09.03.1972
Neðri deild: 49. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu minni við 2. umr. um þetta frv., þá lýstum við yfir því, fulltrúar 1. minni hl. í fjhn., að við mundum, ef dagskrártill. okkar næði ekki samþykki, freista þess að flytja brtt. við frv. við 3. umr. Þó að við höfum lýst yfir ákveðinni andstöðu okkar við samþykkt þessa frv., þá viljum við freista þess að gera lagfæringar á frv., taka af því verstu agnúana og mesta ranglætið, eins og það liggur nú fyrir. Enn fremur flytjum við nokkrar minni háttar brtt., sem skipta ekki höfuðmáli, en eru þó vegna kerfisbreytinga nauðsynlegar að okkar dómi, eins og frv. er núna.

Það hefur sína mörgu og stóru galla, að þegar verið er að afgreiða löggjöf eins og þessa, sem búin er að vera í meðferð ríkisstj. og Alþ. nokkurn tíma, og þegar brtt. koma fram rétt fyrir 2. umr. og dagskrártill. um að vísa frv. frá, þá sé svo mikill hraði á milli 2. og 3. umr., að þm. almennt geti ekki átt þess kost að kynna sér til hlítar þær brtt., sem fram eru bornar við 3. umr. málsins, því að það var nú aðeins fyrir 3–4 mínútum verið að dreifa brtt. okkar í 1. minni hl. fjhn., og rétt fyrir kl. 2 var frv. dreift hér að nýju eftir meðferð málsins við 2. umr.

1. brtt. okkar er afar lítil, en við teljum þó ástæðu til að breyta síðustu setningu í 1. mgr. 1. gr. frv., en hún er þannig nú í frv.: „Annar frádráttur en persónuleg gjöld konunnar telst við útreikninginn hjá eiginmanninum.“ Við viljum breyta þessu orðalagi á þann veg, að „annar frádráttur en persónuleg gjöld telst við útreikninginn hjá því hjóna, er hefur hærri tekjur.“ Við teljum þetta eðlilegt og sanngjarnara, og hygg ég, að flestir geti tekið undir þessa till.

2. till. okkar er í raun og veru samhljóða eins og er í frv. við 3. gr., 2. tölul., að því tilskildu, að við fellum aftan af 2. tölul., eins og menn sjá, þegar þeir bera það saman.

3. brtt. okkar er fyllri en er núna í 4. gr., A-lið, í frv. Við leggjum til í sambandi við orðin „Veitir hluthöfum, stjórnendum félags“, að einnig komi þar inn: „eigendum sameignarfélags, aðilum samvinnufélags“, það bætist við. Nú stendur og: „öðrum lán í peningum eða öðrum verðmætum eða kaupir af þeim verðbréf, sem ekki eru viðkomandi rekstri félagsins.“ Við viljum, að við bætist: „Undanskilin eru þó kaup opinberra verðbréfa ríkis, sveitar- og sýslufélaga, þar með talin skuldabréf og ríkisábyrgð.“ Ég hygg, að þetta sé eðlilegt, að þessum aðilum sé í raun og veru heimilt að kaupa opinber verðbréf, bæði koma til móts við ríkið, leita eftir nýjum framkvæmdalánum, sem sennilega verður haldið áfram, og sömuleiðis frá þeim sveitarog sýslufélögum.

