07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði hér í ræðu sinni áðan ýmsar aths. varðandi það, sem fram kemur í nál. 1. minni hl. fjhn. um það frv., sem hér er á dagskrá, um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt. Hann rakti í ræðu sinni þau vinnubrögð, sem við voru höfð af hæstv. fyrrv. ríkisstj. og vildi meina, að það frv., sem lagt var fyrir síðasta Alþ. og lögfest s.l. vor, hefði verið með þeim hætti, að núv. hæstv. ríkisstj. hefði ekki getað við það unað. Vel má vera, að svo sé, enda segir í grg. með frv. sáralítið um þær breytingar, sem þar er lagt til að gera, annað en að þessi löggjöf, sem samþ. var s.l. vor, sé ekki að skapi núv. hæstv. ríkisstj. En ég vil leyfa mér að minna hæstv. fjmrh. á, að grundvöllur að þeirri breytingu, sem þá var gerð, var innganga Íslands í EFTA og það, að þáv. ríkisstj. lýsti yfir því, að við inngönguna yrði gerð endurskoðun á skattalögunum til þess að gera aðstöðu íslenzkra fyrirtækja sambærilega við fyrirtæki EFTA- landanna.

Með skipun skattalaganefndarinnar 1969 var henni sett sem starfssvið að endurskoða skattalögin út frá þessu sjónarmiði. Í skattalögunum frá s.l. vori er að finna fjölmörg ákvæði, sem gera stöðu atvinnufyrirtækjanna mun betri til þess að keppa við fyrirtæki á markaði Fríverzlunarbandalagsins. En í því frv., sem hér liggur fyrir, virðist núv. hæstv. ríkisstj. ganga til baka og gera að engu ýmislegt af því, sem lagt var til og lögfest var s.l. vor.

Ég rakti í ræðu minni við 1. umr. gang þessara mála frá því s.l. vor og hyggst ekki endurtaka það nema þá að litlu leyti. Ég vil aðeins benda á fyrningarreglur þær, sem settar voru og gert er ráð fyrir með þessu frv. að breyta mjög verulega og þá í þá átt, að þær verða miklu óhagkvæmari fyrir atvinnufyrirtæki en gert hafði verið ráð fyrir. Þá vil ég benda á endurmatsreglur þær, sem settar voru s.l. vor. Það er jafnframt gert ráð fyrir með frv., að þær verði miklu óhagkvæmari, og tel ég, að með þessu sé verið að ganga á þau loforð, sem gefin höfðu verið og staðið hafði verið við af fyrrv. hæstv. ríkisstj., sem voru grundvöllur íslenzkra fyrirtækja til þess að standast vaxandi samkeppni á mörkuðum Fríverzlunarbandalagsins. Þetta er skoðun hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, og við í stjórnarandstöðu fáum sjálfsagt ekki þar neinni breytingu við komið, en ég vil ekki láta hjá líða að endurtaka það, sem ég sagði um þessi atriði, og undirstrika, og ég mun koma hér síðar að þessum atriðum undir öðrum kringumstæðum og þá beina því til hæstv. fjmrh., hvort hann mundi ekki vilja skoða málin enn betur á milli 2. og 3. umr. og þá með hliðsjón af því að færa þau nær því, sem gert hafði verið s.l. vor.

