13.03.1972
Efri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Betra forseti. Á þskj. 427 er frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt. Er það á þessu þskj. með þeim breyt., sem hv. Nd. gerði á því.

Ég vil í sambandi við þetta frv., um leið og ég fylgi því úr hlaði hér í hv. d., minna á, að í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstj., sem nú situr að völdum, er tekið svo fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Að endurskoða tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum, að skattabyrðinni verði dreift réttlátlegar en nú er gert. Slík endurskoðun skattakerfisins haldist í hendur við endurskoðun tryggingalöggjafar, í því skyni, að öllum þjóðfélagsþegnum verði tryggðar lífvænlegar lágmarkstekjur. Tekjur, sem einungis hrökkva fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, verði ekki skattlagðar. Skatteftirlit verði hert, þannig að réttlát skattaframkvæmd verði tryggð betur en nú er. Stefnt verði að því, að persónuskattar eins og til almannatrygginga verði felldir niður, en teknanna aflað með öðrum hætti.“

Skömmu eftir að ríkisstj. kom til valda á síðastliðnu sumri, skipaði hún nefndir til að athuga þessa málaflokka. Ein nefndin átti að endurskoða tekjuöflunarleiðir ríkisins, önnur sveitarfélaganna og þriðja tryggingakerfið. Þessar nefndir tóku strax til starfa og unnu mikið og gott verk, enda þótt þær hefðu skamman tíma til umráða. Ávöxturinn af starfi þeirrar nefndar, sem vann að tekjuöflun ríkisins, endurskoðun á því kerfi, er frv. það, sem hér liggur fyrir til 1. umr. En eins og kunnugt er, áttu sæti í nefndinni Jón Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í fjmrn., sem var formaður hennar, og með honum voru Guðmundur Skaftason endurskoðandi, Gunnar R. Magnússon endurskoðandi, Magni Guðmundsson hagfræðingur og Björn Jónsson alþm.

Þar sem lítill tími var til að vinna að þessum málum svo sem til er ætlazt, var að þessu sinni ekki farið nema út í takmarkaðan hluta þess máls, sem hér er nú til umr., og miðað þá við þær breytingar, sem þörf var að gera nú þegar. Það mun hafa komið fram í umr. um þetta mál í hv. Nd., að rétt hefði verið að draga á þessu þingi að leggja það fram. Ástæðan til þess, að það var ekki framkvæmanlegt að dómi hæstv. ríkisstj., var m.a. sú að þá þurfti að fresta öðrum málaflokkum, eins og endurskoðun á tryggingakerfinu, þar sem þetta frv. er miðað við þá breytingu að fella niður persónuskattana. En að mínu viti var óframkvæmanlegt að gera þá breytingu á tryggingakerfinu án þess, að um leið yrði tekjuöflun tryggingakerfisins breytt í það form, sem hér er lagt til. Í beinu framhaldi og í samhengi við þetta varð einnig að taka tekjuöflun sveitarfélaganna til endurskoðunar og breyta henni út frá því kerfi, sem hér er lagt til, að upp verði tekið. Í þriðja lagi var það svo, að gamla skattkerfið var að margra áliti orðið svo erfitt í framkvæmd og langt frá því að geta verið nothæft lengur, að brýna nauðsyn bar til að komast út úr því kerfi og breyta þar verulega til.

Í sambandi við það vil ég minna á ummæli hv. 2. þm. Norðurl. e., fyrrv. fjmrh., við 1. umr. um skattafrv., sem þáv. ríkisstj. lagði fram, en þá ræðu flutti hann 11. febr. 1973 og sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta, um þetta skattakerfi, að það væri flókið, álögð gjöld allt of mörg, ýmsar frádráttarreglur flóknar og margfaldar, allt of þungt á unglingum. Hann vildi einnig leyfa sérsköttun á hjónum, skattakerfið væri óeðlilega dýrt, allt of margar undanþágur og sérreglur. Ég tek undir þetta með hv. 2. þm. Norðurl. e., að þessar veilur voru orðnar svo áberandi í skattakerfinu, að ekki var hægt að hugsa sér að búa við það öllu lengur. Enn fremur var svo það, að á síðasta Alþ. voru gerðar nokkrar breytingar á skattalögum, einmitt þeim hluta þeirra, sem sneri að fyrirtækjum. Þessi skattalög höfðu ekki komið til framkvæmda, áttu að gera það á árinu 1972, en í þeim voru mörg þau atriði, sem núv. ríkisstj. gat ekki fellt sig við og hafði barizt gegn og vildi ekki, að kæmu til framkvæmda, enda var sýnt fram á í umr. á hv. Alþ., ekki sízt í þessari hv. d., að mjög margar veilur voru í þessu skattafrv., sem þá var til meðferðar og varð að lögum í fyrravor, sem gerðu það að verkum, að óæskilegt var, að þau kæmu til framkvæmda. Í því sambandi vil ég minna á ræðu, sem frsm. fjhn., próf. Ólafur Björnsson, flutti 3. apríl um frv. um tekju- og eignarskatt, en hann hafði margt við það að athuga. Meðal þeirra atriða, sem hann gagnrýndi þá, voru þau skattfríðindi, sem þeim skattgreiðendum voru veitt, er hlutabréf áttu. Um þetta sagði Ólafur Björnsson m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„En þetta atriði er skattfrelsi arðs af hlutabréfaeign að vissu marki, sem mun vera algert nýmæli í okkar skattalöggjöf, og aðspurðir sögðu sérfræðingar þeir, sem ég gat um, að hefðu komið á fundi okkar, að þeim væri ekki kunnugt um, að fordæmi væri fyrir slíku í löggjöf nágrannalandanna.“

