25.11.1971
Efri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

71. mál, innlent lán

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég kann nú ekki við annað en fá að leggja nokkur orð í belg, þegar rætt er um útboð á skuldabréfum og spariskírteinum ríkissjóðs. Það má segja, að það sé orðinn nokkurs konar barnsvani hjá mér að taka til máls undir þeim umr., en ég lofa því að lengja þær ekki að neinu marki.

Hv. síðasti ræðumaður, 2. þm. Norðurl. e., sagði, að það hefðu engin minnstu rök komið fram fyrir því eða ástæður fyrir því að bjóða þessi skuldabréf út núna fyrir áramót. Þetta er að því leyti til rétt, að í aths. við lagafrv. segir, að það eigi ekki að nota fjármagnið, sem inn kemur, fyrr en á næsta ári. Áætlun um framkvæmdir og fjármögnun þeirra liggur ekki fyrir, og það hefur verið rakið hér í fyrri umr. um þetta mál, hvers vegna það er ekki, og menn hafa tekið það gilt. Hv. ræðumaður tók það algerlega gilt, þannig að það er ástæðulaust fyrir mig að ræða það frekar. Ég er ekki svo stálminnugur, að ég geti fullyrt, að það hafi aldrei komið fyrir, að framkvæmdaáætlun hafi ekki legið fyrir um leið og frv. til skuldabréfaútboðs vat lagt fyrir Alþ. Þó minnir mig fastlega, að það hafi komið fyrir í tíð fyrrv. hæstv. fjmrh., að frv. um fjáröflunina hafi legið fyrir á undan framkvæmdaáætluninni. (MJ: Aldrei verið lagt fram fyrir áramót.) Nei, það er alveg rétt, það fellst ég fyllilega á. En þau rök, sem hæstv. fjmrh., - hann var nú ekki hér í d., þegar ég kvaddi mér hljóðs, og hann er það nú reyndar ekki núna, — hafði uppi, voru þau, sem í aths. segir, og þetta eru að mínum dómi rök fyrir því að gefa skuldabréfin út núna fyrir áramótin, — þar segir, með leyfi forseta:

„Telur ríkisstj., að skilyrði séu nú hagstæð til útgáfu verulegra viðbótarfjárhæða í ríkisskuldabréfum, þar sem tekjur almennings eru miklar, eins og skýrt hefur komið fram í mjög auknum innflutningi og hækkandi verði á fasteignamarkaði. Með því að gefa almenningi nú kost á að kaupa spariskírteini með hagstæðum kjörum, vill ríkisstj. reyna að stuðla að því, að meira af ráðstöfunarfé þjóðarinnar verði bundið sem sparnaður, sem staðið geti undir nauðsynlegri efnahagslegri uppbyggingu.“

Þetta eru þau rök, sem liggja fyrir því, að þetta frv. er sett fram. En hér er sem sagt meiningarmunur. Hv. 2. þm. Norðurl. e. vill kannske af eðlilegum ástæðum sem bankastjóri fremur hafa aukið fjármagn til útlána og geta sinnt fleiri beiðnum almennings og atvinnuveganna. Ég skil það sjónarmið ákaflega vel. En hitt er vissulega einnig sjónarmið, að það beri að reyna að draga úr þenslunni með því að gefa fólki kost á að kaupa spariskírteinin fremur en að verja fjármagni sínu til annarra kaupa. Ég held, að þetta séu talin nokkur rök fyrir því, að þetta fjármagn verði núna tekið úr umferð. Það mun draga úr þeirri geysimiklu þenslu, sem er í efnahagslífinu.

Hv. þm. taldi, að þessi aðferð mundi torvelda samkomulag við víðskiptabankana á næsta ári um það, að þeir legðu af mörkum 10% eða hvað sem það væri, sem farið yrði fram á við þá, til framkvæmdaáætlunarinnar, eins og þeir hafa gert nokkuð mörg undanfarin ár. Ég vil nú segja það, miða það við fyrri reynslu, að það má helzt ekki torvelda samkomulagsmöguleikann, því að hann hefur satt að segja ekki verið svo ýkjamikill. og ég hef stundum látið þau orð falla hér, að mikil spurning væri, hvort unnt væri að tala um það sem samkomulag, en látum það nú vera. Ég vona, að hv. þm. meini þetta ekki svo, að sá banki, sem hann stjórnar, verði miklu erfiðari en annars hefur verið í þeim samningum, án þess að ég vilji nokkuð fullyrða um það. En gera má ráð fyrir, að leitað verði eftir því við bankakerfið að fá svipaða fyrirgreiðslu og verið hefur. Hv. 5. þm. Reykn. talaði um það, að jafnvel þó að frv. yrði samþ. núna, þá væri hægt að koma til móts við þessar óskir með því að gefa ekki bréfin út eða selja þau ekki öll í des. Það er auðvitað hægt að haga því með ýmsu móti, og ég get ekki gefið nein fyrirheit um það yfirleitt, hvenær þessi bréf verða seld, en vissulega er hægt að hlusta á slíkar beiðnir.

