07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér hafa nú þegar orðið alllangar umr. um þau skattafrv., sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. Eins og fram hefur komið í þessum umr., er nú liðið nokkuð á þriðja mánuð, síðan þessi skattafrv. komu hér fram, og hefur því gefizt nægilega langur tími til þess að íhuga, hvað í þessum frv. raunverulega felst. Eins og kunnugt er, hefur allmikið verið rætt um þessi frv. og ritað að undanförnu. En það er nú ekki að sjá á þeim umr., sem átt hafa sér stað á þessum degi, þegar annað þessara frv., frv. um tekju- og eignarskatt, kemur úr n., að þeir stjórnarandstæðingar, sem háværastir hafa verið út af efni þessara frv. að undanförnu, hafi kynnt sér efni frv. ýkja vel. Það hefur verið sérstaklega áberandi að mínum dómi, hve málflutningur þeirra hefur raunverulega verið innantómur, hvað þeir hafa haft litið að segja og hvernig þeir hafa þurft að eyða meginhluta af tíma sínum til þess að vera svolítið skemmtilegir, segja einhverja billega brandara. (Gripið fram í.) Já, þeir hafa verið ósköp billegir að mínum dómi, en það sýnir bezt, að þessir menn kjósa sér auðvitað þann kostinn, sem einfaldastur er fyrir þá, að gefast upp við það verkefni, sem þeir áttu að takast á við, að finna orðum sínum stað, að eiga rökræður við menn um málefni, en að mínum dómi hefur það komið alveg augljóslega fram í þessum umr., að þeir eru ekki færir um það.

Aðfinnslur þeirra í sambandi við þessi frv. eru býsna furðulegar. Ein er t.d. sú, að það skuli hafa dregizt nú á þriðja mánuð hjá ríkisstj. að koma fram með brtt. sínar við frv. og að afgreiða frv., þó að því væri lýst yfir af ríkisstj., þegar hún lagði frv. fram, að hún ætlaði sér ekki að afgreiða frv. þá þegar eða fyrir jól, heldur einmitt að gefa nægilegan tíma þeim aðilum, sem hér ættu aðallega hlut að máli, til þess að kynna sér frv., fjalla um þau og gera sínar till. um breytingar á frv. Og ríkisstj. beinlínis hlutaðist til um það, að stór fjöldasamtök í landinu fjölluðu um þessi frv., og það gerðu þau. En það verður eitt af aðfinnsluatriðum stjórnarandstæðinga, að það skuli hafa tekið þennan tíma að afgreiða þessi frv. í þessum efnum er auðvitað ósköp eðlilegt, að maður rifji upp, hvað gerðist hjá þessum mönnum sjálfum, þegar þeir fóru með stjórnarvöldin í landinu. Það hefur verið rifjað hér nokkuð upp af öðrum ræðumönnum, og ég skal því ekki gera það hér í löngu máli, en aðeins minna á, að fyrrv. ríkisstj. flutti á tveimur s.l. þingum frv. um breytingar á tekjuskattslögunum, þó um sama efni í bæði skiptin. Hún gafst upp á því að láta samþykkja frv. í fyrra tilfellinu, vegna þess að hún rak sig á mikla andstöðu, einnig innan stjórnarflokkanna þá, við ýmis ákvæði þess frv. Frv. var lagt fyrir á nýjan leik. Það lá fyrir þinginu mánuðum saman. Settar voru margar nefndir til þess að huga að ýmsum atriðum í þessu frv. Það er alltaf verið að vitna í það hér í sambandi við slæman undirbúning að frv. núv. ríkisstj., að í tíð fyrrv. ríkisstj. hafi nú sérfræðingarnir verið hafðir með í ráðum. Þá hafi nú m.a. verið talað við ríkisskattstjóra. Ég var í þeirri nefnd, sem fjallaði um þessi skattafrv. ríkisstj., og ég á enn í mínum fórum margar bls. af till. frá ríkisskattstjóra, þar sem hann tætti í sig till. sérfræðinga nefndarinnar, og gerði ótal brtt., sem mönnum þótti nú reyndar ekki fært að verða við nema að litlu leyti. Það hafði ekki verið haft meira eða betra samráð við hann þá í sambandi við frv.- gerðina sjálfa. Og menn hafa verið að hæla sér fyrir það, að þá hafi nú verið haft t.d. samráð við fulltrúa atvinnurekstursins í landinu. En ég á líka í mínum fórum langt tillöguplagg frá fulltrúum aðalatvinnurekendasamtakanna í landinu, þar sem þeir beinlínis lögðu til, að samþykkt frv. yrði frestað, af því að það væru svo margir ágallar á frv., að þeir gætu ekki við unað. Svona var nú þessu háttað í þann tíð. En menn grípa til ýmiss í sambandi við það, að þeir eru raunverulega nú komnir í vandræði.

