13.03.1972
Efri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hér er um svo mikið mál að ræða, að það verður því miður ekki hjá því komizt að taka nokkurn tíma að ræða það, og má segja, að í rauninni, ef ætlunin er að hraða meðferð þess, þá hefði verið ástæða til að taka það fyrir strax í byrjun þingfundar í dag. En það er hlutverk hæstv. fjmrh. að stjórna vinnubrögðum í því, en ekki mitt. Ég skal aðeins taka það fram, að af hálfu okkar sjálfstæðismanna og, ég hygg, stjórnarandstöðunnar almennt er síður en svo nein löngun til að draga úr því, að málið geti gengið sinn gang, en við hljótum að sjálfsögðu að áskilja okkur þann rétt að ræða það með eðlilegum hætti, og er kannske ekki að undra, þótt ég leyfi mér að fara um það nokkuð mörgum orðum, af því að hæstv. fjmrh., minn ágæti eftirmaður, hefur lagt nokkra rækt við það hér í máli sínu að vitna í ræður og frv., sem ég hef flutt hér á Alþ. fyrr og síðar, og ætti ég síður en svo að hafa á móti því, enda er ég honum mjög þakklátur fyrir að vekja athygli á því. Það sparar mér kannske orð, sem ég ella hefði þurft að mæla, því að ég skal taka það skýrt fram, að varðandi þau atriði, sem hann vitnaði í, hef ég ekki breytt í einu eða neinu um skoðun í þeim efnum.

Mér þótti að vísu nokkuð undarlegt, miðað við öll vinnubrögð í málinu, að hæstv. ráðh. hafði beðið eftir því, hvaða eftirtektarverðar till. kæmu frá Sjálfstfl. í sambandi við málið. Sannast sagna vannst nú ekki ákaflega mikill tími til að kanna málið til hlítar, því að það hvarf nú lengst af og var utan nefndar, þannig að menn vissu nú lítið, hvar það var í geymslu þá og þá stundina. Nefndin sjálf hélt fáa fundi, og lítið tóm var til að fá þær upplýsingar, sem ég mun síðar að víkja, og miðað við þau vinnubrögð, sem þannig voru höfð í sambandi við alla meðferð málsins í n. og hér á þingi, þótt það að vísu væri hér æðilangan tíma, og miðað við, að við sjálfstæðismenn lögðum til sem aðaltill., að málinu væri vísað frá vegna þessa lélega undirbúnings, sem ég mun víkja að síðar, þá gafst að sjálfsögðu ekki á mjög skömmum tíma tækifæri til þess að framkvæma heilsteypta úttekt á þessu máli, enda eingöngu ætlunin að benda á grundvallaratriði, sem við töldum, að þyrfti að taka til athugunar. Og ég vil taka tvennt fram varðandi fjárhagsmálin í þessu sambandi, sem hæstv. ráðh. vék að og taldi sýna ábyrgðarleysi okkar: Í fyrsta lagi berum við enga ábyrgð á því, að fjárlög hafa hækkað um 5.5 milljarða á einu ári. Það er hans mál, en ekki okkar. Og í annan stað þá tókum við það fram. að að svo miklu leyti sem óumflýjanlegt yrði talið að afla nýrra tekna, þá töldum við, að það ætti að afla þeirra með öðrum hætti, og bentum í því sambandi á, að við vildum heldur fara þá leið að afla óumflýjanlegra tekna með óbeinum sköttum.

Við hæstv. fjmrh. getum vafalaust orðið sammála um margt efnislega í sambandi við hlutverk skatta og skattalaga og skattamál í heild. Það er ljóst, að hlutverk skatta er mjög mikilvægt í þjóðfélaginu. Skattlagning er stjórnunartæki, og skattastefna hefur víðtæk áhrif bæði í sambandi við skiptingu tekna milli þjóðfélagsborgaranna og í sambandi við það, hver eigi að hafa með höndum tiltekin verkefni í þjóðfélaginu, hvort það er einstaklingurinn sjálfur, hvort það eru sveitarfélögin eða hvort það er ríkisvaldið, sem þar eigi að koma til. Jafnframt eru skattar í ýmsum tilfellum notaðir til þess að verka til jafnvægis í efnahagskerfinu.

Um það eru að vísu nokkuð skiptar skoðanir, hvernig að þessum málum skuli vinna. Sumir hafa þá skoðun, að skattheimta ríkisins skuli vera mikil, og stefna beri að því að hafa sem mest í hendi ríkisins. Ég hygg, að almennt sé sú stefna ekki ríkjandi hér á landi. Það er a.m.k. í algjörri andstöðu við skoðun okkar sjálfstæðismanna. Við álitum, að við eigum að stuðla að velferðarþjóðfélagi, en þó innan þeirra marka, að skattheimta gangi aldrei svo langt, að hún lami framtak fólksins, og að svo miklu leyti sem mögulegt sé, þá eigi að láta einstaklingana um það að sjá fyrir málum sínum, þótt það séu vissir málaflokkar, sem við viðurkennum, að hljóti í menningarþjóðfélagi að vera hlutverk samfélagsins, annars vegar sveitarfélaga og hins vegar ríkisins, en það sé grundvallarnauðsyn, því að það stefni til upplausnar í þjóðfélaginu og samdráttar, — og við þekkjum það frá þeim ríkjum, sem búa við slík hagkerfi, — ef tekið er burt framtak einstaklingsins, og slíkt hefði í för með sér samdrátt og afturför í þjóðfélaginu. Það er jafnframt skoðun okkar, að það eigi að dreifa valdinu í þjóðfélaginu í sambandi við framkvæmdir og þá um leið skattheimtu. Því eigi að hafa sem mest af hinum sameiginlegu verkefnum í höndum sveitarfélaga, og ríkið eigi fyrst að koma til, þar sem eðli málsins samkvæmt hlýtur að verða um allsherjar samhjálp borgaranna að ræða.

Hér hefur verið gert dálítið að umtalsefni frv., sem ég flutti ásamt hv. núv. I. þm. Reykv. 1953. Það gleður mig, að það mál skuli hafa verið gert að umtalsefni og það mál sé ekki gleymt, vegna þess að það frv. var flutt í samráði við Sjálfstfl. af okkar hendi, og þar voru markaðar nokkrar grundvallarlínur, sem hafa verið hafðar að leiðarljósi síðan, eftir því sem kostur hefur verið á. Þar var mörkuð sú stefna t.d., að almennar launatekjur yrðu, eftir því sem kostur væri á, hafðar skattfrjálsar, og var þá miðað við, að almennar verkamannatekjur yrðu skattfrjálsar til ríkisins. Það hefur aldrei verið talið fært að ganga svo langt varðandi sveitarfélögin, og þess vegna var persónufrádráttur í sambandi við sveitarfélögin alltaf óhagstæðari en persónufrádráttur til ríkisins, en þar kom aftur á móti, að skattar til sveitarfélaga voru frádráttarbærir við álagningu næsta árs. Þá var jafnframt lýst þeirri stefnu, að nauðsynlegt væri að hafa skattlagningu félaga hóflega, og í þriðja lagi var lýst þeirri skoðun, að stefna bæri að því, að um yrði að ræða sérsköttun hjóna. Þetta hygg ég, að hafi verið meginatriðin, þótt að mörgum öðrum atriðum væri vikið í þessu frv. En það var gert ráð fyrir því í frv„ sem ég kem nú að síðar í sambandi við skattvísitölu, að reynt yrði að tryggja það, með hliðsjón af þeirri meginstefnu, að almennar launatekjur yrðu skattfrjálsar, að frádráttarliðir og skattstigar breyttust í samræmi við breyttar tekjur launþega.