Hæstv. fjmrh. gerði og að umtalsefni hér áðan það nýmæli, sem var sett í löggjöfina s.l. vor, þ.e. um arðjöfnunarsjóðsfyrirkomulag hjá hlutafélögum og í sambandi við það skattfrelsi arðsins hjá viðtakanda, þ.e. að nú er í skattalögunum skattfrelsi hjá fyrirtækjum á þeim hluta arðs allt að 10% miðað við hlutafé, sem greitt er til hluthafa. Höfuðröksemd hæstv. fjmrh. fyrir því, að þetta skuli nú fellt úr gildi, er að hlutafélagalögin séu svo gömul og úrelt, að ekki sé með nokkru móti hægt að innleiða þetta kerfi hér hjá okkur, og hann vitnaði mjög til ræðu, er próf. Ólafur Björnsson flutti í Ed. við 2. umr. málsins á s.l. vori. Mér var fyllilega ljóst, að það voru ýmsir, sem höfðu ýmislegt við það að athuga, að þetta kerfi yrði upp tekið, en ég held, að það hafi fyrst og fremst stafað af því, að menn gerðu sér ekki grein fyrir því, sem hér var um að ræða, og hinu, að með þessu fyrirkomulagi var þess freistað, að hlutafélög yrðu mun betur fjármögnuð en þau hafa verið. Það er alveg rétt, að samkv. hlutafélagalöggjöfinni er hægt að mynda hlutafélög um smáatvinnurekstur, en eins og ákvæðin voru í löggjöfinni frá því í vor, var fyrir því séð, að hvorki væri hægt að taka óeðlilega mikið út úr fyrirtækjum né heldur, að hver einstaklingur gæti tekið út úr fyrirtækinu óeðlilega mikið í sinn hlut. Fyrirmyndin að þessu er sótt til okkar nágranna, Norðmanna, sem höfðu farið inn á þessa braut fyrir 3–4 árum, einmitt í því skyni að fá meira fjármagn inn í fyrirtækin og græða með þessari aðferð áhuga almennings á því að leggja fjármagn sitt til atvinnurekstur síns. Eins og ég sagði áðan, voru þessi ákvæði, sem eru í gildandi löggjöf, mjög vel skoðuð og þannig frá þeim gengið, að hlutafélagalögin, eins og þau eru í dag, torvelda með engu móti, að hægt sé að taka þetta kerfi upp hér hjá okkur og hvetja þannig almenning til þess að leggja fé sitt í atvinnureksturinn og þá um leið skapa íslenzkum fyrirtækjum meira eigið fjármagn en hefur verið, en þetta hefur háð fyrirtækjunum mest á undanförnum árum og áratugum. Vonandi sjá menn, þótt síðar verði, að hér er um að ræða mjög gagnleg ákvæði inn í skattalögin, og vonandi eigum við þá eftir með endurskoðun hlutafélagalaganna að sjá í skattalöggjöfinni, að það, sem hér var fitjað upp á, verði tekið og gert að raunveruleika.

Mjög hefur verið rætt um það, allt frá því, að frv. var lagt fram. hvort skattbyrði skattborgaranna þyngdist eða léttist við þau frv„ sem hér hafa verið lögð fram. Hér voru þá strax við 1. umr. fluttar ræður, og mikið var um tölur. Hæstv. fjmrh. kom og gerði þingheimi grein fyrir því, að það væri meiningin að létta skattbyrðina á borgurunum. Hins vegar kom einn hv. þm. og gerði grein fyrir því, að með þessu frv. væri mjög verið að íþyngja skattborgurum í landinu. Um þetta urðu af eðlilegum ástæðum töluvert mikil blaðaskrif, því að af ræðu ráðh. var ekki hægt að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvað hér var á ferðinni, enda málið þá sjálfsagt nýkomið í hans hendur, og eins og ég sagði þá, hafði hann mjög þokukenndar skoðanir á því, hvað raunverulega stæði í frv. Frsm. fjhn., hv. 5. þm. Austf„ orðaði það svo hér í ræðu sinni, að stjórnarandstaðan hefði stundað fræðslustarfsemi um það, hvort skattbyrðin mundi aukast eða léttast. Ég skal ekki deila við þann ágæta þm. um það, en mig langar til þess að benda honum á, að skömmu fyrir jól, fremur en á milli jóla og nýárs, sáu embættismenn fjmrn. ástæðu til þess að birta í dagblöðum grg. til alþm. og reyndar þjóðarinnar allrar, það var tilraun til þess að skýra þessi frv., sem hér lágu fyrir Alþ.

