07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það er nú farinn að síga svefnhöfgi yfir þingheim, svo að ég skal vera eins stuttorður og ég frekast má. Ástæðan til þess, að ég tek til máls, er sú, að ég flutti hér við 1. umr. þessa frv. þrjár brtt., sem ég fylgdi þá ekki úr hlaði, og mig langar því til að fara nokkrum orðum um þær.

1. brtt. á þskj. 209 fjallar um hina margumtöluðu samsköttun hjóna. Eins og kunnugt er, er gert ráð fyrir því í frv., að 50% af tekjum eiginkonu séu ekki skattskyld, þannig að 50% séu dregin frá, áður en skattgjald er lagt á tekjur hjónanna samanlagt. Það, sem mér þótti miður fara í þessu ákvæði, var, að þau tilvik eru til, að konan getur haft tvöföld ef ekki þreföld laun á við eiginmanninn, og þannig kæmi fram óeðlilegur frádráttur, og um þetta eru allmörg dæmi. En við nánari athugun kemur það líka í ljós, að þó að maður vilji stemma stigu fyrir þessu misrétti, þá er málið þannig vaxið, að sé samþykkt sú brtt., sem ég upphaflega lagði hér fram, að 50% séu dregin frá tekjum þess maka, sem lægri hefur tekjurnar, áður en skattgjald er lagt á tekjur hjónanna, þá kæmi það ákaflega illa við aðra hópa, svo sem námsmenn, þar sem konur vinna verulega fyrir þeim, eða konur, sem eiga óvinnufæra maka, og þar fram eftir götunum. Þannig virðist þetta ákvæði vera þannig vaxið, að vilji maður leiðrétta misréttið á einum stað, þá kemur upp misrétti á öðrum, og þannig virðist nú í reynd vera um mörg þessi ákvæði skattalaga, að þegar menn eru að slá undir leka, þá kemur annar leki í staðinn, þannig að ég fyrir mitt leyti vil draga þessa brtt. til baka og vísa þar til þeirrar brtt., sem er á þskj. 411 frá Svövu Jakobsdóttur, þar sem segir svo um ákvæði til bráðabirgða:

Ríkisstj. skal halda áfram athugun á skattakerfinu og leggja niðurstöður þeirrar athugunar fyrir næsta Alþ. Við þá endurskoðun verði að því stefnt, að hver maður, sem aflar tekna og/eða á skattskyldar eignir, verði sjálfstæður skattþegn án tillits til hjúskaparstéttar.“

Ég hygg í raun og veru, að þetta sé eina lausnin á því vandamáli, sem hér um ræðir, þannig að ég dreg þessa brtt. til baka.

Ég hef flutt tvær aðrar brtt., og þær mega gjarnan koma til atkv. hér. Sú fyrri er brtt. við 3. gr. frv., þar sem segir: „Undanþegnir skattskyldu eru þó vextir af skattfrjálsum sparisjóðsinnlánum samkv. 21. gr. og vextir af stofnsjóðsinnstæðum í samvinnufélögum.“ Hér legg ég til, að bætt verði við þessum orðum: Svo og vextir og vísitöluálag opinberra, vísítölutryggðra spariskírteina. Ástæðan er sú, að vextir af sparisjóðsinneign eru ekki undanþegnir skattskyldu almennt, ef menn skulda umfram visst mark, þannig að ég tel auðsætt, að löggjafinn þurfi að kveða upp úr um það afdráttarlaust, hvort þessi vísitölutryggðu spariskírteini eigi að tilheyra því ákvæði, þar sem kveðið er á um afdráttarlaust, að þau séu undanþegin skattskyldu eða þau falli undir annað ákvæði skattalaganna.

Þetta er ekki veigamikið atriði. Hins vegar met ég meira aðra brtt., sem ég hef flutt hér við 14. gr. frv., þar sem talað er um ríkisskattanefnd. Ég legg til, að við 14. gr., 5. mgr., bætist nýir málsliðir, sem orðist svo:

„Ríkisskattanefnd skal fela ríkisskattstjóra að annast útgáfu úrskurða nefndarinnar árlega. Heimilt er að stytta úrskurði í útgáfu þessari, en tryggt skal, að úrskurðir, sem gildi hafa, komi fyrir almenningssjónir.“

Hugmyndin að baki þessari brtt. er sú, að vinnubrögð ríkisskattanefndar og skattayfirvalda eiga að vera opin almenningi, almenningur á að hafa aðgang að þessum gögnum. Hér á ekki að vera neinn feluleikur, og þetta getur líka verið til leiðbeiningar fyrir þá menn, sem annast skattaeftirlit og aðra þá aðila, sem við þessi mál fást.

Um þetta hef ég svo ekki fleiri orð, en vil leyfa mér að leggja til, að þessar tvær síðari brtt. komi hér til atkv.