07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það olli mér vonbrigðum, að nefndir þær, sem störfuðu að endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga og tekju- og eignarskatt, skyldu ekki sjá sér fært að taka til meðferðar skattgreiðslu giftra kvenna, sem afla tekna, og í því sambandi leggja fram till. um, að þær sem aðrir þjóðfélagsþegnar, sem selja vinnu sína, greiði sjáifar skatt af tekjum sínum og gerist þar með beinlínis, án viðkomu í skattaframtali eiginmanns síns, ábyrgar fyrir útsvörum og sköttum, sem þeim ber að greiða.

Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við brtt. hv. 7. þm. Reykv. Enda þótt sú brtt. hans, sem hér um ræðir, dragi upp nokkuð furðulega mynd af þjóðfélagsháttum eða fjölskylduháttum, þá gerði ég ráð fyrir því, að það væru pennaglöp, og þóttist vita, hvað fyrir honum vekti. Till. mín er þess efnis, að skattkerfið verði endurskoðað með það í huga, að hver maður, sem aflar tekna og/eða eigi skattskyldar eignir, verði sjálfstæður skattþegn án tillits til hjúskaparstéttar.

Núverandi fyrirkomulag eru leifar frá þeim tíma, þegar eiginkonan var ekki fjárráða, en allt vald í þeim efnum að lögum falið húsbónda hennar. Eilítið hefur þó þokazt í þá átt, að skattalöggjöfin viðurkenni fjárræði giftrar konu, og ber þar aðallega að nefna sérsköttunarheimildina, og má í því sambandi nefna það nýmæli nú, að kona skuli fá fullan persónufrádrátt einstaklings, ef hún telur sérstaklega fram. Enda þótt 2. þm. Vestf. óttist þar með um afdrif hjónabandsins, þá get ég ekki verið honum sammála í því efni.

Annað ákvæði í framfaraátt lýtur að ábyrgð beggja hjóna á skattgreiðslunni. Í samræmi við það var bundið í lögum síðar, meðfram vegna tilmæla Kvenréttindafélags Íslands, að bæði hjónin skyldu undirrita skattframtalið, og telst framtalið ekki fullnægjandi nema með undirskrift beggja. Þó er þetta ákvæði engan veginn fullnægjandi, enda þótt það hlyti að teljast réttmæt ósk kvenna á sínum tíma, að þær byndu persónulega ábyrgð sína gagnvart ríkissjóði á þennan hátt. Engin viðurlög munu vera við því, þótt þessi skylda sé vanrækt, og samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér, mun það látið átölulaust af hálfu skattayfirvalda, þótt undirskrift eiginkonu vanti, og engra skýringa krafizt af framteljanda um ástæður þess. Um afleiðingar þessa fyrir báða aðila þarf varla að fjölyrða, og ég vil leggja áherzlu á, að hér er ekki einvörðungu um að ræða metnaðarmál konu, sem vill framfylgja lögbundinni ábyrgð á því, að tekjur hennar séu taldar fram og hún sé talin jafngildur aðili gagnvart skattayfirvöldum. Þetta getur haft sínar afleiðingar fyrir eiginmanninn líka. Hann sem skattgreiðandi eða erfingjar hans eiga rétt á því samkv. lögum að krefjast endurgjalds af eiginkonu eða erfingjum hennar á þeim hluta skattsins, sem að réttum tölum kemur á séreign eða sératvinnu hennar. Ég veit a.m.k. eitt dæmi þess úr hjónaskilnaðarmáli, að kona hafi neitað öllum kröfum um endurgreiðslu á þeim forsendum, að hún hafi ekki undirritað skattframtalið, og var sá málflutningur hennar tekinn til greina. Nú má að vísu segja, að unnt sé að koma í veg fyrir slíkt með hertu eftirliti skattyfirvalda, en þó mun sanngjarnast og eðlilegast að stíga skrefið til fulls og fá fulla og endanlega viðurkenningu á því, að kona, sem á skattskyldar eignir eða vinnur fyrir skattskyldum tekjum, beri beina ábyrgð, milliliðalaust, á framtali sínu og skattgreiðslu. Með því yrðu þegnarnir líka firrtir þeirri hvimleiðu hættu, að mál, sem er í rauninni mál einstaklings eða þjóðfélagsþegns gagnvart yfirvöldunum, verði að óþörfu og oft viðkvæmu einkamáli eða deilumáli hjóna.