Eftir að fyrrv. ríkisstj. var mynduð, þá var hafin heildarkönnun skattkerfisins, þegar árið 1960. Þá var mörkuð sú stefna, sem kom fram í áðurgreindu frv., að almennar launatekjur yrðu skattfrjálsar, og var þá miðað við almennan taxta Dagsbrúnar að viðbættum einum eftirvinnutíma. Þetta hefur gengið nokkuð úrskeiðis á undanförnum árum, sem oft hefur verið að vikið og aldrei hefur verið reynt að leyna af okkar hálfu. Fyrstu árin var þetta svo, en þó dró þar nokkuð í sundur. Síðan var árið 1965 ákveðin veruleg lagfæring í þessa átt til þess að ná þessu marki á nýjan leik og ákveðið, að leidd skyldi í lög svo kölluð skattvísitala, sem mikið hefur verið umdeild, en það hefur í öll þessi ár þar til nú fallið í minn hlut sem fjmrh. að ákveða hana, og ég hef alltaf haft þann skilning, að skattvísitalan hefði verið ætluð til þess að jafna metin á þann hátt, að skattþunginn yxi ekki við hækkun kaupgjalds. Hér hefur, eins og ég sagði, gengið á ýmsu, og það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að þessu hefur ekki verið hægt að framfylgja sem skyldi. Og á erfiðleikaárunum varð þannig um beina hækkun á beinum sköttum að ræða, sem ég hef aldrei mótmælt, heldur hvað eftir annað lýst yfir, að þetta hefði átt sér stað, en það breytti ekki meginstefnunni, og strax og batnaði hagur hins opinbera, þá bæri að stefna í þá átt að koma málunum í það horf að miða við hina almennu kauptaxta og að breyting á skattvísitölu gæti orðið í samræmi við breytingu á kaupgjaldi og kaupgjaldsvísitölu.

Ég mun síðar víkja að skattvísitölunni og skal því ekki ræða hana frekar, og ég skal heldur ekki fara að rekja nema aðeins í stórum dráttum, hvað gerzt hefur á undanförnum árum, það er hv. þm. kunnugt.

Eftir að skattalagabreytingarnar voru gerðar 1960 og raunar alla tíð síðan, þótt nokkuð hafi orðið um hækkun skatta að ræða á erfiðleikaárunum, þá verð ég að telja, að skattar hér á landi hafi ekki verið óhæfilega háir, hvorki miðað við þjóðartekjur né heldur miðað við það, sem er í nálægum löndum. Og hæstv. fjmrh. upplýsti það raunar hér alveg réttilega, að hlutfallsprósenta skattlagningar hér á landi er ekki óeðlilega há miðað við nálæg lönd og mun lægri en í ýmsum löndum, sem mætti þó ætla, að skattar væru lægri í en hér á landi.

Ég lét framkvæma fyrir fáum árum hlutlausa athugun á skattkerfi okkar á þann veg, að fengnir voru sérfræðingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, til þess að ekki blandaðist inn í þetta nein hlutdrægni á neinn hátt, heldur að þetta yrði skoðað hlutlaust af utanaðkomandi aðilum og með hliðsjón af ástandi þessara mála í öðrum löndum. Þessum sérfræðingum var falið að kanna, hvernig skattkerfi okkar væri og hvort hægt væri að segja, að um óeðlilegan skattþunga væri að ræða. Það varð niðurstaða þessarar sérfræðilegu athugunar, að skattþungi hér væri ekki óeðlilegur. Að vísu var bent á tvennt, sem væri óeðlilegt hér. Annars vegar voru aðstöðugjöldin, sem væru mjög óvenjulegur og lítt þekktur tekjustofn, og hins vegar, að fasteignaskattar væru hér, að þeir töldu, of lágir, og er það vissulega í samræmi við það, sem allir okkar efnahagssérfræðingar hérlendis hafa haldið fram um margra ára skeið, þ.e. að nauðsynlegt væri að hækka hér fasteignaskatta. Ég hef verið því andvígur, að of langt væri gengið á þeirri braut, og Sjálfstfl. hefur haft það sem stefnumörkun, að það væri ekki rétt að ganga of langt í þessum efnum. En hins vegar hefur það farið í bág við þá skoðun, sem margir af okkar efnahagssérfræðingum og einnig þessi útlendi sérfræðingur halda fram.

En spurningin er: Ef ekki hefur verið um óhóflega skattheimtu að ræða, hvernig hefur þá staðið á því, að nauðsynlegt var, svo sem viðurkennt hefur verið á undanförnum árum og ég hef hvað eftir annað vikið að, og hæstv. fjmrh. m.a. vitnaði í ræðu mína um þetta efni, að breyta skattkerfinu í veigamiklum efnum? Það stafar einfaldlega af þeirri ástæðu, að breytingar eru nauðsynlegar til þess að lagfæra auðvitað ýmiss konar annmarka, sem eru á þessu kerfi. Það er allt of flókið, það er rétt. Nefskattar eru of margir. Svo kallaðir punktskattar eru líka óhæfilega margir. Þá kemur það einnig til, að það er nauðsynlegt, ef við eigum að taka upp þau skattkerfi, sem nálægar þjóðir, sem við höfum mikla og vaxandi samvinnu við á efnahagssviðinu, hafa tekið upp, að breyta í grundvallaratriðum um skattkerfi hjá okkur. Ég á þar annars vegar við staðgreiðslukerfið, en segja má, að það skipti að vísu ekki meginmáli, hvort við höfum það kerfi, miðað við það að fylgja kerfi nálægra viðskiptaþjóða, en það kerfi hefur haft mikið fylgi hér á landi. Þetta kerfi hefur verið rannsakað mjög rækilega hér á landi, fyrst af embættismönnum á vegum rn. og síðan af sérstakri nefnd, og það hefur legið tvisvar fyrir Alþ., þannig að vissulega hefur það fengið eins gaumgæfilegan undirbúning og kostur hefur verið á. En skoðun mín hefur verið sú, að staðgreiðslukerfið væri ekki hægt að innleiða, þótt það gæti verið gott út af fyrir sig, nema skattkerfið í heild væri endurskoðað og gert miklu einfaldara. Þá kemur hér einnig til annað, sem er e.t.v. þýðingarmeira, en það er virðisaukaskatturinn. Hann hefur verið innleiddur í flestum eða öllum nálægum löndum, og það er einmitt verið að ræða um, að skattheimta, sem skiptir meginmáli í sambandi við atvinnureksturinn, sé með líkum hætti í samkeppnislöndum okkar, og því var framkvæmd á s.l. ári ítarleg athugun á þessu skattkerfi og öllum hv. alþm. látin í té rækileg grg. um það, bæði kosti þess og galla.

Það liggur í augum uppi, að til þess að þetta geti orðið allt með eðlilegum hætti og engin víxlspor stigin, þá er nauðsynlegt, að að þessu máli sé unnið mjög gætilega og rækilega, og það skiptir ekki máli að minni hyggju, hvort það dregst árinu lengur eða skemur, að framkvæmd sé skattalagabreyting. Það er of mikið í húfi að stíga víxlspor, til þess að framkvæma megi skattalagabreytingu aðeins til þess að geta sagt, að menn hafi framkvæmt skattalagabreytingu. Þess vegna skiptir það ekki meginmáli, hvort lögin taka gildi árinu fyrr eða seinna, en það skiptir höfuðmáli, að lögin séu undirbúin með réttum hætti. Hér kemur ekki eingöngu til skattkerfi ríkisins sjálfs, heldur einnig skattkerfi sveitarfélaganna og þá eðlileg verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, sem er mjög veigamikið atriði og einnig hefur verið unnið rækilega að athugun á á undanförnum árum, og fjmrn. hefur fyrir sitt leyti fyrir nokkrum árum lýst þeirri skoðun sinni við Samband ísl. sveitarfélaga, að það væri reiðubúið til þess að standa að slíkri heildarendurskoðun strax og sambandið væri reiðubúið til þess fyrir sitt leyti.

