25.11.1971
Efri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

71. mál, innlent lán

Frsm. meiri hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur rætt frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 78. N. varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, og skrifar hv. 5. þm. Reykn. undir nál. með fyrirvara. Minni hl. fjhn. skilar séráliti.

Frv. þetta, sem hér um ræðir, er komið frá Nd. Við meðferð málsins þar kvaddi fjhn. á sinn fund bankastjóra Seðlabankans og fulltrúa frá viðskiptabönkunum og ræddi efni frv. við þá. Fulltrúi Seðlabankans mælti með frv., en fulltrúar viðskiptabankanna höfðu af því nokkrar áhyggjur og töldu, að verulegur hluti andvirðis hinna seldu bréfa yrði dreginn út úr veltu viðskiptabankanna. Um það, hver sú upphæð gæti raunverulega orðið, lá þó ekkert fyrir.

Efnislega hafa þm. yfirleitt verið sammála um, að það væri rétt stefna að taka innlent lán og fjármagna þannig að hluta til framkvæmdir ríkisins innan ramma framkvæmdaáætlunar hverju sinni. Hins vegar hefur á undanförnum árum orðið nokkur ágreiningur um skilmála bréfanna varðandi framtalsskyldu og útgáfu þeirra til handhafa. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er nokkuð komið til móts við þá gagnrýni, sem uppi hefur verið höfð, því að nú er gert ráð fyrir, að bréfin verði skráð á nafn, og verður að telja það til bóta.

Það hefur verið gagnrýnt, að ekki lægi fyrir, til hvers nota skyldi þetta fé, sem fæst, þar sem ekki lægi fyrir framkvæmdaáætlun fyrir árið 1972. Það kom þó fram hjá nm., bæði í meiri hl. og minni hl., að það væri tæpast von eða a.m.k. væri það skiljanlegt, að slík áætlun væri ekki fullbúin, þar sem ríkisstj. hefði setið skamman tíma. Hins vegar liggja fyrir endurteknar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um, að andvirði þessa láns verði að sjálfsögðu ráðstafað af Alþ. í sambandi við afgreiðslu framkvæmdaáætlunar ársins 1972 síðar á þessu þingi.

Hæstv. fjmrh. hefur látið þá ósk í ljós, að unnt yrði að hraða afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. fjhn. vill ganga til móts við þessar óskir nú og leggur til, að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ. óbreytt.