Það, sem vekur þó sérstaka athygli mína í þessum umr., er það, að hv. 2. þm. Norðurl. e. virðist ganga út frá því algjörlega sem gefnu, að öll þessi bréf seljist á svipstundu, um leið og þau eru boðin almenningi til kaups. Það er ekki hægt að skilja málflutning hans og hv. 5. þm. Reykn. öðruvísi en þessi bréf muni öll seljast á svipstundu. Sú hefur raunin verið. En frá fyrri lagasetningu um þetta mál hefur sú breyting orðið í þessu frv., að nú er talað um það og ákveðið í 3. gr. frv., að skuldabréfin og spariskírteinin skuli skráð á nafn eigenda. Þessi till. hefur verið borin fram á hv. Alþ., hér í þessari hv. d., mjög mörg undanfarin ár, og hún hefur verið borin fram í þeirri trú, að slík skráning á nafn eigenda mundi auðvelda skattaeftirlit, hún mundi auðvelda að fylgjast með því, hverjir kaupa þessi bréf og hverjir eiga þessi bréf. En með því fyrirkomulagi, sem verið hefur, má telja hartnær útilokað, að hægt hafi verið að rekja slóð bréfanna. Um það held ég að mönnum komi almennt saman. Þegar þessi ríkisstj., sem nú hefur setzt að í stjórnarráðinu um stundar sakir a.m.k., og stendur að þessu lagafrv., fer fram á heimild Alþ. til að gefa út og selja slík skuldabréf og spariskírteini, þá hefur hún fallizt á það sjónarmið, sem hér var haldið fram af okkur, sem þá vorum í stjórnarandstöðu, að það væri rétt að gera þessa tilraun til þess að auðvelda eftírlit með þessum bréfum. En þessi till. var alltaf felld af hæstv. þáv. fjmrh., ekki vegna þess að hann út af fyrir sig viðurkenndi ekki, að það mundi ef til vill geta eitthvað auðveldað eftirlit með þessum bréfum, heldur vegna þess, að slíkt ákvæði í lögum mundi koma í veg fyrir sölu skuldabréfanna. Ég veit, að hv. 2. þm. Norðurl. e. minnist þessara umr. Við höfum endurtekið þær hér árlega og stundum oftar á ári undanfarið langt tímabil. Ég vil þess vegna vekja athygli á því, að nú virðist svo sem þessi hv. þm. og hv. 5. þm. Reykn., sem stóðu að því að fella þessa brtt. ásamt öðrum þm. Alþfl. og Sjálfstfl. á sínum tíma, telji nú þetta ákvæði einskis virði. Nú er reiknað örugglega með því, að öll skuldabréfin seljist fyrir áramót, og talað um það, að svo og svo mikið þýði fyrir bankakerfið, að þau verði gefin frjáls, sett á markaðinn. Hér finnst mér gæta ósamræmis í málflutningnum, sem breytzt hefur á einu ári, og það vekur athygli mína og mér er þetta svo minnisstætt frá fyrri árum, að ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því. Ef hv. þm. trúa því, sem þeir sögðu í fyrra, að bréfin muni ekki seljast vegna þessa ákvæðis, þá getur tæpast verið að þeir hafi þessar áhyggjur, sem hér var lýst, af því, að bankakerfinu muni verða ógurlega íþyngt. En ég tek fram, að skoðun mín er óbreytt frá því í fyrra, að bréfin muni seljast þrátt fyrir þessi ákvæði, vegna þess að ég veit, að það eru fjölmargir sparifjáreigendur, sem hafa ekki nein skattsvik í huga, þegar þeir geyma sparifé sitt, og þeir munu þess vegna óhræddir við öll framtalsákvæði hiklaust kaupa þessi skuldabréf vegna þess, hvað þau hafa að geyma miklu betri kjör en nokkurt annað sparifjárform, sem leyft hefur verið hér í landinu.