Það, sem gerzt hefur því á undanförnum árum, tel ég nauðsynlegt að draga fram til þess að gera sér grein fyrir því, hvernig vinnubrögð þurfi að vera í sambandi við skattamál, að það hafi farið fram ítarleg könnun verkefnisins í heild og þessi ítarlega könnun hafi verið kynnt mjög rækilega öllum aðilum, sem það mál varðar.

Það hefur farið fram rækileg athugun staðgreiðslukerfisins og dregin fram öll þau atriðl. sem þar koma til álita, að þurfi að framkvæma, ef þetta kerfi á að geta skilað árangri og ef menn vilja á annað borð innleiða það. Það hefur verið óskað eftir og gefinn kostur á því af hálfu ríkisins, að verkefnaskipting ríkis og sveitarfélaga yrði tekin til rækilegrar endurskoðunar og þá tekjuskiptingin um leið, og það hefur ekki staðið á ríkisvaldinu að þessu leyti, og á vegum sveitarfélaganna hefur farið fram ítarleg könnun á þessu máli, sem að sjálfsögðu var mikilvæg nauðsyn á við endurskoðun tekjustofnalaganna og reyndar skattalaga ríkisins einnig, að væri höfð til hliðsjónar, þegar kæmi að framhaldsbreytingu laganna. Þá hefur, eins og ég sagði, farið fram ítarleg könnun á virðisaukaskattinum og þessi skattur verið kynntur Alþ. mjög ítarlega í mjög góðri grg. eftir einn hinn færasta mann okkar á þessu sviði.

Það, sem svo löggjafarlega hefur gerzt í þessu efni, þarf hér ekki að rekja. Breytingin, sem gerð var á síðasta þingi og hafði verið undirbúin mjög rækilega, var fyrirtækjaskatturinn með hliðsjón af aðild Íslands að EFTA. Strax og kom til álita, að Ísland gerðist aðili að EFTA, var athugun fyrirtækjaskattlagningar hafin, þar sem ljóst var, að við urðum að vera samkeppnisfærir, eða íslenzk fyrirtæki urðu að búa við sömu skattakjör og aðstöðu yfirleitt og samkeppnisfyrirtækin í öðrum EFTA-löndum. Þetta frv. var lagt fram seint á þingi. Það var ekki ætlunin, að það yrði þá afgreitt, heldur var unnið að því í samráði við alla flokka heilt sumar, og það var síðan lagt fyrir síðasta þing og lögfest þar ásamt ýmsum öðrum breytingum varðandi persónuskatta, sem ég skal hér ekki út í fara. Að þessu máli var unnið á þann hátt, að í það voru settir færustu sérfræðingar, sem til eru hérlendis á sviði skattamála. Þeir fengu sérstakt erindisbréf, þar sem pólitísk stefnumörkun var lögð, en hins vegar var þeim ætlað að útfæra þær hugmyndir, sem þar komu fram. Þar sem öllum hv. þm. var það ljóst, að hér var um hina flóknustu og vandasömustu löggjöf að ræða, sem við búum við, og því mikils virði, að ekki væri stigið víxlspor, var málið kynnt ítarlega, bæði öllum hagsmunasamtökum, sem það varðaði, og þmn. var sett með fulltrúa frá öllum flokkum.

Í framhaldi af þessu, eftir að þessi lög höfðu verið samþ. hér á hinu háa Alþ. á síðasta þingi, þá var ákveðin skipun heildarnefndar til þess að halda áfram vinnu að þessu máli. Í fyrsta lagi var óskað eftir því, að allir þeir sérfræðingar sætu í nefndinni, sem höfðu setið í fyrri nefndinni. Til könnunar á skattavandamálinu í heild og fyrirtækjaskattinum, og auk þess til þess einmitt að leggja grundvöll að sem víðtækastri samstöðu um heildarbreytingu skattkerfisins var óskað eftir, að ýmis samtök tilnefndu fulltrúa í þessa nefnd, ekki eftir pólitískum línum, heldur hagsmunalegum. Það voru launþegasamtökin undir forustu Alþýðusambandsins, það voru vinnuveitendasamtökin, það voru bændasamtökin, og það voru síðast, en ekki sízt, samtök sveitarfélaga.

En hver hefur svo orðið stefna og vinnubrögð núv. hæstv. ríkisstj.? Það virðist vissulega hafa verið tekið til höndum, vegna þess að á stuttum tíma er umturnað mörgu í skattkerfi okkar með þeim hætti, að menn vita nánast hvorki upp né niðúr og deila endalaust um það, hvað hér sé verið að gera. Það, sem ég tel miður farið ásamt mörgu öðru í sambandi við undirbúning þessa máls, er það, að hér var hafin pólitísk skoðun málsins. Ekki var aðeins látið nægja, eins og áður hafði verið gert, að leggja pólitískar meginlínur um, hvaða tilgangi skyldi náð, heldur var málið fengið í hendur pólítískum fulltrúum stjórnarflokkanna, og þar komu ekki aðrir nærri utan formaður nefndarinnar, sem ég vil segja, að hafi bjargað því, sem bjargað varð, með sinni sérþekkingu og hæfileikum, en hins vegar var gengið algjörlega fram hjá ýmsum embættismönnum og settir til hliðar þeir menn, sem höfðu alveg sérstaka þekkingu á einstökum atriðum í sambandi við skattkerfið og áttu sæti í fyrri skattalaganefndinni. Við hagsmunasamtök var ekki rætt, heldur var unnið að þessu máli með miklum hraða og án þess að skoða það nema lauslega. Þrjár nefndir voru settar í stað þessarar skattalaganefndar, sem átti að taka málið í heild til meðferðar. Ég verð að telja það mjög miður farið, vegna þess að þessi mál verða ekki klofin í sundur. Það má e.t.v. segja, að tryggingamálin séu mál út af fyrir sig, en þó er það svo, að ef samræma á tryggingakerfið við skattkerfið, sem hæstv. fjmrh. vék að og ég er honum nákvæmlega sammála um, þá er eðlilegt, að það séu sömu aðilar, sem að því vinna, þótt þar þurfi auðvitað einnig að koma til fulltrúar, sem hafa sérþekkingu á tryggingasviðinu.

Það er mjög einkennilegt í sambandi við þetta frv., að það virðist enginn kannast við að vera höfundur þess. Ég hef ekki séð það áður í frv., að þar sé svo að orði komizt, þegar nefnd hefur verið sett til þess að undirbúa mál, í grg. frv., að það hafi verið stuðzt við álit umræddrar nefndar, endurskoðunarnefndarinnar. Það var óskað eftir því í fjhn. d., að menn fengju að ræða við þá menn, sem raunverulega hefðu samið þetta frv. Nú veit ég ekki, hvort það er minn ágæti eftirmaður, hæstv. fjmrh., sem hefur samið það. Þó dreg ég í efa, að svo sé, ekki svo að ég vilji gera lítið úr hans þekkingu, ég veit, að hún er mikil, og ég get vel fallizt á, að hún sé meiri en mín þekking. Ég hef a.m.k. aldrei látið mér til hugar koma að semja skattalagafrv. Það er of flókið til þess. En það reyndist ekki mögulegt að fá að ræða við aðalhöfunda þessa máls, aðra en formann nefndarinnar, sem tók það skýrt fram, að það væru mörg atriði í þessu frv., sem hann vissi ekki, hvernig stæði á, að hefðu verið orðuð með þeim tiltekna hætti, sem þar var um að ræða. Það hefðu verið aðrir aðilar, sem þar hefðu komið til.

Einnig var óskað eftir því, að ríkisskattstjóri mætti á fundi n., þar sem hann hefur tæknilega, fullyrði ég, mesta þekkingu á uppbyggingu skattalagafrv., — hvað sem líður því, hvort hann hefur mesta hæfileika til að meta það efnislega, það er allt annað mál, en tæknilega séð, — og hann upplýsti, að málið hefði ekki verið lagt fyrir hann að öðru leyti en því, að krafizt var umsagnar hans eftir nokkrar klukkustundir. Eftir að við höfðum óskað eftir því, að hann skoðaði málið, þá sendi hann okkur aths. á 15 vélrituðum síðum, þar sem var tæknilega fundið að flestum eða öllum gr. frv., þannig að heldur er þetta nú óbjörgulegt að leggja af stað við endurskoðun jafn viðkvæmrar löggjafar og skattalöggjafarinnar og hafa ekki búið sig betur að heiman en hér virðist hafa verið gert.