Þetta varð til þess að staðfesta, að framlagning frv. var með þeim hætti, að alþm. var ekki með nokkru móti mögulegt að gera sér grein fyrir því, hvernig þessum hlutum mundi háttað. Í ræðu hæstv. fjmrh. var að vísu reynt að telja mönnum trú um, að skattbyrðin mundi ekki aukast, en þá voru í sölum Alþ. menn, sem þekktu þessi mál mjög vel af störfum sínum og gátu á tiltölulega skömmum tíma bent á, hvað hér var raunverulega á ferðinni.

Með tölum er hægt að flækja hluti, og ef menn eru færir í talnaleik, er hægt að fá ýmsar útkomur með mismunandi grundvelli, og það held ég, að hér hafi verið gert í upphafi. Þegar hæstv. fjmrh. gerði samanburð á eldra kerfi og því, sem frv. gerðu ráð fyrir, var það gert á ofur einfaldan hátt: Gamla kerfinu var gefin ákveðin stærð í skattvísitölu, þannig stærð, að samanburðurinn gat staðizt.

En hver er raunveruleiki þessa máls, og hver er niðurstaða fjárlaga fyrir árið 1972? Fjárlög fyrir árið 1972 hækka u. þ. b. 50%, og það á að gerast um leið og skattar eiga að lækka á landsmönnum. Þetta er staðreyndin í málinu, og ég held, að ef menn gera sér grein fyrir þessu, sjái þeir raunveruleikann á bak við þann samanburð, sem hér var reynt að hafa í frammi. Það er ákaflega einfalt. Þegar sérfræðingar ríkisstj. eru beðnir að leggja fram útreikninga á tekjuliðum fjárlaga, kemur líka í ljós, að tekjuskatturinn, sem landsmönnum er ætlað að greiða 1972, á móti tekjusköttum, sem landsmönnum var ætlað að greiða 1971, er á 3. þús. millj. kr. hærri. Að sjálfsögðu verður að taka þar inn í dæmið til frádráttar þær breytingar, sem gerðar höfðu verið á almannatryggingakerfinu. En það var eitt snilldarútreikningsdæmi hæstv. ríkisstj., þegar létt var af almenningi tryggingagjöldunum og þar með vísitöluútreikningi breytt um 3.72 stig, að sú hin sama upphæð var tekin af skattborgurum með öðrum hætti og í öðrum sköttum, en þeir skattar voru bara ekki teknir með í útreikningi vísitölugrundvallarins.

Það er kannske ástæðulaust fyrir okkur stjórnarandstæðinga að ræða þetta frekar eða sýna fremur fram á það, sem hér er að gerast. Hv. 2. þm. Vestf., frsm. 1. minni hl. fjhn., sagði, að við skyldum aðeins biða, skattseðillinn mundi sjálfsagt segja okkur frá því, hvort skattar hækkuðu eða lækkuðu. Það er eðlilegt, að þegar tekjur manna aukast, greiði þeir meiri skatta. Það er allt annað en að skattbyrðin aukist. Þegar um er að ræða skattbyrðina, er um að ræða hlutfallslegan skatt af tekjum. Það er mjög eðlilegt, að þegar skatttekjur manna aukast á milli ára, greiði þeir hærri skatta sem því nemur. En hv. 5. þm. Austf., frsm. fjhn., orðaði þetta mjög snilldarlega og sagði: „Eins og í stjórnarsamningnum segir, stefna þessi frv. að skattalækkun.“ Ég veit ekki, hvort skýringar á frv. eða lögunum, ef frv. verða samþ., á að sækja í stjórnarsamninginn eða í frv. sjálf. En ég mundi nú samt sem áður halda, að ef einhvern tíma yrðu málaferli út af þessum skattalögum, mundu dómarar ekki leita í stjórnarsamninginn, heldur líta á lögin sem slík og umr., sem fram fóru á Alþ., og dæma út frá því, en ekki því, sem stendur í stjórnarsamningnum.