Síðar í þessari sömu ræðu víkur próf. Ólafur að því, að eitt af því, sem hafi verið notað til þess að réttlæta þetta atriði, hafi verið það, að nokkur áhætta fylgi því að leggja fjármuni sína í hlutafélög. Þessu svaraði hann m.a. með þessu, með leyfi hæstv. forseta:

„Í sveitum landsins hefur það verið þannig um langt skeið og er enn þann dag í dag, að bændurnir spara á þann hátt, að þeir setja lömbin sín á frekar en að slátra þeim. Það er þeirra sparnaðarform, svo að þá mætti alveg eins út frá þessum hugsunarhætti segja, að arður af búfé ætti í raun og veru að vera skattfrjáls, af því að vextir af sparifé séu það. Mér er ekki kunnugt um það, að slík krafa hafi þó nokkurn tíma komið fram frá bændunum. Og í þessu sambandi vildi ég nefna það, að það er oft sagt, að það fylgi því áhætta að eiga hlutabréf. Það sama held ég að gildi um búféð, því að fyrir kemur, að lömbin fara ofan í pytti eða fá bráðapest, svo að búfjáreignin hefur líka sína áhættu í för með sér.“

Síðar í þessari sömu ræðu benti þessi sami ræðumaður á, að atvinnurekendur hefðu ekki verið ginnkeyptir fyrir þessu ákvæði frv., sem gekk nú öllu lengra en löggjöfin síðar gerði, m.a. vegna þeirra áhrifa, sem varð af þessari andstöðu. Um þetta segir svo í þessari ræðu próf. Ólafs, með leyfi hæstv. forseta:

„Í annan stað er vert að benda á, að eins og löggjöf um hlutafélög er nú háttað, er nánast hægt að stofna hlutafélög um hvaða smáatvinnurekstur sem vera skal. Af þessu leiðir, að smáatvinnurekendur og jafnvel einyrkjar í hvaða atvinnugrein sem er gætu í reynd valið um skattálagningarform hlutafélags.“

Síðar segir hann út af þessu áliti atvinnurekenda: „Þeir, sem hafa einhvers konar sjáifstæðan atvinnurekstur með höndum, mundu í mjög stórum stíi fara þá leið að stofna hlutafélag með nánustu fjölskyldu sinni, sem þýðir það, að þeir fengju þar jafnvel nokkra tugi þús. kr. skattfrjálsa. Hér er ekki um það að ræða, að þetta sé raunverulegur arður af neinu hlutafé, því að aldrei er neitt borgað inn í slík hlutafélög, heldur mundi leiðin verða sú, að það er til málamynda stofnað þarna nýtt fyrirtæki, hlutafélagið Jón Jónsson, ef um fjölskyldumann er að ræða. Síðan reiknar Jón Jónsson sér tiltölulega lágt kaup sem starfsmaður hjá þessu hlutafélagi og fær þannig meiri eða minni hluta af sínum vinnutekjum í formi hlutabréfaarðs. Fyrir þessari hættu má ekki loka augunum.“

Þetta ásamt ýmsum öðrum ákvæðum í þessum lögum, svo sem flýtifyrningum, voru geysimikil atriði, þar sem fyrirtæki máttu að eigin vild taka sér aukafyrningu á eignum sinum um 30%, sem gerði það að verkum, að þótt þau hefðu haft verulega góðar tekjur, þá hefðu þau getað slátrað þeim með þessum hætti. Það bar því brýna nauðsyn til þess að hraða þessu máli af öllum þeim ástæðum, sem ég hef greint frá, og fullkomin þörf á því, jafnvel þótt tíminn væri naumur, að koma málinu áfram á þessu þingi, til þess að það yrði notað við skattlagningu í ár.

Ég skal ekki fara lengra út í forsögu þess, að þetta mál er hér fram komið, en vil þá víkja að því, að í tekjuöflun ríkissjóðs er jafnan ákvörðun um það, hve mikið af tekjuöfluninni á að vera bundið við beina skatta og hvað á að vera bundið við óbeina skatta. Ákvörðun um þetta er ekki alltaf fólgin í því, hver tekjuþörf ríkissjóðs sé á hverjum tíma, heldur koma hér til greina félagsleg sjónarmið, sem valdhafarnir hafa á hverjum tíma. Eðli óbeinu skattanna er það, að þeir eru greiddir gegnum þau viðskipti, sem skattþegnarnir framkvæma, og má segja, að þeim sé það ekki alltaf ljóst, þegar þeir eru að greiða skattana með þessum hætti, að þeir séu í raun og veru að því. Það má líka segja þá kosti með óbeinu skattana, að með þessum hætti hafi skattþegninn nokkurt valfrelsi um það, að hann taki þessa vöru fram yfir aðra, þótt hún sé undir þessum skatti. Hins vegar eru ókostir óbeinu skattanna þeir, að þar greiða allir jafnt, sem kaupa þann hlut, sem um er að ræða, alveg án tillits til efnahags, ef þeir geta á annað borð eignazt hlutinn, og auðvitað getur skatturinn haft veruleg áhrif á það.

Hér áður fyrr var það svo, að í formi óbeinna skatta var einnig hægt að koma við þessu félagslega sviði. Það var þannig, að tollar voru mjög mismunandi. Eftir því sem vörurnar voru meiri nauðsynjavörur að dómi valdhafanna, voru tollar af þeim minni og jafnvel engir, en þeir uxu eftir því, sem talið var, að um miður nauðsynlega vöru væri að ræða. Þetta svið í skattheimtu hefur mjög þrengzt á síðari árum. Kemur þar hvort tveggja til, að með bættum efnahag almennings í landinu hefur neyzluvörusviðið færzt mjög út, svo að þær vörur, sem áður voru taldar miður nauðsynlegar, eru nú taldar með nauðsynjavöru, svo sem búsáhöld, heimilistæki, og fleira og fleira mætti nefna. En jafnhliða þessu hefur svo það gerzt, að allir þeir viðskiptasamningar, sem við höfum gert við aðrar þjóðir, hníga í þá átt, að tollar verði sem jafnastir, þannig að það sé ekki hægt að nota mismunandi tolla á innfluttar vörur miðað við þær, sem framleiddar eru heima fyrir. Því hefur það svið, að nota þetta form til félagslegrar jöfnunar í tollheimtunni eða skattheimtu ríkissjóðs, mjög þrengzt og fjarlægzt á síðari árum.

