07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. tók fram, þá varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls og klofnaði í þrjá hluta. Það kom nú sennilega engum á óvart, að Sjálfstfl. mun ekki standa að samþykkt þessa frv. eða frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem er nú til umr. í Ed., en er auðvitað óhjákvæmilega einnig jafnframt hér til umr. Hitt kom mér nokkuð á óvart, þegar jafn athugull og ágætur maður og hv. 5. þm. Austf., frsm. meiri hl. fjhn., heldur því fram, að við fulltrúar Sjálfstfl. höfum aðeins flutt till. um það að vísa frv. frá með rökst. dagskrá. Það mætti ætla af þessu, að við ætluðum að taka upp einn leiðinlegan sið, sem átti sér stað í kauptúni úti á landi fyrir allmörgum árum, þegar gleymdist að leggja útsvörin á gjaldendurna, að við ætlumst til þess, að það verði engir skattar lagðir á. Ég hélt, að þessi ágæti og athuguli maður hefði tekið eftir því í nál. okkar, að við segjum, að þar sem þegar hafi verið gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar og ákvæði sett um yfirtöku ríkissjóðs á gjöldum, sem sveitarfélög hafa áður staðið undir, er bent á með tilvísun til till. okkar í þessu máli, að tilfærslur verði gerðar á tekjuskatti og útsvörum til samræmis við áðurnefndar breytingar. Við það, að ríkissjóður tekur að sér stór útgjöld, sem sveitarfélögin höfðu áður, teljum við auðvitað ekki ástæðu til, að sveitarfélögin fái sína tekjustofna óskerta, en ríkissjóður ekkert í staðinn.

Við bætum einnig við, að fari svo, að till. okkar um rökst. dagskrá verði felld, þá munum við flytja brtt. við 3. umr. og fylgja þeim brtt., sem fram hafa verið bornar eða fram verða bornar og við álítum, að horfi til bóta við afgreiðslu þessa frv., þótt við séum, eins og áður hefur komið fram, algerlega andvígir samþykkt þess.

Ég vil láta í ljós sérstaka óánægju mína yfir fréttaflutningi útvarps og sjónvarps um þessi mál. bæði frv. um tekjuskatt og eignarskatt og sömuleiðis frv. um tekjustofna sveitarfélaganna. Fréttin um þetta efni í Ríkisútvarpinu í gærkvöld og sömuleiðis í sjónvarpi var með þeim hætti, að menn máttu ætla, að sjálfstæðismenn hefðu enga stefnu, enga stefnumörkun í skattamálum, ekkert annað en það, að þeir legðu til, að þessum frv. báðum yrði vísað frá með rökst. dagskrá. Slíkur fréttaflutningur er miklu verri en enginn. Það hefði verið miklu betra að minnast alls ekki á þetta. Ef útvarp og sjónvarp hefur ekki tíma til að segja sæmilega frá því, sem er að gerast hér á Alþ., þá er miklu betra fyrir þessa fjölmiðla að leggja þessa fréttastarfsemi niður. Úr nál. okkar hefði aðeins þurft að segja tvær setningar til þess að gera hlustendum grein fyrir því, að við byggjum okkar nál. á ákveðinni stefnu í skattamálum, bæði hvað snertir skattamál ríkissjóðs og sveitarfélaga. Ég kem þessu hér með á framfæri í ræðustól. Það hafa fleiri gert það, þegar þeir hafa verið óánægðir með fréttaflutning, og ég minnist þess, að núv. hæstv. forsrh. hefur held ég aldrei verið reiðari í ræðustól en út af fréttaflutningi sjónvarps og blaða, en þá var hann í stjórnarandstöðu, og ég vil nú beina þeirri ósk og tilmælum til hans, að hann taki nú á honum stóra sínum og kenni þeim, hvernig þeir eigi að birta fréttir í fjölmiðlum, svo að allir geti við unað.

Þegar Sjálfstfl. og Alþfl. mynduðu ríkisstj. haustið 1959, var eitt af fyrstu verkefnum hennar að endurskoða skattalögin til þess að tryggja þær heildarráðstafanir, sem þá þurfti að gera eftir setu hinnar frægu vinstri stjórnar, sem sat á árunum 1956–1958. Á það var lögð áherzla, að skattarnir yrðu sem réttlátastir gagnvart öllum almenningi og tryggðu atvinnurekstrinum slíkt skattakerfi, að með því mætti skapa grundvöll að auknum kjarabótum fyrir fólkið í landinu. Í frv. þeim, sem lögð voru fram, eftir að viðreisnarstjórnin tók við, um breytingu á skattalögunum, svo og á tekjustofnalögum sveitarfélaga, var mörkuð sú stefna, að almennar launatekjur skyldu verða tekjuskattslausar og skattprósentan ekki svo há, að hún verkaði lamandi á framtak einstaklingsins. Skattkerfið skyldi miða að því að örva atvinnulífið og auka þar með þjóðartekjurnar og tryggja betur efnahagslega stöðu þjóðarbúsins. Ég kem síðar að því, hvernig þetta tókst á þessu árabili.

Næst vil ég koma inn á það, að þegar búið er við kerfi í nokkur ár, þá er það aldrei svo fullkomið, að ekki þurfi að endurskoða slíkt kerfi og gera á því lagfæringar og umbætur. Þess vegna var það, að fyrrv. ríkisstj. skipaði nefnd embættismanna til þess að hefja undirbúning að nýju skattkerfi, heildarendurskoðun á verkefnaskiptingu sveitarfélaga og ríkissjóðs. Ég tel, að það hafi verið mjög eðlilegt að láta nefnd sérfróðra manna fyrst og fremst fjalla um þessa endurskoðun. Síðan var bætt við fulltrúum atvinnuveganna og launþega, og þegar fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, sem þá voru, óskuðu eftir því að fylgjast með þessari athugun, þá var það auðvitað talið sjálfsagt og eðlilegt, að þeir ættu þar aðild, gætu sett fram sínar skoðanir og haft áhrif á mótun þessarar stefnu.

Þannig fór, að á síðasta Alþ. þótti ekki fært að setja heildarlöggjöf, hvorki um tekjuskatt né eignarskatt eða um tekjustofna sveitarfélaga, en talin var brýn nauðsyn á því að gera tilteknar breytingar á skattkerfinu, og það frv. var lagt hér fyrir seint á siðasta þingi og lögfest.