Ég vil aðeins nefna sem dæmi, þótt það skipti ekki máli, að hér er fullyrt í grg., — það er í sambandi við aths. við 8. gr. frv., — að það sé af tæknilegum ástæðum ekki hægt vegna öryggisleysis, sem það skapi viðkomandi skattgreiðendum, sem eru samvinnufélögin, að fylgjast með reglum, sem hafi verið ákveðnar í lögum, sem nú gilda og sett voru á síðasta þingi. Þetta kannast formaður nefndarinnar ekki við að hafa samið, og þetta taldi hann hæpið, að gæti staðizt, og ríkisskattstjóri segir, að það sé algjörlega út í hött að segja, að þetta sé ekki hægt. Það hefur hins vegar ekki hafzt upp á þeim huldumanni, sem hefur komið inn þessari merkilegu setningu. Þetta er kannske ekki stórt dæmi, en það sýnir það, að það er erfitt að fást við þetta, og víða liggja leiðir í þessu máli og ekki alls staðar eftir heppilegum slóðum, þótt maður sjái einkennin í því og fingraförin, að það muni vera komið frá vissum hagsmunaaðila, að það sé ekki hægt að framkvæma þetta.

Sannleikurinn er sá, að það er með svo margt í vinnubrögðum þessarar hæstv. ríkisstj., ekki aðeins í skattalögunum, heldur á mörgum öðrum sviðum, að það er rokið til að ákveða, að lögum skuli breytt og það skuli gert á ákveðnum tíma. Það eru heimtaðar till. af mönnum, þótt það sé engin leið að skila till. á þeim tíma, og það er líkast því nánast, að það sé byrjað að teikna sjókortin, eftir að skipið er strandað, því að eftir á er svo komið í ósköpum og leitað til þeirra ágætu embættismanna, — þeir eru þá nógu góðir, — til að reyna að lagfæra það, þegar hæstv. ríkisstj. er komin í óefni með ýmsa þá hluti, sem hún hefur verið að hollaleggja og virðist hafa haldið, að brjóstvitið nægði til þess að leysa.

Hæstv. fjmrh. vék hér að því, að hann hefði svarað mörgu, sem hefði verið haldið fram í hv. Nd. Nú hef ég ekki fylgzt með umr. þar, og ég efast ekkert um, að hann hefur faríð með rétt mál, þegar hann er að svara þar því, sem þar hefur verið haldíð fram, og míg furðar kannske ekki, þótt það hafi vakið nokkrar áhyggjur hjá honum ýmislegt, sem þar var sagt, og það sýnir, að hann hefur vakandi samvizku fyrir því, að þetta muni kannske ekki allt saman vera eins pottþétt og hann hefði óskað, og ég veit, að hann hefði óskað, því að ég þekki hann svo vel, að ég fullyrði, að hann hefði ekki viljað hafa þann angurgapahátt á, ef hann hefði einn ráðið, að fella niður alla nefskatta og gera það óumflýjanlegt að breyta skattalögunum, áður en búið var að athuga, hvernig ætti að breyta þeim, og standa svo uppi með fjárlög með milljarða gati í og hættu á því, ef skattalögin yrðu nú ekki samþykkt. Það er ólikt honum, og þá er hann orðinn óforsjálli en ég hef alltaf haldið hann vera, ef honum a.m.k. hefur ekki liðið illa núna undanfarna síðustu mánuði, að hafa fjárlögin svona götótt og allt í óvissu um það, hvort einhver hlypi út undan sér, sem sumum datt nú í hug að gera, og illa tókst að beizla þá á nefndarfundum, og varð að halda með þeim aukafundi til þess að knýja þá til þess að samþykkja skattalögin. Þá hefur honum ábyggilega ekki liðið vel, og hef ég með honum fyllstu samúð, en ég er hræddur um, að hann sé ekki enn þá búinn að sjá fyrir lok þessa máls.

Hæstv. ráðh. er búinn að láta kanna það rækilega, hvaða lög hafa verið látin verka aftur fyrir síg í tíð fyrrv. stjórnar, og það er náttúrlega gott og blessað, en ég held, að ýmis atriði séu í þessum lögum, sem eiga sér ekkert sambærilegt í því, að lög hafi verið látin verka aftur fyrir sig. Mér er það alveg fullljóst, að mörg lög hafa verkað aftur fyrir sig, skattalög sem önnur, en ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur íhugað, að í lögunum, sem enn þá eru í gildi, eru fyrirmæli um, að vissir hlutir skyldu vera gerðir um síðustu áramót, bein fyrirmæli, og ég sé ekki annað en að fyrirtækjunum hafi verið skylt að gera það, meðan lögin eru enn í gildi, og ég held sannast sagna, — ég vona, að það lendi ekki í vandræðum, — að hæstv. ráðh. eigi eftir að sjá mjög víðtæk og alvarleg málaferli í sambandi við það hátterni að afnema þau lög, sem nú eru í gildi, áður en þau í raun og veru taka gildi. Formlega hafa þau tekið gildi, og menn gátu hagað sér eftir þeim og áttu að gera við uppgjör nú um síðustu áramót. Og ég efast um, að til sé nokkurt fordæmi fyrir, að þetta hafi gerzt. Ég hefði a.m.k. talið, að það hefði verið gott fyrir hann að setja punkta á sjókortið, áður en skipið strandaði. Þetta er kannske eitt af alvarlegustu atriðunum í sambandi við þetta mál og mikilvægasti þátturinn í því, að við sjálfstæðismenn teljum það brýna nauðsyn, að þetta mál verði skoðað miklu betur og athugaðar afleiðingar af því að gera þessar breytingar, hvort sem menn að lokum verða fylgjandi því að gera þær breytingar, sem hæstv. ráðh. beitir sér fyrir, eða ekki. Það er allt annað mál.

Hvaða veilur kunna að hafa verið í þessu skattafrv. frá síðasta þingi, skal ég nú ekki langt út í fara eða hefja umr. um það aftur. Það var mikið rætt þá á því þingi. Það var sýnilegt, að hæstv. ráðh. var kominn í alveg nýtt Ólafskver. Mér lízt nú ekki á, ef hann fer að fara út úr rullunni og fer að lesa skakkt Ólafskver. Ég er ekki viss um, að húsbóndi hans, hæstv. forsrh., sé hrifinn af því, því að talsvert af lesningu hans hér áðan var upp úr ræðum fyrrv. þm., Ólafs Björnssonar, þar sem hann hefði fundið frv. margt til foráttu. Þetta er alls ekki rétt, og þetta veit hæstv. ráðh., að er ekki rétt. Ólafur Björnsson var frsm. meiri hl. n., og það vita allir, að Ólafur Björnsson er svo grandvar og gegn maður, að hann mundi aldrei hafa tekið að sér það hlutverk að mæla með frv., sem hann hefði fundið margt til foráttu. Það hefði hann aldrei gert. Enda fann hæstv. ráðh. ekki úr hans ummælum annað en eitt atriði. Og það er alveg rétt, að það var ágreiningur um það. Ólafur Björnsson taldi það óskynsamlegt, og það er út af sérstakri skoðun, sem hann hefur á því, að það eigi að veita sparifé sérstök fríðindi og engum öðrum eignarformum. Þá taldi hann mjög varhugavert það atriði núgildandi laga, — ég segi núgildandi, þau eru í gildi enn, — að heimila viss skattfríðindi fyrir arð af hlutafé.

