07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég verð nú að segja eins og hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Norðurl. v., að ég held, að það hafi verið eitt af því fáa í ræðu hv. frsm. fjhn., sem mér fannst athyglisvert, þegar hann sagði, að það þyrfti að taka til hendinni í heildarendurskoðun þessara frv., sem nú á að lögfesta. Mér datt nú í hug, að bragð er að, þá barnið finnur, þegar hann fann þetta eftir allt það, sem á undan er gengið. Það hefur ekki verið létt hlutverk, sem þessi hv. þm. hefur haft að vera milligöngumaður milli ríkisstj. og fjhn. þennan tíma.

Ég ætla að taka það fram, að við sjálfstæðismenn í n. höfum ekki verið með neina gagnrýni vegna mistaka, sem urðu í sambandi við fundarboð. Það getur komið fyrir alla menn og alla starfsmenn, að einhver slík mistök eigi sér stað, en hitt vil ég minna hv. form. n. á, að 17. des., eða áður en frv. um tekjuskatt og eignarskatt er sent til fjhn., þá er að till. minni hl. fjhn., sjálfstæðismanna, lagt til, að frv. sé sent til umsagnar þeim aðilum, sem það var sent, til þess að spara tíma. Því segi ég það, að mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar hann og hæstv. fjmrh. eru að tala um, að við höfum verið að kvarta undan seinagangi í afgreiðslu þessa máls. Hæstv. fjmrh. ætlaði sér að lögfesta þessi frv. fyrir jól. Hann ætlaði að gera það í fyrstunni, en hann bara hætti við það, hann gafst upp við það. Það kom á fleiri en stjórnarandstæðinga, þegar þeir sáu framan í þessa skapnaði, sem hér liggja fyrir, þessi tvö frv. Það kom líka á ýmsa framsóknarmenn og aðra stuðningsmenn stjórnarflokkanna, það vita þessir hæstv. ráðh. Þeir víta og, að seinagangurinn, sem hefur verið að undanförnu, er ekki stjórnarandstöðunni að kenna. Hann stafar af því, að það hefur verið ósamkomulag á þessu svo kallaða heimili stjórnarflokkanna, því að þar hefur hver höndin verið upp á móti annarri í sambandi við afgreiðslu þessara mála. Það hefur því ekki verið skemmtilegt verkefni þessa hv. þm. að bíða og bíða, meðan verið var að semja í einhverjum herbergjum uppi í Arnarhvoli eða niðri í stjórnarráðshúsi eða hvar það hefur verið.

Það sýnir sig líka, hvernig fundarhöld hafa verið í n. Eftir að þing kemur saman að nýju 24. jan., þá er haldinn fundur í n. Þá er frv. lesið og rætt um vinnubrögð. Sameiginlegur fundur fjhn. beggja d. var haldinn 25. jan. Þá er aftur haldinn fundur, þá er mættur ráðuneytisstjóri fjmrn., maðurinn, sem var formaður aðstoðarnefndarinnar. Síðan er boðaður fundur 8. febr., en þar verða mistök, sem ég er engum um að kenna, en næsti fundur þar á eftir er ekki fyrr en 14. febr. Hvaða bil er hér um að ræða, af hverju er þetta bil, af hverju eru þessi göt öll í þessum vinnubrögðum? Það var vegna ósamkomulagsins á sjálfu stjórnarheimilinu. Hinn 16. febr. er haldinn fundur í n. aftur. Þá mætir sami maður, ráðuneytisstjóri fjmrn., og ríkisskattstjóri, sem mætti á fundinum 14. febr. til þess að gefa skýringar. Þann 17. febr. er farið að greina frá athugunum ríkisstj. og aftur kom nú maðkur í mysuna. 28. febr. er þar næsti fundur boðaður, og þá koma sérfræðingarnir frá Efnahagsstofnuninni, hagrannsóknastjóri og hagfræðingur með honum, og svo aftur 1. marz. Þetta er gangur þessa máls sannur og réttur, eins og hann liggur fyrir.

Hæstv. fjmrh. talaði um nefndina, sem hefði aðstoðað við samningu frv., og var helzt á honum að skilja, að þrátt fyrir þær aths. við frv., að þessi n. hefði verið til aðstoðar, þá hefði hún nú eftir allt samið frv. sjálf og ein. Hann sagði, að við hefðum sett út á þá menn, sem hefðu samið frv. Við settum út á það, að embættismenn eins og ríkisskattstjóri hefði ekki verið spurðir neins, maðurinn, sem er með hina tæknilegu þekkingu á framkvæmd laganna.

