25.11.1971
Efri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

71. mál, innlent lán

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir nú hafa verið lagður þungur. baggi á herðar hv. 4. þm. Vestf. að þurfa að tala fyrir þessu máli. En hann kiknaði ekkert undir því, sem hans var von og vísa, því að hann er hraustmenni. Hins vegar vakti það athygli mína nokkuð, hvernig hann byggði upp sína ræðu. Hann vék að því, að það hefði verið gagnrýnt, að ekki lægi fyrir, til hvers ætti að nota þetta fé. Það hefur ekki verið gagnrýnt hér í þessari hv. d., og þegar ég við 1. umr. málsins fór um frv. nokkrum orðum og gagnrýndi það, þá var það einmitt alls ekki á þeim grundvelli, vegna þess að ég taldi, þó að það væri æskilegt, og undanfarin ár hefur jafnan verið gerð grein fyrir því við öflun þessa fjár, að þá væri, eins og sakir stæðu nú, alls ekki hægt að ætlast til þess, að þessi áætlun um notkun fjárins lægi fyrir.

Ég gagnrýndi hins vegar málið út frá allt öðrum sjónarhóli, og mér þætti mjög vænt um að fá að heyra skoðun hv. frsm. meiri hl. á því atriði. Það var, að þetta lán væri boðið út að tilefnislausu, vegna þess að það er ekkert, sem bendir til þess, að það sé ekki hægt að selja þessi skuldabréf alveg eins eftir áramót og fyrir áramót. Og það hefur aldrei gerzt áður, að þessa fjár til framkvæmdaáætlunar hafi verið aflað árið áður en á að nota það. Það liggur fyrir, að það á ekki að nota það á þessu ári, og það, sem ég gagnrýndi, var einmitt, að það skyldi ætlunin að bjóða þetta lán út, þegar verst gegnir fyrir viðskiptabankana og lánakerfið í landinu, og það er áreiðanlega vel kunnugt þessum hv. þm., að það stendur í hvað stríðustu um þessar mundir, rétt fyrir áramótin, og þetta mundi leiða til þess, að það mundi valda samdrætti í útlánum til atvinnuveganna og almennings, einmitt þegar erfiðast væri fyrir bankakerfið, en hins vegar væri um miklar þarfir atvinnuveganna að ræða., Það var þetta, sem ég gagnrýndi, og það er á þessum grundvelli og með þessum röksemdum, sem við í minni hl. fjhn. leggjum til, að 1. gr. frv. verði breytt þannig, að útboð lánsins eigi sér ekki stað fyrr en eftir áramót.

Úr því að framkvæmdaáætlunin er ekki til og verður ekki til fyrr en eftir áramót, þá er engin ástæða til þess að bjóða út þetta lán nú og valda þeim vandræðum, sem hljóta að verða á lánamarkaðinum, og truflunum fyrir bankakerfið, sem leiðir af þessu lánsútboði. Hér er um næstum þrefalda upphæð þess fjár að ræða, sem undanfarin ár hefur verið aflað með spariskírteinum, og það hefur verið föst regla undanfarin ár, að það hefur verið gengið út frá því í samningum við bankakerfið, sem leggur, eins og hv. þm. tók fram, 10% af sparifjáraukningu til fjárfestingarlánasjóðanna innan framkvæmdaáætlunarinnar, að bönkunum yrði þá gerð grein fyrir því, hvað ætti að gefa út mikið af spariskírteinum. Heimildin í ár hefur verið notuð, og hér er ætlunin að gefa út 200 millj. í viðbót, sem er auðvitað algerlega að koma aftan að bönkunum í þessu sambandi og hlýtur að verða til þess að torvelda samkomulag við bankakerfið á næsta ári í sambandi við framkvæmdaáætlunina þá.

Ég held, að það væri þess vegna öllum fyrir beztu, að það væri fallizt á þá brtt., sem við höfum leyft okkur að flytja við frv., að þetta lánsútboð eigi sér ekki stað fyrr en eftir áramót. Við erum alveg samþykkir frv. að öðru leyti, enda engin ástæða til, að um það verði ágreiningur, og það er ekkert óeðlilegt að afla fjár með þessum hætti. Það hefur verið gert um 6 ára bil. Hins vegar vörum við alvarlega við því, að farin sé þessi leið, sem hæstv. fjmrh. ætlar sér hér að fara, að draga út úr lánakerfinu peninga, sem hér er gert ráð fyrir, um 200 millj. kr. Ég veit, að hv. frsm. meiri hl., sem er bankastjóri, veit mætavel, að meginhlutinn af þessu fé hefur á undanförnum árum farið út úr lánastofnunum, en hefur ekki leitt til mikils aukins sparnaðar. Það hefur að vísu eitthvað verið, en það er aðeins sáralitið hlutfall af því, sem selzt hefur.

Herra forseti. Við leggjum til, að frv. verði samþ. með þeirri brtt., sem um getur á þskj. 111, en ef sú brtt. verður ekki samþ., þá leggjum við til, að frv. verði fellt, ekki vegna þess að við séum efnislega á móti því, heldur af því, að það sé algerlega ótímabært.