En þetta var atriði, sem var sett inn í þessi lög einmitt í samráði við þá menn, sem mest hafa hugsað um það að koma hér á laggirnar verðbréfamarkaði og kaupþingi til þess að laða fé að atvinnurekstri. En eins og allir hv. þm. vita, þá hefur það verið ein helzta meinsemd atvinnurekstrarins hér á landi, að það hefur verið svo sáralítið eigið fé. Það getur vel verið, að einhverjir hefðu getað misnotað þetta, hvað er ekki hægt að misnota? En það vill svo til, og það þekkjum við kannske allir, sem hér erum í d. meira og minna, að undanfarin ár hafa verið stofnuð fjölmörg almenningshlutafélög og þá fyrst og fremst úti um land, þar sem atvinnuörðugleikar voru. Þetta var gert ekki hvað sízt á atvinnuleysisárunum. Þá réðst fólk í það að safna saman sparifé sínu til þess að leggja í atvinnurekstur, þótt það teldi það í hættu. Fólkið tók það út úr innlánsstofnunum, þar sem það var skattfrjálst, og lagði það í þessi fyrirtæki, sem flest voru mikil áhættufyrirtæki. Og það er alveg ljóst, að ef ekki verða gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir til þess að gera lystilegra að leggja fé í fyrirtæki, — og það er sannarlega ekki gert með þessum lögum, þar sem dregið er verulega úr skattfríðindum fyrirtækja, — þá stöndum við áfram í sömu sporum og áður um það, að við fáum ekki fjármagn inn í atvinnureksturinn. Og ég vil minna á það, sem var haldið fram ákveðið af hv. stjórnarandstæðingum þáv., þegar við gengum í EFTA, að íslenzkur atvinnurekstur væri hvorki skattalega né á annan hátt undir það búinn að taka við óhentugri samkeppni. Þetta var eitt af því, sem fundið var að. Og það er náttúrlega ekki hægt bæði að finna að því, að þetta sé ekki gert, og einnig, að það sé gert, þó að það megi deila um þetta einstaka atriði, sem auðvitað er ekkert stórmál til að tala um, að það réttlæti það að umturna allri þessari löggjöf.

Þá voru tvö atriði, sem hæstv. ráðh. vék að og ég skal út af fyrir sig ekkert segja um, hvort sé rétt enda rangt að hafa í óbreyttu horfi, eins og var í gömlu lögunum. Það eru t.d. sameignarfélögin. Það var auðvitað engin hætta sem skapaðist á því, að þeim væri breytt í hlutafélög. Gallinn á sameignarfélögunum er sá og hefur verið, — ég held, að það sé gengið þannig frá því í þessu frv. nú, að menn verða að velja, hvort þeir vilja sameignarfélagsformið, — en áður var það í gömlu lögunum þannig, að menn gátu frá ári til árs notað ýmist það eða talið persónulega fram eftir því, hvað hentaði þeim skattalega, og fengið alveg óeðlileg skattfríðindi út úr þessu.

Varðandi breytingu á reglum um söluhagnað íbúða í eldra form, þá er ég hæstv. ráðh. algerlega sammála um þá breytingu og tel, að verðbólguþróunin, sem sízt af öllu virðist nú vera minnkandi, réttlætí það fullkomlega, eins og hann sagði, að það sé horfið til hinnar gömlu reglu í því efni, því að þessi regla, sem þarna var talað um, miðaðist við það, að það yrði stöðugra verðlag.

Varðandi þessi frv. er það aðaldeilumálið, hvort þau yfirleitt feli í sér aukna skattbyrði eða ekki. Það er auðvitað alveg ljóst og við getum ekki deilt um það, að skattur á eignir er stóraukinn, bæði eignarskattur, og svo koma til hinir stórhækkuðu fasteignaskattar, sem kosta margföldun á útgjöldum. Þá eru tekjuskattar einnig sannanlega auknir samanlagt. Þeir voru áður 50–51%, en eru nú 54%, sem er hin almenna skattlagningarregla, þegar komið er upp fyrir neðri tvö þrepin, sem sannast sagna eru á óhæfilega lágar tekjur. Byrðar atvinnurekstrarins eru auknar verulega, eins og við vitum, og skattaprósenta atvinnurekstrarins hækkar verulega. Og eins og ég segi, leiðir þetta til þeirrar óheillavænlegu þróunar, að það er a.m.k. mikil hætta á því, að fyrirtækin standi höllum fæti og þessar breytingar vinni gegn þeirri myndun eigin fjármagns í fyrirtækjum, sem er brýn nauðsyn.

Þá komum við að lækkun skatta hjá láglaunafólki. Þetta er nú gott og blessað, og vissulega getur enginn verið á móti því að lækka skatta á láglaunafólki. En hér er nú það mál á ferðinni, sem er meir auglýsingaskrumkennt en raunverulegt. Það er alveg rétt, að nefskattar, sjúkrasamlagsgjöld og tryggingagjöld, á ungu fólki, námsfólki, hefur verið þungur baggi, oft a.m.k., á þeim að greiða. Auðvitað er hægt að fara mismunandi leiðir í þessu. Það þurfti ekki að afnema alla nefskatta, þótt markið hefði verið hækkað eitthvað, um 1–2 ár, sem þetta unga fólk hefði þá fyrst þurft að greiða þessi gjöld. Það hefur áður verið um það rætt og í rauninni gerð á því breyting varðandi eitt ár. Ég veit, að þetta kostar nokkurt fé, en eru þó smámunir á móts við það, sem hér er verið að gera, þannig að það hefði ekkert verið óeðlilegt og a.m.k. ekkert fjarstætt, að það hefði verið hægt að hugsa sér þá lausn til að þurfa ekki að flana að því að breyta skattkerfinu í heild, eins og nú er, vegna þessa unga fólks.

Um nefskattana almennt verða menn að hafa það í huga, sem alltaf er reynt að leyna, og hæstv. ráðh. forðaðist líka að minnast á hér í ræðu sinni, að nefskattarnir eru í vísitölunni, og þessu verða menn að gera sér grein fyrir. Afnám nefskatta leiðir til þess, að ríkissjóður sparar sér stórfelld útgjöld, og vísitalan lækkar mjög verulega af þessum sökum. Hér er nefnilega um útgjöld að ræða, sem fólk fær bætt í sínu kaupi, og ef menn vilja gera eðlilegan samanburð, þá verður að taka þetta með í reikninginn.