Svo leyfði ég mér að setja út á annað, hvort sem hæstv. fjmrh. líkar betur eða verr, að þegar verið er að endurskoða heildarskattkerfi íslenzku þjóðarinnar, þá skuli stjórnarflokkarnir einir eiga pólitíska fulltrúa í nefndinni. Stjórnarandstaðan á þar hvergi að koma nærri. Áður hefur verið komið inn á atvinnuvegina og launastéttirnar í því sambandi sem slíkar, en ég verð að segja það alveg eins og er, að stjórnarandstæðingar á Íslandi greiða ekkert síður skatta en stjórnarsinnar, og þeir eiga að hafa fulla heimild til þess að eiga aðild að og fylgjast með setningu og mótun nýrrar heildarlöggjafar í skattamálum þjóðarinnar. Það er þetta, sem ég leyfi mér að átelja.

Ég sé, að hann er kominn, hæstv. viðskrh. Hann fór nú hér heldur betur á kostum áðan. Hann kom lítið inn á, hver væri rekstrarstaða atvinnuveganna núna. Honum hefur þó orðið tíðrætt um þau efni á undanförnum árum. Það væri fróðlegt að vita það hjá honum, þegar hann flytti næstu stórræðu, hvort hann áliti, að rekstrarstaða atvinnuveganna og þá einkum útflutningsatvinnuveganna væri jafngóð núna í ársbyrjun 1972 og í ársbyrjun 1971. Telur hæstv. ríkisstj. og hæstv. viðskrh., að rekstrarleg staða atvinnuveganna sé jafngóð og fyrir ári? Telur hann, að þær breytingar, sem þessi frv. gera ráð fyrir, verði til þess að styrkja atvinnuvegina? Telur hann, að það, sem á undan er gengið í þjóðfélaginu í dýrtíðar- og verðlagsmálum, sé á þann veg, að það sé til að styrkja og efla stöðu atvinnuveganna? Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar í næstu stórræðu.

Hv. frsm. fjhn. talaði um, að fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin, hefði ekki verið mjög þægileg í samskiptum við sveitarfélögin. Öðrum ferst, en ykkur ekki, framsóknarmenn. Þið ættuð að minnast þess, að 1951 flutti Gunnar Thoroddsen frv. og lagði til, að 20% af söluskattinum yrði varið til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sjálfstfl. stóð að baki Gunnari Thoroddsen í þessu efni, en hvað skeði? Það var stjórnarsamstarf þá á milli Framsfl. og Sjálfstfl. Þeir ætluðu að verða alveg hringlandi vitlausir, ráðh. Framsfl., yfir því að veita sveitarfélögunum slíka fyrirgreiðslu sem þessa, og það var ekki um neitt annað að ræða en þetta: Annaðhvort er stjórnarsamstarfinu slitið eða þið verðið að falla frá þessari kröfu til þess að rétta hag og hlut sveitarfélaganna. Þannig var nú andinn hjá framsóknarmönnum til sveitarfélaganna í þá daga.

Það hefur verið lítið minnzt á fasteignaskattana hér í þessum umr. Það er ákaflega sakleysisleg gr. í frv. um tekjustofna sveitarfélaga í ákvæðum til bráðabirgða, 4. liður, það ber ekki mjög mikið á honum, en hann er svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fjmrh. er heimilt að ákveða breytingu á hinu nýja fasteignamati til samræmis við verðlag í árslok 1971.“ Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur hann ákveðið að nota þessa heimild, sem hann hefur, þegar búið verður að lögfesta þetta frv.? Ef svo er, hvernig ætlar hann þá að ákvarða hækkun á fasteignamatinu miðað við árslok 1971? Hvernig stendur á því, að sérfræðingarnir, sem eru að mæta hjá okkur í n., reikna með 20% hækkun á fasteignamati, eins og það var í árslok 1971? Finna þeir það upp hjá sjálfum sér að gera það eða er það ætlun ríkisstj. og fjmrh. að hækka fasteignamatið, eftir að þetta frv. er orðið að lögum? Svo á að vera í höndum sveitarfélaganna heimild til að leggja 50% á leyfða fasteignaskatta samkv. þessu frv. Því verð ég nú að segja, að fasteignaskattarnir verða orðnir æðiþungur baggi á almenningi í landinu. Ég skal játa það, að í skýrslum og gögnum, sem ég hef séð, eru fasteignaskattar yfirleitt lágir á Norðurlöndum og í nágrannalöndum okkar, en tiltölulega háir í landi eins og Bandaríkjunum. En það er líka mikill munur á þessum löndum, því að á Íslandi eru tiltölulega langflestir fasteignaeigendur. Hér hefur verið sú stefna ríkjandi, að flestir ættu sínar eigin íbúðir, en byggju ekki í leiguíbúðum. Þess vegna er þetta hlutfall miklu hærra hér og kemur fyrst og fremst á almenning í landinu, sem eru eigendur sinna fasteigna eða þeirra íbúða eða húsa, sem þeir búa í.

