25.11.1971
Efri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

71. mál, innlent lán

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru tvö atriði í ræðu hv. 4. þm. Vestf., sem ég sé ástæðu til þess að minnast á. Annað atriðið var varðandi 10% sparifjáraukninguna, sem ég held, að hv. þm. hljóti að hafa misskilið. Það er auðvitað ekki ætlunin að lina á þeirri skuldbindingu bankanna, þó að þessi bréf verði gefin út. Bankarnir lofuðu í ár að láta 10% af sparifjáraukningu sinni til framkvæmdaáætlunar ríkisins. Mér skildist hins vegar, að hv. þm. teldi, að þetta mundi rúmast innan þeirra marka. Þetta er alger misskilningur, vegna þess að 10% standa eftir sem áður, þannig að þetta er alger viðbót, hreint nýtt álag á bankakerfið, að svo miklu leyti sem þessir peningar fara út úr bönkunum. Þetta held ég að hv. þm. hljóti að vera mætavel kunnugt um, þannig að þetta byggist á einhverjum misskilningi.

Um afurðalánin er það að segja, að það eru engar líkur til þess, að bankarnir fái þá lagfæringu fyrir áramót. Það eru rétt aðeins nýlega komin tilmæli til Seðlabankans frá hæstv. viðskmrh. um það, að Seðlabankinn taki til athugunar að endurskoða afurðalán til útflutningsframleiðslunnar, og vissulega er það mikils virði, ef það verður gert. En ég held, að það sé meira en bjartsýni, það sé algerlega óraunhæft að láta sér detta í hug, að það geti orðið nú fyrr en um áramót. Mér hefur skilizt á öllum aðilum málsins, að það hafi aldrei komið til álita, að það yrði fyrr, þannig að þessi rök út af fyrir sig, — að svo miklu leyti sem það eru rök varðandi aukna fyrirgreiðslu viðskiptabankanna að þessu leyti, ef það verður þá ekki ætlazt til, að þetta verði beinlínis sem aukin aðstoð við útflutningsframleiðsluna, — þau eru hreinn stuðningur við þá brtt., sem við í minni hl. n. flytjum hér um, að lánsútboðið eigi sér ekki stað fyrir áramót. Og það er alveg rétt, sem hv. 5. þm. Reykn. tók fram og tók undir með mér, að það hafa ekki komið fram nokkur minnstu rök fyrir því, af hverju þurfi að bjóða þetta lán út fyrir áramót. Ég fæ þess vegna ekki séð annað en það sé ósköp vel hægt að sameinast um þetta mál efnislega, það er engin deila um málið efnislega, með því að samþykkja þá brtt., sem við höfum hér lagt fram.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að deila um málið. Það er búið að ræða það, og eins og ég segi, hef ég ekkert við efnisatriði þess að athuga að öðru leyti en því aðeins, hvenær þetta útboð skuldabréfa eigi að fara fram.