Það hefur birzt í dag á forsíðu í Þjóðviljanum grein, sem ég býst við, að hinir ágætu ritstjórar Þjóðviljans mundu ekki óska eftir í júnímánuði, eða hvenær sem það verður, sem skattarnir koma, að þeir hefðu nokkurn tíma skrifað, en þeir hafa ekki látið sér nægja minna en að setja það yfir alla forsíðuna og skrifa um það í leiðara líka. Án þess að ég ætli að fara að svara hér beint ritstjórum Þjóðviljans, þá vona ég, að það verði ekki lagt mér til lasts, þótt ég geri þetta svolítið að umtalsefni, vegna þess að þetta er ekki annað en þáttur í þeim málflutningi, sem haldið er fram í sambandi við þetta mái. þ.e., að hér sé um að ræða stórfelld fríðindi fyrir alla, sem hafa haft undir 300 þús. kr., og sérstaklega niðurfelling nefskattanna, sem stórlækki opinber gjöld þessa hóps. Hér er aðallega átt við einstaklinga, og ég skil nú satt að segja ekki, hvernig einstaklingar eru orðnir allt í einu meira atriði en hjón og barnafólk hjá þessu virðulega málgagni. En það hefur virzt sem það þyki sérstaklega nauðsynlegt að benda á, hvað þetta séu miklar hagsbætur fyrir einstaklinga, sem losni þarna við nefskattana, og ef þeir hafi undir 300 þús. kr., þá muni þetta lækka þeirra gjöld. Það er að vísu ekki gert ráð fyrir því, að fjöldi þessara einstaklinga kann að eiga húseignir, og fasteignagjöldin bætast þá hér við og stórhækkun þeirra. En hvað af þessum einhleypingum skyldi vera gamalt fólk? Það er kjarni málsins, sem ég hélt, að skipti nú kannske meira máli en jafnvel það, þó að það væri eitthvað hægt að létta á ungu fólki. Og hvað af þessu skyldi vera ungt fólk líka, sem er að berjast við að koma sér upp þaki yfir höfuðið? Það vantar líka. Í forsendunni fyrir öllum þessum útreikningum er svo að sjálfsögðu líka gengið út frá hinni alröngu vísitölu. Það er svo náttúrlega ekki nema hinn sjálfsagði þáttur í málinu. Það er nefnilega staðreynd, sem ég veit, að ég þarf ekki að útskýra fyrir hæstv. fjmrh., hann þekkir það gerla, og ritstjórar Þjóðviljans ættu að þekkja það líka, að 67 ára fólk greiðir ekki nefskatta. Og ekki nóg með það, heldur er gert ráð fyrir að fella einnig niður sérstakan frádrátt aldraðs fólks, sem settur var inn í gildandi skattalög á síðasta þingi. Þetta nemur mjög verulegum fjárhæðum, þannig að hér er tvímælalaust um að ræða mikla skattþyngingu fyrir þetta fólk, sem þannig er ástatt með, þannig að hér er ekki vert að vera að flagga allt of mikið tölum og útreikningum og gera sig góða gagnvart þessu fólki, því að það, sem verst á og erfiðast, er gamla fólkið. Flest af því á nú húsnæði, sem betur fer, þannig að það fer þá enn þá verr út úr þessu af þessum sökum, og það var búið að tryggja þessu fólki fríðindi, áður en þessi skattalög komu til, sem voru því miklu hagstæðari en það, sem það verður nú að búa við.

Hvað eru miðlungstekjur? Það er svo aftur spurning. Ef við höldum okkur að hjónum, þá mun það vera svo, að það eru í landinu um 40 þús. hjón, og þar af eru 27 þús., sem hafa yfir 430 þús. í brúttótekjur. Og af þessum 27 þús. er meginhlutinn eða 21 þús. með tekjur á bilinu 430–730 þús. kr., þannig að þetta virðist vera nokkurn veginn meðaltekjur fyrir hjón. Og ég er anzi hræddur um, að það þyngist töluvert á bökum þessa fólks.

Þá er það skattvísitalan hin margumtalaða. Og þar sem allur samanburður við gamla kerfið er gerður á villandi hátt, verð ég að harma það mjög, að menn skuli hafa neyðzt til þess. Ég vil alls ekki halda því fram, að hæstv. fjmrh. hafi gert það, en það hefur verið gert í skrifum og tali um þessi mál að reyna að gera tortryggilega Efnahagsstofnunina og Reiknistofnun Háskólans og sagt, að þegar sé verið að deila á þetta mái. þá sé verið að ráðast á þessar stofnanir. Það hefur engum manni dottið í hug að ráðast á þessar stofnanir. Við vitum, að þar eru grandvarir menn, sem gera sína hluti rétt. En þeir voru mataðir með vissum forsendum af hæstv. ráðh. Þegar forstjóri hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar eða hvað það heitir nú, þessi ósköp öll, kom á okkar fund og við fórum að spyrja hann, hvað merkti í umsögn hans um þetta mál, að það væri ekki um neina teljandi skattþyngingu að ræða, hvort það væri raunverulegt mat hans á því, að ekki væri um þyngri skatta að ræða, svaraði hann því mjög fljótt til, að það væri alls ekki hans mat. En hann hefði ekki haft aðra forsendu að ganga út frá og hefði verið gefin sú forsenda, að skattvísitalan væri 106.5 stig, og út frá þessu ætti að reikna. Aðspurður, hvað hann teldi eðlilega skattvísitölu til að halda í horfinu, þannig að menn borguðu hlutfallslega ekki meira af tekjum sínum en þeir hefðu áður gert, — ég segi hlutfallslega, auðvitað borga þeir meira, það dettur engum manni í hug að halda öðru fram, en að hlutfallinu væri haldið, sem hefur alltaf verið hugsunin, allt frá því að ég flutti ásamt Jóhanni Hafstein, hv. 1. þm. Reykv., okkar umtalaða frv., — þá svaraði hagrannsóknastjóri því til, að eftir því, sem stofnun hans vissi nú bezt, þá væri hækkunin frá fyrra ári 21.5%, sem mun að vísu vera meira, sennilega 24–25%, sem kaupgjald hefur hækkað og taxtar, auðvitað á milli ára. En við tókum lægri töluna, og við það eru okkar till. miðaðar. Að halda því fram, að hér sé um að ræða eitthvert ábyrgðarleysi eða óraunhæft tal. sem brjóti í bága við allt, sem gert hefur verið, er algerlega út í hött. Og það er ekki lengra að leita í því en til s.l. árs.

Ég hef í umr. um þetta mál hér á þingi hvað eftir annað, eins og ég gat um áðan, viðurkennt það, að skattvísitalan hafi verið ákveðin of lág á erfiðleikaárunum. Hún var óbreytt í þrjú ár. Þar áður, 1965 og 1966, var hún ákveðin svo há, að hún jafnaði fullkomlega metin varðandi kauphækkanir, og hlutfallið í sambandi við kaup Dagsbrúnarmanna hélzt þá fullkomlega. Ég lýsti þá yfir og hef oft gert, að ég teldi, að þegar hagur ríkissjóðs batnaði, þá bæri að stíga stærra skref. Og það skref var stigið á s.l. ári, vegna þess að þá var skattvísitalan hækkuð um 20%, en meðalframfærsluvísitalan hafði ekki hækkað nema um rúmlega 13 eða 13.12%, og kaupgreiðsluvísitalan eða almenn hækkunarprósenta kaups var 18.4%. Að vísu reyndist þetta nokkru meira, þegar farið var að skoða framtölin, því að þessi áætlun var gerð áður, en það varð auðvitað að ákveða skattvísitöluna það snemma, en með þessu var mörkuð sú stefna, sem ég þá lýsti ákveðið yfir, að yrði haldið áfram, og það væri að ná fram þeirri stefnu, sem hefði alltaf verið grundvallarstefnan frá hálfu okkar sjálfstæðismanna, að þetta láglaunafólk borgaði ekki skatta. Og ég vil nú taka það fram, að það hefði út af fyrir sig verið hægt að framfylgja einnig þessu ákvæði á erfiðleikaárunum, en þá var bara komið þannig, sem hv. þdm. er vel kunnugt, að sveitarfélögin hefðu flest orðið fjárþrota, ef skattvísitalan hefði verið ákveðin hærri en þá var gert, þar sem mikill meiri hluti allra tekna sveitarfélaga er útsvör, og það var sett inn í lög um tekjustofna sveitarfélaga fyrir nokkrum árum, að þau skyldu einnig breytast eftir skattvísitölu. Og þegar hæstv. fjmrh. segir, að ég hafi breytt um skoðun, þá hef ég þegar sýnt það í verki með þessari ákvörðun í fyrra, að svo er ekki. Ég hef alltaf haldið því fram og ég hélt því einnig fram þá, að það hefði verið skoðun mín, frá því að það frv. var flutt, sem hann gat um, 1953, að þetta væri gert til þess, að menn borguðu ekki hærri hlutfallslega skatta af sínum tekjum. Og ég hef mótmælt því oft undanfarin ár, að það hafi nokkurn tíma verið ætlunin að tengja þetta við framfærsluvísitölu, vegna þess að þá hefðu skattarnir átt beinlínis að lækka á erfiðleikaárunum, ef hefði átt að fara þá leið, heldur hefði hugsunin verið þessi, sem var mörkuð 1960, að þessi almenni taxti Dagsbrúnar væri skattfrjáls. Og þegar vitnað er í umr. og í frv. okkar frá 1953, þá veit ég, að hæstv. fjmrh. er það vel kunnugt, að þá var ekki til neinn greinarmunur á framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu. Það var nákvæmlega sama vísitalan. Svo verð ég nú að segja það, að ég get kannske fært mér það til. — ég veit ekki, hvort ég á nú að segja lofs, — en til tekna, skulum við segja, þegar hæstv. fjmrh. segir nú, eða ég fæ ekki skilið hann betur en það hafi verið gersamlega ómögulegt annað en fara eftir því, sem ég hefði gert, en alls ekki eftir því, sem hann vildi gera. Hann flutti nefnilega á síðasta þingi frv. ásamt hv. núv. form. þingflokks Framsfl., sem undanfarin ár hefur helzt helgað sig því að skammast yfir rangri skattvísitölu, þar sem þeir að vísu í samræmi við það, sem þeir höfðu haldið fram um framfærsluvísitöluna, lögðu til, að framfærsluvísitalan yrði fullkomlega hætt upp í einu stökki. Og ég segi nú við minn ágæta vin, hæstv. fjmrh., að ef það er eitthvert ábyrgðarleysi, sem við sýnum núna, hvað á þá að kalla það, sem gerðist á s.l. þingi, að leggja til að hækka framfærsluvísitöluna um allt það, sem vangert hafði verið í sambandi við skattvísitöluna? Ég er hræddur um, að það séu nú anzi háar upphæðir. Svo kemst hann loksins að þeirri niðurstöðu, þegar hann sezt í ráðherrastól, að það sé ekki hægt að bæta um eitt einasta stig, ekki eitt einasta prósent. 6.5 stig eru ekki einu sinni framfærsluvísitalan, vegna þess að framfærsluvísitalan mun hafa hækkað um 6.7 eða 6.8 stig. Það þurfti þó að skera af þessari hungurlús. En að það væri hægt að bæta úr því, sem ég hefði gert illt á undanförnum árum, nei, það var gersamlega vonlaust mál. Það skyldi blíva allt saman, og fólkið skyldi verða að bera það, þó að þessir ágætu menn væru komnir til valda. Þá var allt gleymt, og þá var bara um að gera að vitna í, hvað ég hefði gert. Það var alveg nægilegt til þess að réttlæta þeirra eigin verk.