Það er full ástæða til þess í sambandi við þau skattafrv., sem hér eru nú til umr., að reyna að draga saman nokkur aðalatriði, sem raunverulega felast í þessum skattafrv. og sem ekki ætti að þurfa að vera ágreiningur um út af fyrir sig. Það fer auðvitað ekki á milli mála, að langsamlega stærsta og veigamesta breytingin, sem felst í þessum skattafrv., er að fella niður nefskattakerfið svo nefnda, að hætta að innheimta eftir nefskattafyrirkomulaginu iðgjöldin til sjúkrasamlaga og almannatrygginga. Það liggja nú fyrir útreikningar um það, að þessir nefskattar mundu hafa numið á þessu áti rúmlega 1 220 millj. kr. Þetta eru upplýsingar frá Efnahagsstofnuninni, 1 220 millj. kr. Og þegar menn bera þessa fjárhæð saman við útreikninga Efnahagsstofnunarinnar um það, hverju hefði numið eftir gamla skattakerfinu tekjuskattur allra einstaklinga í landinu samkv. tekjuskattslögunum, þá telur Efnahagsstofnunin, að tekjuskatturinn hefði numið á þessu sama ári 1 504 millj. kr. Þá fara menn að átta sig á því, hve nefskattarnir voru orðnir hrikalega háir hjá okkur. Þeir áttu að nema eftir útreikningum Efnahagsstofnunar 1 221 millj. kr., en tekjuskatturinn allur hjá einstaklingum 1 504 millj. kr. Það var auðvitað alveg augljóst, að það var engin leið að ætla sér að halda áfram að bæta almannatryggingakerfið í landinu með stórauknum bótum með þeim hætti að innheimta jafnháa fjárhæð til trygginganna eftir nefskattafyrirkomulaginu eins og þetta hefði þýtt í raun. Þetta var alveg útilokað. Þetta hefði raunverulega þýtt það í framkvæmd, að menn væru að bæta tryggingarnar á ýmsum sviðum, hækka ýmsar bætur trygginganna, en láta hins vegar tekjulágt fólk í landinu eða tekjulaust með öllu standa að mjög verulegu leyti undir þeim bótum trygginganna. Þetta var eitt meginvandamálið, sem við stóðum frammi fyrir nú og sem þurfti að leysa.

Og því verður auðvitað ekki neitað, að eftir þær umr., sem fram hafa farið um þessi mál. þá hefur þó farið svo, að einn af talsmönnum stjórnarandstöðunnar, formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, hefur náð að skilja þetta og fengizt til þess að viðurkenna þetta. Hann viðurkennir hér í nál. sínu, að svo hafi verið komið, að það hafi verið með öllu óhugsandi annað en innheimta tekjurnar til trygginganna með öðrum hætti en gamla kerfið gerði ráð fyrir. Og hann verður því í sínu nál. að leggja til, að það hefði t.d. mátt leggja á, segir hann, nýjan skatt, sem næmi t.d. 4% af brúttótekjum allra aðila í landinu, og þannig hefði mátt ná í þessar tekjur fyrir tryggingakerfið í staðinn fyrir það að fara gömlu nefskattaleiðina. Jú, auðvitað er þetta hægt. En það er sannarlega rétt að átta sig á því, hver er munurinn á þeim till., sem ríkisstj. gerir í þessum efnum, og þessari leið Gylfa Þ. Gíslasonar.

Till. ríkisstj. miða að því að létta þessum sköttum stórkostlega af hinum tekjulægstu, létta þær álögur mjög verulega, miklu meira en till. Gylfa mundu þýða í reynd. En hins vegar þýða till. ríkisstj., að hinir tekjuhærri í landinu koma til með að borga meira af þessum gjöldum en þeir hefðu komið til með að borga samkv. þessum till. Gylfa. Sá er munurinn í þessum efnum. Það er rétt að átta sig vel á því, að hér er ekki um neinn smáræðishóp að ræða samkv. útreikningum og upplýsingum, sem liggja fyrir. Efnahagsstofnunin upplýsir, að unglingar á aldrinum 16–21 árs séu 24 þús. í landinu. Langmestur hluti þessa hóps er svo að segja tekjulaus við nám og að meira eða minna leyti á framfæri annarra. Efnahagsstofnunin upplýsir líka, að á árinu 1972 megi reikna með því, að 82 700 manns í landinu hefðu átt að borga almannatryggingagjald. Það er ekkert um að villast heldur, að mjög margir af þeim, sem þar eiga hlut að máli, eru tekjulágir eða svo til tekjulausir.

