07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þeir fjármunir, sem ríkisvaldið hefur fengið til ráðstöfunar til hvers konar þjónustu og uppbyggingar í þágu þjóðfélagsþegnanna, hafa farið vaxandi á liðnum árum, þótt fáir vilji greiða háa skatta eða önnur opinber gjöld. Eftir því sem gjöldin hækka og verða þýðingarmeiri þáttur í þjóðfélaginu, eða réttara sagt, það sem fyrir þau fæst, þeim mun brýnni þörf er á, að öll löggjöf þeim viðvíkjandi sé sem réttlátust og skynsamlegust. Þá er ekki síður knýjandi, að þannig sé um hnútana búið, að það sé eins vel tryggt og nokkur kostur er, að framkvæmd þeirra laga, sem byggt er á, sé örugg til að útiloka, svo sem frekast er unnt, að nokkur geti losnað undan því að greiða sinn réttmæta skerf við rekstur og uppbyggingu þjóðfélagsins, þjóðarbúsins og viðkomandi sveitarfélags.

Ég hygg, að ekki sé ágreiningur um það, að tímabært var orðið að taka til endurskoðunar núgildandi skattalöggjöf. Í rauninni má segja, að sú öra þróun, sem stefnt hefur óðfluga í þá átt hér á landi og í ýmsum nágrannalöndum, að ríkið sjái þjóðfélagsþegnunum fyrir sífellt fjölbreytilegri og aukinni þjónustu á fjölmörgum sviðum, geri það að verkum, að nauðsynlegt er, að slík löggjöf sem skattalög séu jafnan undir stöðugri endurskoðun.

Þótt lítið mark sé máske takandi á slíku plaggi sem stefnuskrá núv. ríkisstj., þá gefur hún ekki vísbendingu um, að breyting verði á, meðan hún situr að völdum, hvað snertir þá þróun, sem ég hef hér minnzt á, þ.e. vaxandi umsvif hins opinbera á fjölmörgum sviðum. Fyllsta ástæða hefði því verið til að vanda sérstaklega til endurskoðunar á skattalöggjöfinni, sem unnið hefur verið að á vegum núv. hæstv. ríkisstj. Heildarendurskoðun skattalaga er yfirgripsmikið og vandasamt starf. Í þeim efnum geta mistök orðið dýr og haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, ef illa tekst til. Þess vegna þarf að tryggja eins vel og mögulegt er, að gagngerar breytingar séu ekki gerðar nema að vel yfirveguðu ráði. Um slík mál þurfa að fjalla fyrst og fremst þeir, sem gerst þekkja til og hafa með höndum framkvæmd slíkra mála. Svo hefur ekki verið við þá endurskoðun, sem leitt hefur til þess, að skattalagafrv. tvö voru lögð fram hér á hinu háa Alþ.

Í aths. við það lagafrv., sem hér er til umr., segir, að undirbúningsstarf að þeirri stefnumótun, sem málefnasamningur ríkisstj. gerir ráð fyrir, sé fyrir alllöngu hafið og sé að mestu leyti í miðjum klíðum. Hins vegar hafi ríkisstj. lagt áherzlu á, eins og segir orðrétt í aths. með frv., með leyfi hæstv. forseta, „að ýmis meginatriði þeirrar löggjafar, sem hér um ræðir, verði tekin til endurskoðunar þegar í stað og lögfest, þótt endanleg gerð slíkrar löggjafar bíði næsta þings.“ M.ö.o., í aths. með frv. er í rauninni gefið í skyn, að að samningu þessa frv. hafi verið flaustrað. Og það er því satt að segja stórfurðulegt, að að svo viðkvæmu og vandasömu máli skuli vera staðið með þeim hætti sem raunin hefur á orðið.

Til frekari staðfestingar á því, sem gefið er í skyn um hroðvirknisleg vinnubrögð í aths. með frv., er vitað, að mikill ágreiningur var innan ríkisstjórnarflokkanna um ýmis mikilvæg atriði, þegar skattafrv. tvö voru lögð fram í des. s.l. Svo mikill hefur ágreiningurinn verið meðal stjórnarliða um þessi mál, að það hefur tekið meira en tvo mánuði að ná því samkomulagi, sem fram kemur í þeim brtt., sem ríkisstj. hefur flutt. Það þarf í sjálfu sér ekki að verða mönnum undrunarefni, þótt fram hafi komið sundurleitar skoðanir innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra varðandi þetta mál, eins og það lá fyrir. Í því felst í raun og veru enn ein staðfesting á því, hversu undirbúningur þessara mála var ónógur og ófullnægjandi og frv. með miklum flýtisbrag.