Það er nú kannske nóg að hafa þetta um skattvísitöluna. Ég hef þar ekki breytt um skoðun í einu né neinu, en mér virðist, að hæstv. ráðh. hafi þar breytt um skoðun, og ég þarf ekki að vitna lengra en til ársins í fyrra, til þess að það liggi ljóst fyrir, að úr því að ég taldi þá, berandi ábyrgð á fjármálunum, gerlegt að hækka hana um 20%, þá gegnir það mikilli furðu, ef hæstv. núv. fjmrh., sem hefur óneitanlega úr æði miklu meira að moða en var þá, telji ekki fært að hækka hana um meira en 6.5%. Ég hefði ekki óskað mínum ágæta eftirmanni að þurfa að gerast talsmaður fyrir slíkan málflutning og þurfa að gerast talsmaður fyrir þann málflutning að bera á borð fyrir þjóðina, að það séu sambærilegar tölur og eigi að sýna, að skattþungi hafi ekki vaxið um nokkra krónu frá því, sem hafi verið eftir gildandi lögum, að nota skattvísitöluna 6.5 sem grundvöll, til að fá út þetta fallega dæmi sitt. Sannleikurinn er sá, að það er líklegt, lauslega áætlað, að skattþungi vaxi núna um 700 millj. kr. miðað við skattvísitölu 21.5, sem er auðvitað sú eina, sem er eðlilegt að miða við. Og þar við má bæta því, sem hæstv. ráðh. hefur grætt með því að fella niður nefskattana, sem hann hefur lagt á almenning í hækkuðu vöruverði. Og má áætla, að það sé um 400 millj. kr., sem hann hefur grætt í samdrætti á niðurgreiðslum vegna niðurfellingar nefskattanna, sem ekki virðast vera neinar horfur á, að eigi að bæta launþegum upp að einu eða neinu leyti, — það, að ég hygg, hefur verið gert varðandi 0.6 stig, ef ég man rétt, en meira hefur þar ekki komið, — þannig að það eru 1 100 millj. kr., sem hæstv. ráðh. ætlar sér hér að leggja á almenning til viðbótar því, sem verið hefði, ef gömlu lögin hefðu gilt með eðlilegri framkvæmd þeirra laga. Og má þó í rauninni segja, að þetta geti verið hærri tala, því að hann gengur alltaf út frá því í sínum áætlunum, hvað nefskattarnir hefðu þurft að hækka. Ég geri hér aðeins áætlun um þá nefskatta, sem á voru lagðir. En hefðu nefskattarnir þurft að hækka meira, þá hefði það að sjálfsögðu, eins og ég áður hef sagt, verið bætt í hækkuðu kaupi, og að svo miklu leyti sem það þá fellur niður, eins og nú er, þá er auðvitað sanngjarnt að hækka þá þessa prósentu, 4%, sem græðist í lækkuðum niðurgreiðslum, þannig að talan yrði þá hærri sem því nemur, þannig að hér er hæstv. ráðh. áreiðanlega ekki gert rangt til, eða áætlað óhagstætt fyrir hann. Hér er því öllum ljóst, að það er óhagstætt fyrir meiri hluta gjaldenda það skipulag, sem hér er verið að tala um að taka upp.

Þetta liggur nú líka raunverulega alveg í augum uppi. Þegar tekjur ríkissjóðs hækka um hálfan sjötta milljarð, hvernig í ósköpunum á að bera það á borð fyrir nokkurn mann, að það hækki engir skattar eða gjöld? Ég segi þá bara: Það hefur ekki verið eins slæmur arfurinn og stundum er látið í veðri vaka, ef þetta er hægt án þess að íþyngja nokkrum í sköttum, því að hæstv. ráðh. sagði, þegar hann var búinn að telja upp alla þá, sem ættu að fá stór fríðindi, allt lágtekjufólkið, að það væri sáralltíð, sem lagt væri á aðra skattgreiðendur til viðbótar. Enda var nú sannleikurinn sá, að í ræðu hæstv. ráðh. áðan gat ég nú ekki fundið annað, sem ég veit, að hann sem ábyrgur maður mun heldur ekki reyna að halda fram, en að auðvitað er hér um nýja gjaldheimtu að ræða. Það liggur í augum uppi, þó að málgagn hans haldi öðru fram. Þar er að vísu haldið fram til skiptis, að arfurinn hafi verið svo voðalegur, og þess vegna hafi þurft að leggja á ný gjöld. En svo hinn daginn er því haldið fram, að það sé ekki um nein ný gjöld að ræða, og erfitt er nú að samræma þetta eins og svo margt á því heimili.

Herra forseti. Ég skal fara að stytta mjög mál mitt. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að hér sé ekki ýmislegt í þessum frv. eða hugsuninni að baki þeim, sem sé í ákveðna átt, og ég efast um, að okkur hæstv. fjmrh. beri svo mikið á milli, ekki sízt miðað við það, sem hann las hér upp úr ræðu, sem ég hafði flutt á síðasta þingi, um það, hvernig þurfi í heild að endurskoða skattkerfið og hvernig okkar skattalöggjöf þurfi að vera. Og það gleður mig út af fyrir sig, að ekki virðist vera ágreiningur um það. Ágreiningurinn er fyrst og fremst um það, að sýna ekki þennan flumbruskap, eins og hér er gert ráð fyrir að gera, með því að knýja í gegn þetta frv. jafn stórgallað og það er. Skattkerfið er nefnilega ekki til að fikta með það, og það má ekki frá ári til árs skapa slíkt öryggisleysi eins og hér er verið að gera.

