07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú þegar dregizt allmjög á langinn, sem ekki er kannske að undra, þegar um svo þýðingarmikil mál er að ræða, sem hér eru á dagskrá. Ég mun haga mínu máli á svipaðan veg og aðrir ræðumenn hér hafa gert, að tala ekki einungis um dagskrármálið, heldur einnig um frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga, en eins og öllum er kunnugt, eru þessi mál svo samantvinnuð, að þar verður ekki greint á milli í ræðum, svo að það hlýtur að verða að ræða þau bæði samtímis.

Hæstv. viðskrh. flutti hér langa ræðu áðan. Og mér kom það nokkuð á óvart, hve mikill fítonsandi gat í hann hlaupið miðað við það, sem hann sagði um frammistöðu stjórnarandstæðinga hér í þessum umr. Hæstv. ráðh. eyddi meginhluta síns tíma í það að ræða um þýðingu þess að fella niður nefskattana. Hér skal ekki dregið úr því, að þetta er atriði, sem kann að koma einstökum þegnum þjóðfélagsins til góða. Hæstv. ráðh. sagði í þessu sambandi, að það væri réttlátt að þeir, sem eiga eignir, og þeir, sem fá tekjur, tækju einhvern þátt í að greiða þessi gjöld til Tryggingastofnunar ríkisins. Þessi setning hæstv. ráðh. vat kannske í nokkru samræmi við málflutning hans í heild. Það er nú svo, að ég hygg, að þjóðin í heild eða gjaldþegnar þjóðfélagsins muni nú fá að greiða þessi gjöld að fullu, enda þótt nefskattarnir verði lagðir niður.

Það eru nokkur atriði í þeim frv., sem hér hafa verið rædd og eru á dagskrá, bæði í þessari hv. d. og hv. Ed., sem mér þótti ástæða til að víkja nokkuð frekar að en þegar hefur verið gert. Meðal þess er það, sem nefnt hefur verið endurskoðun eða lagfæring á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hv. frsm. meiri hl. n., hv. 5. þm. Austf., vék nokkuð að. Hv. 11. landsk. kom örlítið að þessu hér í sinni ræðu áðan, en mig langar til að gera þetta atriði frekar að umtalsefni.

Það er vissulega rétt, að nokkur tilfærsla er gerð með þessum fyrirhuguðu breytingum á skiptingu verkefna milli þessara aðila. Þessar breytingar ganga þó allar í eina og sömu átt, sem sé þá að færa viðfangsefni frá sveitarfélögum í hendur ríkisins og skerða tekjur sveitarfélaganna til samræmis við það og fá þar með ríkinu í hendur auknar tekjur á móti. Þegar rætt hefur verið á undanförnum árum um breytingar á tekju- og verkefnaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkis, þá hefur jafnan verið um það rætt, að um leið og þessi verkefnaskipting væri gerð einfaldari og skýrari, um leið og ríkið tæki að sér að fullu ákveðna málaflokka, þá fengju sveitarfélögin í staðinn ákveðin verkefni einvörðungu í sínar hendur og tekjustofna í samræmi við það. Þegar að því er staðið á þann hátt að færa verkefni og tekjustofna frá sveitarfélögum í hendur ríkisins einhliða, eins og hér er gert, þá miðar það að aukinni samþjöppun valds og fjármagns hjá ríkinu, og það er vissulega í samræmi við stefnu og aðgerðir þessarar hæstv. ríkisstj. í fleiri málum, svo sem þegar hefur komið fram á starfstíma hennar. Þessi atriði vil ég láta koma hér fram og lýsa andstöðu minni við þessa fyrirætlan.