Í útreikningum Efnahagsstofnunarinnar koma fram, eins og hæstv. fjmrh. hefur upplýst hér áður í þessum umr., mjög athyglisverðar tölur, og auðvitað er alveg útilokað fyrir stjórnarandstæðinga að neita þessum útreikningum bara með því að reyna að gera sig góða með því að tala um einhvern reikniheila. Ætla þeir að hætta að trúa öllum útreikningum, vegna þess að þeir reka sig á einhvern reikniheila? Efnahagsstofnunin hefur reiknað út, að miðað við þau skattafrv., sem liggja fyrir, og brtt. meiri hl. við bæði skattafrv., verði útkoman sú, þegar samanburður er gerður á sköttum samkv. þessu nýja kerfi og eldra kerfinu, sem hefði verið í gangi, að miðað við alla þá aðila, sem hafa innan við 300 þús. kr. tekjur, hefði skattbyrðin létzt um 321 millj. kr. Hjá þeim, sem liggja á tekjubilinu 300–425 þús. kr., hefði orðið um lækkun að ræða, sem nemur 82 millj. kr. Og hjá hinum, sem eru á tekjubilinu 425–550 þús. kr., hefði verið um lækkun skattbyrði að ræða sem nemur 51 millj. kr. Eða m.ö.o.: Þeir aðilar í landinu, sem hafa tekjur undir 550 þús. kr., mundu njóta samkv. þessum till. lækkunar á sköttum, sem næmi 454 millj. kr. miðað við gamla kerfið. Þetta er lækkunin. Og það er alveg sama, hversu mikið hv. 2. þm. Vestf. brosir til þess að reyna að snúa sig út úr því, hann sleppur ekkert út úr þessu. Þetta eru staðreyndir. Svona er þetta. Hann getur auðvitað komið hér upp í pontuna á eftir og lamíð höfðinu við steininn, eins og hann hefur gert og sagt: „Samt hækkar það.“ Þetta minnir mann á þrákelkniskarlinn, sem var að þræta við annan um það, hvort í tilteknum fiskstakk væri ýsa eða þorskur. Og svo þegar búið var að fletta ofan af stakknum og hann sá, að það var þorskur, þá sagði hann: „Samt er það ýsa.“ Þannig auðvitað geta menn farið að, og það virðast vera þau vinnubrögð, sem hv. stjórnarandstæðingar viðhafa í þessum efnum. Þeir bara taka að sér að neita staðreyndum. neita alveg greinilegum útreikningum. (Gripið fram í.) Já, ég býst við því og á alveg von á því, að úr þessu horni komi það.

Þannig er þessu farið, að langsamlega þýðingarmesta breytingin, sem hér er á ferðinni, er fólgin í því, að það er verið að leggja niður þetta ósanngjarna skattheimtuform, nefskattainnheimtuna, þar sem menn voru komnir í algerar ógöngur, og tryggja tryggingakerfinu tekjur eftir öðrum leiðum. Ég veit, að það voru eflaust fleiri leiðir hugsanlegar til þess að tryggja tryggingakerfinu nægilegar tekjur. Leið Sjálfstfl. hefði auðvitað verið fær, sem var einfaldlega sú, sem hann hefur farið á undanförnum árum, að hækka hara í sífellu söluskatt eða aðra neyzluskatta. En það var skoðun okkar í ríkisstj., að það væri miklu ósanngjarnari leið en sú leið, sem lögð er til í þessu frv., þar sem við það er miðað, að þeir, sem eiga eignir, og þeir, sem hafa góðar tekjur, taki einhvern þátt í því að borga til trygginganna þau gjöld, sem áður höfðu verið lögð á tekjulausa eða tekjulága í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi, fyrir utan þessa meginbreytingu, sem felst í þessu, að breyta um nefskattakerfið, þá er svo fólgin í frv. ríkisstj. till. um það að einfalda nokkuð samskipti ríkísins og sveitarfélaganna. Það er gert ráð fyrir því, að ríkið taki að sér að greiða tiltekin útgjöld, sem sveitarfélögin hafa greitt að undanförnu. Í þeim efnum er áætlað, að ríkið taki nú á sig að greiða útgjöld vegna löggæzlu, sem nema 165 millj. kr. á ári, og framlag til lífeyristrygginga, sem nemur 390 millj. kr. á ári, og helminginn af því framlagi, sem sveitarsjóðirnir áttu að greiða til sjúkrasamlagskerfisins. En talið var, að það mundi nema 245 millj. kr. á yfirstandandi ári. Á þennan hátt er útgjöldum létt af sveitarfélögum sem nemur í kringum 800 millj. kt. Af þessu hlaut vitanlega að leiða, að það var réttlátt að draga nokkuð úr tekjumöguleikum sveitarfélaganna á móti, og af þessu leiddi líka, að eðlilegt var, að veita yrði ríkissjóði möguleika til þess að ná í tekjur á móti þessum gjöldum.