Söluskattur er gott dæmi um þetta. Hann er nú orðinn geysilega áhrifamikill skattur í tekjuöflun ríkisins, en yfirleitt má um hann segja, að hann er mjög erfiður í framkvæmd öðruvísi en svo, að hann komi jafnt niður á alla þá vöru, sem hann nær til. Ef á í raun og veru að vera hægt að nota söluskatt til þess að mismuna á vörutegundum, þá verður að fella hann þar af. Þetta gerir það að verkum, að ef ekki eru aðrar leiðir til þess að jafna þarna um, þá hljóta beinir skattar að verða í nokkrum mæli notaðir til þess að jafna á milli þegnanna eftir tekjum þeirra.

Það er mjög mismunandi, hve beinir skattar eru mikils ráðandi í tekjuöflun þjóðanna, og ég hef hér nokkrar tölur þar um. Beinir skattar, ef miðað er við þjóðartekjurnar, voru árið 1968 í Bretlandi 35.5% af þjóðartekjunum. Í Danmörku voru þeir 34.5%, í Svíþjóð 46%, í Noregi 41 og á Íslandi 33.9%, og það má segja, að þar sé um óbreytta stefnu að ræða í þessu tilfelli nú, því að samkv. þeim skattafrv., sem hér liggja fyrir, þá mundi vera um 34.1% að ræða af þjóðartekjunum, og það er svipuð upphæð og var 1968. En ef tekið er tillit til þess, hve þjóðirnar afla mikilla tekna til ríkisins í óbeinum sköttum, þá er Bretland árið 1969 með 44.5%, Noregur og Danmörk með 47% og 48%, Svíþjóð 62%, en Ísland með 64%. Af þessu sést, að Ísland er ekki hátt, hvað þessu viðvíkur, í fyrra tilfellinu, sem ég hef hér greint.

Ég vil geta þess, eins og ég sagði áðan, að þau frv., sem hér liggja fyrir, breyta ekki stefnunni í þessum atriðum, og kem ég betur að því síðar. Hins vegar er tekjuskatturinn notaður hér til þess að láta þá, sem hafa hærri tekjur, greiða meira í sameiginlega sjóði þjóðarinnar en hina.

Mér er það ljóst, að það má ná þessum mismun eftir öðrum leiðum, og kemur þá tryggingakerfið þar fyrst til, en eins og við notum tryggingakerfið nú, þá er það ekki jöfnunartæki í þjóðfélagi okkar. Það eina, sem gert hefur verið í því að jafna þar um og nota tryggingakerfið sem slíkt, er það, sem gert var í vetur með breyt. á skattalögunum, þegar þeim þegnum þjóðfélagsins, sem verst voru settir og aldraðir og öryrkjar voru, voru tryggð lágmarkslaun. Það gekk í þá átt að nota tryggingakerfið til þess að tryggja þegnum þjóðfélagsins sæmilegar lágmarkstekjur. En eins og við höfum notað tryggingakerfið í ríkum mæli nú síðasta áratuginn, þar sem greitt hefur verið með hverju barni, alveg án tillits til þess, hvort eitt barn væri hjá foreldri eða 10, og það hefur verið greitt jafnt fyrir öll börn og alveg án tillits til efnahags, þá hefur tryggingakerfið ekki orðið neitt jöfnunartæki til þess að jafna á milli þeirra, sem verr og betur eru settir í þjóðfélaginu.

Þess vegna vil ég segja það, að eins og ég gat um áðan, þá felst ekki í þessum frv. stefnubreyting viðvíkjandi þessu, frá því sem áður hefur verið, heldur er þar fylgt sömu stefnu. Hitt tel ég, að í framhaldsathugun á þessum málum og endurskoðun og gerð heildarskattalöggjafar, þar sem einnig verður unnið að því að taka til athugunar skatta eins og söluskatt og virðisaukaskatt og meta það inn í kerfið, þá mun verða komið að þeirri stefnumörkun og um leið unníð að tryggingakerfinu. Þá verður mörkuð sú leið, sem á að fara, frá hendi núv. ríkisstj. til þess að jafna á milli þegnanna í þjóðfélaginu, þeirra, sem betur og verr eru settir. En í þessum frv. er ekki farið inn á þá leið, nema halda þar vel við, en meira ekki, enda var ekki hægt á þeim skamma tíma að fara út í svo víðtæka athugun á þessu máli.

Eins og skattafrv. liggur nú fyrir hér í hv. d., og það er í raun og veru meginstefna þessara skattafrv., bæði tekjuskattsfrv. og tekjustofnafrv., og þar má segja, að sé stefnumörkun, að leggja skatt á, þar sem tekjur eru, og leggja á eignir, þar sem eignir eru. Þetta eru höfuðatriði frv., og mun ég færa að því nokkrar skýringar hér á eftir. En eins og frv. liggur nú fyrir, þá er gert ráð fyrir því, að áður en til skattálagningar komi, fái hjón í frádrátt fyrir utan hina lögboðnu frádrætti, eins og vaxtafrádrátt o.fl. o.fl., sem tilheyra hverri fjölskyldu, 220 þús. kr. og 30 þús. kr. fyrir barn. 145 þús. kr. frádráttur er fyrir einhleyping. Það mun láta nærri, að þetta sé um 17% hækkun á persónufrádrætti hjóna, um 11% á persónufrádrætti barns og um 8–9% á persónufrádrætti einhleypings. Í sambandi við þetta vil ég víkja nokkuð að því, sem allmiklar umr. hafa orðið um, en það er skattvísitalan, sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í sambandi við þetta mál í hv. Nd.