Það hefur verið rætt um það, einkanlega fyrst eftir að þessi frv. voru lögð fram, og það með nokkuð mikilli drýldni af hálfu hv. stjórnarliða, að með þessu væri verulega verið að einfalda skattkerfið. Það er nú svo, að vissulega er um nokkra einföldun að ræða með afnámi nefskattanna. Enda þótt þeir heyri í sjálfu sér undir önnur lög, þá skiptir það ekki máli. Hins vegar er gengið verulega í þá átt að flækja skattkerfið á öðrum sviðum, og á ég þá einkum við það, að með því að taka upp skattlagningu á tekjur á algerlega nýjum grundvelli er skattkerfið gert flóknara og örðugra í meðförum en áður hefur verið. Með þessu móti er að mínu mati stefnt í öfuga átt. Þegar slík umbylting er gerð á skattkerfinu, sem hér er fyrirhuguð, þá var nauðsynlegt að stefna verulega að því að einfalda skattkerfið, ekki aðeins í tali hv. stjórnarliða, heldur einnig í reynd. Það mætti þá um leið verða skref í þá átt að taka upp staðgreiðslukerfi skatta, ef síðar yrði horfið að því ráði, en eins og kunnugt er, er einföldun skattkerfisins nauðsynleg forsenda þess, að svo megi verða.

Hér hefur mikið verið rætt um það, hvort skattbyrðin verði aukin, ef þessi frv. ná fram að ganga, eða hvort skattbyrðin léttist. Hér skal ekki farið mikið út í þá sálma, en hæstv. fjmrh. kom nokkuð að þessu í ræðu sinni hér í dag og hæstv. viðskrh. einnig, og báðir töldu og alveg sérstaklega hæstv. viðskrh., að um verulega lækkun eða léttingu skattbyrðarinnar yrði að ræða. Um þetta atriði er nú kannske einfaldast að bíða eftir skattseðlinum á komandi sumri, en það hefur þegar verið um þetta rætt á margan veg. Það er ekki sama, hvaða grundvöllur er lagður undir þann útreikning, sem gerður er í þessum efnum, og má þar nefna, að ef skattvísitalan er einungis ákveðin 106.5 stig, þ.e. hækkun um 6.5%, meðan almennar launatekjur í landinu hafa hækkað um 22—25%, þá sjá allir, að hér er um verulega fölsun að ræða. Talsmenn hæstv. ríkisstj. hafa talað um það hér í ræðum í dag, að fráfarandi ríkisstj. hafi ekki viljað ganga langt í því að hækka skattvísitöluna á undanförnum árum. Vissulega er það rétt, að því varð trauðla við komið að framfylgja þeirri stefnu, sem sú ríkisstj. setti sér, að hækka skattvísitöluna með eðlilegum hætti, á erfiðleikaárunum, sem yfir þetta þjóðfélag gengu á árunum 1967 og 1968. Þessa gætti einnig nokkuð á árinu 1969. En á síðasta ári var skattvísitalan hækkuð um 20%. Og ef svipað væri að málum staðið nú, þá mundi breytast sá grundvöllur, sem útreikningar hæstv. fjmrh. og annarra stjórnarsinna eru byggðir á um skattbyrði einstakra borgara þjóðfélagsins.

Hæstv. fjmrh. talaði um það hér í dag, að það væri látið að því liggja af hálfu stjórnarandstæðinga, að skattlagning á tekjur væri svo há, að hætta væri á, að það drægi úr framtaki manna og dug til þess að afla sér tekna og skapa þannig verðmæti í þjóðfélaginu. Hæstv. ráðh. viðhafði þau orð um þetta efni, að hann hefði nú talið, að það væri sérstakt ánægjuefni fyrir fólk að afla mikilla tekna og greiða mikið til sveitarfélaga og mikið til ríkisins. Ég hygg, að ýmsum skattborgurum í þessu landi þyki það athyglisvert, að hæstv. núv. ríkisstj. skuli vera þeirrar skoðunar, að það sé sérstök ánægja fyrir fólkið í landinu að eiga þess kost að greiða mikið í opinber gjöld.