Eins og allir vita, höfðu markaðsmál Evrópu þróazt þannig á síðari hluta þessa áratugs, að þá kom til álita, að Ísland gerðist aðili að EFTA og skapaði sér með því mikla möguleika til enn batnandi lífskjara. Innganga Íslands í EFTA hlaut að leiða til þess, að skoða varð skattkerfi atvinnuveganna með sérstöku tilliti til þess að gera þar nauðsynlegar breytingar, til þess að íslenzk atvinnufyrirtæki nytu svipaðrar stöðu varðandi skattlagningu og fyrirtæki innan EFTA- landanna. Þetta var nauðsynlegt að gera. Þetta var viðurkennt af öllum í raun og veru. Hvar stendur íslenzk þjóð, hvar stendur hver launþegi í þessu landi, ef atvinnulífið er ekki byggt á traustum grunni, ef íslenzkur atvinnurekstur er ekki samkeppnisfær við atvinnurekstur þeirra landa, sem við erum að keppa við á hverjum tíma? Þetta hlýtur að vera svo auðskilið, að það þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum.

Núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum í júlí og markaði stefnu sína með hinum fræga málefnasamningi, sem hæstv. forsrh. hvatti menn til að lesa bæði kvölds og morgna. Í honum segir, að endurskoða beri skiptingu verkefna og valds á milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Haft verði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun. Stefnt verði að því, að ríkisstofnunum verði valinn staður út um land meir en nú er gert. Og hæstv. forsrh. sagði: „Ef menn lesa þetta kver kvölds og morgna, þá kemur skilningurinn með tímanum.“ Og sumir héldu, að það væri með stórum staf, að það væri með dagblaðinu Tímanum, en sennilega hefur hann ekki átt við það. En ég held, að skilningurinn sé þegar kominn, og skilningurinn er sá, að þeir meina ekkert með því, sem þeir hafa verið að semja um í sumar. Það er ekkert samráð haft við þessi samtök, sem þeir skrifa þó allir undir, að þeir ætli að gera í sambandi við mótun nýrrar löggjafar.

Og hvað er svo gert af núv. hæstv. ríkisstj.? Ég furða mig á því, að hæstv. fjmrh. skuli beita sér fyrir því að höggva á samstarfið við atvinnuvegina og launþega, svipta nefnd hæfustu manna umboði og semja nýtt frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem enginn fær að vita, hver er höfundur að, en fyrir einhverja sérstaka óvarkárni kemur það fram í aths. með frv., að fimm manna nefnd hafi aðstoðað við samningu frv. Ég held, að sá ágæti maður, hæstv. fjmrh., hafi verið undanfarna mánuði í trölla höndum. Ég hefði ekki trúað þessum vinnubrögðum á hann, ef allt hefði verið með felldu. Þetta er auðvitað algjör stefnubreyting frá því, sem var. Þetta er algjörlega ný stefna, sem tekin er upp í þessu þjóðfélagi. Þeir, sem hafa kunnáttu og þekkingu á atvinnuvegunum, þeir, sem hafa þekkingu á málefnum launþega, mega helzt ekki koma nálægt því að semja jafnviðamikla löggjöf og hér er um að ræða. Það verða að vera einhverjir huldumenn, sem það gera. Í fjhn. fórum við í minni hl. hvað eftir annað fram á það að fá að heyra raddir þessara manna. Við fórum ekki beint fram á það að fá að sjá framan í þá. Þeir hefðu mátt vera með grímu þess vegna, en okkur langaði til að spyrja þá um allmörg tiltekin atriði í sambandi við þetta frv. Enda kom fljótt að því, þegar aðstoðarnefndin, formaður hennar, kom á fund fjhn. Hann rak iðulega í vörðurnar. „Það var ekki það, sem við gerðum, það voru huldumennirnir, sem þetta vita betur. Ég veit þetta ekki.“ Þetta kom hvað eftir annað fram í umr. í fjhn.

Það hefur mikið gengið á, frá því að þessi tvö frv. voru lögð fram hér á hv. Alþ., annað frv. hér í þessari hv. þd. og hitt í hv. Ed. Það fóru fram miklir útreikningar á því, bæði hjá stjórnarliði og stjórnarandstæðingum, hvaða áhrif þessi frv. hefðu á skattbyrði einstaklingsins, hvernig tilfærslan yrði á hinum ýmsu tekjum í þjóðfélaginu, og þar var mikið notuð skepna ein, sem er í Reiknistofnun Háskólans og nefnd er rafmagnsheill. Og það fer mikið eftir því, hvernig hann er fóðraður, hvað út úr henni kemur, sagði a.m.k. 3. þm. Norðurl. v., gáfaðasti maður stjórnarliðsins hér á Alþ., það færi töluvert eftir því, hvernig þessi skepna væri mötuð, og hann sagði, þessi hv. þm., að þessi skepna hefði fyrir nokkrum árum spáð sér dauða, en hann lifði enn. Þetta tæki hefur verið í notkun fyrir hina og þessa síðan. Við höfum fengið að sjá framan í það, sem kallað er skattkerfl. Eitt heitir skattkerfi HES. Við spurðum, hvað það væri. Það kom á daginn, að það var skattkerfi hæstv. fjmrh. Ekki mátti nú formaður þingflokks Alþb. vera minni, og hann lét heilann líka reikna. Það heitir skattkerfi R. Arnalds. En þeir mötuðu skepnuna hvor með sínum hætti.

Þannig hefur lengi mátt tala og skrifa um útreikning á þessu skattkerfi, frá því að þessi frv. voru lögð fram. En ég skal segja ykkur, að það var einn heili þó til. sem mataði sig sjálfur. Hann þurfti engan aðstoðarmann, og hann þurfti ekki að vera lengi að reikna út áhrifin af þessum skattbreytingum. Sá heili er einmitt hérna inni núna, sem betur fer. Það var hæstv. viðskrh. Hann var ekki lengi að reikna út, þurfti enga skepnu upp í Háskóla til þess. Hann segir 22. des. í Þjóðviljanum, en þá fjallaði hann um áhrif nýja skattkerfisins, þar sem hann sýndi fram á, hvernig mynd skattakerfisins breyttist samkv. frv. ríkisstj., og þar kom fram, að heildarskattabyrðin verður óbreytt þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Álagning sveitarfélaga, álagning 1972, gamla kerfið: 4 milljarðar og 80 millj. kr. Álagning 1972, nýtt kerfi: 3 milljarðar og 300 millj. kr. Álagning ríkissjóðs, gamla kerfið: í milljarður 885 millj. kr. Álagning ríkissjóðs, nýtt kerfi: 3 milljarðar 442 millj. kr. Persónugjöld einstaklinga, gamla kerfið: í milljarður 221 millj. kr. Nýja kerfið: 0. Samtals álagning samkv. gamla kerfinu: 7 milljarðar 186 millj. kr., en álagningin samkv. nýja kerfinu: 6 milljarðar 742 millj. kr. — Um 340 milljón kr. lækkun samkv. hinu nýja kerfi.“