Ofan á þessi forkastanlegu vinnubrögð bætist svo sú óhæfa að ætlast til, að Alþ. afgreiði grundvallarbreytingu á öllu skattkerfi landsmanna, þegar liðnir eru 2 mánuðir af nýju skattári, sem hin nýja löggjöf á að ná til. og meira en mánuður er liðinn, síðan framtalsfresti lauk. Það liggur í augum uppi, að það ætti að vera lágmarkstillitssemi við skattgreiðendur, að þeir geti vitað, þegar þeir telja fram tekjur sínar, hverjir skattarnir verða. Þess vegna á auðvitað að afgreiða gagngerar breytingar á skattalögum slíkar sem þær, sem hér eru á ferðinni, fyrir byrjun nýs skattárs.

Af þeim ástæðum, sem ég hef hér lítillega drepið á, væri eðlilegast, að þeim skattafrv., sem hafa verið til meðferðar hér á hinu háa Alþ. frá því í des. s.l., yrði háðum vísað til ríkisstj. til frekari undirbúnings og athugunar fyrir næsta þing. Til þess að leysa tekjuþörf ríkissjóðs undir þeim kringumstæðum, að það yrði gert, þannig að ríkissjóður geti staðið við skuldbindingar sínar á þessu ári, miðað við þau skattalög, sem giltu á s.l. ári, hefur fulltrúi Alþfl. í fjhn. bent á leið og gert grein fyrir henni í nál. Þar er vikið að því, að skattvísitalan hafi verið ákveðin með ýmsum hætti á undanförnum árum, en engar lagareglur eru um, hvernig hún skuli ákvörðuð. Í erfiðu árferði eins og á árunum 1968 og 1969 var hún ekki látin breytast neitt, en skattbyrði almennings jókst á þessum árum, þar sem tekjuþörf ríkisins var þá mikil. Í góðæri eins og t.d. á s.l. ári var skattvísitala aftur hækkuð um 20%. Á það er hent í nál., að í góðæri sé eðlilegt að hafa ákvörðun um skattvísitöluna þannig, að tekjuhækkun í krónutölu valdi því ekki, að menn lendi í hærri skattstiga en ella, þ.e. að menn greiði áfram hlutfallslega jafnmikið af tekjum sínum til hins opinbera og áður, þótt tekjur hækki, en ekki aukið hlutfall vegna hækkunar skattstigans.

Það er talið, að þær tekjur ársins 1971, sem lagt mun verða á í sumar, séu a.m.k. um 21.5% hærri að meðaltali á Framteljanda en tekjurnar árið áður, þ.e. þær tekjur, sem lagt var á í fyrra. Ef lagt yrði á eftir núgildandi lögum, væri þess vegna eðlilegt að ákveða skattvísitöluna 121.5%. En auk þessara ráðstafana yrði nauðsynlegt að mæta sérstaklega þeim útgjöldum tryggingakerfisins, sem voru samfara hækkunum almannatryggingakerfisins á s.l. ári.

Það hefur margoft komið fram á undanförnum mánuðum og á s.l. ári, að Alþfl. hefur verið því mjög fylgjandi að afnema hina svo kölluðu nefskatta, þ.e. almannatryggingagjald og sjúkrasamlagsgjald. Þegar fyrrv. ríkisstj. heitti sér fyrir hækkun bóta almannatryggingakerfisins á s.l. vori, en sú hækkun nam um 500 millj. kr., var þegar greinilegt, að breyta yrði fjáröflunarkerfi almannatrygginganna, og á þetta var lögð sérstök áherzla af hálfu Alþfl. Það má segja, að verjandi hafi verið að standa undir almannatryggingakerfinu með nefsköttum, þegar bæturnar voru lægri en nú er. Þá var forsvaranlegt, að fjáröflunin færi fram með þeim hætti, að allir greiddu sömu gjöld. En þegar þær greiðslur, sem nú er um að ræða í þessum efnum, eru orðnar slíkar sem þær eru, er ekki réttmætt lengur, að hinn þjáði og hinn tekjulági, og hinn ungi og hinn aldraði einstaklingur greiði sömu fjárhæðir í almannatryggingagjald og sjúkrasamlagsgjald. Þessu þarf því að breyta, og eftir síðustu breytingar á almannatryggingakerfinu var þörf nýs fjáröflunarkerfis vissulega enn brýnni og meira knýjandi en áður. Alþfl. er þannig reiðubúinn að standa að nauðsynlegri tekjuöflun, sem komi í stað nefskattanna, til að unnt verði að mæta bótahækkunum almannatryggingakerfisins.