Um þetta atriði vil ég svo bæta því við, að hæstv. ráðh. gat þess, að ekki væri sjáanlegt, að þarna væri um aukna skattbyrði að ræða, og þarna væri ekki um aukna álagningarprósentu að ræða, vegna þess að hámarksprósenta skattlagningar á tekjur í gildandi lögum er 57%, en miðað við þau frv., sem fyrir liggja, væri hámarksálagningarprósenta 55%. Þarna væri því síður en svo gengið í þá átt að auka skattlagningu á tekjur manna. Við þetta hefur hv. 11. landsk. þegar gert þá aths., að með því að í gildandi kerfi væri útsvar fyrra árs frádráttarbært og auk þess hefðu tekjustofnar sveitarfélaga verið svo rúmir, að víða hefði verið unnt að veita afslátt, þá hefði skattlagningin að meðaltali verið fyrir neðan 50%. Þótt ekki sé nú farið út í að meta frádrátt einstakra sveitarfélaga við útsvarsálagningu, þá er þó ljóst, að frádráttur útsvars síðasta árs veldur því, að álagningarprósentan fer niður undir 50%. Við þetta bætist svo það, sem hæstv. ráðh. virðist ekki hafa áttað sig á, eða, sem miklu er líklegra, talið hagkvæmt að vekja ekki athygli á, en það er það, að með því að finna upp hið nýja kerfi að leggja útsvör á brúttótekjur þá er unnt að lækka þessa prósentu, vegna þess að útsvarsálagningin leggst á tekjur alveg niður í botn. Ef miðað væri við hið fyrra kerfi, þar sem útsvarsálagningin var miðuð við nettótekjur og eðlilegan persónufrádrátt, ég tel naumast þann persónufrádrátt, sem gert er ráð fyrir hér í brtt., eðlilegan, — þá er ljóst, að það dygði ekki til, álagningarprósentan á tekjur væri 10% til sveitarfélaganna svo að sömu fjárhæð yrði náð. Miklu nær sanni væri að ætla, að hún þyrfti að vera a.m.k. 20%, ef ekki 25%. Þar með væri álagningarprósenta á tekjur komin upp í 65–70%, og svo kemur hæstv. ráðh. hér og segir, að ekki sé um aukna skattlagningu á tekjur að ræða.

Það eru vitaskuld ýmis atriði í þessum frv., sem ástæða væri til að ræða, og það verður væntanlega gert frekar en þegar hefur verið gert við þessar umr. Ég skal þó ekki fara út í mörg fleiri atriði.

Það er ljóst af tali hæstv. stjórnarliða, að þeir vilja einatt gleyma því, að hér er lagt til, að um mjög mikla hækkun eignarskatta verði að ræða. Eins og kunnugt er, þá er í gildandi lögum ákveðið, að þriggja millj. kr. eign sé skattfrjáls og næstu 3 millj. kr. séu mjög lágt skattaðar eða 0.4%. Nú er einungis 1 millj. kr. skattfrjáls og skattprósentan þegar mun hærri og hækkar auk þess mjög ört. Það er augljóst, að á þessum sköttum verður um mjög mikla hækkun að ræða. Einnig verður um mikla hækkun að ræða á fasteignasköttum, og eins og hv. frsm. 1. minni hl. gat um í sinni ræðu hér í dag, þá er það skoðun okkar sjálfstæðismanna, að fasteignaskattar eigi að vera þjónustuskattar til sveitarfélaganna og vera bundnir við ákveðna hámarksprósentu, en vera síðan hreyfanlegir innan þeirra marka eftir ákvörðun sveitarstjórnar til samræmis við það, hvaða þjónustu einstök sveitarfélög veita í sambandi við hinar ýmsu tegundir fasteigna.

Í frv. hæstv. ríkisstj. um tekjustofna sveitarfélaga, eins og það var lagt fram, er að því vikið í 23. gr., að skylt verði að ætla tekjur þeim mönnum, sem vinna við eigin atvinnurekstur, til jafns við það, sem þeir hefðu unnið hjá öðrum við sams konar fyrirtæki, ef þeir næðu ekki út úr rekstrinum slíkri tekjuhæð. Í brtt. meiri hl. n. er rokkuð dregið úr þessu ákvæði og þetta fært í heimildarform, og hafa hv. þm. stjórnarliðsins, sem eru í meiri hl. fjhn., kiknað undan þeim þrýstingi, sem ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar hefur mætt af þessu tilefni. Réttara hefði verið og raunar sjálfsagt að mínu mati að fella þessa málsgr. alveg niður. Ómögulegt er að segja um, hvort heimildin verður notuð eða ekki, en þó er líklegt, að svo kunni að fara, og raunar vissa fyrir því, að svo fari, ef um það verður að ræða, að sveitarfélögin skorti gjaldstofna til þess að leggja á. Við vitum, að það gengur mjög misjafnlega fyrir hin einstöku sveitarfélög að ná þeim gjöldum, sem þörf er á, og þegar slíkar heimildir sem þessi eru í lögum, þá má vænta þess, að þær verði í sumum tilvikum notaðar.