Svo eru menn að reikna og leyfa sér að halda fram, að skattbyrðin aukist, eftir að fá svona afbragðs útkomu frá þessum sjálfvirka reikniheila íslenzku þjóðarinnar. Ég skal ekki leggja áherzlu á þessa útreikninga miklu frekar. Ég held, að bezti útreikningurinn verði í vor og hann komi á skattseðlinum til hvers og eins, og þá geta menn dæmt um alla útreikninga og skattkerfin, sem hafa verið í gangi síðan fyrir jól.

Það var eitt, sem ég leyfði mér að fara fram á í hv. fjhn. Nd. Fyrst voru nú sameiginlegir fundir fjhn. beggja deilda, og það var auðvitað mikið spurt og mikið skrafað. Menn voru kallaðir fyrir til viðræðna, og það var mikið rætt um þessi margumtöluðu skattkerfi, en ég hafði mestan áhuga á því, fyrst afgreiðsla þessa máls hafði dregizt svo sem raun var á orðin og framtalsfrestur var liðinn, að þá yrði gerð úttekt á nokkur hundruð framtölum úr helztu atvinnustéttum landsins og þá helzt ekki af einum og sama staðnum, þótt mest væri tekið úr Reykjavík, og reynt að gera sér í hugarlund, hver raunveruleg tekjuhækkun hafi orðið á árinu 1971 frá árinu 1970. Sömuleiðis fór ég þess á leit við sérfræðingana og við formann fjhn„ að það yrði einnig lagt á eftir frv. hæstv. ríkisstj. með þeim breytingum, sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu þá ákveðið að gera, ákveðin framtöl í fjölmennustu atvinnustéttum landsins, þótt ekki væri nema um svona 200 framtöl.

Fyrra atriðið fékkst gert, það var gert úrtak í Reykjavík, Reykjaneskjördæmi og Akureyri, úr um 900 framtölum, og þar kom í ljós, að tekjur höfðu hækkað nokkru meir en reiknað hafði verið með áður, en áður hafði verið reiknað með, að þær hefðu hækkað frá árinu á undan um 21.5%. En sérfræðingarnir, sem eru mjög varfærnir, telja eftir þessar athuganir, að tekjuhækkunin sé um 3% hærri, eða 24.5%. Ég segi fyrir mitt leyti og tel mig ekki vera neinn speking, að ég er sannfærður um það, að þegar skattlagningu er lokið, þá kemur í ljós, að meðaltekjuhækkunin er mun meiri en sérfræðingarnir vilja nú viðurkenna eða staðfesta. En hins vegar hafa þeir verið mjög varfærnir í áætlunum sínum. Þetta sannar auðvitað að sínu leyti, hvað ákvæði þessa frv. um skatta eru ósanngjörn og há.

Við lokaafgreiðslu málsins í hv. fjvn. bað ég um eftirfarandi bókun, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvers vegna var ekki hægt að verða við þeirri beiðni, sem ég bar fram á fundi n. á mánudag, að sérfræðingar í efnahagsmálum, sem sátu fundinn, væru beðnir að láta gera úrtak úr álögðum sköttum tiltekins fjölda gjaldenda úr fjölmennustu stéttum þjóðfélagsins á s.l. ári og leggja á þá sömu gjaldendur samkv. framtölum þeirra nú samkv. frv. þeim, sem fyrir liggja um tekju- og eignarskatt og frv. um tekjustofna sveitarfélaga, með þeim brtt., sem þá voru lagðar fram af formanni n.?“

Formaður n. upplýsti í framhaldi af þessari bókun minni, að hagrannsóknadeild hafi ekki unnizt tími til söfnunar meiri gagna en þeirra, sem fram voru lögð á fundi n. í morgun. Ég hefði haldið, að það hefði verið full ástæða til strax eftir 6. febr. að láta, án þess að stjórnarandstaðan þyrfti um það að biðja, athugun fara fram. Þá var hægt að gera sér frekari grein fyrir því, hvað hér er um að ræða í raun og veru, en ekki hvernig þetta dæmi lítur út eftir því, hvernig hver og einn biður um það.

Skrif stjórnarsinna um skattamálin hafa verið með ýmsu móti eins og allir hafa séð, og skoðanir þeirra á þessum málum, bæði áður en núv. ríkisstj. tók við völdum og eins eftir að hún tók við völdum og skattafrv. lágu fyrir, hafa verið með ýmsu og ólíku móti.

Alþb. herti sig upp í að tala við flokksfólk sitt hálfum öðrum mánuði eftir að frv. voru lögð fram á Alþ., og var þá farið að gæta töluverðs óróa hins almenna félaga á því heimili. Á þeim fundi fóru framsögumennirnir á kostum, og Þjóðviljinn segir:

„Það kom fram á skattamálafundi Alþb. í Reykjavík í fyrrakvöld, að árið 1960 borguðu félög og fyrirtæki 40.6% tekju- og eignarskatta til ríkisins, en árið 1970 var hlutfall fyrirtækjanna komið niður í 17.9%. Og þetta sýnir betur“, segja þeir, „hvernig viðreisnarstjórnin hlífði jafnan fyrirtækjum í skattlagningu, en lagði sífellt meira á einstaklinga.“ Þá segir Þjóðviljinn enn fremur:

„Það kom einnig fram á fundinum, að heildarskattar einstaklinga lækka um 300 millj. kr. með breytingum til nýja skattkerfisins frá hinu fyrra“, sem er samhljóða því, sem ég las upp áðan eftir sjálfvirka heilanum.

Tveimur dögum eftir þessa frásögn Þjóðviljans af fundi Alþb. segir daghlaðið Tíminn, málgagn hæstv. forsrh., að í tíð fyrrv. ríkisstj. hafi verið bætt við fjölmörgum nýjum sköttum, og er frægastur þeirra aðstöðugjaldið svo nefnda. Svo að segja í sömu andránni ráðast Alþb.-menn á stefnu fyrrv. ríkisstj. um að létta byrðum af atvinnulífinu, og framsóknarmenn telja, að atvinnulífinu hafi verið iþyngt með hræðilegum skatti, aðstöðugjaldinu. Þeir hafa ekki í þessu frekar en svo mörgu öðru gengið í takt, bræðurnir, framsóknarmenn og Alþb.-menn.