Gerist gift kona með eigin tekjur sjálfstæður skattþegn, leiðir líka af sjálfu í allflestum tilfellum, að skattgreiðslur eru teknar reglulega af kaupi hennar, og er þetta einkum kostur, þegar um er að ræða konu, sem her aðalframfærslubyrði heimilisins. Eigi kona að teljast fullkomlega fjárráða, hlýtur þjóðfélagið að búa svo í haginn, að henni gefist kostur, ekki síður en eiginmanninum, að hafa fullkomna yfirsýn yfir greiðslur þeirra opinherra gjalda, sem henni ber að greiða.

Ég ætla mér ekki þá dul að koma hér með algilda lausn á því, hvernig útreikningi skatta skuli háttað eftir slíka breytingu, en bendi á, að Svíar hafa þegar farið inn á þessa braut, án þess að um sérsköttun sé að ræða. Hafi bæði hjónin skattskyldar tekjur, sem ná vissu lágmarki, telja þau fram sitt í hvoru lagi og greiða síðan opinber gjöld í réttu hlutfalli við sinn hlut af sameiginlegum skattskyldum tekjum. En ég ræði ekki hér frekar um það, hvernig slíkri skattaálagningu hjóna yrði bezt fyrir komið, enda flókið og margþætt mál. sem þarf nákvæmrar athugunar við. Brtt. mín fjallar einungis um þá stefnumörkun, sem gera þarf.

1 brtt. hv. 7. þm. Reykv. eru atriði, sem að sumu leyti eru samhljóða minni till., en till. hans gengur þó öllu lengra, og í henni er atriði, sem ég er ósammála og tel stórlega vanhugsað. Í till. sinni gerir hann ráð fyrir því, að giftri konu sé reiknaður hluti af tekjum eiginmannsins sem laun fyrir vinnu hennar á heimilinu. Ég hef ekki fengið enn þá fullnægjandi upplýsingar um það, hvernig hann hefur hugsað sér þetta í framkvæmd, og það kom ekki fram í ræðu hv. 5. landsk. þm. hér áðan. Ég veit ekki, hver yrði talinn vinnuveitandi slíkrar konu á skattframtali. Ég get varla ímyndað mér, að það yrði vinnuveitandi eiginmannsins, því að þá hlyti hann að taka á sig þá samningsbundnu skyldu að greiða fyrir rétt hennar til aðildar að lífeyrissjóði eiginmannsins, greiða slysatryggingu til hennar, þótt maðurinn sé í fullu fjöri, greiða orlofspeninga o.s.frv. Ég á bágt með að trúa því, að atvinnurekendur fengjust til að ganga inn á þá kosti. Þá er hinn kosturinn eftir, að eiginmaðurinn verði talinn vinnuveitandi konu sinnar. Ég fyrir milt leyti vil helzt ekki hugsa þessa hugsun til enda, en það verður ekki hjá því komizt, úr því að till. um þetta er komin fram. Í þessu felst það, að eiginkonan er orðin launuð þjónusta eiginmannsins, bókstaflega talað skráð sem slík í opinberum skjölum. Hún er ekki lengur sú húsfreyja, sem með vinnuframlagi sínu er jafngildur og fullgildur framfærandi heimilis síns til jafns við eiginmanninn, eins og lög um réttindi og skyldur hjóna gera ráð fyrir, heldur nánast komin á framfæri eiginmannsins. Hann ræður hana í hjónabandið, en giftist henni ekki á jafnréttisgrundvelli. Þetta kallar hv. 7. þm. Reykv. róttækni í nál. sínu. Sannleikurinn er sá, að það er öðru nær. Þetta er að renna sér með eldflaugnahraða aftur í svartasta afturhaldsmyrkur. En jafnvel þótt við féllumst nú á það, að húsmóðir yrði ekki lengur veitandi eða framfærandi með vinnu sinni, heldur launaður vinnukraftur eiginmannsins, þá liggur í augum uppi, að kaupgreiðslan yrði ekki í neinu hlutfalli við vinnuframlagið. Eiginkona hátekjumannsins fengi kannske 500 þús. kr. fyrir vinnuframlag sitt, hversu mikið eða lítið sem það kynni annars að vera. Eiginkona láglaunamannsins aftur á móti, sem engin fjárráð hefði til þess að kaupa sér heimilisaðstoð af neinu tagi, en ætti og annaðist kannske 4–5 börn, fengi aftur á móti ekki nema, segjum 200 þús. kr. Þessi regla mundi því stefna að því, að vinnuframlag húsmóður á heimili yrði því hærra metið, sem laun mannsins væru hærri, algerlega án tillits til barnafjölda eða vinnuálags húsmóðurinnar.