Það eru auðvitað fleiri atriði í þessum frv., sem hér hafa verið rædd af ýmsum, sem ég skal ekki fara lengra út í, en þetta eru að mínum dómi langsamlega veigamestu atriðin, sem er að finna í þessum skattafrv. Hin atriðin ýmis hefur beinlínis leitt af þessum meginbreytingum.

Það hefur verið rætt allmikið um það að undanförnu og einnig hér í þessum umr., hvort þessi nýju skattafrv. muni leiða af sér aukna skattabyrði fyrir skattborgarana eða ekki frá því, sem var í eidri lögum. Efnahagsstofnunin hefur fjallað um þetta mál og reiknað þetta. Eins og í mörgum öðrum tilvikum fyrir opinbera aðila þá hefur hún sett upp dæmið og reiknað þetta út lið fyrir lið, og þm. hafa haft fulla aðstöðu til þess að kynna sér þessa útreikninga Efnahagsstofnunarinnar, hvað hún segir um þennan samanburð. Ég skal ekki fara að lesa alla þessa grg., en tek hér þá setningu, sem segir þetta tiltölulega skýrast í áliti Efnahagsstofnunarinnar, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt á þessa leið:

„Meginniðurstaða samanburðar á báðum tekjuöflunarkerfunum samkv. meðfylgjandi yfirlitstöflum virðist sú, að í heild sé ekki um neina umtalsverða breytingu skattbyrðar að ræða með hinu nýja kerfi.“

Þegar menn skoða svo töflurnar, sem þessu fylgja, nánar og bera saman alveg hliðstæða skatta eftir gamla kerfinu og nýja kerfinu, þá kemur í ljós, að þetta orðalag Efnahagsstofnunarinnar er notað um tölur, sem beinlínis stefna allar með nýja kerfinu fremur til lækkunar en hækkunar. En þeim þykir réttara að hafa þann hátt á að segja, að það virðist ekki við þennan samanburð vera um neina umtalsverða breytingu á skattbyrði að ræða. En þrátt fyrir þessa útreikninga koma hér ýmsir hv. stjórnarandstæðingar upp og segja aðeins í sífellu þetta: „Hér er um stórkostlega íþyngingu að ræða fyrir flesta skattgjaldendur í landinu.“ Við þá, sem svona tala, er auðvitað afskaplega erfitt að eiga orðastað um þessi mál. Menn virðast vera þar ákveðnir í að lemja höfðinu við steininn og neita beinum útreikningum og staðreyndum, en þetta er nú svona. Það er ekkert um það að villast. Þegar síðan er tekið tillit til þeirra till., sem nú liggja fyrir, og þessi umsögn Efnahagsstofnunarinnar var gerð, áður en brtt. meiri hl. þeirra n., sem fjallað höfðu um frv., komu fram, er ekkert um það að villast, að heildarskattbyrðin er minni. En þá reyna stjórnarandstæðingar að snúa sig út úr sínum vanda með því að segja: „Ef gengið hefði verið út frá allt annarri skattvísitölu en nú hefur verið miðað víð, yrði útkoman önnur.“ Það hafa verið uppi kröfur um það að undanförnu að láta skattvísitöluna hreyfast í hlutfalli við hækkaða framfærsluvísitölu, og það er gert í þessu dæmi. En þá koma þeir, sem ekki hafa á undanförnum árum treyst sér til þess að láta skattvísitöluna hreyfast í hlutfalli við framfærsluvísitöluna, og stökkva þar langt yfir og segja: „Nú skal hún hreyfast í hlutfalli við kauphækkanir, sem urðu á árinu.“ Þetta er auðvitað bara leið manna, sem eru komnir í vandræði og geta í rauninni ekki staðið við sínar stóru fullyrðingar. Þeir sjá, að þeir eru komnir í ógöngur með allan sinn málflutning. Svona till. tekur auðvitað enginn alvarlega frá þeirra hálfu, enginn, sem fylgzt hefur með tillögugerð þeirra á undanförnum árum.