Sú skattvísitala, sem þetta frv. byggir á, er 6.5% hækkun frá gildandi skattalögum, en með skattalögunum í fyrra var ákveðið í sambandi við þann persónufrádrátt, sem þá var ákveðinn, að skattvísitalan skyldi vera 100 stig, og er þetta reiknað út frá því. Í þessum umr. hefur m.a. komið fram, sem hefur verið skilningur margra, að skattvísitala ætti að miðast við kaupgjalds- eða framfærsluvísitöluna, og ég held, að segja megi, að yfirleitt hafi sá skilningur verið ríkjandi hjá mönnum almennt, að svo ætti að vera. Í því sambandi vil ég leyfa mér að minna á, að árið 1952 fluttu þeir hv. þm. Jóhann Hafstein, 1. þm. Reykv. nú, og hv. 2. þm. Norðurl. e. frv. um skattvísitölu, sem einmitt gekk í þessa átt. Og í umr. um þetta, þegar hv. 1. þm. Reykv. nú, Jóhann Hafstein, kynnti þetta mál í hv. d., sem hann sat þá í, komst hann m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta ákvæði [þ.e. skattvísitalan] á að miða að því, að verðbreytingar, hækkandi dýrtið í landinu, verki ekki ein út af fyrir sig sem stórkostleg skattahækkun á þegnana, þó að skattalöggjöfin að öðru leyti breytist ekki neitt, heldur að skattálagningin að þessu leyti hreyfist til og frá eftir því, sem verðhækkanir og verðlækkanir kunna að verða í þjóðfélaginu.“

Þetta hefur verið sá skilningur, sem var lagður til grundvallar, og á þessu þingi, þegar þetta frv. þeirra hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Norðurl. e. var til meðferðar, þá kom það einmitt fram, að þá varð að lögum breyting á skattalöggjöfinni, sem gekk í þá átt, að vísitalan var miðuð við þetta. Og þetta var í gildi fram til 1960 eða 1961, að ný skattalög voru sett og vísitala var þá felld niður. Hún var hins vegar tekin upp aftur 1965, en þá með þeim hætti, að nokkurrar ákvörðunar þurfti með, hvernig ætti að meta hana, og síðar hefur verið nokkur hreyfing á þessu um mat á skattvísitölunni og nokkrar deilur um það, hvernig ætti að nota hana. M.a. var það svo, að á árunum 1967, 1968 og 1969 gilti sama vísitalan öll þau ár, en 1970 breytist hún nokkuð, en var svo allverulega hækkuð á árinu 1971 og þá ákveðið, að sá grundvöllur, sem þá var lagður að skattvísitölunni, skyldi verða 100, og út frá því hefur verið reiknað.

Nú vil ég um þetta mál segja, að ég tel, að eðlilegt sé, að meginreglan sé sú, að skattvísitala fylgi framfærsluvísitölu, þannig að gjaldendur greiði ekki hærri skatta vegna verðbólgu. En það er jafnframt skoðun mín, að hærri skatta eigi að greiða vegna hærri grunntekna. Að öðrum kosti er tekjuskattur engan veginn sú jafnvægisaðgerð í efnahagsmálum, sem hann er hugsaður, ef þessari reglu er ekki fylgt. Því eru að minni hyggju mjög óeðlilegar þær umr., sem um þetta mál hafa orðið, því að eins og kemur fram hér í ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem ég vitnaði til áðan, og ég hygg, að það hafi einnig komið fram í ræðu hæstv. fyrrv. fjmrh., þegar hann talaði hér fyrir skattalagafrv. í fyrra, að í meginatriðum væri hann á sömu skoðun um þetta atriði og hér hefur verið lýst. Það kom fram í þeirri ræðu, og það kom einnig fram í ræðu hjá 5. þm. Reykv. í Nd. nú s.l. fimmtudag, að leggja ætti til grundvallar kaupgjald verkamanna í Reykjavík í sambandi við skattvísitöluna, og hv. 2. þm. Norðurl. e. vitnaði til þess í ræðu sinni í fyrra, og eins og hann setti það mál upp þá, kemur í ljós, að sá persónufrádráttur, sem hjón fá núna, er í samræmi við þá reglu, því að ef reiknað er með sama taxta og hann vitnaði þá til, þá er sami frádráttur í þessu tilfelli, tekjur verkamanna í Reykjavík eru eins og persónufrádrátturinn hjá hjónum er nú.

Ég vil líka segja það út frá þeim till., sem stjórnarandstæðingar hafa sett fram núna síðustu dagana um vísitöluna 121.5 stig, að það skýtur nokkuð skökku við þá reynslu, sem áður var í þeim efnum, og það má líka finna það, að ef gerður er hliðstæður samanburður á því skattakerfi, sem nú á að fara að nota, og því, sem áður var, þá breytist það ekki t samanburðinum að öðru leyti en því, að það gefur ríkissjóði minni tekjur, en t.d. eftir þessu skattakerfi mundu verkamenn greiða 13.6% af tekjum sinum með vísitölunni 121.5, en 11% eftir því kerfi, sem nú er tekið upp, svo að þessi samanburður er ekki alls staðar hagstæður, þó að hann hins vegar gefi minni tekjur. Ég vil líka segja það, að eftir að þær breytingar hafa verið gerðar á skattalöggjöfinni að fella niður persónuskattana, þá kemur það að sjálfsögðu sérstaklega þeim til góða, sem minni hafa tekjurnar, og er þeim jafnhagstætt eins og það, þó að þessu væri á einhvern hátt breytt. Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að vísitölunni, þó að hún sé hér margrætt mál og oft að góðu getið.