Úr 4. gr., B-lið, viljum við, að niður falli orðið „arðsúthlutun“, og á eftir „eðlilegar launagreiðslur“ komi: „eða úttekt á höfuðstól í sameignarfélagi, sem sé meiri en svari til 10% ársvaxta af bókfærðu eigin fé félagsins, [og við bætist:] öðru en varasjóði.“ — Við teljum enga ástæðu til að binda það í lögum, að félög megi ekki greiða hærri arð en 10%, og við viljum benda á, að það líða ár og það fleiri en eitt og fleiri en tvö, að mörg fyrirtæki eða félög greiða engan arð. Þess vegna getur að því komið, að félög hafi ráð á að bæta hluthöfum sínum arðmissi í eitt ár eða fleiri, þegar mjög vel gengur, og þá sé sjálfsagt auðvitað, að hér sé um opna leið að ræða. Ég vil benda á, að ef menn leggja fé, bundið fé í banka, þá fá þeir allt að 9% vexti, en ef þeir leggja fé í áhættu, á að binda það við hámark 10%. Svo vil ég líka benda aftur á það, sem er eitt af stefnumálum okkar sjálfstæðismanna, að við viljum, að að atvinnurekstri, ekki neinni sérstakri grein, heldur öllum atvinnurekstri í landinu, sé þannig búið, að hinn almenni launþegi fái áhuga á því að gerast þátttakandi í atvinnurekstrinum og hann leggi fram af því fé, sem hann getur lagt af mörkum hverju sinni, til þess að byggja upp atvinnurekstur í landinu, og þá á hann ekki frekar en aðrir að njóta lakari kjara, ef vel gengur, heldur en binda fé í banka eða sparisjóði, og ég skil nú eiginlega ekki í því, hvers vegna þessu ákvæði var í raun og veru breytt og hvað þeir, sem þetta frv. sömdu og hafa mest um það fjallað, hafa séð í því að feila þetta niður.

Við C-lið 3. gr. leggjum við til. að bætist, „að félög samkv. 5. gr. laga nr. 90 frá 1965, sem lagt hafa fé í varasjóð samkv. 2. mgr. 17. gr. þeirra laga og eiga fé í varasjóði við gildistöku þessara laga, leggi helming varasjóðsins við höfuðstól sinn, og telst sú ráðstöfun varasjóðs ekki til skattskyldra tekna félagsins. Um ráðstöfun þess hluta varasjóðsins, sem eftir stendur, skal fara samkv. öðrum ákvæðum þessarar gr.“ — Þessi viðbót skýrir sig sjálf, og skal ég ekki frekar fara inn á hana.

Stjórnarflokkarnir gerðu nokkra breytingu á upprunalega frv. með því að samþykkja sjómannafrádrátt, og hann var tekinn hér inn við 2. umr. sem ný gr., og er hann nú 6. gr. og er á þann veg, að samkv. 1.–4. mgr. 14. gr. gildandi laga skal frá beinum tekjum sjómanna af fiskveiðum á íslenzkum skipum draga 8% teknanna, áður en skattur er á þær lagður. Við viljum gera á þessu töluverðar breytingar, eins og ég í raun og veru boðaði við framsöguræðu mína í upphafi 2. umr. Við höldum okkur við ákvæði 14. gr. laganna, eins og þau eru í gildandi lögum, hvað snertir bæði frádrátt vegna hlífðarfata, sérstakan frádrátt á hvern mánuð, með þeirri breytingu, að við hækkum frá gildandi lögum þessar upphæðir um 21.5%, sem er viðurkennd af öllum að vera lágmark þeirrar tekjuaukningar, sem orðið hefur í þjóðfélaginu, og meira að segja varfærnustu hagfræðingar hafa þegar viðurkennt, að hún er orðin 24.5%. Við höldum okkur þó við þessa upphæð, viljum ekki fara lengra, þó að við hefðum auðvitað átt að fara þegar upp í a.m.k. 24.5%, en vegna þess að við flytjum aðrar till., sem kosta útgjöld og tilfærslur, þá viljum við ekki fara lengra.