Hversu oft kom það ekki líka fyrir í tíð fyrrv. ríkisstj., að sumir talsmenn Alþb. réðust á hana fyrir það að íþyngja atvinnulífinu of mikið í skattbyrðum og taka ekki nóg tillit til óska atvinnulífsins? Þess eru svo ótalmörg dæmi, að komið hafi fram þungar átölur á fyrrv. ríkisstj. fyrir þetta. Það er ekki til heil brú í því, sem þessir hv. talsmenn þessara tveggja flokka eru að segja í þessum efnum, frekar en svo mörgum öðrum.

Það hafa verið erfiðar fæðingarhríðir þessara frv., mjög erfiðar, og þær hafa tekið langan tíma. Nú loks er að sjást fyrir endann á þeim. Ég held, að segja megi, að það sé um afturfótafæðingu að ræða hér. Og það mætti segja mér, ef að líkum lætur með önnur mál hjá hæstv. ríkisstj., að það muni ekki líða á löngu, unz það þurfi ljósmóður í hvert rn.

Ég minntist áðan á frásögn Tímans í sambandi við aðstöðugjöldin, en það þarf raunar ekki að taka fram, að höfundur Tímagreinarinnar er sjálfur aðalskattafræðingur Framsfl. síðustu þrjú kjörtímabilin, Þórarinn Þórarinsson. Það eru mér því mikil vonbrigði, að hann skuli ekki vera viðstaddur við afgreiðslu og umr. þessara mála, en hann mun nú vera farinn til Ameríku, og jafnvel Þórarinn Þórarinsson getur ekki verið samtímis í tveimur heimsálfum. Einkum og sér í lagi er það óþægilegt, að hann geti ekki barizt á lokastigi afgreiðslu þessa frv. um tekjuskatt og eignarskatt fyrir þeim þætti í skattamálunum, sem hann hefur sérhæft sig í, en það er réttlát skattvísitala. Og það eru mér mikil vonbrigði, hvað formanni þingflokks Framsfl. hefur orðið sorglega lítið ágengt í þeim efnum við sinn ágæta flokksbróður, hæstv. fjmrh., sem eftir því sem ég bezt man, tók mjög undir hið fórnfúsa baráttumál hins fyrrnefnda, á meðan háðir voru í stjórnarandstöðu.

Þó að Þórarinn Þórarinsson hafi skrifað margt og skrafað á undanförnum árum ógætilega í skattamálum, þá hefur hann líka sagt ýmislegt, sem er skynsamlegt. Og hann gerði það í jan. s.l., því að þá segir hann, sem er góður vitnisburður eftir 12 ára tímabil viðreisnarstjórnarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Stighækkandi tekjuskattar voru réttlátt og sjálfsagt tekjuöflunarform á þeim tíma, þegar tekjuskipting var mjög misjöfn. Nú hefur tekjuskipting jafnazt verulega og launamunur orðinn minni en áður. Því verður að gæta þess, að stighækkandi tekjuskattar jafni ekki út eðlilegan launamun, þannig t.d., að rauntekjur ófaglærðs manns og faglærðs verði hinar sömu.“

Þetta er skynsamlega mælt, en bara því miður ekki farið eftir því.

Það er eðlilegt, að samtök eins og Alþýðusamband Íslands láti frá sér heyra í þessum málum. Í ályktun þess segir, að niðurfelling nefskattanna hafi þær afleiðingar, að kaupgjaldsvísitalan lækki um allt að 3.7 stig. Heildarkerfisbreytingin valdi þannig u.þ.b. 3% lækkun kaupgjalds miðað við það, sem ella hefði verið. Sé gert ráð fyrir lækkun kaupgjaldsvísitölunnar um 3% vegna skattakerfisbreytingarinnar og tillit tekið til þyngingar fasteignaskattsins, má ætla, að heildarbreytingin taki yfirleitt að verða óhagstæð nálægt 400 þús. kr. tekjumörkunum og í einstökum tilvíkum jafnvel við verulega lægri upphæð. Síðan segir í ályktuninni, að verulega verði dregið úr þeirri jöfnun, sem kerfisbreytingin stefni að, að því leyti, að hátekjufólk fengi að verulegum hluta bætta þá skatthækkun, sem það verður fyrir, en sjá mætti við slíku með fleiri þrepum í tekjuskattsstigunum, en margt virðist mæla með því, að þar yrðu upp tekin 4-5 skattþrep og skattbyrðinni þannig dreift réttlátlegar, miðað við tekjur. Vera má, að hliðstæðum árangri mætti ná með lengingu fyrsta skattþrepsins í 100–150 þús. kr. eða með hækkun persónufrádráttar.

Það vill svo til, að forseti ASÍ, Björn Jónsson, 6. þm. Norðurl. e., stendur að þessari ályktun, en hann er einn af höfundum frv. um tekjustofna sveitarfélaga, og það var ekkert farið dult með, hverjir væru höfundar þess frv. Björn Jónsson er mjög greindur og athugull maður. Hann hefur sem forsvarsmaður Alþýðusambandsins staðið að eðlilegri ábendingu í sambandi við afgreiðslu þessa máls. (Gripið fram í.) — Já, afsakið, mér varð á mismæli, þegar ég sagði þetta, ég bið afsökunar á því. En hins vegar veit ég, að Björn Jónsson hefur fjallað í stjórnarherbúðunum meira um skattamálin almennt og þá hæði frv. en jafnvel ráðh. þess flokks í ríkisstj. En hvort Björn Jónsson alþm., sem fjallaði um skattamálin, hefur rætt við Björn Jónsson, forseta ASÍ, um skattamálin, það veig ég ekki. En ég dreg það mjög í efa. Ég held þeir hafi aldrei talað saman um þessi mál. því að þar her svo mikið á milli.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum yfirlætið, sem birzt hefur með hinum ólíklegustu tilburðum frá stjórnarliðinu og málgögnum þess um niðurfellingu nefskatta, og þá alveg sérstaklega var þetta áberandi dagana, sem frv. voru lögð fram hér á hv. Alþ. og næstu vikur á eftir, en síðan hefur nú mjög farið að draga af körlum. Ég sé ástæðu til að gera niðurfellingu hinna svo kölluðu nefskatta nokkuð að umræðuefni og leitast við að gera örstutta grem fyrir þeim eða réttara sagt, hvaða áhrif þessi breyting hefur á það, sem skiptir höfuðmáli, sem er raunvirði ráðstöfunartekna einstaklingsins.

Hinn almenni launþegi hlýtur að líta á, að samhliða því, að almennir samningar hafa verið gerðir um kaup og kjör, sem eiga að gilda fyrir tveggja ára tímabil, verður mikil breyting á skattakerfinu með þessum frv., þ.e. minnkandi niðurgreiðslur á vöruverði samkv. ákvörðunum ríkisstj. og staðfestingu Alþ. og áhrif þessara aðgerða á kaupgjaldsvísitöluna. Það hefur hvað eftir annað komið fram, að ríkisstj. stefnir að því við afnám persónugjalda, þ.e. til sjúkrasamlaga og almannatrygginganna, að draga úr niðurgreiðslum og mæta að einhverju leyti hækkunum, sem yfirvofandi voru. Afnám þessara nefskatta jafngilda hvorki meira eða minna en 4.2 stigum kaupgreiðsluvísitölunnar, en 0.48 stig voru greidd niður í desember. Þetta hlýtur að hafa töluverð áhrif á einstaklinginn, viðhorf hans til þessara mála í heild.

Sérfræðingarnir í skattamálum, sem mættu hjá n. og komu frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, telja, að hvert% í tekjubreytingu gefi 25 millj. kr. í álagningu í útsvari, en í tekjuskattinum gefi hvert% um 70 millj. kr. Ég hef áður komið inn á úrtökin, sem gerð voru, sem sýna, að hér var of varfærnislega að farið, og þess vegna var hægt, m.a.s. frá sjónarmiði ríkisstj., að lækka skattstigann meira en meiri hl. n. gerir ráð fyrir. Meiri hl. n. eða frsm. hans lýsti áðan till. stjórnarsinna í þeim efnum, og í sjálfu sér drögum við ekki úr því, síður en svo, að bætt sé við einu þrepi, 50–75 þús. kr., og hæsta þrepið sé lækkað um 1%. En ég get nú ekki stillt mig um að minna á það, að með því að lækka þetta háa þrep, hæsta þrepið, um 1%, þá er auðvitað fyrst og fremst verið að lækka skattana á þeim, sem stjórnin hefur talið sig allan tímann frá því í júlí vera að reyna að ná í skottið á, þ.e. að taka sem mest af hátekjumönnunum.

Það, sem mér finnst mjög alvarlegt í sambandi við þessi frv., er þessi skammi undirbúningur, sem hafður er, og skortur á margvíslegum upplýsingum. Það hefði ekkert verið við því að segja, að hæstv. ríkisstj. hefði gert einfaldar, ákveðnar breytingar á skattkerfinu til þess að láta tekjur og gjöld ná saman, þannig að ríkissjóður væri ekki rekinn með halla. En mér finnst svo margar þessar breytingar, sem verið er að gera, svo hættulegar og fljótfærnislegar og lítið hugsaðar, að þær hljóta að vekja ugg í brjóstum margra.

Það voru gerðar mjög merkilegar og ákveðnar breytingar vegna atvinnulífsins, eins og ég kom inn á áðan, á s.l. vori. Samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ráðgert að hverfa frá arðjöfnunarsjóðsfyrirkomulaginu svo nefnda, sem upp var tekið með lögum frá s.l. vori. Samtök atvinnurekenda eru þessu andvíg og telja heppilegast að hafa þann hátt á, sem gildandi lög fela í sér, þ.e. valfrelsi á þann hátt, að félögin geti verið svo nefnd B-félög og notið réttar til frádráttarbærra varasjóðstillaga, en síðan kosið að hverfa yfir til arðjöfnunarsjóðsfyrirkomulagsins og gerast svo nefnd A-félög, sem yrði þá bindandi þaðan í frá. Þó að samtök atvinnurekenda geri tæpast ráð fyrir því, að margir taki upp arðjöfnunarsjóðsfyrirkomulagið nú alveg á næstunni, þá vilja þau eindregið mæla með því, að þeim möguleika sé haldið opnum, ef atvinnufyrirtæki telja það fyrirkomulag líklegra til árangurs við öflun eigin fjár í formi hlutabréfasölu, t.d. á væntanlegum verðbréfamarkaði, og þá er einkum haft í huga, að þróunin verði sú, að fyrirtækin stækki og byggist upp með þátttöku hins almenna borgara í eignaraðild að félögunum.

Samkv. gildandi lögum er heimilað allvíðtækt endurmat eigna í atvinnurekstri. En samkv. þessu frv. er endurmatsheimildin, að því er tekur til lausafjár, skert svo mjög, að endurmat þess eftir reglum frv. er mjög lítils virði. Það er brýn nauðsyn að mínum dómi á víðtæku endurmati eigna í atvinnurekstri vegna þeirra miklu verðhækkana, sem átt hafa sér stað undanfarin ár og koma vafalaust til með að eiga sér stað, svo langt sem við sjáum.

Frv. þetta gerir ráð fyrir breytingum á ákvæðum gildandi laga, og er þá einkum um að ræða hina sérstöku fyrningu, sem er allt að 30%, sem nefnd hefur verið flýtifyrning. Hundraðshluti árlegra, venjulegra fyrninga er samkv. gildandi lögum í allflestum tilvikum lægri en var í eldri lögum, en á móti kemur svo nefnd flýtifyrning. Tilgangur hennar var að veita atvinnufyrirtækjunum visst svigrúm um ákvörðun þess, á hvaða tíma þau notfærðu sér rétt sinn til fyrninga, og auðvelda á þann hátt fyrirtækjunum nauðsynlega fjárfestingu með því að flytja skattgreiðslurnar þannig til, að þær verði ekki eins þungbærar á þeim árum, sem fjárfesting væri mest, en tiltölulega meiri, þegar minna væri um fjárfestingu. Á þetta er engan veginn fallizt eða hlustað af hæstv. ríkisstj., og það er ekki fyrsta mikilvæga áhendingin, sem fram kemur, sem er látið eins og aldrei hafi verið gerð. Það er mjög eftirtektarvert, að sá embættismaður, sem er gerkunnugur framkvæmd skatta- og tekjustofnalaganna, er á engan hátt kvaddur ráða við samningu frv., hann er á engan hátt spurður um nein tæknileg atriði, því að aðspurður af fjhn. segir þessi embættismaður, sem er sjálfur ríkisskattstjóri, að hann hafi ekkert verið um þetta spurður, aldrei leitað ráða hjá honum og hann hafi ekkert um frv. vitað, fyrr en það var sent til hans að kvöldi, áður en það var lagt fram hér á Alþ. Þetta út af fyrir sig sýnir líka, að það er lítið gert úr reynslu og þekkingu, og er í töluvert öðrum anda en lýst var yfir við valdatöku þessarar hæstv. ríkisstj.