Þá vil ég geta þess, að að sjálfsögðu er þetta skattafrv. og þeir skattstigar, sem þar eru lagðir til, miðaðir við þá breytingu, sem gerð er á kerfinu að öðru leyti, þ.e. að fella niður persónuskattana, námsbókagjöld og annað því um líkt, og lækkun verður á útsvörunum við þetta nýja kerfi. Ef tekið er tillit til þess arna, þá eru persónuskattar, námsbókagjald og fleira, sem undir það mætti fella, um 1 280 millj. kr., sem þannig eru felldar niður. Útsvarslækkunin mundi nema svona um 150 millj. kr. ýkjulaust, svo að hér er um 1 430 millj. kr. að ræða, og enn fremur hefur ríkissjóður tekið að sér útgjöld, sem sveitarfélögin höfðu áður. En þetta hlýtur að leiða til þess, að tekjuskatturinn sem slíkur gefur hærri tölu en hann ella hefði gert. En eins og ég sagði áðan, var það óframkvæmanlegt að hugsa sér að standa að tryggingamálunum eins og gert var með tekjutryggingunni og með afnámi persónuskattanna, nema breyta tekjuöflun tryggingakerfisins um leið. En þetta þýðir það hins vegar, að sá tekjuskattur, sem ríkissjóður fær, er að sjálfsögðu hærri, vegna þess að hann innifelur þessa skatta, sem að öðrum kosti hefði orðið að taka eftir öðrum leiðum.

Eins og frv. sýnir, er gert ráð fyrir því, að á fyrsta stígi sé tekjuskatturinn 25%, upp að 50 þús. kr. Á öðru stigi sé hann 35%, frá 50–75 þús. kr., og 44% úr því.

Þá er komið að því, sem mikið hefur verið til umr., hvernig þessir skattar verka og hvort þetta kerfi gefur hærri eða lægri skatta en gamla skattkerfið hefði gefið. Í sambandi við þetta vil ég ekki fara út í það pex, hvort rétt er reiknað eða ekki, því að ég held, að það séu raunar allir orðnir sammála um, að það sé ekki það, sem að er, heldur séu það þær mismunandi forsendur, sem menn reikna með, sem breyta dæminu. Og það þarf ekki orðum að því að eyða, að ef menn nota skattvísitöluna 121.5, þá kemur auðvitað út allt önnur tala en sú, sem frv. byggir á, þar sem reiknað er með skattvísitölu 106.5 stig, en að vísu hafa persónufrádrættir aukizt meir en það. En allir útreikningar í sambandi við þetta mál eru að sjálfsögðu byggðir á þeim forsendum, sem frv. byggir á og gerir ráð fyrir, að verði að lögum. En í sambandi við það vil ég geta þess, að ef teknir eru þeir þegnar þjóðfélagsins, sem minnstar hafa tekjurnar, eða upp að 300 þús. kr., þá lækka skattar þeirra, þegar allt er tekið með í dæmið, þá á ég einnig við útsvör og persónuskattana, þá lækka þeir um 321 millj. kr. miðað við gamla kerfið út frá þessum forsendum. Þegar þetta er haft í huga, er líka rétt að athuga það, hve margir þegnar þjóðfélagsins njóta þess arna. Og samkv. því, sem ég hef hér, munu 25.8% af barnlausum hjónum, eða 1 574 talsins, vera á þessu tekjubili. Af einhleypum eru þetta 82%, eða 9 600, og af hjónum með eitt og tvö börn er þetta nokkru færra en hér greinir. Ef tekið er næsta tekjubilið, sem er frá 301 þús. kr. upp í 425 þús. kr., þá lækka samanlagðir skattar þessa fólks um 82 millj. kr. En þegar komið er upp í 400 þús. kr., þá er komið um 45% af hjónum barnlausum, 26% af þeim, sem eru með eitt barn, 20% af þeim, sem eru með tvö börn, og þá er komið upp í 93% hjá einhleypum. Og ef svo er tekið bilið frá 426 þús. kr. upp í 550 þús. kr., þá lækka skattarnir um 51 millj. kr. á þessu bili, en þá er komið upp í nærri 70% hjá hjónum barnlausum og 48% hjá þeim, sem eru með eitt barn. Ef við höldum áfram og tökum bilið allt upp í 700 þús. kr., eru skattarnir á því bili farnir að hækka. Frá 551 þús. kr. upp í 730 þús. kr. hækka þeir um 25 millj. kr. En þá er komið upp í 88 eða 89% af barnlausum hjónum, skattgreiðendum, 83% af þeim, sem eiga eitt barn, 81% af þeim, sem eiga tvö börn, 76% af hjónum með fjögur börn og af einhleypum er þá komið þar yfir 99%. Á þessu sést, að þessi breyting nær til margra eða mikils meiri hluta af þegnum þjóðfélagsins og er því mjög mikilsverð, einmitt fyrir það fólk, sem er á þessu tekjubili. Ég verð líka að segja það, að eftir að því sleppir, þá er heldur ekki um neina stórfellda hækkun að ræða á þeim, sem eru þar fyrir ofan, enda eru náttúrlega orðnir miklu færri gjaldendur þar. Það hefur líka verið gerður samanburður á því, hvernig þetta nýja kerfi kemur út, miðað við greiðsluárið, og hvernig skattarnir komu út s.l. ár, einnig miðað við greiðsluár, og þá er samanburðurinn þannig, að miðað við greiðsluárið í fyrra, þegar þetta allt er tekið með, þá var um 15.4% að ræða, en nú aftur um 14.8%.