Þegar skattalögin á síðasta ári voru samþ., eins og ég sagði, þá var það gert á tveimur þingum og með rækilegri athugun. Engu að síður var því þó breytt mjög verulega hér í Alþ. við nána könnun málsins, en hér má engu breyta. Það eru 4–5 smápunktar, sem loksins koma, sem n. fær að laga í frv. um tekju- og eignarskatt. Það voru að vísu nokkru meiri breytingar gerðar á hinu frv., en að öðru leyti mátti ekki hrófla við neinu og yfirleitt ekki tala við neinn. Það komu ótal umsagnir, sem voru hafðar að engu. Og mig furðar ekkert á því, því að auðvitað var það ekki hægt. Þetta varð í meginefnum auðvitað svona fram að ganga, ef allt átti ekki að lenda í ógöngum, sem hefði leitt til þess, að málið hefði frestazt, eins og við höfðum lagt til.

Ég harma það, að hæstv. ráðh. skuli hafa verið knúinn til svona vinnubragða eins og hér eiga sér stað. Ég vil halda því fram, að hann hafi verið knúinn til þess vegna breytinga, sem aðrir ráðh. töldu sig þurfa að fá fram, og hafa sumir flaggað mikið með, að þeir hafi knúið þær fram sem upphafsmál þessarar ríkisstj. fyrst og fremst með því að knýja hæstv. ráðh. á miðju ári til þess að auka útgjöld ríkissjóðs um 650 millj. kr. til viðbótar heimildum fjárlaga og svo með því að taka upp nýja hækkun almannatrygginga um s.l. áramót, sem er góðra gjalda verð, en er þó stórgölluð, ekki sízt lágmarkstekjurnar, sem ég skal ekki fara að ræða um hér. En því mun þurfa að breyta mjög skjótlega, ef það á ekki að valda hinum mestu vandræðum og hafa ill áhrif á margan hátt. Þó að það sé góðra gjalda vert að tryggja mönnum lágmarkstekjur, þá er það stórgallað ákvæði.

Hæstv. fjmrh. játaði, að þessi frv. breyttu í rauninni ekki neinum grundvallarstefnumiðum og væru aðeins til þess nánast að gera breytingar, sem óumflýjanlegar væru vegna tekjutilfærslu á milli ríkis og sveitarfélaga og ekki sízt vegna niðurfellingar á sjúkratryggingagjöldum og almannatryggingagjöldum, sem voru ákveðin fyrir fram, áður en var búið að gera sér grein fyrir því, hvernig skattalögin ættu að vera. Þetta er það, sem ég tel vera rangt að farið í sambandi við stjórn skattamálanna, að ákveða útgjöldin með þeim hætti og kerfisbreytingu, sem knýr á breytingar, hvort sem þær eru gerlegar eða ekki.

Það er ótalmargt ógert, og ég skal játa það, að það gleður mig, að hæstv. ráðh. virðist ætla að taka upp ný vinnubrögð við framhaldsathugun málsins. Það þarf að fella niður miklu fleiri smáskatta. Það þarf að fella saman skattkerfið og tryggingakerfið, sem er mikið viðfangsefni og sem kemur mjög inn á það, sem hæstv. ráðh. gat um, að það hefði ekki verið notað til neinnar tekjujöfnunar, þetta kerfi. Það hafa verið uppi alveg ákveðnar till. um breytingar á þessu á undanförnum árum, þó að þær hafi ekki náð fram að ganga, en ég tel mjög mikils virði, að þær verði teknar til rækilegrar athugunar.

Það er auðvitað ekkert farið að gera í sambandi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þó að létt hafi verið af sveitarfélögunum þessum gjöldum, þá er verkaskiptingin alveg jafn óleyst vandamál. Og það verður að ganga í það rækilega og af gjörhygli að skipta þessum verkefnum og skipta þá tekjustofnum einnig. Við sjálfstæðismenn höfum lýst yfir því, og ég hef raunar áður látið orð falla um það, meðan ég gegndi embætti fjmrh. og meðan beinu skattarnir voru minni hluti af tekjum ríkissjóðs en 10%, að vel gæti komið til álita og væri enda æskilegt, að það væri aðeins einn aðili, sem innheimti sams konar tekjustofn, t.d. beinu skattana af almenningi, og þess vegna gæti vel komið til álita að afhenda sveitarfélögunum alveg beinu skattana og þá með tilheyrandi verkefnum. Þetta þarf einnig að íhuga.

Það þarf að leggja þá línu, að þurftartekjur séu ekki skattlagðar, þannig að þar komi til eðlilegur frádráttur og vísitala, sem breytist í samræmi við kaupgjaldsbreytingar.

Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að skattleggja beri fremur eyðslu en sparnað. Þess vegna höfum við á undanförnum árum dregið fremur úr en hitt hlut beinna skatta í tekjuöflun ríkisins, og sú skoðun hefur ekkert breytzt, þó að við séum ekki lengur í ríkisstj. Óbeinir skattar innheimtast betur, og þó að þeir hafi sína ókosti, sem öll skattheimta hefur, og m.a. er vitnað í, að þeir fari illa með þá, sem miður eru settir í þjóðfélaginu, þá er með tryggingakerfinu, eins og það er, og með samspili á milli þess og skattalaga hægt að sjá fyrir þeim vanköntum fullkomlega, hvort sem menn vilja hafa fjölskyldubótaformið á því eða með persónufrádráttum og á annan hátt, og það er hægt að haga óbeinum sköttum þannig, að þeir leggist mismunandi þungt á hinar ýmsu nauðsynjar, svo sem einnig hefur verið gert til þessa. Hins vegar er það rétt hjá hæstv. ráðh., að það verður erfiðara og erfiðara að hafa slíkar undanþágur. Það er ég honum sammála um.

Herra forseti. Það er skoðun mín, að þetta frv. sé svo gallað, að það sé ekki nothæft sem grundvöllur að nýrri skattalöggjöf, og það væri farsælast fyrir alla, að því væri frestað og tekin upp ný vinnubrögð og heilsteyptari við áframhaldandi endurskoðun skattalöggjafarinnar í svipuðu formi og gert var í tíð fyrrv. ríkisstj. Við vörum við því, að það gæti leitt af sér stórfelld málaferli, ef á að fara að ógilda þau lög, sem nú eru í gildi og sett voru á síðasta þingi, og teljum a.m.k., að hæstv. ráðh. þurfi að láta kanna það mál miklum mun betur, áður en hann stígur svo alvarlegt spor.

Það er nauðsynlegt, að það sé ekki aðeins lítill hópur pólitískra jábræðra, sem semja heildarskattalöggjöf þjóðarinnar. Það þarf að vinna að þeim málum eins og var búíð að leggja drög að á s.l. sumri, og því harma ég, að sú nefnd var sett frá. Þó hefði mátt bæta í hana mönnum, fá þar helztu hagsmunasamtök þjóðfélagsins til samstarfs til þess að reyna að tryggja, að hægt sé að fá fram skattalöggjöf, sem ekki þarf að hringla í frá ári til árs eða a.m.k. í hvert skipti, sem kemur ný ríkisstj. Það skapar öryggisleysi og óvissu, bæði fyrir almenning og ekkert síður atvinnureksturinn í landinu, sem nauðsynlegt er að forðast.

Herra forseti. Ég skal þá ekki lengja þessar umr. meira. Hins vegar býst ég ekki við, að neinn undrist það, þó að mál mitt hafi tekið nokkurn tíma. Hér er um mikið mál að ræða, þó að æskilegra hefði verið í rauninni, að það væri meira mál og að við hefðum getað staðið andspænis skattalögum, tekjustofnalögum og starfaskiptingarákvæðum ríkis og sveitarfélaga, sem hefðu verið þannig úr garði gerð, að það væri til frambúðar, en þyrfti ekki að boða það, sem hæstv. fjmrh. gerði í upphafi, þegar þessi frv. voru lögð fram, að hér væri aðeins tjaldað til einnar nætur og það væri ætlunin að breyta þessum lögum þegar á næsta þingi og reyna þá að stefna að því fyrir þann tíma að setja heildarlöggjöf um þetta mál.