Ef sú leið verður farin, sem Alþfl. telur eðlilegast, að farin verði, eins og málum er nú komið varðandi þau skattafrv., sem fyrir hinu háa Alþ. hafa legið frá því í des. s.l., að vísa þeim til ríkisstj. til nánari athugunar, vill hann styðja að setningu lagaákvæða um sérstakan almannatryggingaskatt, sem tryggði tryggingakerfinu það fjármagn, sem þarf, til að endum verði náð saman, eða um 1 250 millj. kr. Áætlað hefur verið, að hann þyrfti að nema um 4% af brúttótekjum, en vera nokkru hærri, væri við nettótekjur miðað. Þetta fyrirkomulag hefði það í för með sér, að t.d. gamalt fólk og námsfólk, sem hefði svo lágar tekjur, að það greiddi engan tekjuskatt, mundi ekkert greiða til trygginganna, þótt það nyti allra réttinda almannatryggingakerfisins. Þannig mundi sá, sem hefði helmingi hærri tekjur en annar, greiða helmingi meira til trygginganna. Svo sem bent er á í nál. fulltrúa Alþfl. í fjhn., mundi sú leið, sem þar er gerð grein fyrir og ég hef hér gert að umtalsefni, taka tillit til fjárþarfa í öllum áætlunum um heildarskatta þessa árs, og jafnframt yrði þá komizt út úr þeim ógöngum, sem samþykkt skattafrv. hefði í för með sér.

Verði á það sjónarmið fallizt, að eðlilegast sé, að skattafrv. verði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar, vill Alþfl. enn fremur leggja áherzlu á eftirfarandi meginsjónarmið, sem lögð verði til grundvallar við endurskoðunina:

Í fyrsta lagi telur hann, að það þurfi að sameina tekjuskatt og útsvar í einn tekjuskatt, sem síðan yrði skipt milli ríkis og sveitarfélags, jafnframt því sem skattakerfið allt yrði gert sem einfaldast.

Í öðru lagi vill Alþfl., að launað fólk greiði ekki skatt af þeim tekjum, sem nauðsynlegar eru til lífsframfæris, og þá þurfa skattstigar að vera þannig stighækkandi, að þessu markmiði verði náð.

Ef hæstv. ríkisstj. víll ekki fallast á þá hugmynd Alþfl., sem ég hef hér farið nokkrum orðum um, vill flokkurinn freista þess að reyna að gera nokkrar breytingar á frv. Í því sambandi vil ég fyrst nefna þá till., að haldið verði í lögum þeim ákvæðum, sem samþykkt voru í fyrra, um smávægileg hlunnindi fyrir fólk, sem náð hefur 67 ára aldri, en ríkisstj. leggur til, að þau verði felld niður.

Þá er lagt til, að gerð verði sú breyting á gildandi lögum, að úr gildi verði felld sú reglugerð, sem gefin var út rétt fyrir áramót, og kveður m.a. á um, að framvegis skuli raunverulegur viðhaldskostnaður af íbúðarhúsum ekki frádráttarbær, en í þess stað skuli jafnan telja 1.5% fasteignamats steinhúsa og 2% fasteignamats timburhúsa sem viðhaldskostnað. Sú ráðstöfun að breyta reglum um frádrátt vegna viðhalds á þennan hátt, hefur vissulega vakið stórfurðu manna, svo að ekki sé meira sagt. Og að framkvæma slíka breytingu þannig, að hún hefur áhrif á liðið skattaár, virðist alveg fráleitt, því að slíkt hlýtur alveg óhjákvæmilega að leiða til málaferla.

Þriðja brtt., sem ég vildi minnast á, er um heimild til handa atvinnufyrirtækjum, sem annast hraðfrystingu á sjávarafurðum til útflutnings, að leggja til hliðar helming af hreinum tekjum ársins 1971 í sérstakan endurnýjunarsjóð til að mæta þeim kostnaði, sem leiðir af breyttum lagaákvæðum í markaðslöndum um hollustuhætti við framleiðslu fiskafurða. Ný lagasetning í Bandaríkjunum, þar sem gerðar eru auknar kröfur um framleiðsluaðstöðu vegna fiskafurða fyrir Bandaríkjamarkað, gerir nauðsynlegar verulegar endurbætur á frystihúsum hér á landi, sem vitað er, að muni verða eigendum þeirra, sumum hverjum a.m.k., ofviða, ef ekki kemur til sérstök fyrirgreiðsla af hálfu opinberra aðila. Sú till., sem hér um ræðir, miðar að því að létta undir með frystihúsunum að þessu leyti til að gera þeim auðveldara að mæta þeim miklu útgjöldum, sem þau verða fyrirsjáanlega fyrir vegna aukinna krafna, sem Bandaríkjamarkaður gerir um útbúnað frystihúsa, sem framleiða fyrir þann markað. Það er óþarfi að fjölyrða um mikilvægi þess fyrir verkafólk, sjómenn og raunar þjóðina alla, að freðfiskiðnaður landsmanna sé þannig úr garði gerður á hverjum tíma, að hann geti uppfyllt þær kröfur, sem markaðslöndin gera til vörugæða og vöruvöndunar. Því er þessi till. hér fram borin.