Við þetta bætum við einni till., sem er í samræmi við frv., sem ég gerði einnig að umræðuefni við 2. umr. þessa máls, og við flytjum, fjórir þm. Sjálfstfl. í þessari hv. þd., og 1. flm. þess er 4. þm. Vesturl., en í því frv. leggjum við til, að fiskimenn fái auk áður umtalaðs frádráttar 90 þús. kr. tekjur á ári miðað við 9 mánuði. Við teljum eftir atvikum rétt að breyta þessu, sem er í okkar frv., því að það hefur ekki fengizt afgreitt frá fjhn., þótt það hafi legið þar fyrir lengri tíma en frv. um tekjuskatt og eignarskatt hefur legið fyrir, en við teljum ástæðu til að breyta frá þessu frv., að leggja 21.5% á það, þannig að þessi viðbótarfrádráttur verði í 10 þús. kr. á ári miðað við, að þeir menn, sem lögskráðir eru á íslenzk skip eigi skemmri tíma en 6 mánuði á ári, njóti þessa frádráttar.

Sömuleiðis gerum við þá miklu breytingu á þessu, að við látum þennan frádrátt ná til allra íslenzkra sjómanna, en ekki aðeins til fiskimanna, eins og upphaflega var gert ráð fyrir í frv. Skal ég nú rökstyðja þessa breytingu, sem og raunar allar aðrar breytingar í sambandi við frádrátt vegna sjómanna.

Frádráttur sá, sem sjómenn hafa notið í sveitarfélögum sínum, í sínum heimabyggðum, er með tekjustofnafrv. felldur niður með öllu, og eftir þá samþykkt, sem stjórnarflokkarnir gerðu í sambandi við sjómannafrádrátt, þá nær hann eingöngu til fiskimanna samkv. samþykktinni, en farmenn eru sviptir öllum frádrætti frá tekjum, þeim hlunnindum, sem þeir hafa áður haft, með frv. stjórnarinnar, eins og það er nú. Ég hélt því fram, að þessi till. stjórnarfiokkanna gengi mun skemmra í hlunnindum til sjómanna en væri nú í gildandi lögum, þegar miðað er við þau hlunnindi, sem þeir hafa notið við álagningu útsvara í sveitarfélögum sínum, og mér láðist þá að geta þess, að hlunnindi þeirra, sem á kaupskipunum eru, voru skert svo hrapallega, að það voru algerlega niður felld hlunnindi þeirra hjá sveitarfélögunum og auk þess skert hlunnindi samkv. gildandi lögum, eins og þau eru nú í 14. gr. Ég veit ekki, hvort þetta hefur verið athugað hjá hv. stjórnarflokkum til hlítar eða hvort þetta er í raun og veru ætlun þeirra, að afgreiða skattfríðindi eða hlunnindi sjómannastéttarinnar með þessum hætti.

Ég vil bæta því við, að við vitum, að það er mikil mannekla í störfum á sjónum, sérstaklega á fiskiskipunum, en ég segi fyrir mitt leyti, að það eitt út af fyrir sig ræður ekki afstöðu minni til þess, að þessi eina stétt eigi öðrum stéttum fremur að búa við hlunnindi, það er fyrst og fremst vegna þess, hvað þessi stétt er verr sett en aðrar. Vegna langrar fjarvera frá heimilum sínum, þar sem aðrir geta unnið í frítímum fyrir heimili sín, þá verða þessir menn oft að kaupa slíkt fullu verði, og því ber að taka tillit til þess, og þess vegna ber ekki síður að taka tillit til áhafna á kaupskipaflotanum en fiskimanna í þessum efnum.

Í 5. gr. brtt. okkar við 8. gr. frv. leggjum við til á grundvelli þess, að skattvísitalan á ekki að taka gildi fyrr en á árinu 1973 samkv. gr. í frv. ríkisstj. hér á eftir, að persónufrádráttur hækki um sömu prósentutölu og ég gerði hér áðan að umræðuefni, eða um 21.5%, þannig að frádráttur einstaklinga verði 162 900 kr. Fyrir hjón verði frádrátturinn 228 500 kr., og telji þau fram sitt í hvoru lagi, þá verði hann 114 250 hjá hvoru. Fyrir hvert barn, sem er á framfæri skattþegns og er ekki fullra 16 ára í byrjun þess almanaksárs, þegar skattur er lagður á, komi 32 800 kr. í staðinn fyrir 30 þús. kr. Sama er að segja um aðrar tölur, sem hér koma fram í þessari gr., að þær hækka um sömu prósentu, en eru auðvitað „rúnnaðar“ af, en við höldum okkur við það, sem er í núgildandi lögum í sambandi við frádrátt frá hreinum tekjum einstaklinga, sem náð hafa 67 ára aldri á skattárinu, að það nemi 2/5 hlutum af fjárhæð frádráttar samkv. A-lið 1. málsgr. Svo er aftur breyting til viðbótar um heimild skattstjóra til að veita aukinn frádrátt og lækka tekjuskatt. Það fer eftir ákvæðum, sem segir í 52. gr.

Í 6. brtt. leggjum við til, að sú breyting verði gerð, að félög megi draga frá hreinum tekjum sínum það fé, sem þau greiða félagsmönnum sínum í vexti af stofnsjóðseign allt að því hámarki, sem ákveðið er í 7. tölul. 3. gr. laga um samvinnufélög, og að 5. málsgr. orðist þannig:

„Hafi félög þau, sem um ræðir í 3. og 4. mgr. þessarar greinar, viðskipti við aðra en félagsmenn sina, eru allar hreinar tekjur af slíkum viðskiptum skattskyldar hjá félögunum. Geti félög þessi ekki gert grein fyrir viðskiptum við utanfélagsmenn, má telja allar hreinar tekjur af starfsemi þeirra til skattskyldra tekna.“

Þetta teljum við fyllra og ákveðnara, og lögð er meiri ábyrgð á félögin með því að hafa þetta orðalag á.

Í sambandi við 7. brtt. þá gerum við enga breytingu á því, sem ríkisstj. hefur ákveðið, að skattþrepin verði þrjú. Af fyrstu 50 þús. kr. greiðist samkv. frv. 25% tekjuskattur, og á bilinu 50–75 þús. kr. greiðist 35% tekjuskattur, og á bilinu yfir 75 þús. kr. greiðist 44% tekjuskattur. Ríkisstj. lagði fram upprunalega, að tekjuskatturinn á hæstu tekjur yrði 45%, en lækkaði sig svo niður í 44% við 2. umr. málsins, en með fullu tilliti til þess, sem áður hefur verið lýst af mér og öðrum mínum flokksbræðrum hér við fyrri umr. þessa máls, þá erum við sannfærðir um það, að í tekjuáætluninni eru of lágt áætlaðar tekjur og það mjög verulega, enda hefur verið að fást á því viðurkenning smátt og smátt, þótt það hafi gengið heldur illa. En ef hafður hefði verið enn lengri tími, þá mundu sennilega fást fleiri játningar en þegar eru komnar fram, á því, hvað tekjur hafa hækkað frá tekjum ársins 1970. Með tilliti til þessa þá leggjum við til, að skattprósentan verði 20% á fyrsta þrepi, 30% á öðru þrepi og 40% á þriðja og hæsta þrepinu, enda er það í fullu samræmi við það, sem við höfum áður haldið fram í sambandi við hámarksskattlagningu eða skattlagningu á hæstu tekjur eða á síðustu krónunni réttara sagt.

Í öðru lagi leggjum við til, að skattgjöld þeirra félaga og stofnana, er um ræðir í 5. gr., skuli vera 20% af skattgjaldstekjum. Í gildandi lögum er hér um að ræða 43% skatt, en 53% í frv. ríkisstj., og eins og nú er háttað, þá fær ríkissjóður 20% af þessum skatti og sveitarfélögin 23%, og ef við segjum, að stofninn sé 990 millj. kr., þá mundi af þessum skatti framlag til sveitarfélaganna nema 227 millj. kr. Þetta kemur einnig heim við það, sem við höfum áður haldið fram, að tekjur eru vanáætlaðar. Þó að breytingar yrðu gerðar samkv. okkar till., þá munu ekki verða skertar neitt verulega eða mjög óverulega þær tekjur, sem ríkissjóður í reynd kann að fá. Það má líka segja, að það megi byggja út frá ýmsum forsendum, eins og frsm. hv. fjhn. gerði í ræðu sinni við 2. umr. málsins, þegar hann reiknaði út, — sennilega hefur hann látið reikna það í heila eða jafnvel þeim sjálfvirka, — að áætlað tap ríkissjóðs vegna samþykkta á brtt. meiri hl. n. næmi 146 millj. kr., en þá miðaði hann við innheimtutölu, 146 millj. kr., en ekki við álagningartölu skattsins, sem er í þessu hlutfalli 215 millj. kr. Þetta er auðvitað alröng mynd, sem er með þessum hætti dregin upp í sambandi við hina raunverulegu skattbyrði.

Til þess að stytta sem mest mál mitt þá eru hérna nokkrar till., sem eru eingöngu fluttar vegna kerfisbreytinga, sem verða með samþykkt þessa frv. Sérstaklega vil ég vekja athygli á 13. brtt., en þar teljum við, að ákvæði 13., 14., 15., 16. og 18. gr. skuli þó eigi taka gildi fyrr en 1. okt. 1972, og skal ríkisskattanefnd samkv. lögum nr. 68/ 1971 og nefnd samkv. 48. gr. þeirra laga starfa og halda óbreyttum heimildum sínum til þess tíma. En samkv. frv. er lagt til, að hin nýja ríkisskattanefnd taki við 1. okt. á þessu ári, svo að það leiðir af sjálfu sér, að umboð ríkisskattanefndar, eins og hún er núna, verður að framlengjast fram að þeim tíma, sem ríkisstj. ætlar, að kerfisbreytingin eigi sér stað. Þetta tel ég, að hv. stjórnarliðar þurfi alvarlega að athuga, áður en kemur að endanlegri afgreiðslu þessa máls.

Sömuleiðis þykir mér rétt að vekja sérstaka athygli á 12. brtt., en þar viljum við, að við 2. tölul. 22. gr. (er verði 23. gr.) komi ný málsgr.:

„Það skal teljast beiðni um heimild til endurmats fasteigna á árinu 1971, hafi skattþegn notað fasteignamatsverð samkv. 2. málsl. 1. málsgr. þessarar gr. sem heildarfyrningarverð til fyrninga í skattframtali árið 1972.“

Endurmat samkv. gildandi lögum á að fara fram á árunum 1971 og 1972, og það hafa ekki nema tiltölulega fáir sótt um sérstakt endurmat. Og það er sérstaklega áberandi, að í landbúnaði hefur ekki, að því er ég bezt veit, verið beðið um endurmat á fasteignum, hvorki útihúsum eða öðrum mannvirkjum, og fjölmargir aðrir fasteignaeigendur í bæjum landsins hafa sennilega litið þannig á, að það væri nóg að telja fram eftir gildandi fasteignamati og taka sína fyrningu eftir því, sem skattalög ákveða. En eins og þetta liggur nú fyrir, þá geta skattyfirvöld neitað, og því hygg ég, að það sé mjög nauðsynlegt og í fyllsta máta sanngjarnt að bæta þessari nýju mgr. við 23. gr. laganna og þá alveg sérstaklega vegna landbúnaðarins og fjölmargra fasteignaeigenda í landinu.

Eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki að hafa þessi orð miklu fleiri í sambandi við brtt. En þó vil ég minna á, að ég tel, að hæstv. ríkisstj. gangi engan veginn nógu langt í sambandi við persónuskattana, og ég hef auðvitað aldrei efazt um höfðingsskap þeirra, sem mynda núv. ríkisstj., en þeim getur sézt yfir eins og öllum öðrum.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði síðastur hér við 2. umr. og vildi nú eiginlega bjóða upp á málþóf með þeirri ræðu, þegar búið var að tala fram á nótt. Hann sagðist nú tala sem sérstök málpípa hv. 4. þm. Reykv., þess, sem upprunalega var kjörinn, og þurfti að bera af honum ámæli, sem ég átti að hafa viðhaft. Ég tók það fram, að ég saknaði alveg sérstaklega þess, að hinn upprunalegi 4. þm. Reykv. fengi ekki að taka þátt í lokaafgreiðslu þessa frv., þó að ég á engan hátt sé neitt óánægður með það, að sá, sem nú ber þennan titil, sitji í því sæti. En ég hefði gjarnan viljað ræða meira um skattvísitöluna við hann heldur en þann, sem núna er inni, í sambandi við framfærsluvísitöluna og þá skoðun, sem Þórarinn Þórarinsson hefur margoft haldið fram. Hann sagði hér á s.l. ári við umr. um frv. um tekjuskatt og eignarskatt, að ef framfærsluvísitalan væri leiðrétt, væri það sín skoðun, að frádráttur einstaklinga ætti ekki að vera 134 þús. kr., eins og var í því frv., og það var endanlega samþ., heldur ætti að gera ráð fyrir því, að hann yrði 156 þús. kr. Frádráttur hjóna átti að dómi Þórarins Þórarinssonar ekki að vera 188 þús. kr., heldur fara í 220 þús. kr., og frádráttur vegna barna átti að fara úr 27 þús. kr. í 35 þús. kr. — En nú er hann víðs vegar fjarri. Nú hefði hann sannarlega staðið með okkur stjórnarandstæðingum að ná þessum sanngjörnu og eðlilegu breytingum á persónufrádrætti.

En alltaf vill manni til eitthvert happ. Þó að Þórarinn sé horfinn, eigum við þó eftir hér á þingi hæstv. viðskrh., Lúðvík Jósepsson. Hann flutti till. á s.l. vori um það, að persónufrádráttur fyrir einstakling hækkaði í 156 þús. kr., — þessi till. er til á prentuðu þskj„ — og persónufrádráttur hjóna hækkaði í 220 þús. kr., og ef þau teldu fram sitt í hvoru lagi, fengju þau sama frádrátt sem um einstakling væri að ræða. Það er eitthvað annað en núna er. Frádráttur á hvert barn, lagði hann til, að yrði 35 þús. kr.

Nú sjáum við, að samkv. frv. ríkisstj., — þó að ár sé liðið, — þá er persónufrádráttur fyrir einstakling 11 þús. kr. lægri en sjálfur Lúðvík Jósepsson lagði til á s.l. ári. Nú þykir mér sumum fara aftur. Er þetta virkilega á þann veg, að Lúðvík Jósepsson hafi breytt svona skyndilega um skoðun? Eða er það vegna þess að hann, sem allir álíta mesta ráðamanninn í ríkisstj., hafi orðið að beygja sig fyrir einhverjum íhaldsöflum, sem eru innan ríkisstj.? Og þá spyr ég: Hver eru þá þessi íhaldsöfl innan ríkisstj., sem beygja Lúðvík Jósepsson og Þórarin Þórarinsson á þann hátt, að hann þarf að flýja afgreiðslu skattamálsins alla leið til Ameríku? Eru það framsóknarmenn? Er það fjmrh., sem gengur svona langt í þessum efnum? Eða er það flokkur léttlyndra eða frjálslyndra, eða hvað hann heitir? Vonandi koma skýringar á þessu hér á eftir. Á þessu vill fólkið fá skýringu. Það vill fá að vita það, hvað veldur þessum skyndilegu breytingum þessara miklu og ágætu og glöggu manna.