Þá hefur verið á það minnzt, að frv. séu seint á ferðinni, og einnig, að þeim sé ætlað að verka aftur fyrir sig. Hæstv. fjmrh. kom hér með 40 ára sögu framlagningar skattafrv. og samþykktar á skattalöggjöf, og hann gat að sjálfsögðu fundið, að skattafrv. væru síðbúin og kæmu seint fram. Það er hins vegar ekki fyllilega sambærilegt að ræða um lagasetningu frá 1932, þegar þing sat kannske aðeins um tveggja mánaða skeið á ákveðnum tíma ársins, í stað þess að í dag situr þing 6, 7 og stundum langt á 8. mánuð. Eins og hann sagði, vildi hann ekki fara úr takt við fyrirrennara sína, en mig grunar, að með sama áframhaldi verði hann kominn langt fram úr þeim. a.m.k. er sú breyting, sem hér er lögð til, meiri en nokkurn tíma hefur átt sér stað, þ.e. að aðeins eftir 4 eða 5 mánuði sé mikilvægri lagasetningu vikið frá eingöngu vegna þess, að hún er ekki að skapi ráðh. þeirrar ríkisstj., er nú situr! Ég segi: Þetta er mjög rangt og, ég held, mjög skakkt að farið. Það má vel vera, að einhverjir þeir hlutir, sem gerðir voru s.l. vor, hafi þurft leiðréttinga, svo er um öll mannanna verk, en að kollsteypa skattalöggjöf, eins og hér er ætlað að gera, án þess að hafa nokkurt samráð við þá aðila, sem eiga mest undir slíkri löggjöf, held ég, að sé mjög rangt.

Um afturvirkni skattalaganna skal ég ekki fjölyrða mikið. Hins vegar gat hæstv. fjmrh. um hæstaréttardóm, sem gengið hefur í slíku máli. Þeir eru fleiri en einn. Sá er hann nefndi var ekki samhljóða í Hæstarétti, 4 atkv. gegn 1, en ég held, að það sé a.m.k. varlega sagt, að afturvirkni íþyngjandi ákvæða sé mjög hæpin og samræmist ekki þeirri réttarfarshugsun, sem við búum við. Hæstv. fjmrh. minntist á það, að það brygði þá öðruvísi við en áður, ef málaferli yrðu út af þessari löggjöf. Ég bendi á, að þau dæmi, sem hæstv. fjmrh. var með, voru í flestum kringumstæðum í sambandi við tekjuöflun til ríkissjóðs. Hér er verið að ógilda ákvæði, sem gilt hafa frá því í vor og mörg fyrirtæki hafa nú þegar hagnýtt sér. Ef nú fer svo, að Alþ. samþykki þessi ákvæði, er þá óeðlilegt, að aðilar, sem gert hafa ráðstafanir undir gildandi löggjöf, láti á það reyna, hvort þeir hafi rétt fyrir sér eða hæstv. ríkisstj., sem hugsar sér að láta þessa löggjöf undir þessum kringumstæðum verka aftur fyrir sig.

Þá minntist hæstv. fjmrh. hér á skattvísitöluna. Hann rakti að vísu ekki sögu hennar. En það hefur verið gert á undanförnum árum, og saga skattvísitölunnar rituð af sérfróðum mönnum. Sá hinn sami, sem skrifað hefur mest, er því miður fjarstaddur úr sölum Alþ. nú, þegar þetta fyrirbrigði, skattvísitalan, er á dagskrá. En það hefði verið mjög ánægjulegt að eiga við hann orðræður hér, og ég vonast nú til þess, að hæstv. fjmrh. misvirði það ekki við stjórnarandstæðinga, þótt þeir taki nú upp hanzkann fyrir þennan hv. þm„ formann þingflokks Framsfl., og geri að umræðuefni hér hugsjónir hans á undanförnum árum. Það er alveg rétt, að skattvísitalan hefur ekki ævinlega verið notuð, og sú hugmynd, sem að baki henni liggur, er nokkuð gömul. Á s.l. ári var skattvísitalan aukin um 20% og gert ráð fyrir að ná upp því, sem áður hafði niður fallið, á næstu árum, og við fulltrúar Sjálfstfl. gerum till. um, að á þessu ári verði byggt á skattvísitölu 121.5 stig. Hún er grundvölluð á því, sem sérfræðingar ríkisstj. hafa talið, að væri tekjuaukning nú á milli ára. Við töldum ekki ástæðu til þess, nú á þessu þingi, að ganga eins langt og hv. formaður þingflokks Framsfl. mundi sjálfsagt hafa gert, ef hann hefði verið viðstaddur þessa umr. og fengið tækifæri til þess að flytja brtt. En skoðun okkar er sú, að á næsta ári ætlum við að geta unnið upp það, sem var stefnumarkandi í skattalöggjöf þeirri, sem sett var 1960, þegar samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. tók við völdum og mótaði þá stefnu, að launatekjur lægst launuðu Dagsbrúnarmannanna væru skattfrjálsar. Ég veit, að formaður þingflokks Framsfl. verður okkur stjórnarandstæðingum þakklátur, þegar hann kemur heim, fyrir að hafa hreyft þessu máli hér og gefið flokksbræðrum sínum tækifæri til þess að tjá sig nú í þessu máli, því að vart trúi ég því, að svo mikil sinnaskipti séu frá því í fyrravor hjá þeim ágætu þm., sem nú skipa stjórnarliðið, en voru þá stjórnarandstæðingar og studdu skattvísitölutillögu formanns þingflokks Framsfl. þá.

