheimtu að ræða en áður. Ég verð að segja, að mér finnst þetta undarleg réttlætiskennd hjá hæstv. ríkisstj. og harla einkennileg, og ég held, að þetta muni koma mjög áþreifanlega í ljós og hún muni verða áþreifanlega vör við það, þegar fólk fær skattseðlana sína, ef þessi frv. verða að lögum.