Það er dálítið fróðlegt að sjá, að á tiltölulega litlu einbýlishúsi hér í Reykjavík var fasteignaskattur á þessu ári 4 722 kr., en ef þetta frv. verður að lögum, þá verður fasteignaskatturinn 14 605 kr. Hann rúmlega þrefaldast. Ef fjmrh. ætlar að nota heimildina um 20% hækkun fasteignamatsins, þá þýðir það á þetta hús 2 921 kr. til viðbótar, þannig að fasteignaskatturinn er kominn í 17 526 kr. eða 3.7–faldast. Við skulum segja, að það séu hús í einhverjum sveitarfélögum, sem verða að nota sér heimildina, fara allt upp í 50%. Það þýðir, að fasteignaskatturinn er kominn í 26 289 kr. eða hefur þá 5.6–faldast. Þetta fer nú að verða anzi alvarlegt fyrirbrigði, og ég held, að hæstv. viðskrh. hafi slegið óskaplegt vindhögg, þegar hann réðst hér að einum þm. áðan og sagði, að hann hefði skrifað grein í Morgunblaðið út af því, hvernig væri farið með gamla fólkið. Ég skal segja hæstv. viðskrh. það, ef hann hefur ekki vitað það áður, að það er fjöldi af öldruðu fólki, sem hefur litlar tekjur, sem á fasteignir, sem eru nokkuð stórar. Þetta er fólk, sem heldur tryggð við íbúðir, sem það hefur búið í, meðan börnin voru að fæðast og alast upp, og það vill ekki slíta þau bönd. Á að knýja þetta fólk með margföldun fasteignaskatta til þess að yfirgefa þau heimili, sem það hefur reist sér, meðan það var í fullu fjöri og hafði góðar tekjur? Þetta er röng stefna að mínum dómi, en ég veit það og þekki af langri reynslu, að þegar hæstv. viðskrh. hefur tekið eitthvað í sig, þá heldur hann í það dauðahaldi, hversu vitlaust sem það er.

Ég held það hafi komið töluvert á a.m.k. allstóran hóp framsóknarþm. og framsóknarmanna og auðvitað manna úr öllum flokkum, þegar þeir sáu 23. gr. frv. til I. um tekjustofna sveitarfélaga, 4. málsgr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vinnur einstaklingur eða hjón, annað hvort eða hæði, eða ófjárráða börn þessara aðila við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, og skal þá skattstofn sem brúttótekjur þar af aldrei ákveðinn lægri í heild en ætla má, að laun þessara aðila, miðað við vinnuframlag þeirra, hefðu orðið, ef þeir hefðu unnið starfið í þágu annars aðila.“

Ég held það hafi farið um marga. Hvað ætli hefði heyrzt hér á Alþ., ef fyrrv. stjórnarflokkar hefðu lagt fram frv. með slíkum ákvæðum eins og þessum? Ég er hræddur um, að sumir þm., sem þá töluðu mikið, en tala lítið núna, hefðu haft hátt.

Minn ágæti vinur, hv. formaður fjhn., snupraði okkur sjálfstæðismenn fyrir það að hafa ekki brtt. til á stundinni. Ég segi nú bara: Loftar þú þessu, Pétur? Við höfum, eins og ég hef lýst, starfað í fjhn.; við höfum mætt þar, þegar við höfum verið boðaðir. Hann hefur boðað fundi, þegar hann hefur getað boðað fundi. Það er vegna þess, að yfirstéttin hefur verið að ráðskast með afkvæmin, og brtt. voru að fæðast alveg fram á síðasta dag. Og eins og ég sagði í dag, þá fæddist brtt., eftir að við slitum samvistum í n., þessi stórkostlega brtt. meiri hl., hvað snertir aldraða. Við höfum flutt, eins og margoft hefur verið tekið fram, rökstudda dagskrá, sem við höfum rökstutt að fullu og öllu, ég held, að það sé ekki hægt að fara fram á það, ekki einu sinni af röskustu mönnum, að fulltrúar flokks fái ekki einn dag til þess að ganga frá brtt. sínum, ef dagskrártill. þeirra er felld. Mér finnst ekki ástæða til að snupra okkur fyrir það að fara fram á öll þessi ósköp, eftir það sem á undan er gengið og við berum enga sök eða ábyrgð á.