Giftar konur, sem afla tekna, krefjast þess að verða sjálfstæðir skattþegnar, ekki til þess að fá skattfríðindi umfram þær konur, sem starfa heima, heldur til þess að bera sjálfar ábyrgð á þeirri greiðslu, sem þeim ber að inna af hendi. Þetta virðist óskiljanlegt öllum þorra manna, og þess vegna lenda þeir út í þær ógöngur að krefjast þess, að tekjulausar húsmæður verði líka sjálfstæðir skattgreiðendur. Ég held, að þetta stafi af því, sem kalla mætti kynferðislega þráhyggju. Þeir, sem henni eru haldnir, losna ekki við þá hugmynd, að eitt skuli yfir allar konur ganga, hvað sem tautar og raular, hvernig sem aðstæður eru. Ef viss hópur kvenna krefst ráðstafana til samræmis við aðstæður, þá má ganga að því vísu, að allir karlmenn rísi upp og heimti þessar sömu ráðstafanir til handa öllum konum heims, þótt þeim sé enginn hagur í því. Ég held, að það sé stórlega vanhugsað, að telja, að hagur sé að því fyrir gifta konu, sem er tekjulaus, að vera greiðsluskyld fyrir tekjum eiginmannsins, því að sé hann vinnuveitandinn, þá getur þjóðfélagið ekki tryggt það, að þessir peningar komist nokkurn tíma í hennar hendur.

Herra forseti. Ég hef mælt fyrir brtt. minni, en mig langar til þess að ræða nokkuð um annað atriði, sem hér hefur borið á góma, 50% regluna, helmingsfrádrátt af tekjum giftrar konu. Það hefur nú gengið talsvert á hjá stjórnarandstöðunni vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstj. að afnema helmingsfrádráttinn af tekjum giftrar konu við útsvarsálagningu, sem nú er komin niður í 10%. Það er ekki lítið, sem á að gerast samkv. málflutningi stjórnarandstöðunnar. Frystihúsin tæmast, greinar útflutningsatvinnuveganna missa vinnuafl í stórum stíl. og í nál. sjálfstæðismanna á þskj. 395 er meira að segja fullyrt, að þessi breyting geti haft háskalegar afleiðingar og dregið úr verðmæti útflutnings og þjóðarframleiðslu. Það ber vissulega að fagna því, að sjálfstæðismenn skuli meta svona mikils þjóðhagslegt mikilvægi þeirra starfa, sem giftar konur inna af hendi úti í atvinnulífinu. Það kvað nefnilega nokkuð við annan tón, þegar 50% frádrátturinn var settur á. Þá réðust þeir harkalega gegn þessum frádrætti og nefndu hvergi á nafn útflutningsatvinnuvegina eða hraðfrystiiðnaðinn. Þá voru áhyggjur þeirra nokkuð á annan veg. M.a. sagði hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, þá, árið 1957, um 50% regluna, og má lesa það í þingtíðindum, með leyfi forseta:

„En með þeirri skipan, sem hér er lögð til í frv., er fremur verið að örva og hvetja giftar konur til þess að vinna utan heimilis í staðinn fyrir, að þjóðfélagið ætti, eins og hv. þm. benti á, fremur að stuðla að því gagnstæða.“

Hér hefur aldeilis orðið hugarfarsbreyting. Guð láti gott á vita. En sinnaskiptin eru djúptækari en þetta. Það er ekki lengra síðan en á síðasta Alþ., að þessir sömu flokkar, sem nú eru í stjórnarandstöðu, lögðu fram frv. til l. um breytingu á tekju- og eignarskattslögunum, og fyrsta ákvæðið í því frv., alfyrsta ákvæðið, fjallaði um afnám 50% frádráttarins af tekjum giftrar konu, þennan frádrátt, sem þeir telja nú að eigi verulega að skerða með háskalegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið. Í stað 50% frádráttarins lögðu þeir til, að sett yrði þak á frádráttinn. Frádrátturinn átti ekki að koma á nema vissa upphæð, þ.e. hálfan persónufrádrátt hjóna, 188 þús. kr., að mig minnir. Þetta ákvæði, hefði það orðið að lögum, hefði óhjákvæmilega skammtað konu hámarkslaun, stuðlað að því, að hún sækti ekki nema um láglaunastarf eða ynni einungis hálfan daginn. Um þetta urðu miklar deilur í fyrra, og ég ætla ekki að fara að rifja þær upp hér. Ég minni aðeins á þetta til þess að sýna, að núv. stjórnarandstaða hefur sannarlega ekki ætið dillað 50% reglunni af jafn mikilli ástúð og nú. Fremur má segja, að hún hafi verið hjá þeim sem tökubarn, sem þeir vildu sem óðast losna við af sínum heimilum.