Það þarf ekki lengra aftur í tímann að fara en á síðasta þing. Þá fluttum við, sem nú erum í meiri hl. hér á Alþ., till. um það, að skattvísitalan yrði í samræmi við framfærsluvísítölu, og auðvitað var slík till. kolfelld hér á Alþ. af þeim, sem nú eru hér í minni hl. Þá var það of mikið. Og svo reyna menn enn að segja: „En skattarnir hækka þó alltaf, ekki aðeins í krónum, heldur hækka þeir einnig hlutfallslega miðað við það, sem þeir voru áður.“ Og það er ekkert um að villast, að auðvitað er það svo. Skattarnir hækka, ekki aðeins í krónum, heldur hækka þeir einnig hlutfallslega miðað við það, sem áður var, og það hafa þeir verið að gera á undanförnum árum í langan tíma, vegna þess að skattakerfi okkar hefur verið og er enn þannig upp byggt, að það felur þetta í sér.

Ágætt dæmi um þetta er það, að Efnahagsstofnunin reiknaði út, hvað t.d. útsvör í landinu mundu hækka mikið við það, að tekjur hækkuðu um 23% á milli ára. Og útkoman varð auðvitað ekki sú, að útsvarsupphæðin hækkaði um 23% um leið og tekjurnar hækkuðu um 23%. Útkoman hjá Efnahagsstofnuninni varð sú, að þegar tekjurnar hækkuðu um 23%, þá hækkuðu útsvörin um 34%. Þannig hefur þetta verið með tekjuskattana, og þannig hefur þetta verið með útsvörin um langan tíma. Þetta er ekkert nýtt.

Það er mjög athyglisvert í þessum efnum, að þeir stjórnarandstæðingar, sem grípa til þess ráðs að fara að gera þennan samanburð til þess að reyna að leiða athyglina að því, að skattarnir séu nú að hækka, bæði í krónum og eins hlutfallslega, eru sömu mennirnir, sem gera nú kröfu um að fá t.d. tekjur handa sínum sveitarfélögum eftir gamla kerfinu, með þessari hækkunaraðferð, sem verið hefur á undanförnum árum. Ég er ósköp hræddur um, að hv. þm. Ólafur G. Einarsson, 11. landsk. þm., sveitarstjóri í Garðahreppi, sætti sig ekki aldeilis við það, að honum séu skammtaðar tekjur á árinu 1972 jafn miklar og hann hafði á árinu 1971. Það hafa allir heyrt og séð, hvað borgarstjórinn í Reykjavík segir. Hann heimtar núna auðvitað tekjur handa Reykjavíkurborg, miklu meiri tekjur í krónum og hlutfallslega en hann hafði á árinu á undan. Og hann kvartar undan því nú, að nýju skattafrv. ríkisstj., sem hann segir svo í hinu orðinu, að séu að stórþyngja álögurnar á landsmönnum, gefi Reykjavíkurborg ekki nægilega miklar tekjur. Hann vantar enn 125 millj. kr., segir hann, til þess að hann fái jafn mikið og gamla kerfið hefði gefið honum. Þetta er afar athyglisvert, og sömu stjórnarandstæðingar, sem eru að reyna að halda því fram, að skattafrv. ríkisstj. þýði nýjar og þyngdar áiögur frá því, sem verið hefur, vilja raunverulega fá meiri tekjur en frv. gefa, a.m.k. þeim, þar sem þeir eiga beinlínis hlut að máli sjálfir.

Nei, það er rétt að játa það alveg eins og það er, að skattamál okkar hafa verið þannig um langan tíma, að hækkandi tekjur hafa þýtt enn meira hækkandi skattaálögur. Þannig er allt kerfið upp byggt. Og auðvitað sjá allir, að það varð að miða nýja kerfið í aðalatriðum við það, að það gæfi eitthvað svipaðar tekjur, bæði til ríkisins og sveitarfélaganna, og gamla kerfið hefði gefið þessum aðilum. En þeir eru nú ekki hissa á því, stjórnarandstæðingar, þegar þeir eru að halda fram fullyrðingum sínum gagnvart skattafrv. ríkisstj., að rifja upp sína eigin skattamálastefnu.