Það, sem hér er um að ræða, er það, að t.d. bónda, sem ekki nær sæmilegum tekjum út úr sínum búrekstri, yrðu ætlaðar tekjur til jafns við það, sem hann hefði unnið við búreksturinn hjá öðrum, og þar sem kaupgjald slíkra manna er ákaflega misjafnt, má ætla, að launaliður verðgrundvallarins yrði tekinn til viðmiðunar. Hv. þm. Framsfl. mun vera það kunnugt, að tekjur bænda eru mjög misjafnar. Það er svo, að einstakir bændur hafa mjög litlar tekjur, og kannske er það svo, að í engri stétt í þjóðfélaginu séu tekjur jafn misjafnar og hjá bændastéttinni. Yfir henni vofir því kannske meiri hætta en nokkurri annarri stétt þjóðfélagsins, að þessi heimild verði notuð til þess að leggja á útsvör eftir þessari gr., þrátt fyrir það að þeir hafi haft litlar sem engar tekjur út úr sínum búrekstri.

Ég skal ekki hafa um þessi efni öllu fleiri orð. Ég ítreka það, að þessi frv. hafa í augum okkar sjálfstæðismanna til að hera svo marga galla, og þau eru undirbúin með svo flausturslegum og óvönduðum hætti, að við höfum lagt til, að þeim verði vísað frá.

Hæstv. fjmrh. gat þess hér í dag, þegar hann var að telja upp þá menn, sem unnið hefðu að samningu þessa frv. undir sinni yfirstjórn, að vissulega hefði einn nefndarmanna hætt störfum í nefndinni, vegna þess að hann hefði þurft að fara til útlanda. Ég minnist nú þess, að þessi ágæti nm. birti yfirlýsingu í dagblöðum um, að hann hefði sagt sig úr þessari nefnd vegna þess, að þeir, sem þar réðu ferðinni, stefndu í þveröfuga átt í skattamálum við það, sem væri hans skoðun. Það hefði nú verið hreinlegast fyrir hæstv. ráðh. að segja hlutina um þennan nm. eins og þeir voru. (Gripið fram í: Hann tók það fram, þegar hann réð sig, að hann gegndi störfum til áramóta.) Ég vænti þess að hæstv. ráðh. sé ekki að bera brigður á þær yfirlýsingar, sem maðurinn hefur birt í dagblöðum.

Ég ítreka það, að þau frv., sem hér liggja fyrir, eru með þeim hætti, að rétt væri að vísa þeim frá. Svo virðist sem hv. frsm. meiri hl. n., hv. 5. þm. Austf., sé nú ekki heldur sérlega ánægður með þessi frv., því að hann sagði í lok sinnar löngu ræðu hér í dag, að víssa væri fyrir því, að nú þyrfti að taka til hendi. Enda þótt þessi frv. yrðu samþykkt, þá þyrfti nú aldeilis að taka til höndum við framhaldsendurskoðun skattalaganna og tekjustofnalaganna til þess að bæta um það, sem hér er verið að leggja til, að gert sé. Þetta er kannske einn ljósasti vitnisburðurinn um, hversu óvönduð vinnubrögð eru hér á ferðinni, þegar sjálfur frsm. meiri hl. fjhn. viðhefur þau orð, að þegar að lokinni þessari afgreiðslu þurfi rösklega að taka til hendi til þess að halda áfram endurskoðun og lagfæra það, sem betur þyrfti að fara.