Vinstri stjórnin setti 50% regluna, og hún ætlar sér að halda henni á öllum meginþunga skattanna. Við skulum athuga, hvað hæft er í því, að hinn flati brúttóskattur muni reka konur heim úr frystihúsunum og atvinnulífinu yfirleitt. Hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar eru hámarksárslaun konu 218 þús. kr., í Hraðfrystistöð Reykjavíkur um 200 þús. kr. og á Akranesi um 174 þús. kr. Á öllum þessum stöðum eru flestar konur með 100–150 þús. kr. á ári. Þá má hafa í huga, að hjá verzlunarfólki, meðal bankastarfsmanna og í launakerfi ríkisins eru konur fjölmennastar í lægstu launaflokkunum. Óhætt mun að fullyrða, að ekki minna en 80% giftra kvenna sé með innan við 200 þús. kr. í árstekjur. Samkv. frv. greiðir verkafólk ekki tekjuskatt af þeim launum, sem um var samið í kjarasamningunum í des., ekki heldur þó að konan vinni einnig úti og hafi fulla vinnu.

Ef við tökum dæmi af hjónum með tvö börn, þar sem eiginmaðurinn hefur 20 þús. kr. á mánuði, sem er meira en dagvinnulaun verkamanns, samtals 240 þús. kr. á ári, og eiginkonan 200 þús. kr., þá eru tekjur fjölskyldunnar kr. 440 þús. Af þeim tekjum greiða hjónin samkv. frv. um tekjustofna sveitarfélaga kr. 35 þús. í útsvar og enga aðra skatta til ríkis eða sveitarfélaga. Við útreikning á tekjuskatti fá þau til frádráttar persónufrádrátt fyrir sig og börnin, samtals kr. 280 þús. og svo helming af tekjum konunnar, kr. 100 þús. Áætla má annan frádrátt kr. 60 þús. Þau ná því þess vegna ekki að greiða tekjuskatt. Hjá giftum konum, sem vinna úti og taka laun samkv. töxtum verkalýðsfélaganna, verður því um skattalækkun að ræða, þó að þær greiði útsvar af öllum sínum tekjum.

Það sakar ekki að nota þetta tækifæri til þess að rifja upp hér ástæðurnar fyrir því, að 50% reglunni var komið á. Megintilgangur reglunnar var sá að uppræta óhæfilegt misræmi milli skattlagningar hjóna, sem bæði öfluðu skattskyldra tekna, og skattlagningar svonefnds sambúðarfólks, þ.e. karls og konu, sem bjuggu saman ógift og töldu því fram sem tveir einstaklingar. Þá gat munurinn á skattlagningu á tveim slíkum heimilum farið allt upp í rúmar 15 þús. kr., sem var ekki lítill peningur þá, sambúðarfólki í vil, enda þótt heimilin öfluðu nákvæmlega sömu tekna. Ástæðurnar fyrir þessum mikla mismun var stighækkun tekjuskattsins. Brúttóútsvarið er flatur skattur. Samanburðurinn á hjónum og einhleypingum stendur því óhaggaður, og það var hinn upprunalegi tilgangur þessarar reglu. Hinn mikla mun á sköttum hjóna og einhleypinga, sem orðinn var fyrir 1957, hefði mátt laga á sínum tíma með öðrum hætti en 50% reglunni. Það hefði mátt laga hann með því að afnema stighækkandi skatta. Nú hefur það verið gert á útsvarsstiganum, og hlutfallið milli þeirra tveggja heimila, sem ég gat um áðan, stendur því enn óhaggað. Hitt er svo aftur annað mál, að 50% reglan tryggir ekki endilega réttlæti milli allra þeirra heimila, sem hún nær til. En ég tel þó rétt, að hún haldist, þangað til annað og betra form er fundið á skattgreiðslu giftrar konu, og vona að í þeirri endurskoðun, sem ég hef lagt til, að gerð verði með brtt. minni og raunar hefur verið lýst hér yfir úr þessum ræðustól af fjmrh., að verði gerð, verði á sanngjarnan hátt reynt að meta, í hve ríkum mæli og á hvern hátt skattskyldur einstaklingur skuli fá frádrátt vegna ómegðar og heimilisstærðar.