Hér kom aðaltalsmaður Sjálfstfl., hv. 2. þm. Vestf., og sagði það, — mér sýndist alveg án þess að roðna, — að það hefði verið mörkuð stefna Sjálfstfl. frá upphafi Viðreisnar, að ekki skyldi leggja skatta á almennar launatekjur. Það er alveg rétt, að þetta stóð á sínum tíma í bókinni Viðreisn. Þessu var lofað. En það þarf mikið karlmenni til að koma fram nú eftir daga Viðreisnarinnar og minnast á þetta loforð og reyna að halda því fram hér við þm., að þetta sé mörkuð stefna Sjálfstfl. í skattamálum. Þegar menn líta á skattatölur liðinna ára, sjá menn nú heldur betur, hvað hefur verið að gerast. Hvað skyldi t.d. söluskatturinn hafa verið mikill árið 1959, árið áður en viðreisnarskattarnir byrjuðu? Þá nam söluskatturinn samtals 165.2 millj. kr. En núna á síðasta ári, því ári, sem Viðreisnin fékk að ráða því, hve skattarnir yrðu miklir, þá var söluskatturinn orðinn rúmlega 3 600 millj. kr. eða hafði meira en tuttugufaldazt. Þarna var þó um að ræða skattlagningu á hvers konar almennum nauðsynjum.

Það er ekki aðeins söluskattsstefnan, sem er mjög lýsandi. Það er líka alveg lýsandi, hvernig fór með tekju- og eignarskatta í landinu, og eins samanburðinn á skattlagningu einstaklinga í landinu og skattlagningu félaga og atvinnureksturs. Árið 1960, sem var fyrsta stjórnarár Viðreisnarinnar, heila stjórnarárið, þá námu tekju- og eignarskattar einstaklinga í landinu 49 millj. kr. Það sama ár námu tekju- og eignarskattar félaga í landinu 33.4 millj. kr. Hlutfallið var þannig, að einstaklingarnir borguðu í þessum sköttum 59.4%, en atvinnureksturinn 40.6%. Hvernig var þetta eftir 10 ár eða árið 1970? Þá var þetta orðið þannig, að 49 millj., sem einstaklingarnir borguðu, þessir, sem áttu nú að sleppa við skattana, voru komnar upp í 881.6 millj. Heldur laglega að staðíð að létta af mönnum sköttum! Og þá var líka hlutdeild einstaklinganna komin úr 59.4% upp í 82.1%. En á þessum árum hafái hins vegar skattahlutdeild félaga og atvinnureksturs í landinu lækkað úr 40.6% í 17.9%. Það er ekkert um að villast, að skattbyrði félaga og atvinnureksturs í landinu hefur á þessu tímabili gengið hratt niður, en skattar einstaklinga hratt upp. En þegar svona var komið, þá fluttu þeir sjálfstæðismenn hér frv., ekki aðeins eitt, heldur tvö, um það, að það yrði að létta verulega sköttum af fyrirtækjum í landinu. En þeir fengust ekki til þess að koma þá fram með neinar till. til þess að létta sköttum af einstaklingum.

Það er, eins og ég segi, von, að talsmenn Sjálfstfl. nú skuli gerast margorðir um stefnu Sjálfstfl. í skattamálum. En svona hefur hún verið. Hún hefur alveg tvímælalaust á undanförnum árum miðað að því að þyngja skatta á venjulegu launafólki. Sjálfstfl. hefur horft á það, að nefskattarnir hafa þyngzt ár frá ári og ekki komið fram með neinar till. til þess að bæta þar úr. En nú hins vegar eru viðbrögð þau, þegar till. koma fram um það að létta hér verulega sköttum af þeim, sem hafa búið hér við verstu skattakjörin, að hann rís öndverður gegn því.

En málatilbúnaður þeirra stjórnarandstæðinga í þessum málum er í rauninni allur eins. Þeir tala mikið um flaustursleg vinnubrögð, illa undirbúin frv. o.s.frv., og enginn hefur þó talað meira um þetta en formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason. Hann segir beinlínis í sínu nál., því að þar mátti nú ekki draga neitt úr: „Þau tvö skattafrv., sem ríkisstj. lagði fram í des. s.l., voru verr undirbúin og flausturslegar samin en nokkur önnur stjfrv. um skattamál. sem lögð hafa verið fyrir Alþ. á undanförnum áratugum.“ Það munaði ekkert um það! Og þegar hann svo fór að sýna mönnum, hvernig þeir ættu að vinna vandlega m.a. að tillögugerð í skattamálum, þá flytur hann hér till. í þessu máli, till., sem er virkilega þess virði, finnst mér, að hún sé lesin, og menn reyni svona sameiginlega að skilja hana. En till. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. skal halda áfram athugun á skattakerfinu og leggja niðurstöður þeirrar athugunar fyrir næsta Alþ. Í því sambandi skal athugað sérstaklega, að hvort hjóna um sig verði sérstakur skattgreiðandi, þannig að vinni annað hjóna utan heimilis, skuli sá aðili greiða tekjuskatt af þeim tekjum, sem hann vinnur fyrir. Vinni hvorugur aðili utan heimilis, skuli þeim, sem engar tekjur hefur, reiknað til tekna hluti af tekjum hins“, — sem auðvitað hefur heldur engar tekjur, en þó er nú varnagli settur: „þó aldrei hærri fjárhæð en helmingurinn af tekjum hans“, — þessa, sem hefur engar tekjur.