Þetta eru í stuttu máli þau áhrif, sem þessi skattfrv. háfa. Ef við aftur færum lengra út í það að tala um, hvaða áhrif það hefði á einstaka hópa, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna hér í álit Efnahagsstofnunarinnar eða hagdeildar Framkvæmdastofnunarinnar um þau atriði, en þar segir svo um skattalega aðstöðu skólaunglinga:

„Samkv. eldra kerfi greiddu skólaunglingar yfirleitt almennar tryggingar og sjúkrasamlagsgjöld, en þau hefðu trúlega orðið 12–14 þús. kr. á árinu 1972. Það er gert ráð fyrir því, að á karlmönnum muni það hafa orðið 13 800 kr., en á konum 13 100 kr. Samkv. nýja kerfinu greiða einhleypir ekki skatt af lægri tekjum en 60 þús. kr., og af 100 þús. kr. greiða þeir 3–4 þús. kr. eftir nýja kerfinu, en 14–16 þús. kr. samkv. eldra kerfinu. Hliðstæðar tölur fyrir 150 þús. kr. tekjur, sem eru sennilega nálægt hámarkstekjum skólaunglinga, eru 8–10 þús. kr. samkv. nýja kerfinu, en 21–23 þús. kr. samkvæmt eldra kerfinu.“ Hér tel ég vera um umtalsverða breytingu að ræða, sem vert er að gefa gaum, og einmitt það, að tryggingagjöldin á þessum unglingum voru orðin svo erfið og hefðu reynzt svo erfið á næsta ári, að hér hefði verið um mjög alvarlegan hlut að ræða, og að mínu viti var í raun og veru óhugsandi, eins og ég áður sagði, að breyta þessu nema breyta tekjuöflun um leið.

Þá vil ég, vegna þess að það hefur orðið nokkuð til umræðu, víkja að hinum öldruðu, sem af núv. stjórnarandstæðingum eru taldir fara illa út úr þessari breytingu. Í því sambandi vil ég vitna til orða hæstv. fyrrv. fjmrh. í sambandi við frv. um tekju- og eignarskatt, sem hann mætti fyrir í fyrra, og, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér úr ræðu hans þar um, en þar segir svo:

„Það er einnig rétt í þessu sambandi að vekja athygli á því, að allar þær till., sem fram koma og eru góðra gjalda verðar um ýmis skattahlunnindi, koma oftast harla litið til góða þeim, sem helzt þurfa á þeim að halda, vegna þess að það eru oft aðilar, sem eru í mjög lágum tekjuskattsstigum eða borga jafnvel enga skatta, og koma þess vegna miklu meir til góða þeim, sem borga hærri skatta. Þess vegna er það mjög mikil spurning, að hve miklu leyti þessi hlunnindi nái tilgangi sínum, og gæti verið frekar ástæða til, að til greina kæmi tryggingakerfi, t.d. í sambandi við það að tryggja lágmarkslífeyri til þeirra, sem ekki fá tekjur úr öðrum áttum.“

Ég tek undir þetta með hv. 2. þm. Norðurl. e., að þetta er að sjálfsögðu miklu betri leið, enda hefur hún verið valin. Í framhaldi af þessu skýrði hæstv. þáv. fjmrh. þetta nokkru nánar, að hann teldi, að einmitt þessi leið væri sú, sem ætti að fara, til þess að bæta úr fyrir hina öldruðu, en ekki skattahlunnindin, sem þarna voru lögð til, enda er það svo, að nú munu vera 14 þús. ellilífeyrisþegar í landinu, og þótt þær breytingar hefðu verið gerðar, sem lagt var til í hv. Nd., að gerðar yrðu, þá mundu ekki nema um 4 þús. hafa notið þeirra, vegna þess að hinn hópurinn er á því sviði, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. benti réttilega á, að margir nytu ekki þeirra hlunninda, sem þeim væru þó ætluð.

Í sambandi við önnur atriði í frv. vil ég geta þess, að breytt hefur verið í fyrra horf því ákvæði skattalaganna, sem sneri að sameignarfélögum. Það sem skiptir höfuðmáli í þessu sambandi, er það, að sameignarfélögin geti ráðið því, hvort félagið er sjálfstæður skattaðili eða ekki. Er því lagt til í frv., að þau íþyngjandi ákvæði, sem sett voru í skattalögin frá því í vor varðandi skráningu sameignarfélaga, verði felld niður og horfið verði til svipaðs fyrirkomulags og gilti fyrir breytingu og nánar verði ákveðið, hvenær sameignarfélög skuli teljast sjálfstæðir skattaðilar. Þær reglur, sem settar voru með skattafrv. frá því í vor, hefðu væntanlega stuðlað að því, að fjölda smáfyrirtækja, sem sameignarfélagaformið hentar vel, yrði breytt í hlutafélög. En sízt er ástæða til að stuðla að fjölgun smáhlutafélaga í landinu. Vert er að minnast þess í þessu sambandi, að sameignarfélagsmaður her fulla, ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum félagsins, og er sú skipan óefað mikil trygging fyrir lánstraustí almennt.

Þá er einnig gert ráð fyrir í frv. að breyta ákvæðinu frá í fyrravor um sölu íbúðarbúsnæðis. Með skattalögunum frá í vor voru felld niður ákvæði í lögum frá 1965 þess efnis, að söluhagnaður af sölu fasteigna teldist ekki skattskyldur, ef skattþegn seldi fasteign, sem verið hefði í eigu hans skemur en 5 ár, en hann keypti nýja fasteign innan árs eða byggði aðra innan þriggja ára. Þykir ekki fært annað með tilliti til hinna miklu verðhækkana, sem orðið hafa á íbúðarhúsnæði síðustu misserin, en að hverfa aftur að verulegu leyti til þess fyrirkomulags, sem áður gilti. Þó nær ákvæðið nú einungis til íbúðarhúsnæðis, og enn fremur er sú breyting gerð, að við útreikning söluhagnaðar skal miðað við rúmmál eigna, en ekki við fasteignamatsverð, eins og áður var.

