16.03.1972
Efri deild: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða einstakar greinar þessa frv. eða brtt., sem búið er að gera grein fyrir. Ég ætla heldur ekki að ræða um tilfærslu innan skattakerfisins og einstakar aðrar till., og ég ætla ekki að ræða um afnám persónuskatta eða um persónufrádrátt eða margt fleira, sem þrautrætt er, bæði í þessari hv. d. og hv. Nd. En ég ætlaði að víkja að þrem atriðum, sem ég tel nauðsyn að koma að, áður en málið er afgreitt. Þetta er ekki vegna þess, að ekki hafi verið um þessi atriði rætt. Það er siður en svo, því að um fátt hefur verið meira rætt. En þetta er vegna þess, að yfirlýsingar hæstv. fjmrh. og stuðningsmanna hans um þessi atriði eru þess eðlis, að þær virðast stangast á við staðreyndir, og er það út af fyrir sig því alvarlegt mál. Þau atriði, sem hér er um að ræða, varða í fyrsta lagi skattabyrðina, í öðru lagi hlutfallið milli beinna og óbeinna skatta og í þriðja lagi verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Hæstv. fjmrh. hefur margsagt í umr. um þetta mál, að í skattafrv. ríkisstj. felist ekki aukin skattbyrði eða nein veruleg hækkun á sköttum frá því, sem verið hefur. Þetta segir hæstv. fjmrh., þótt það sé staðreynd, að fjárlög ársins í ár hafi hækkað um 5.5 milljarða kr. frá fjárlögum ársins 1971. Það er harla nóg til þess, að á það sé drepið her. Frv. um tekju- og eignarskatt, sem hér hefur verið til lokaumr., er fram komið til að auka tekjur ríkissjóðs, svo að mætt verði þessari gífurlegu aukningu ríkisútgjaldanna, sem fjárlög þessa árs gera ráð fyrir. Þetta var nauðsynlegt, það verður að viðurkennast. Það er líka skýringin á þeim flýti, sem ríkisstj. hefur orðið að hafa á endurskoðun sinni á skattalöggjöfinni. Þetta er skýringin á því flaustursverki, sem hér er verið að vinna.

Hæstv. fjmrh. segir, að frv. það, sem hér er fjallað um, feli í sér einungis tilfærslur innan skattakerfisins til að létta skattbyrði þeirra, sem minnst bera úr býtum, og flytja yfir á breiðu bökin. Eftir þann hreinsunareld, sem frv. hafa farið í gegnum í umr. hér á hv. Alþ., brosa menn að slíkum fullyrðingum. Hins vegar brosa menn ekki yfir þeirri almennu þyngingu skattbyrðarinnar, sem svo mikil aukning ríkisútgjaldanna hlýtur að hafa í för með sér. Þetta veit hæstv. fjmrh. að sjálfsögðu. Þess vegna er það engin tilviljun að hann vili. þegar sá gállinn er á honum, kenna fyrrv. ríkisstj. um, hve ríkisútgjöldin hækka mikið á þessu ári. En böggull fylgir skammrifi. Hverjum á þá að þakka auknar bætur almannatrygginga, launahækkanir opinberra starfsmanna og annað það, sem helzt veldur hækkun fjárlaga? Enginn kosturinn er góður, en hæstv. fjmrh. tekur þó þann, sem er sýnu verstur, að neita staðreyndum. Svo virðist sem ríkisstj.-liðið hafi gert samþykkt um, að hægt sé að auka ríkisútgjöldin um 5.5 milljarða kr. án þess að skattbyrði almennings sé þyngd. Við það situr. Ég ætla ekki hér í lok umr. þessa máls að fara að karpa við hæstv. fjmrh. um þetta, heldur kýs ég að híða og láta sjá, hvað setur, því að staðreyndirnar verða ekki umflúnar. Hins vegar ætla ég að víkja að einu grundvallaratriði allrar skattalöggjafar, sem ég er fullviss um, að hæstv. fjmrh. er viðræðuhæfur um. Þetta er spurningin um, hve langt skattheimtan á að ganga, eða með öðrum orðum: Hvert á að verða hlutfallið milli þess fjármagns, sem hið opinbera ráðstafar annars vegar og einkaneyzlu hins vegar?