Hér er nú ekki flausturslega að málunum staðið, eins og hv. þm. sjá. Hér hafa menn virkilega vandað sig. En svona er þetta í fjöldamörgum greinum, að ef maður gæfi sér tíma til .„ (BP: Þetta er rekstrarhagfræði.) Þetta er rekstrarhagfræði, já. Ef maður gæfi sér tíma til þess að víkja að hinum ýmsu þáttum þessara mála, þá er þessu nú ósköp svipað farið eins og í þessu tilviki.

En ég skal nú ekki, úr því sem komið er, vera að lengja þessar umr. mikið. Það er auðvitað af mjög mörgu að taka, ef maður vildi. En að mínum dómi ber þetta allt að einum brunni. Þeir í stjórnarandstöðunni hafa algerlega ofreynt sig á þessum málum. Þeir hafa hrópað og kallað um allar jarðir: Það er verið að stórhækka skatta — sem þeir vita þó, að er rangt. Og þeir hafa haldið fram hverri fjarstæðunni af annarri. Nú hefur þetta verið rekið ofan í þá hér af mörgum ræðumönnum, og þá eiga þeir í raun og veru ekki önnur úrræði en þessi, að koma hér upp og leika einhvers konar smásjónarspil.

Ég álít fyrir mitt leyti, að þær staðreyndir, sem standa eftir í þessum efnum og eru meginatriði þessa skattamáls, séu þessar: Það er ekkert um það að villast, að með því að fella niður nefskattana er verið að framkvæma stórkostlegt réttlætismál í skattheimtu á Íslandi, stórkostlegt. Það nær vitanlega engri átt að innheimta jafnháar fjárfúlgur og raun hefur verið á til tryggingakerfisins í landinu t.d. af launalausu skólafólki. Og það er svona til marks um vinnubrögðin hjá stjórnarandstöðunni í þessum efnum að undanförnu, að maður gat lesið fyrir nokkrum dögum í Morgunblaðinu samþykkt frá samtökum ungra sjálfstæðismanna, — ég held, að það hafi verið á Snæfellsnesi eða einhvers staðar þar í grennd, — um það, að þessi frv. væru sérstaklega árás á unga fólkið í skólunum, þegar gerðar eru ráðstafanir til þess að létta af þessu fólki nefsköttum í stórum stíl. En þetta fólk hefur trúað svo öllu fleiprinu í Morgunblaðinu um þessi mál, að það samþykkir bara eitthvað út í bláinn. Það hlýtur að vera eins á móti ungu fólki eins og á móti hinu. (Gripið fram í.) Já, það er ekkert smáræði. Þetta er svona ósköp svipað og þegar einn af þm. Sjálfstfl. hér rauk til og skrifaði langa grein í Morgunblaðið fyrir stuttu síðan um sérstakar árásir núv. ríkisstj. á gamla fólkið í landinu, eftir að ríkisstj. hafði gert stórátak til þess að bæta hag þess frá því, sem áður var. Auðvitað þurfti ekki annað en rétt að blaka við þessum manni. Þá var hann búinn að vera með þessa vitleysu sína. Og það, sem vekur athygli mína og ýmissa annarra, sem hafa fylgzt með umr. hér, er, að þessi hv. þm. hefur ekki skotið upp kollinum í þessum umr., og er hann þó mjög vanur því að skjóta upp sínum kolli í öllum umr.

Ég álít fyrir mitt leyti, að þetta meginatriði, að hverfa frá nefskattainnheimtunni, sé ein stærsta umbótin, sem lögð hefur verið til í skattheimtu okkar nú um langan tíma. En þó að ég segi þetta, þá dettur mér ekki í hug að halda því fram, að það sé ekki enn margt ógert til leiðréttingar í skattamálum okkar. Og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það sé ekki enn margt að fínna, einnig í þessum frv., sem mætti fara betur. En það væri sæmra fyrir stjórnarandstöðuna að viðurkenna það, að þetta er meginatriðið í þeim till., sem hér liggja fyrir. Og það er svo stórt, að það er í rauninni skylda þeirra að vera með þessu atriði.