Mér hefur alltaf líkað mjög vel við hæstv. fjmrh., en mér ofbauð alveg ræðan hans í dag. Ég hélt hann vildi vera sannorður og segja satt og rétt frá hlutunum. Það hafa nú aðrir komið inn á þetta atriði, bæði í 1. landsk. þm. og sömuleiðis 5. þm. Norðurl. v., en það er samanburður á skattlagningunni. Að hugsa sér að taka sér í munn slíkt, sem hæstv. ráðh. gerði, og segja, að skattlagningin verði samkv. þessum frv. 54% á móti 57% samkv. gildandi löggjöf. En hún getur nú auðvitað orðið með heimildum 55%. Þeir hv. þm., sem ég vitnaði í áðan, hafa auðvitað leiðrétt þetta, en hvernig stendur á því að hv. fjmrh. leyfir sér að fara út í slíkan samanburð, þegar um gjörbreytingu á frádráttarliðum til útsvars er að ræða? Það veit hann ósköp vel, og þar er ekki um neinn misskilning að ræða, að skattprósentan í heild, miðað við nettótekjur, er miklu hærri en hún hefur verið, því að meðalprósentan hefur verið liðlega 50% eða um 51% og hér í Reykjavík rúmlega 49%. Þess vegna er ég undrandi á því, að hæstv. fjmrh. skuli hætta sér út á svo hálan ís, en það skal ég þó segja um ríkisstj. í heild, að ég hefði ekki haldið, að þar væru svo miklir fimleikamenn, a.m.k. ekki eftir útliti þeirra að dæma, sumra hverra, eins og raun ber vitni, í sambandi við allan málflutning og málatilbúnað í þessum málum.

Hún gleður mig mikið, hirðusemi hæstv. viðskrh., að geyma öll plögg frá skattalaganefndinni, og sýnir það, að þar er maður, sem passar upp á hlutina og týnir engu. Og það minnir mig á hæstv. fjmrh. og yfirlýsingu eða svar, sem hann gaf nýlega við kröfugerð, að það væri mjög gott að fá nóg af kröfum, og það er talið, að það sé að verða þröngt þar innandyra, eftir að kröfur fóru að hlaðast þar upp.

Hæstv. viðskrh. sagði, að ríkisstj. síðasta hefði gefizt upp á að afgreiða skattafrv., sem hún flutti 1970. Þegar það frv. kom til umr., var m.a. þessi hæstv. ráðh., sem þá var í stjórnarandstöðu, einn af þeim, sem óskuðu eftir því, að þessu frv. yrði frestað til nánari athugunar. En það var bara gert annað þá en nú, það var orðið við þeirri beiðni. Þetta veit hæstv. viðskrh. vel. Það er ekki rétt hjá hæstv. viðskrh., að atvinnurekendur hafi lagzt gegn því frv. eða ákvæðum frv. Ég kom inn á það í ræðu minni hér í dag, og það þýðir ekki fyrir hann að halda fram vitleysu eins og þessari.

En það mætti segja mér, að þegar hann heldur fram æ ofan í æ, allt frá því að hann setti kerfið inn í sjálfvirka heilann í desember, að hér sé um stórfellda skattalækkun að ræða, og enn heldur hann sér við þetta sama, að honum hafi tekizt að sannfæra fjmrh. um þessar tölur að mestu eða öllu leyti. Samfara þessu heldur hæstv. viðskrh. því fram, að þessi ríkisstj. sé að hverfa frá beinu sköttunum, hún sé að draga stórkostlega úr söluskatti. Það hafi hún gert, þegar hún tók við völdum, og það gerir hún með þeim hætti, að í fjárlögum ársins 1971 eru áætlaðar tekjur af sölusk. 4 849 millj. kr., en í fjárlagafrv., sem þessir herrar samþykktu fyrir jólin, er söluskatturinn, sem lækkaði svona óskaplega, eftir því sem hann sagði, áætlaður 6 587 millj. kr. Þannig er meðferð hæstv. viðskrh. á tölum. Þannig sýnir hann alveg, hvernig allt er í pottinn búið, þetta sé lækkun. Þegar söluskatturinn hækkar um 1 700 millj. kr. á einu ári, þá er verið að draga stórkostlega úr söluskatti. Þegar útgjöld fjárlaga hækka um 50%, þá segir hann, að allir skattar komi til með að lækka stórlega. Þetta er, eins og einn stjórnarþm. sagði hér í vetur, afrek út af fyrir sig, stórkostlegt afrek, sem mun verða lengi í minnum haft.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en það er af nógu að taka. En ég ætla að enda á því að segja það, að ég held, að þegar flett verður ofan af núv. hæstv. ríkisstj., þegar hún hefur runnið sitt skeið til enda, þá muni enginn efast um, og ekki einu sinni þrákelkniskarlinn, sem viðskrh. nefndi, að það er ekki ýsa sem sést. Það verður frekar hin fisktegundin, sem ráðh. nefndi.