Ég spurði hæstv. fjmrh. að því við 2. umr. málsins, hvort hann hygðist hækka samkv. bráðabirgðaákvæðum frv. um tekjustofna sveitarfélaga fasteignamatsverðið miðað við fasteignamatið, eins og það var í árslok 1971. Hann hafði nú flutt áður langa ræðu, en hann svaraði þeirri spurningu ekki, og ítreka ég þessa spurningu einu sinni enn þá. Ég tel, að fasteignaskattarnir, eins og þeir liggja nú fyrir í frv. ríkisstj., séu fullkomið ábyrgðarleysi. Með samþykkt þeirra og heimild fyrir sveitarfélögin, ef kostir þeirra verða þannig þrengdir, að þau neyðast almennt til að taka upp 50% álag, og ef fjmrh. ætlar að hækka matið um 20%, eins og maður hefur grun um eftir það, sem maður hefur heyrt hjá efnahagssérfræðingunum, þá verður um stórfellda hækkun að ræða hjá mörgum þeim, sem kannske minnst mega sín, sem eiga dýrar íbúðir, þegar þar við hætist, að niður er felldur frádráttur eins og vextir við álagningu útsvara.

Hins vegar hefur verið mikið látið af niðurfellingu nefskattanna í umr. hv. stjórnarsinna og þá alveg sér í lagi hæstv. utanrrh., sem hefur nú reynt eiginlega að mörgu leyti að ganga fram fyrir fjmrh. í umr. um málið, en hann hefur verið heldur fámáll í sambandi við þau áhrif á kaupgjaldsvísitöluna, sem niðurfelling nefskattanna hefur. (Gripið fram í.) Viðskrh. Já, ég bið afsökunar á því, ég átti auðvitað við aðalráðh., viðskrh., sjálfan reikniheilann. Nefskattar, sem felldir eru niður með ráðstöfunum ríkisstj., vega í kaupgreiðsluvísitölunni 3.7 stig nettó, en 4.2 stig brúttó. Þegar reiknað er með þeirri hækkun nefskattanna, sem orðið hefði, ef þeim hefði verið haldið áfram, þá vegur fráhvarf nefskattanna í kaupgreiðsluvísitölunni 5.5 stig nettó, en 6 stig brúttó. Tap í launum miðað við 6 stigin brúttó mundi nema á mánaðarlaun hjóna, sem hefðu 40 þús. kr. á mánuði, hvorki meira né minna en 28 800 kr. á ársgrundvelli. Við skulum svo segja, að tekjur hjónanna skiptist á þann veg, að húsbóndinn hefði 25 þús. kr. á mánuði, svo að ekki sé verið að taka menn í hæstu launaflokkum, og væri með 300 þús. kr. árstekjur, og eiginkonan hefði 180 þús. kr., þá kemur einnig til viðbótar, að niður er felldur frádráttur giftra kvenna við álagningu útsvars, og ef hann er 180 þús. kr., þá hækka tekjur hjónanna við álagningu útsvars um 90 þús. kr., sem mundi þýða miðað við 10% álögur 9 000 kr. Og þá er spurningin: Hverjir hefðu þá nefskattarnir orðið, ef farið hefði verið eftir hinu gamla kerfi? Það mun láta nærri, eftir því sem mér hefur verið sagt af fróðum mönnum, sem byrjaðir voru að reikna út eftir hinum gamla grundvelli, og þegar tekið er tillit til þeirra hækkana, sem hafa orðið á kaupi, þ.e. heimildar ráðh. að láta hækka bæturnar fyrr en áður, og hækkunar sjúkrasamlagsgjalda, að þessi upphæð mundi vera í kringum 22 þús. kr. Þegar mikið er rætt um nefskattana og þau miklu áhrif, sem nefskattarnir hafa, þá hefur aftur af þessum sömu herrum verið þess minna talað um þau áhrif, sem niðurfelling þeirra hefur á kaupgjaldsvísitöluna og m.a. alþýðusambandsstjórnin benti réttilega á í umsögn sinni um frv.

Fyrir ári flutti hv. 3. þm. Norðurl. e. ásamt 2. þm. Reykn., — það var á þinginu 1969-1970, — frv. til l. um sérstakan útsvars- og skattfrádrátt til aldraðs fólks. Hann var á þann veg, að vegna skattgreiðanda, sem eigi nýtur lífeyrissjóðsréttinda og náð hefur 70 ára aldri, skuli til viðbótar öðrum frádrætti draga sérstaklega frá tekjum hans, áður en tekjuskattur og útsvar er á hann lagt, a.m.k. 50 þús., ef hann er einhleypur, en 75 þús. kr., ef hann á maka á lífi. Það þarf auðvitað ekki að taka fram, að fyrrí flm. frv. flutti með frv. mjög hjartnæma ræðu og bar mjög fyrir brjósti gamla fólkið og taldi það mjög ranglátt, hvernig fyrrv. ríkisstj. hefði farið að í sambandi við gamla fólkið, og maður sér nú ekki á ræðunni, að hann hafi verið grátklökkur, en af orðalaginu mætti ætla, að svo hafi verið. En nú, þegar stjórnarflokkarnir endurskoða frádrátt vegna aldraðra, þá er dregið úr öllu og sagt, að við afgreiðslu síðustu skattalaga hafi verið alveg fullkomið ábyrgðarleysi í sambandi við frádrátt vegna aldraðra, þó að þeir hafi nú að litlu leyti að síðustu heykzt á því með smánarlegri till., sem fæddist eitthvað tveimur sólarhringum eftir að fjhn. hætti störfum í sambandi við athugun þessa frv. Þá hefur sennilega einhver frjálslyndur átt hlut að máli, og íhaldsöflin í ríkisstj. og fjhn. hafa orðið að láta undan síga. Vegna þess, sem stendur til í kvöld, ætla ég nú ekki að halda áfram öllu lengur, því að ég hygg, að ýmsir fleiri vilji fá að segja eitthvað. En hins vegar eru þessi frv. þess eðlis, að það hefði verið auðvelt að halda áfram til kvölds og jafnvel fram eftir kvöldi.

En ég vil, áður en ég lýk máli mínu, segja það, að mér finnst það vera fullkomið ábyrgðarleysi, sem fram hefur komið hjá tveimur hæstv. ráðh. við umr. um þetta mál hér í þessari hv. þd., sérstaklega 2. umr. málsins, hjá hæstv. fjmrh., að ég tali ekki um hæstv. viðskrh., að leyfa sér að halda því fram, að þessar gífurlegu skattaálögur og skattaníðsla á allan almenning í landinu hafi í för með sér stórlækkun skatta. (BP: 360 millj. kr.) Og þeir eru orðnir svo ruglaðir á Þjóðviljanum, að þeir eru nú farnir að setja í fyrirsagnir, að það lækki á skattþegnum með yfir 550 þús. kr. tekjur líka, sem þeir hafa þó talið fram að þessu, að væri verið að reyna að ná í skottið á. Reikniheilinn hefur sennilega ruglað þá, þegar hann hefur komið með síðasta handritið. En það var dálítið undarlegt, sem gerðist hér við 2. umr. málsins. Það var mikið yfirlæti, sérstaklega í hæstv. viðskrh., þegar hann sagði: „Það er sama, hvað sjálfstæðismenn eða aðrir stjórnarandstæðingar eru að stagla hér um þessi mál. Við gerum ekkert með það, sem þið segið.“ Hann gat alveg eins sagt: „Ríkið, það er ég.“

En að síðustu ætla ég að minna hann á, að hamingjan er fallvölt, og það er ekki alltaf vist, að menn sitji í ráðherrastólum. Malinkoff var einu sinni forsrh. Rússlands. Hann varð síðar rafveitustjóri austur í Síberíu.