Þegar fengizt er við þá spurningu, hvert sé hámark þolanlegrar skattheimtu, er hlutfall skatttekna af þjóðartekjum venjulega notað sem mælikvarði. Ef skattheimtan fer fram úr ákveðnu hlutfalli, leiðir það til upplausnar efnahagslífsins, sem ekki verður lagfærð nema með því að lækka skattheimtuna á ný niður fyrir hættumarkið. Í skattheimtunni ber því að hafa mikla gat. Og hvar erum við Íslendingar á vegi staddir í þessu efni? Á tímabilinu 1958 til 1971 hefur hlutdeild ríkisútgjalda í þjóðartekjum vaxið úr 19% í 28.2. Hér er um gífurlega aukningu að ræða á ekki lengri tíma eða 48.4%. Ég fyrir mitt leyti tel, að varhugavert sé að fara svo geyst í aukningu ríkisútgjalda sem gert var á þessu tímabili viðreisnarstjórnarinnar, og að mjög hafi verið komið nálægt hættumarkinu í þessu efni. Mér kæmi ekki á óvart, að núv. hæstv. fjmrh. hugsi eitthvað líkt, ef marka má ummæli hans og aðvaranir gegn útþenslu ríkisbáknsins á undanförnum árum. Í þessu ljósi skil ég líka betur, hve myrkfælinn hæstv. ráðh. er nú að kalla hlutina sínu rétta nafni í sambandi við það heljarstökk, sem hann hefur nú tekið á sínu fyrsta stjórnarari í aukningu ríkisútgjaldanna. Á þessu eina ári hækkar hlutdeild ríkisútgjaldanna í þjóðartekjunum meir en á nokkru einu ári viðreisnarstjórnarinnar. Læt ég hæstv. fjmrh. um að reikna út, hve mörgum prósentum þetta nemur. Sá útreikningur er ein leiðin til þess að gera sér grein fyrir hækkun skattanna, sem frv. það, sem hér er til umr., felur í sér, því að beint samband er milli skattbyrðar þjóðarinnar og hlutfallsins milli ríkisútgjalda og þjóðartekna.

Það skal tekið fram, að það, sem ég hef hér sagt um ríkisútgjöld og þjóðartekjur, á við almennt í vestrænum ríkjum. þar sem hagkerfi grundvallast að meira eða minna leyti á frjálsum markaðsaðstæðum. En öðru máli gegnir, þar sem þessu er ekki til að dreifa. Í þessum efnum ber að greina á milli eðlismunar hinna ýmsu stjórnarkerfa. Þannig er grundvallarmismunur annars vegar á hinum kommúnistísku ríkjum A.-Evrópu og viðar og hins vegar á lýðræðisríkjunum. Í kommúnistísku þjóðfélagi er það keppikefli, að hinn opinberi geiri þjóðarteknanna sé sem stærstur. Því stærri sem hinn opinberi geiri er, þeim mun betri tökum verður náð á áætlunarbúskapnum, sem er kjarni hins kommúnistíska stjórnarfars. Þetta þarf ég ekki að segja sumum rekkjunautum hæstv. fjmrh. í stjórnarsænginni. Það þarf ekki að skýra þetta fyrir þeim, sem sjá fyrirheitna landið í ríki kommúnismans. En þetta er hins vegar ekki óviðkomandi okkur hinum, ég segi hæði mér og hæstv. fjmrh. Við skulum minnast þess, að þetta Alþ. hefur afgr. lög um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem felur í sér vísi að áætlunarbúskap, eins og foringi kommúnista orðar það, hæstv. viðskrh. Þegar kommúnistar tala um áætlunarbúskap eða vísi að áætlunarbúskap, vitum við, hvað þeir meina. Nú skal ég ekki halda fram, að lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins skili okkur í náðarfaðm kommúnismans í einu vetfangi. En ég leyfi mér að gera ráð fyrir, að allt ríkisstj.-liðið sé ekki jafn áhugasamt um að halda hlutfallinu milli ríkisútgjalda og þjóðartekna innan hæfilegra marka. Vegna mikilvægis málsins og þess háska, sem fylgir allri óvissu í þessu efni, leyfi ég mér að gera fsp. til hæstv. fjmrh„ sem hljóðar svo: Er það stefna hæstv. fjmrh. að auka hlutdeild hins opinbera í þjóðartekjunum, þannig að samneyzla aukist hlutfallslega og einkaneyzla minnki hlutfallslega frá því, sem verið hefur?