Að lokum ætla ég að minnast á eitt atriði, sem fram kom í ræðu frsm. meiri hl. fjhn., formanns n., hv. 5. þm. Austf., en hann lét þau orð falla, að till. stjórnarandstæðinga væru sér ekki að skapi, og hann vissi ekki betur en að þeir hefðu við fjárlagaafgreiðsluna samþ. hverja hækkunartillöguna af annarri, og svo þegar nú þyrfti að ganga frá tekjuöflunarfrv., vildu þeir láta vísa öllu saman frá. Ég vil minna þennan hv. þm. og þingheim á það, að áður en gengið var til afgreiðslu á fjárlögum við 2. umr., kvaddi formaður Sjálfstfl., Jóhann Hafstein, sér hljóðs og benti á þau vinnubrögð, sem þá voru viðhöfð. Hann gerði að till. sinni fyrir hönd sjálfstæðismanna, að afgreiðslu fjárlaga væri frestað, þar til búið væri að afgreiða tekjuöflunarfrv., því að sennilega er einsdæmi í þingsögunni sú málsmeðferð, sem fjárlög hafa fengið 1972, þ.e. að útgjaldaliðir séu fyrst ákveðnir og síðar sé gengið í að samþykkja tekjuöflunarfrv. Við umr. fjárlaga vildu hv. stjórnarþm. vefengja, að hér væri um einsdæmi að ræða, og ég efast ekkert um, að það hefur verið vel leitað að því í þingsögunni í þingtíðindum, það hefur verið leitað að einhverju öðru dæmi. En það er ekki til afgreiðsla á fjárlögum undir þessum kringumstæðum, sem nú eru og sjálfstæðismenn vöruðu við, þegar fjárlagaafgreiðslan fór fram. Ég vil því benda á þetta í sambandi við það, sem form. og frsm. meiri hl. fjhn. sagði, og vekja athygli á því, að þá þegar við fjárlagaumr. gerðu sjálfstæðismenn till. um, að afgreiðslu fjárlaga væri frestað, en stjórnarþm. féllust ekki á það, og fjárlagaafgreiðslan er því á þeirra ábyrgð. Við töldum þá, að afgreiðsla og undirbúningur þessa máls, breytinga á tekjuskatts- og eignarskattslögunum, væri með þeim hætti, að það þyrfti miklu meiri skoðunar við en gert hafði verið ráð fyrir og undirbúningur allur með þeim hætti, að ekki væri hægt að samþykkja það óbreytt, og töldum þess vegna eðlilegt, rétt og þinglegt, að fjárlög yrðu ekki afgreidd, fyrr en tekjuöflunarfrv. hefðu fengið afgreiðslu á þingi.

Ég ítreka það, sem fram kemur í nál. 1. minni hl. fjhn„ okkar hv. 2. þm. Vestf., og með tilvísun til þess nál. og þess rökstuðnings, sem þar er að finna, leggjum við til, að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá.