16.12.1971
Efri deild: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það voru nokkur atriði í ræðu hæstv. félmrh., sem gefa mér tilefni til þess að taka nú aftur til máls.

Það er fyrst spurningin um það, hvort það frv., sem hér liggur fyrir, verði sent til umsagnar sveitarstjórnum landsins. Hæstv. ráðh. kom inn á þetta. Mér fannst hann ræða nokkuð í hálfkæringi um þetta mál. Hann sagði eitthvað á þessa leið: Hvernig sem hefði nú átt að fara að því að kalla þau öll saman til fundar um undirbúning málsins. Já, hvernig sem hefði átt að fara að því að hafa samband við sveitarfélögin.

Mér finnst rétt að vekja athygli á því, að ég er undrandi yfir þessari neikvæðu afstöðu hæstv. ráðh. til að hafa samband við sveitarstjórnir landsins. Ég veit raunar ekki, hvaðan honum kemur þetta til, því að frv. um tekjustofna sveitarfélaga hefur áður verið lagt fyrir Alþ. og ég minnist þess, að þegar slíkt frv. var lagt fram á Alþ. 1961, þá var þessi hæstv. ráðh. ekki á þessari skoðun. Með leyfi hæstv. forseta, sagði þáv. hv. 5. þm. Vestf. þetta:

„Nú skyldu menn ætla, að þetta mál hefði sætt þessari venjulegu, þinglegu meðferð, að vera sent til umsagnar, — og þá hverjum? Fyrst og fremst auðvitað sveitarstjórnum um allt land. Hér er um að ræða grundvallarmál fyrir alla tekjuöflun sveitarfélaganna, og mér finnst, að það sé lágmarkskrafa, sem gera beri, að ekki sé lögfest víðtæk ný löggjöf um tekjustofna sveitarfélaganna, án þess að sveitarfélögin séu þar að spurð. Og ég fæ ekki séð, að neitt reki svo harkalega á eftir þessu máli, að það hefði ekki verið hægt að koma slíkum vinnubrögðum við.“

Þetta sagði hv. 5. þm. Vestf. þá. Nú kveður við annan tón. Ég óska í fyrsta lagi eftir að fá skýringar á þessu breytta viðhorfi hæstv. ráðh., og ég spyr og óska eftir að fá svar við því hér áður en þessum umr. lýkur, hvort ráðh. vilji beita sér fyrir því, að þetta frv. verði sent öllum sveitarstjórnum landsins til umsagnar. (Gripið fram í.) Ég hef alltaf haft mikla trú á þessum hæstv. ráðh. og mér þykir vænt um, að hann verður svo fljótt við ábendingum mínum. Ég var farinn kannske að halda, að ráðh. sæi betur og skildi betur, ef hann væri 5. þm. Vestf. heldur en þegar hann er það ekki, en ég sé, að hann hefur ekki tapað þeim eiginleika, sem ég ætlaði, að hann hefði.

En þá er það annað atriði, sem ég vildi víkja að, og það ákvæði frv. hefur komið nokkuð hér til umr., að sveitarstjórnirnar verða sviptar aðstöðu til að fara með útsvarsálagningu. Hæstv. félmrh. hefur mjög varið þessa stefnu frv. Ég og fleiri höfum haldið því fram, að með þessu væri verið að rýra sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna og frv. gengi í ranga átt hvað þetta snerti. Ég hélt, að ég mundi ekki mæla þetta fyrir daufum eyrum hæstv. ráðh. Ég hélt, að það væri hans stefna að halda uppi sjálfsvirðingu og sjálfsákvörðunarrétti sveitarstjórnanna í landinu, og svo var víst a.m.k. meðan hann var 5. þm. Vestf. Þá var hann á þessari skoðun, og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að fara hér með ummæli hans um þetta atriði við umr. um sams konar frv. eða frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem var lagt fyrir Alþ. 1961. Þá sagði þáv. 5. þm. Vestf. á þessa leið:

„Mín till. er því sú, að öll sveitarfélög landsins fái að halda þeim sjálfsákvörðunarrétti, sem þau nú hafa um álagningu sinna útsvara, og legg til, að allur kaflinn um nýja skattstjóraembættafarganið verði felldur niður.“

Á þessum tíma stóð þáv. 5. þm. Vestf. þarna á verði fyrir sveitarfélögin í landinu. En þegar hann hefur valizt til þess að fara með æðsta vald í málefnum sveitarfélaga, þá kemur það á daginn, að hann hefur misst sjónar á þeim sjónarmiðum, sem allir þeir hljóta að hafa í þessu máli, sem vilja halda uppi sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Mér fyndist rétt, að hæstv. ráðh. gerði d. grein fyrir þessum sinnaskiptum og hvernig stendur á því, að hann skuli hafa horfið svo frá skoðun sinni í þessum málum frá því sem áður var.

Þá minntist hæstv. ráðh. á fasteignaskattana. Hann hrakti ekkert af því, sem ég sagði um fasteignaskattana og áhrif þeirra, en hann sagði: Það er eðlilegt að byggja mikið á fasteignasköttunum, vegna þess að fasteignir eru almenningseign, það eiga allir íbúðir. Það er rétt, að það er almennt, að einstaklingarnir eiga íbúðir. Það er vegna þess, að það hefur á undanförnum árum, og ekki sízt á tíma viðreisnarstjórnarinnar, verið haldið uppi þeirri stefnu að gefa einstaklingunum í landinu kost á því að eiga sjálfir sitt íbúðarhúsnæði. Þess vegna er ástandið svona í dag. En það, sem ég sagði, var, að ef fasteignasköttunum er beitt, þá er hætta á því, að mönnum haldist ekki á íbúðum sínum, þeir verði vegna þessara skatta að selja þær, þegar aldur færist yfir þá. En áhrifin verða meiri en þessi. Það minnkar hvötina hjá einstaklingum á öllum aldri að koma sér upp eigin húsnæði, þegar þeir eiga í vonum skattabyrðar fyrir þetta framtak sitt og dugnað.

Hæstv. ráðh. minntist lítið eitt á það, sem ég sagði, að það væri galli á frv., að ekki væri gert ráð fyrir, að útsvar væri lagt á atvinnurekstur. Hæstv. ráðh. var nú mjög daufur í dálkinn, þegar hann vék að þessu atriði. Ég held, að það sé rétt hjá mér, að hann hafi ekki komið með eitt einasta atriði til andmæla á því, sem ég hélt fram í þessu efni.

Þá sagði hæstv. félmrh., að fyrst að ég hefði lýst þeirri skoðun minni, að það væri rétt stefnt með þeirri breytingu á útsvarinu, að miða það við prósentu af tekjum, þá hlyti ég að vera með frv. Þetta finnst mér vera dálítið fljótfærnisleg ályktun hjá hæstv. ráðh., ekki sízt þegar það er haft í huga, að ég margtók fram, að frv. væri meingallað og taldi fram ýmis atriði því til sönnunar. Að sjálfsögðu getur maður verið með einhverju í „prinsipinu“, einhverju atriði t.d. í þessu frv., þó að ekki sé þar með sagt, að maður sé með frv. í heild. Það hlýtur hæstv. ráðh. að skilja, og hann hefur enga ástæðu til að ætla, að ég greiði þessu frv. atkvæði mitt eins og það er nú. Hins vegar gaf hæstv. ráðh. í sinni framsöguræðu það fyrirheit, að hann mundi taka vel öllum skynsamlegum tillögum. Maður hefur nú kannske haldið, að það þyrfti ekki að taka slíkt fram, að maður, sem er í slíkri aðstöðu sem hæstv. ráðh., gerði það. En honum hefur fundizt ástæða til að taka þetta fram. Ég geri ráð fyrir því, að hann megi eiga von á skynsamlegum brtt. frá okkur sjálfstæðismönnum. En mér finnst, að ég eigi meira undir honum um það, hvort ég get greitt atkvæði að lokum með þessu frv., hvað hann verður sjálfur skynsamur að meta þær tillögur, sem fram verða bornar.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég hefði sagt, að það væri margt að í þessum málum núna, og að því leyti væri ég sammála honum. Þetta er alveg rétt, það er margt að. Það væri nú einkennilega komið í þessu þjóðfélagi, ef allt væri fullkomið, jafnvel þó við höfum haft um langan tíma ágætis ríkisstjórn. Það er óhugsandi, að það geti allt verið fullkomið í okkar þjóðfélagi þrátt fyrir það. Satt að segja vonast ég til þess, að við verðum aldrei svo nægjusamir, að það ástand skapist, að við förum að halda því fram, að allt sé fullkomið. Þess vegna tek ég ekkert til baka af því, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að þyrfti að vinna í þessum málum.

Ég kem þá að því, sem er að vissu leyti mest ámælisvert í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það er það, að ekki skuli vera meira tillit tekið til þeirra verkefna, sem blasa við til úrbóta í þessum málum. Þegar hæstv. ríkisstj. ber fram slíkan lagabálk sem þennan, sem hér er til umr., þá finnst mér að verði að gera þá kröfu til ríkisstj., að hún taki þessi mál fyrir þannig, að það sé markvisst og skipulega unnið í þessum málum. Þá á ég fyrst og fremst við, að endurskoðuð sé verkaskiptingin milli ríkis og sveitarfélaga. Það er algerlega gengið fram hjá þessu verkefni. Ég kalla það enga endurskoðun, þó að felldar séu niður greiðslur eða framlög sveitarstjórna til lífeyris- og sjúkratrygginga á móti því, að það eru skertir tekjustofnar sveitarfélaga. Þetta mál er miklu víðtækara. Það, sem blasir við, er það, að ríkisstj. hefur ekki einungis vanrækt þetta, heldur er frv., eins og það er, þess eðlis, að sveitarfélögin eru verr sett en samkv. núgildandi lögum. (Gripið fram í.) Það mun ekki stoða neitt, þó að hæstv. ráðh. vilji nú skjóta sér á bak við tölvuna. Hæstv. ráðh. getur ekki borið það á borð hér, að þetta hljóti að vera í lagi, vegna þess að hann er í slagtogi við þessa tölvu, sem hann er að vitna í. Þetta, sem ég hef sagt, er því eins og málið blasir við. Ég tel, að ekki sé forsvaranlegt að greiða þessu frv. atkvæði. nema gerðar verði á því stórkostlegar breytingar til bóta.