Þá eru einnig, eins og ég gat um í upphafi máls míns, felld niður, í sambandi við lögin um varasjóð, ákvæðin um arðjöfnunarsjóð, og til samræmis eru einnig felld niður ákvæði 14. gr. 1. mgr. sömu laga um heimild til að leggja í arðjöfnunarsjóð. Þá eru einnig felld niður ákvæði um skattfrelsi arðs af hlutafélögum, sem samþykkt voru á s.l. vori. Samkv. frv. frá í vor ber að afskrifa sumt íbúðarhúsnæði eftir reglum um afskriftir atvinnuhúsnæðis, en sumt íbúðarhúsnæði af fasteignamatsverði með prósentu, sem sett verði í reglugerð, eins og verið hefur sbr. E-lið 15. gr. Ákvæði þeirrar gr. er nokkuð óljóst, og lagt er til, að allt íbúðarhúsnæði verði afskrifað með fasteignamati.

Í lögunum frá í vor, nánar tiltekið í D-lið 15. gr., var sett ákvæði, sem heimilaði sérstaka aukafyrningu, sem var allt að 30% af heildarfyrningarverði, af eignum í atvinnurekstri og sumu íbúðarhúsnæði. Eigandi réð, hvenær hann notaði þessa heimild og að hve miklu leyti ár hvert. Jafnframt þessu voru hinar almennu fyrningarprósentur lækkaðar verulega. Í frv. er lagt til, að undan aukafyrningu verði skilið eftirfarandi: íbúðar- og skrifstofuhúsnæði, endurmatshækkun samkv. ákvæðum til bráðabirgða frá í vor, og eigi megi nota meira en 1/5 af aukafyrningu, þ.e. 6% á einu ári.

Um endurmat á lausafé er það að segja í frv., að gert er ráð fyrir nokkrum breytingum á endurmatsreglum á lausafé, frá því, sem ákveðið var með lögunum frá því í vor. Í þeim lögum var sú regla ákveðin, að til grundvallar endurmati lausafjár skyldi leggja endurkaupsverð þess, en frá því verði fyrning síðan dregin, samanlögð hlutfallstala þeirrar fyrningar, sem samtals hefði verið notuð af eigendum eignarinnar á liðnum árum, þó ekki meira en 80% fyrir eignir, sem eigandi eignaðist fyrir 1. jan. 1960, og 50% fyrir eignir, sem hann eignaðist eftir þann tíma. Verður ekki annað sagt en að þessi endurmatsregla sé mjög flókin og fyrirhafnarsöm, m.a. af því, að erfitt er að ákveða, hvert endurkaupsverð gamalla eigna sé nú. Til þess að gera matið einfaldara og mun auðveldara í framkvæmd er því lagt til í frv., að endurmatshækkunin skuli vera að lágmarki 20% af upphaflegu kaupverði.

Þá eru ýmis önnur atriði, sem tekin eru inn í þetta frv. og voru í gildandi lögum og eru nú minni fyrir sér, og ég skal ekki eyða lengri tíma í þau.

Í sambandi við þetta skattafrv. og meðferð þess hér á hv. Alþ. hefur það og verið mjög til umræðu, hve það væri seint á ferðinni, og fengi ekki afgreiðslu fyrr en komið væri fram á það skattár, sem það ætti að gilda. Í sambandi við þessar umr. hef ég orðið mér úti um gögn um afgreiðslu skattamála á Alþ. s.l. 40 ár, og sá samanburður, sem þar er að finna, segir það, að það sé hrein hending, ef skattalög hér frá hv. Alþ. hafa verið afgreidd áður en skattárið byrjaði, þegar um breytingu hefur verið að ræða. Það er nú of langt mál að fara að þylja þann lestur aftur í tímann, svo að ég ætla aðeins að grípa til síðustu áranna til þess að vitna í þar um.

Með leyfi hæstv. forseta, þá vil ég byrja hér á lögum nr. 18 frá 12. apríl 1960. Það eru breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, en í þeim lögum var fellt niður skattfrelsi eftir-, nætur- og helgidagavinnu, sem sett hafði verið í lög 1959, en hafði aldrei komið til framkvæmda. Þetta var gert 12. apríl það ár. Hinn 28. apríl 1962 voru afgreidd lög nr. 70, um tekju- og eignarskatt. Lög þessi eru ný heildarlöggjöf, sem gilda átti við álagningu 1962 vegna skattársins 1961. Í þeim lögum voru að sjálfsögðu veruleg nýmæli og mörg atriði, sem urðu að verka aftur fyrir sig. Þá skyldu lög nr. 19 frá 10. maí 1965 gilda um eignarskatt álagðan 1965 og miðast við þrefalt fasteignamat. Hið sama gilti við álagningu útsvars á árinu 1965, lög nr. 67 frá 21. maí 1965. Hér var þó miðað við eignirnar eins og þær voru í árslok þá næst á undan. Þá er að geta hér laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 69 frá 28. apríl 1962. Þá voru nýir skattar innleiddir, landsútsvar og aðstöðugjald. Hið síðar nefnda skyldi í fyrsta skipti á lagt 1962 á gjaldstofn, sem myndaðist á árinu 1961.

Þessi fáu dæmi af mörgum læt ég nægja til að sýna fram á, að hér er ekki neitt nýtt á ferðinni, heldur munu flestar ríkisstj., sem á Íslandi hafa verið og hafa á annað borð fjallað um skattamál og fengið þau afgr. hér á Alþ., gert sig sekar um að vera þar seint á ferðinni, og það hefði svona verið að breyta út frá reglunni, ef svo hefði ekki einnig orðið nú. Kannske má nú segja, að það sé svo miklu breytt hér, að ástæðulaust hefði verið að bæta því við.

Þessi atriði læt ég nægja um það, sem fram hefur komið í sambandi við frv. eða til skýringar á frv., en ég vil í stuttu máli víkja að þeim brtt., sem fram komu af hendi Sjálfstfl. við 3. umr. þess í Nd.

Ég verð um það að segja, að af því að frv. hafði verið svo lengi hér á hv. Alþ. og þar voru menn til starfa, sem höfðu setið lengi í ríkisstj. og kunnu því vel til verka og þurftu engu reynsluleysi að bera við, þá gerði ég ráð fyrir því, að þarna gætu komið einhverjar breytingar, sem væru eftirtektarverðar og mundu geta sett nokkurn svip á þetta mál. Þess vegna verð ég að segja það, að þegar þessar brtt. komu fram, þá urðu þær ekki til að vekja hroll hjá þeim, sem þeim var beint gegn, nema síður væri, því að einkennið á þeim var eingöngu það, að dregið var úr tekjum ríkissjóðs. Þær höfðu enga stefnumörkun. Í þeim voru engin nýmæli, en hins vegar gengu þær mjög langt í þeim efnum, og ég verð að segja það, að einhvern tíma hefði nú fyrrv. stjórnarandstöðu verið brugðið um ábyrgðarleysi að standa þannig að máli. Eftir því, sem ég hef komizt næst og fengið út reiknað vel og rækilega, þ.e. þá liði, sem auðvelt er að reikna út í þessum brtt., þá eru þær samtals upp á rúmar 1 600 millj. kr., eða þær mundu því þýða í tekjutap fyrir ríkissjóð meira en helming af álögðum tekjuskatti, og þykir mér þar hraustlega að verið. Ég verð því að segja, að mér bregður mjög í brún, ef t.d. hv. 2. þm. Norðurl. e., fyrrv. fjmrh., gerir þessar till. að sínum hér í þessari hv. d., því að þá er mikið brugðið frá því, sem áður var, ef hann getur staðið að slíkum till., því að hér er um að ræða grófar till. í þá átt að svipta ríkissjóð tekjum og alveg óraunhæfar, eftir að ríkissjóður er búinn að taka að sér að greiða fyrir þegnana persónugjöld til trygginganna, yfir 1 200 millj. kr., og eftir að ríkissjóður er búinn að taka að sér að greiða fyrir sveitarfélögin álíka fjárhæðir, vegna þess að skattkerfið, lögreglan og sjúkrasamlögin eru að mestöllu leyti fjármögnuð af ríkinu. Það væri því mjög óeðlilegt að gera þessa breytingu. M.a. er hér lagt til, að ríkissjóður leggi sveitarfélögunum til tæpar 400 millj. kr. umfram það, sem þau hafa í gegnum Jöfnunarsjóðinn, af þeim tekjustofni, sem nokkurt mark er á takandi, einn af þeim þremur, sem sveitarfélögin hafa ekkert af nú, því að þau hafa tekjur bæði af aðflutningsgjöldunum og söluskattinum, svo að hér er um þriðja stærsta tekjustofn ríkissjóðs að ræða, þannig að mér finnst það skjóta skökku við, þegar þannig er að þessu staðið. Og ég verð að segja, að ég varð nokkuð undrandi á því, að í þessum brtt. skyldi ekki vera að finna annað en þetta. En út af fyrir sig á ég svo sem ekki að vera að harma það, þótt mér þyki léttlyndið vera helzt til mikið.

Herra forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt, enda tel ég mig hafa gert grein fyrir málinu, eins og hægt er á þeim tíma, sem ég ætlaði mér að taka til þess.

Ég vil að lokum segja það í fyrsta lagi, að ef það hefði átt að fresta skattalagabreytingum nú, hefði einnig orðið að fresta breytingu á almannatryggingakerfinu, breytingunni á verkaskiptingu milli ríkis og bæja, og þá hefðu skattalögin frá s.l. vori komið til framkvæmda með þeim annmörkum, sem ég hef hér lýst.

Í öðru lagi er með skattafrv. þeim, sem hér liggja fyrir, bæði tekju- og eignarskattsfrv. og tekjustofnafrv., brotizt út úr þeirri sjálfheldu, sem skattakerfi landsins var komið í, með öllum þeim ókostum, sem því fylgdi.

Í þriðja lagi er það eðlilegt og sjálfsagt, að þeir, sem hafa tekjur yfir 600 þús. kr. og þaðan af meira, taki þátt í þeirri stórfelldu réttarbót í skattamálum, sem það er að fella niður persónuskattana, sem voru á lagðir alveg án tillits til þess, hvort þegnarnir hefðu tekjur eða ekki.

Í fjórða lagi tekst að gera þessar breytingar án þess, að raunveruleg skattahækkun eigi sér stað, þegar á heildina er litið, því að það er um skattalækkun að ræða, eins og sýnt hefur verið fram á, miðað við gamla kerfið.

Áfram verður unnið að því að endurskoða tekjustofna ríkisins og þau lög, sem að því lúta, bæði um tekju- og eignarskatt, söluskatt og virðisaukaskatt. Þá verður einnig unnið áfram að því að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fleiri þætti, sem þau eiga nú sameiginlega, en gætu komið sér saman um að hafa með öðrum hætti en nú er. Ég hef ákveðið að gefa stjórnmálaflokkunum kost á því að eiga aðild að þeirri framhaldsendurskoðun, enda vinnst þá betri tími til að sinna því máli en kostur var á í haust, eftir að ríkisstj. komst til valda. Í sambandi við þetta mun einnig verða unnið að áframhaldandi endurskoðun á tryggingakerfinu, því að þetta allt þarf að fara saman, svo náskylt er það. En með meiri tíma og betri vinnu tekst að ná því takmarki, sem hér er stefnt að, að gera heildarlöggjöf um tekju- og eignarskatt og taka aðra þætti í tekjuöflunarkerfi ríkisins til rækilegrar athugunar og laga þá að því kerfi, sem að dómi ríkisstj. er æskilegast.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. fjhn. og 2. umr.