Ég tel einnig, að það liggi alveg ljóst fyrir samkv. útreikningum opinberra stofnana þar um, að beinir skattar, af því að ég tel vitanlega nefskattana til beinu skattanna, lækka frá því, sem verið hefði samkv. gamla kerfinu, alveg örugglega upp að tekjumarkinu 550 þús. kr. a.m.k. Það er rétt, að það verður um nokkra hækkun á sköttum að ræða, þegar kemur upp í t.d. 700 þús. kr. tekjur eða þar fyrir ofan. En hverjir eiga að taka þátt í því að borga til tryggingakerfisins í landinu í staðinn fyrir hina tekjulágu, ef það eru ekki þeir, sem hafa slíkar tekjur? Hverjir eiga þá að borga það?

Hér er um stórfellt hagsmunamál, ekki sízt skólaæskunnar í landinu, að ræða og einnig fyrir annað láglaunafólk, sem býsna mikið er til af alltaf í landinu. Jafnvel þó að um gott árferði sé að ræða, þá sýna skýrslur það, að það er allmikið til af fólki, sem býr við lágar tekjur af ýmsum ástæðum.

Það er heldur enginn vafi á því, að hagsmuna kvenna, sem vinna úti fyrir sjálfstæðum tekjum, er gætt í þessum frv. upp að sanngjörnu marki. Það er mjög vafasamt að ætla að standa fast á því, og það vildu þeir, sem nú eru í stjórnarandstöðu, ekki gera á síðasta þingi, að það eigi að gilda 50% skattfrelsi fyrir konu, hversu háar tekjur, sem um er að ræða. En skattar konu, sem vinnur úti fyrir sjálfstæðum tekjum, hækka ekki, ef um venjulegar launatekjur er að ræða.

Það er enginn vafi á því, að með þeim ákvæðum, sem er að finna í frv., er um að ræða allverulega aukin fríðindi í skattamálum fyrir sjómenn, og ég undrast stórlega, að hv. 2. þm. Vestf. skuli láta út úr sér aðra eins fjarstæðu og þá, að hér sé um minni skattfríðindi að ræða hjá sjómönnum en samkv. gildandi lögum. Það er auðvitað enginn vafi á því, að hér er um verulega aukningu að ræða. Og eins og ég hef sagt áður, held ég, að enginn maður geti haldið svona nokkru fram, og það maður, sem þekkir allvel til í þessum málum, nema sá, sem er kominn í þessa einkennilegu stöðu að segja í sífellu: „Samt er það ýsa.“ Það er í rauninni ekkert annað en bara þrákelkni að segja svona.

Í þessum frv. ríkisstj. er auðvitað um gerbreytta stefnu í skattamálum að ræða frá því, sem verið hefur, og að mörgu leyti andstæðu við þá stefnu, sem kom fram í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Hér er miðað að því að létta á hinum tekjulægri, en þyngja frekar á hinum tekjuhæstu.

Ég skal nú láta þessu máli mínu lokið. En ég veit, að þeir stjórnarandstæðingar hugga sig auðvitað við eitt: Þeir hugga sig við, að það séu ekki ýkja margir, sem hlusti á þessar umr., sem hér hafa farið fram í dag, og þeir geti haldið áfram að lemja sínum haus við steininn í Morgunblaðinu, senda það út um borg og bý og halda þar fram röngum málstað. Á það geta þeir auðvitað treyst. En í þessum efnum komast nú svik upp um síðir, það er enginn vafi á því. Og þó að menn viðhafi þau vinnubrögð, eins og þeir hafa gert hér, að leggja til svona í vandræðum sínum, þegar þeir geta heldur ekki lagt fram neinar frambærilegar till., að fresta öllu. Þeir vildu fresta fjárlagaafgreiðslunni, þeir vilja fresta skattalögunum, öllu vilja þeir fresta, líklega þangað til þeir komast í stólana sjálfir og geta farið að sínum eigin ráðum. En þessu verður nú ekki frestað, það er alveg augljóst. Þeir verða að sætta sig við það, að það verði gerð breyting í þessum efnum á annan veg en þeir hefðu kannske kosið.

Ég held, að þeir í stjórnarandstöðunni eigi eftir að fá að kenna á því, að þeir hafa sagt þjóðinni rangt til í sambandi við þessar skattalagabreytingar. Það hefur komið fram ágæt uppástunga, sem ég er mjög hlynntur, í sambandi við skattseðlana á komandi vori. Það er að leggja fyrir skattayfirvöld að láta reikna út á skattseðli hvers og eins, hvað hann hefði borið í skatta eftir gamla skattkerfinu, svo að hann fái þá tölu líka við hliðina á nýju tölunni. Þar auðvitað hefði þurft að taka nefskattana líka með og láta þá koma þar. Ef þetta væri gert, þá held ég, að þeir stjórnarandstæðingar riðu ekki feitum hesti frá þessum leik.