25.11.1971
Efri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

71. mál, innlent lán

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Á nál. 112 skrifa ég undir með fyrirvara, en eins og kom fram í framsöguræðu áðan fyrir nál., þá voru uppi skiptar skoðanir um það innan bankakerfisins að bjóða þetta lán út strax, og ég tel, að það sé hæpið að gera það í des. Hins vegar, eins og fyrrv. hæstv. fjmrh. drap á, hefur þetta verið gert undanfarin mörg ár, og samtals er búið að veita til ríkissjóðs frá 1964 heimild til að taka lán upp á 787 millj. og þegar á yfirstandandi ári fyrir 103 millj. Það eru því nokkuð gild rök fyrir því að hafa ekki þetta 200 millj. kr. skuldabréfaútboð núna í síðasta mánuði ársins, því að allir þekkja mætavel, að erfitt er um víxlafyrirgreiðslu og ýmislegt fleira í des. Hins vegar er ég efni frv. samþykkur. Það er eðlilegt, og um það deila menn ekki. En miklu fremur væri það æskilegt vegna fjármálaástandsins í landinu, að hæstv. ríkisstj. féllist á þau, að útboðið færi fram í jan.

Það eru náttúrlega rök fyrir því að draga úr þeirri spennu, sem ríkir í fjármálum landsins og hæstv. forsrh. hefur oft imprað á, bæði í ræðum á hv. Alþ. og í blaðaviðtölum, og kann það að vera hvöt hæstv. ríkisstj. að gera það með slíku láni. En það kemur óneitanlega aftan að ýmsum, ef slíkt verður gert, og þess vegna vildi ég hafa fyrirvara. Mér sýnist rétt að samþykkja brtt., en verði hún felld, þá mælist ég eindregið til þess, því að ég mun styðja frv., að það verði ekki selt allt í einum áfanga vegna þess ástands, sem ríkir í bankakerfinu, og það mun koma illa við ýmsa, ef svo mikið sparifé hverfur fyrirvaralaust út.