Ég hef löngun til þess að fara nokkuð inn á frádrátt frá tekjum samkv. tekjuskattsfrv., en eins og það er nú í lögum, þá er skylt að draga frá hreinum tekjum heimilisfastra manna hér á landi, einstaklinga, 134 þús. kr., og á það á svo að koma skattvísitala, sem við sjálfstæðismenn höfum í nál. okkar og aðdraganda að okkar rökst. dagskrá miðað við 21.5%, sem er auðvitað lægra en hún ætti að vera, en við játum það, að ætlun viðreisnarstjórnarinnar var að hafa hinar almennu tekjur tekjuskattslausar. Á því varð auðvitað misbrestur á erfiðleikaárunum, sem komu yfir landið á árunum 1966–1967. Það er auðvitað eðlilegt, að þá verði tiltölulega hærri skattar, þegar ríkissjóður verður að styðja atvinnulífið og stuðla að því að halda atvinnu uppi, þegar verða jafn umfangsmiklar og erfiðar breytingar eins og þær, að hrun varð á helztu útflutningsafurðum okkar. Hins vegar var skattvísitalan hækkuð um 20% á síðasta ári. Við sjálfstæðismenn ætlumst ekki til þess, þó að mikið góðæri hafi verið á s.l. ári og stórfelld hækkun tekna, að þessu marki sé náð í einu skrefi, heldur sé að því stefnt að ná þessu á tveimur árum, en þá auðvitað verður maður alltaf að miða við, að eðlilegt ástand sé í þjóðfélaginu, hvað snertir atvinnu og lífsafkomu alls þorra almennings.

Þess vegna teljum við eðlilegt, að í staðinn fyrir 134 þús. kr. frádrátt frá tekjum einstaklings fari það upp í 162 800 kr., miðað við skattvísitölu 21.5%, og frádráttur fyrir hjón, sem hefur verið 188 þús., fari samkv. þessari sömu reglu upp í 228 400 kr. Við skulum svo líta á, hvað hinn frjálslyndi meiri hl., ríkisstj.-flokkarnir, ríkisstj. hinna vinnandi stétta, eins og forsrh. kallaði hana, — ég vissi nú aldrei, hverjir voru ekki vinnandi, hann gaf enga skýringu á því, — leggur til. Hún leggur til í frv., að frádrag einstaklingsins verði 140 þús., og eftir tveggja og hálfs mánaðar meðgöngutíma í fjhn. og fyrir ríkisstj. sýna stjórnarherrarnir það örlæti að hækka þennan persónufrádrátt um hvorki meira né minna en 5 þús. kr., þannig að einstaklingurinn eigi að hafa í frádrátt 145 þús. kr., en samkv. því og í framhaldi af því, sem við lögðum til. þegar við vorum í stjórn, mundi þessi frádráttur einstaklingsins ekki verða 145 þús. heldur 162 800 kr. Þetta er nú munurinn á frjálslyndi í vinstri stjórninni og íhaldinu, sem það er kallað. Þá komum við að hjónunum. Þar eru tölurnar þær, eins og ég sagði áðan, að 188 þús. kr. verða samkv. okkar skilningi 228 400 kr. Þar vill meiri hl. n. enga breytingu á frá frv., að það verði áfram 220 þús. Hins vegar gerir meiri hl. n. mjög undarlega breytingu. Hann vill ekki breyta á nokkurn hátt persónufrádrætti hjóna, en telji þau fram sitt í hvoru lagi, þá skulu þau fá 145 þús. kr. eins og um einstakling væri að ræða. Það er sem sagt ekki stefna, að fólk fari að gifta sig eða sinna því frekar, ef það á ekki að gilda það sama fyrir hjón, á meðan við höfum ekki tekið upp tvísköttun hjóna, sem ég tel tvímælalaust rétt að stefna að.

Í sambandi við frádrátt vegna barna, þá er hann í lögunum 27 þús. kr., sem færi eftir okkar reglu upp í 32 800 kr., en höfðingjarnir í meiri hl. fjhn. og ríkisstj. halda sig við ákvæði frv. um 30 þús. kr. Hins vegar hefur meiri hl. n. hækkað verulega eða þó nokkuð frádrátt vegna einstæðra foreldra, og ef það væri rakið til hlítar, þá hefur hlutfallið raskazt á þann veg, að hjón með eitt barn bera í raun og veru hærri skatt en einstæð foreldri með eitt barn, en ég ætla ekki að fara út í það, því að það lengir mál mitt það mikið.

Það er augljóst, að ef frv. ríkisstj. verða samþ. eins og þau liggja nú fyrir í báðum d., þá eykst skattbyrði á meginþorra einstaklinga og félaga. Það eru auðvitað til undantekningar frá þessu, sem hægt er að fara út í, en í heild þyngist meginþorri skattbyrðanna, og þegar menn hafa í huga persónufrádráttinn, þegar menn hafa í huga þá breytingu, sem verður á gjöldum til sveitarfélaganna, þá held ég, að enginn þurfi að vera í vafa um þetta atriði, en eins og ég sagði hér fyrr í ræðu minni, kemur það í ljós í vor, þegar skattreikningurinn er sýndur.

Við sjálfstæðismenn fluttum á síðasta Alþ. till. til þál. um heildarendurskoðun á verkaskiptingu ríkis og héraðsstjórna, og var 1. flm. þeirrar till. Steinþór Gestsson. Í þeirri till. segir, að n. athugi, hvort rétt sé að ætla landshlutasamtökum sveitarfélaga eða héraðsstjórna eða öðrum að hafa forgöngu um gerð landshlutaáætlananna og í öðru lagi að fela þeim ráðstöfun á fjárveitingum, sem hvert svæði varða, þannig að þau standi fyrir tilteknum ríkisframkvæmdum í eigin umdæmum. Ég hélt, þegar ég las málefnasamning hæstv. ríkisstj., að hún ætlaði að stefna að þessu. En með frv. um tekjustofna sveitarfélaga er á engan hátt verið að stefna að auknu sjálfsforræði sveitarfélaganna. Ríkið er að taka á sig tiltekna skatta, sem sveitarfélögin greiddu áður, taka tekjur af þeim yfir til sín, en á engan hátt er verið að auka sjálfsforræði sveitarfélaganna, og það bólar ekki á því enn þá. Það hefði verið nær að athuga þau mál betur. Það hefði verið skynsamlegra að leggja athugað mál fram á næsta hausti fyrir hv. Alþ.