Í umr. um skattafrv. ríkisstj. hefur mikið verið rætt um beina og óbeina skatta. Af hálfu okkar sjálfstæðismanna hefur verið talið, að gengið væri í öfuga átt með frv. þessum, þar sem hlutfall beinu skattanna eigi að aukast, en óbeinu að minnka. Hér er um að ræða veigamikið atriði. Háir beinir skattar hafa letjandi áhrif á sjálfa tekjuöflunina, þeir vinna gegn sparifjármyndun, valda hættu á undandrætti og skattsvikum og eru dýrari í álagningu og innheimtu en óheinir skattar. Þegar vinstri stjórnin lét af völdum 1958, voru beinir skattar 12.8% af ríkistekjunum. Viðreisnarstjórnin lét hendur standa fram úr ermum í þessum efnum svo sem mörgum öðrum. Á árinu 1960 voru beinir skaflar 6.1% af ríkistekjunum. Þessari stefnu, að minnka hlutdeild beinu skattanna, var þó ekki framfylgt sem skyldi, þar sem beinu skattarnir voru vorið 1971 komnir aftur upp í 11.7% af ríkistekjunum. En hvað vill núv. ríkisstj. í þessu efni? Það ætti ekki að þurfa að spyrja um þetta. Fjárlög fyrir árið í ár gera ráð fyrir, að hlutdeild beinna skatta af ríkistekjunum verði 23.5%. Hér er hvorki meira né minna en að hlutdeild beinu skattanna er tvöfölduð, frá því sem var á s.l. ári. Ætla mætti, að hér sé mörkuð ný stefna, er miðaði að því að auka beinu skattana, en minnka hina óbeinu, þegar svo mikið er að gert í raun. Þeim mun óskiljanlegri er sú yfirlýsing, sem hæstv. fjmrh. gaf í hv. Nd., þegar mál þetta var þar til umr. En þá sagði hæstv. ráðh., að engin breyting væri með þessu skattafrv. frá því, sem áður hefði verið, á afstöðu til beinna og óbeinna skatta. Með tilliti til mikilvægis þessa atriðis og misræmis milli orða og athafna um þessi efni, vil ég hér við lok umr. málsins gera fsp. til hæstv. fjmrh. á þessa leið: Er það stefna hæstv. fjmrh. að auka hlutdeild beinna skatta í tekjuöflun ríkisins?

Þá er það atriði varðandi verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, er ég ætla að víkja að. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir, að endurskoða skuli verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Því hefur verið haldið fram af stjórnarliðinu, að það verk væri hafið með skattalagafrv. ríkisstj„ sem nú liggja fyrir þinginu. Ég skal ekki fara að lýsa skoðunum mínum á þeim kákaðgerðum, enda hef ég rætt það mál áður. En ef eitthvað má leggja upp úr frv. þessum. sem stefnumarkandi gæti kallazt, þá er það það, að verkefni eru flutt frá sveitarfélögum og færð í hendur ríkis. Hér rekur eitt sig á annars horn, þegar haft er í huga, að ríkisstj. segist ætla að efla sjálfstæði sveitarfélaga. Sjálfstæði sveitarfélaganna verður ekki eflt, nema þeim séu fengin í hendur aukin verkefni og nægilegir tekjustofnar til að standa undir verkefnunum. Hér ber að sama brunni og í öðrum tilvikum. sem ég hef nú gert að umræðuefni, að erfitt er að samræma orð og efndir hæstv. ríkisstj. Hins vegar er sjálfstæði sveitarfélaganna svo mikið grundvallarmál, að ekki tjóar að það hangi í lausu lofti. Ég vildi nú gera fsp. til hæstv. fjmrh. um þetta efni, og fsp. er svo hljóðandi: Er það stefna hæstv. fjmrh. að efla sjálfstæði sveitarfélaganna með því að fá þeim í hendur aukin verkefni og létta tilsvarandi á verkefnum ríkisins?

Herra forseti. Ég hef gert þrjár fsp. til hæstv. fjmrh. að gefnu tilefni. Þessar fsp. varða allar grundvallaratriði skattamála. Þessi atriði eru því öll stefnumarkandi í þessum málum. Þau hafa því meginþýðingu í endurskoðun skattalaga, sem hæstv. fjmrh. hefur boðað, að fram verði látin fara á næstu mánuðum. Þetta eru ekki tæknileg atriði skattamála, heldur pólitísk. Þetta varðar nánast, á hvaða grundvelli unnið verður að endurskoðun skattalaganna. Með því að hæstv. ráðh. vill meina, að sú endurskoðun, sem fram undan er, sé ef svo mætti segja, framhaldsendurskoðun, lítur hann svo á, að endurskoðunin sé hafin og fyrsti áfanginn í þessu verki liggi þegar fyrir í skattalagafrv. þeim, sem þingið hefur nú til meðferðar. Það verður því að gera ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. sé ekkert að vanbúnaði að svara þeim fsp., sem ég hef hér beint til hans, þar sem þær varða svo mjög grundvöll þessarar endurskoðunar. Ég leyfi mér því, herra forseti, að vænta þess, að hæstv. fjmrh. gefi hv. þd. upplýsingar um þessi þýðingarmiklu mál, áður en lokið er afgreiðslu þessa frv.