25.11.1971
Efri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

71. mál, innlent lán

Frsm. meiri hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. var undrandi á því, hvernig ég byggði upp mína ræðu, og hann minntist m.a. á gagnrýni á frv. Ég gat þess ekki, að hann hefði gagnrýnt frv., en sagði, að gagnrýni hefði komið fram við frv. Það var bæði í n. og við umr. í Nd., sem gagnrýni kom fram um, að framkvæmdaáætlun hefði ekki legið fyrir og það lægi ekki ljóst fyrir, til hvers nota skyldi þetta fé.

Það er að vísu alveg rétt, að það stendur ekki vel á í bankakerfinu yfirleitt í des., og sízt skyldi ég mæla því bót, mér er það vel kunnugt. En eins og kom fram, að mig minnir í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., við 1. umr. þessa máls, og eins og flestir vita, þá eru samningar við bankana um það, að þeir leggi fram 10% af sparifjáraukningunni í sambandi við framkvæmdir ríkisins. Svo slæmt sem það er, að það sé komið á bak við bankana með meiri útgáfu bréfa síðar á árinu en gert er ráð fyrir í byrjun, þá er þess að geta, að þrátt fyrir þessa sölu bréfa munu kaup bankanna á þeim ekki nema hærri upphæð en 10% af þeirri sparifjáraukningu, sem verður á þessu ári. Ég hygg, að það muni láta mjög nærri. Þó hef ég ekki þá tölu nákvæmlega í höndunum og get ekki fullyrt það, en ég hygg, að sparifjáraukningin hafi aukizt svo, að það muni ekki vera fjarri lagi. Þungur baggi, þungur kross var lagður á hv. þm., sagði hann. Við vitum það sjálfsagt báðir, hv. þm. Magnús Jónsson og ég, að bankamenn verða stundum að bera krossa. En ef það yrði ekki lagður þyngri kross á neinn mann, sem væri í fyrirsvari fyrir banka, en að mæla með þessu frv. núna, þá tel ég, að það væri vel.

Til viðbótar því vil ég bæta við, að nú þessar vikurnar mun vera að koma aukin fyrirgreiðsla til viðskiptabankanna í formi aukinna afurðalána, bæði út á landbúnað og í sambandi við sjávarútveg. Það er a.m.k. meiningin, hvort sem það er orðið eða ekki. Það ætti að létta bönkunum, þó að það yrði nokkuð erfitt fyrir þá að koma til móts við þær óskir ríkisins, ef öll þessi bréf verða sett á markað í einu, sem þetta frv. gerir raunar ráð fyrir. Útlánaaukningin hefur sjálfsagt orðið allmikil hjá viðskiptabönkunum á árinu. En ég hygg samt, að á móti þessu komi sparifjáraukning og hækkun á afurðalánunum. Það hlýtur að létta fyrir þeim eitthvað. Samtals er sennilega búið að gefa út spariskírteini, að ég held, fyrir kringum milljarð frá upphafi, og ég vil endurtaka það, að ég held, að ég fari þar með rétt mál, að þrátt fyrir þessa aukningu núna muni sparifjáraukningin á árinu nærri því jafnast á við þetta útboð. Það breytir ekki því, að það er erfitt að fá þetta útboð síðari hluta ársins, ég get vel tekið undir það með hv. þm.