Sjálfstfl. telur, að skattlagningu til ríkis og sveitarfélaga eigi að haga á þann veg, að hún örvi einstaklinginn til framtaks og sparnaðar, og búið sé að atvinnurekstrinum þannig, að áhugi almennings fari vaxandi fyrir því að vera beinn þátttakandi að atvinnufyrirtækjunum. Það er styrkur atvinnulífsins, að sem flestir landsmenn vilji leggja fram fé og eiga eignaraðild að atvinnufyrirtækjunum. En það verður um leið að búa þannig að atvinnurekstrinum og þá sérstaklega þeim hluta hans, sem stendur undir útflutningsframleiðslunni, að sem flestir telji sér hag að því að vera beinir aðilar þar að. Sterkt atvinnulíf og traust fyrirtæki eru hornsteinn að efnahagslegu sjálfstæði Íslands og um leið öruggasta trygging hvers starfandi manns að lifa menningarlífi í fullkomnara og betra þjóðfélagi. Til þess að ná þessu marki sem fyrst er það grundvallarstefna okkar sjálfstæðismanna í skattamálum, að það eigi fyrst og fremst að skattleggja eyðsluna, en gæta hófs á skattlagningu á sparnað. En það er öfugt við það, sem núv. hæstv. ríkisstj. er að gera.

Við bendum á eftirfarandi atriði í nál. okkar í framhaldi af þessu: Í fyrsta lagi, að kannað verði, hvort virðisaukaskattkerfið henti íslenzkum aðstæðum betur en núverandi söluskattskerfi. Í stað þess að gera skattkerfið flóknara, eins og frv. núv. ríkisstj. stefnir að, minnum við á stefnu fyrri ríkisstj. í þessum efnum um einföldun skattkerfisins, m.a. vegna fyrirkomulags staðgreiðslukerfis, ef það verður tekið upp.

Þá leggjum við til, að skattar og útsvör á tekjur einstaklinga og félaga verði ávallt miðuð við nettótekjur og teljum eðlilegt og sanngjarnt, að tekjum hjóna verði skipt til helminga á milli þeirra við álagningu skatta til ríkis og sveitarfélaga.

Við teljum, að eignarskattar hafi með löggjöfinni frá síðasta þingi verið ákvarðaðir út frá eðlilegu og sanngjörnu sjónarmiði. Frv. núv. ríkisstj. hefur mjög íþyngjandi áhrif í sambandi við eignarskatta, sem við teljum, að komi óréttlátlega niður og geti dregið úr sparnaði almennings, og við meðferð málsins hér á Alþ. hefur enn þá verið bætt við í þessum efnum, en þetta er ekki leiðin til að örva sparnað, heldur þvert á móti.

Það er skoðun okkar, að fasteignaskattar séu þjónustuskattar til sveitarfélaganna og þeim beri að stilla í hóf. Sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett innan ákveðins hámarks í lögum, hvort og að hve miklu leyti þau nýta þennan tekjustofn. Við vörum mjög alvarlega við hækkun fasteignaskatta eins og gert er ráð fyrir í frv., sérstaklega ef aðrir tekjustofnar sveitarfélaganna eru svo naumir, að þau neyðast almennt til að nota heimildir til álags á fasteignaskattana.

Við leggjum ríka áherzlu á, að hinum ýmsu formum atvinnurekstrar verði ekki mismunað í skattgreiðslum, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Við teljum, að við setningu nýrra skattalaga beri að taka tillit til ýmissa frávika. Ég vil þar t.d. benda á, að fjöldi giftra kvenna vinnur utan heimilisins við hin ýmsu störf í þjóðfélaginu, og það má t.d. benda á, að ef verulega drægi úr vinnuafli þeirra við hraðfrystihúsaiðnaðinn og aðrar greinar útflutningsatvinnuveganna, þá getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar og dregið úr verðmæti útflutnings og þjóðarframleiðslu. Um nokkurt árabil hefur löggjafinn metið vinnu þessa fólks, og því hefur veri veittur 50% frádráttur frá launatekjum giftra kvenna við skatt- og útsvarsálagningu. Nú er þetta fellt niður við álagningu útsvars, og getur það haft verulega alvarlegar afleiðingar, af því að ekkert hefur komið í staðinn og engan veginn verið

tekið nóg tillít til persónufrádráttar, eins og áður hefur verið komið inn á.

Ég tel mjög ósanngjarnt, að vaxtafrádráttur frá tekjum við álagningu útsvars er felldur niður, og ég tel það vera hnefahögg framan í það fólk, sem hefur verið eða er að byggja húsnæði og hefur orðið að taka stór lán. Meiri hl. fjhn. hyggst nú hæta úr þessu með því að fasteignaskattar á ný hús verði ekki innheimtir fyrstu tvö árin. Það gerir kannske auðvelda leið fyrir þá, sem eiga nóga peninga og geta alltaf keypt sér ný hús, að búa aldrei í eldri húsum en tveggja ára. Þetta er ekki alveg vandlega hugsað, enda var þetta ein af till., sem kom með seinni skipunum til nefndarinnar.