Þá er í fjórða lagi till., þar sem lagt er til. að ríkisstj. haldi áfram athugun á skattakerfinu og leggi niðurstöður þeirrar athugunar fyrir næsta Alþ. Í sambandi við þá endurskoðun skattakerfisins gerir till. ráð fyrir, að ríkisstj. verði falið að athuga sérstaklega, að allar giftar konur verði sjálfstæðir skattþegnar, þannig að það hafi engin áhrif á skattgreiðslur, hvort kona sé gift eða ógift. Er þá gert ráð fyrir, að kona, sem vinnur utan heimilis, greiði sjálf skatt af tekjum sínum, en að giftri konu sé reiknaður hluti af tekjum eiginmanns síns sem laun fyrir vinnu hennar á heimilinu. Þessar tekjur húsmóðurinnar dragast að sjálfsögðu frá skattskyldum tekjum mannsins, og verður eiginmaðurinn með þeim mun lægri skatt.

Það er kunn staðreynd, að lengst af hefur konan goldið þess, að hún var gift og aflaði sjálfstæðra tekna, en tekjur hennar voru lagðar við tekjur eiginmannsins og þannig greiddur af þeim hlutfallslega miklu hærri skattur en af hliðstæðum tekjum ógiftrar konu. Þetta óréttlæti hefur vafalaust valdið því, að kari og kona hafa oft tekið þann kost að búa saman án hjónabands til þess þannig að reyna að létta skattbyrðina. Hin síðari ár hafa verið gerðar nokkrar ráðstafanir til þess að bæta úr þessu ranglæti. Ég vil leyfa mér að mega vænta þess, að sú hugmynd, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, verði athuguð mjög gaumgæfilega með það fyrir augum, að hún komist í framkvæmd og verði til þess að skapa meira réttlæti í skattaálagningu.

Miklar umr. hafa átt sér stað á mannamótum og í blöðum undanfarið eða allar götur frá því, að skattafrv. tvö sáu dagsins ljós hér á Alþ. í desembermánuði s.l., um það, hver skattbyrðin raunverulega yrði við samþykkt þeirra. Af hálfu stjórnarflokkanna hefur því verið haldið fram, að samþykkt frv. muni ekki hafa í för með sér umtalsverða skattaaukningu miðað við það, sem átt hefði sér stað, ef núgildandi skattalög hefðu verið látin halda gildi sínu.

Ég skal ekki fara um það mörgum orðum, því að skattgreiðendur munu alveg vafalaust svara hver fyrir sig í sumar, þegar þeir fá skattseðlana í hendur. Þá kemur nefnilega í ljós, hver hin raunverulega skattaukning verður hjá hverjum og einum. En það segir sig sjálft og gefur auga leið, að ekki getur orðið um skattalækkun hjá almenningi að ræða, þegar tekjuskattar til ríkisins eru í fjárlagafrv. fyrir þetta ár hækkaðir úr 1 122.6 millj. kr. í fyrra í 3 158.3 millj. kr. í ár. Að vísu er gert ráð fyrir nokkurri lækkun útsvars á móti, en það er aðeins brot af þessari hækkun.

Herra forseti. Ég er kominn að lokum máls míns. Ég lagði áherzlu á það í upphafi orða minna hér áðan, að til undirbúnings skattalagafrv., sem nú liggja hér fyrir hinu háa Alþ., hafi alls ekki verið vandað sem skyldi. Ég álít því skynsamlegast að fresta gildistöku nýrra skattalaga, til þess að betra tóm gefist til nánari athugunar og fyllri endurskoðunar á þessum málum. Í stað þess verði farnar þær fjáröflunarleiðir fyrir ríkissjóð í ár, sem ég hef gert hér að umtalsefni. Það er nefnilega ávallt hættulegt að gera stökkbreytingar í skattamálum. Til þess eru þau allt of viðkvæm.

Aðaltillaga okkar Alþfl.-manna er sú, að frv. verði vísað til ríkisstj. Jafnframt vil ég ítreka stuðning okkar við sérstaka tekjuöflun vegna tryggingakerfisins. Verði það fellt, er þess óskað, að brtt. þær, sem fulltrúi Alþfl. í fjhn. hefur flutt á þskj. 405, komi til atkv.