Í frv., eins og það liggur fyrir, er gerð veruleg skerðing á sjómannafrádrætti, því að þeir eru með frv. sviptir skattvísitölu. Í 14. gr. núgildandi laga nær þessi frádráttur til allra sjómanna. Í fyrsta lagi vegna allra lögskráðra sjómanna á íslenzk skip á að draga frá kostnað vegna hlífðarfata. Frádrátturinn er ákveðinn 800 kr. á mánuði, og sömu aðilum er veittur sérstakur frádráttur, 5 þús. kr., fyrir hvern mánuð, reiknað á sama hátt, enda hafi skipverjar verið á íslenzkum skipum ekki skemur en 6 mánuði á skattaárinu. Á þetta átti að koma skattvísitala samkv. gildandi lögum, en í frv. ríkisstj. er þessari skattvísitölu í raun og veru frestað, því að í stað orðanna við 53. gr. skattalaganna, að hún taki gildi árið 1972, kemur árið 1973. Þetta hefði þýtt skerðingu á öllum frádráttarliðum til sjómannastéttarinnar, og ég vil líka minna á það í sambandi við afnám persónuskattanna, að það hefur verið þannig í samningum og lögum, að sjómenn hafa ekki borgað sjúkrasamlagsgjöld sín sjálfir, heldur útgerðin. Það þýðir aftur, að sjómenn tapa í vísitölunni á niðurfellingu þessara nefskatta, svo að það hefur ekki verið búið sérstaklega vel að sjómönnum, hvað þetta snertir.

Við höfum fjórir þm. Sjálfstfl., — 1. flm. þess frv. var Friðjón Þórðarson — snemma á þessu þingi lagt til að hækka verulega frádrátt til sjómanna á íslenzkum fiskiskipum, sem lögskráðir eru í ekki skemmri tíma en 9 mánuði á ári, þannig að þeir fái til frádráttar til viðbótar því, sem er í gildandi lögum, allt að 90 þús. kr. á ári. Á þetta átti auðvitað einnig að koma skattvísitala, sem hefði þá orðið 21.5% á þessa upphæð. Aftur á móti eru samkv. frv. ríkisstj. skattfríðindi sjómanna, sem þeir hafa notið í sveitarfélögunum, niður felld með öllu í sambandi við frv. um tekjustofna sveitarfélaga, en eftir að skipið hafði flautað tvisvar, þá fæddist lítil till. hjá meiri hl. fjhn. um skattfrádrátt fyrir sjómenn, sem á að vera 8%, og form. fjhn., hv. frsm. hennar, gerði grein fyrir þessu og var mjög glaður og sigri hrósandi. Ég er honum auðvitað alveg sammála og glaður í hjarta, að það fékkst þó einhver breyting á þessu ranglæti, en hins vegar fullyrði ég, að þó að þessi till. verði samþykkt, þá eru frádráttarhlunnindi sjómanna, þegar litið er á þau eins og þau eru í gildandi lögum og miðað við eðlilega hækkun skattvísitölu og þess, sem þeir hafa notið í sveitarfélögum, stórlega skert, það fullyrði ég.

Form. fjhn. var heldur óheppinn í einu tilviki. Mér liggur við að segja, að honum hafi orðið fótaskortur hérna í ræðustólnum, þegar hann sagði, að það kæmi eiginlega úr hörðustu átt að tala um það, að þeir, sem hefðu verið 12 ár við völd, væru að fjargviðrast út af því, að þeir hefðu loks leitt í lög að draga frá tekjum einstaklinga, sem náð hafa 67 ára aldri, ákveðinn frádrátt. En mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar þrír flokkar, sem mynda vinstri stjórn, leggja til, að þetta litla frádrag, sem form. gat um, verði fellt niður með öllu, eins og frv. gerir ráð fyrir. En það er reynt að gera pínulítið, og það skal ég segja mönnum, að sú till. fæddist ekki, fyrr en eftir að fjhn. hafði lokið störfum, till. um frádrátt fyrir gamla fólkið. Sú till. var svo lengi að mótast, að hún sá aldrei dagsins ljós í n. Í gildandi lögum er dregið frá hreinum tekjum einstaklinga, sem náð hafa 67 ára aldri á skattárinu, auk venjulegs frádráttar fjárhæð, sem nemur 2/5 hlutum af því, sem einstaklingur fær, og á sama hátt skal dregið frá hreinum tekjum hjóna, sem telja fram saman sömu fjárhæð, hvort um sig. Ríkisstj. hefur sem sagt heykzt á þessu, en ekki fyrr en n. hafði klofnað, eins og ég sagði áðan. Það er gaman að koma aðeins inn á það, að samkv. till. meiri hl. fjhn. er skattlækkun aldraðs fólks innan viss lágmarks, sem svarar til þess, að fyrstu 20 þús. kr. af skattskyldum tekjum eru skattfrjálsar, en lækkun tekjuskatts smáfjarar út og hverfur við 40 þús. kr. Þetta er nú örlætið.

Það er gaman líka, þegar talað er um, hvað reynt er að lækka skattana á þeim, sem minnst mega sín, að gera örlítinn samanburð miðað við aldrað fólk, sem getur verið dálítið lærdómsríkt fyrir hv. stjórnarsinna á milli umr. um þetta mál. Einhleypur maður, eldri en 67 ára, hefur í gildandi lögum persónufrádrátt 134 þús. kr. og aukafrádrátt 53 þús. kr., þannig að engin skattgreiðsla kemur á 187 600 kr. tekjur. Miðað við vísitölu 106.5 fer þetta upp í 199 800 kr., og miðað við skattvísitölu 121.5% þá færi þetta upp í 228 þús., sem við teljum eðlilegt. En samkv. þeim breytingum, sem nú eru orðnar á frv., fengi þessi einhleypi gamli maður sínar 145 þús. kr. og aukafrádrátt upp á heilar 20 þús. kr., eða samtals 165 þús. kr., eða minna en það var samkv. gildandi lögum á tekjur ársins 1970.

Þetta getur orðið síðasta dæmið í ræðu minni að þessu sinni, en eins og fram hefur komið áður, þá teljum við sjálfstæðismenn, að undirbúningur þessa máls sé með öllu óhæfur, og við teljum því ekki rétt að samþykkja þetta frv., en þar sem gerðar hafa verið breytingar á lögum um almannatryggingar og ákvæði sett um yfirtöku ríkissjóðs á gjöldum, sem sveitarfélög hafa áður staðið undir, þá bendum við á með tilvísun til fyrri tillagna okkar í þessu máli, að tilfærslur verði gerðar á tekjuskatti og útsvörum til samræmis við þessar áðurgerðu breytingar. Breyting á lögum um fasteignaskatt verði gerð í samræmi við hið nýja fasteignamat, sem er nauðsynlegt, ef till. okkar um rökst. dagskrá yrði samþykkt.

Við tökum einnig fram í nál. okkar, að fari svo, að till. okkar um rökst. dagskrá verði felld, þá munum við, þótt við séum andvígir frv., áskilja okkur rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram eru komnar eða fram kunna að koma, og sömuleiðis áskilja okkur rétt til að flytja brtt. við frv. við 3. umr. málsins.