07.03.1972
Efri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í stjórnartíð fyrrv. ríkisstj. vandist maður þeim tón í málflutningi þáv. stjórnarandstæðinga, sem nú skipa stuðningslið hæstv. núv. ríkisstj., að allt væri fánýtt og nánast einskis virði, sem ríkisstj. gerði, nánast öll mál til óþurftar, sem stjórnin beitti sér fyrir. Þannig einkenndist allur málflutningur þeirra þá, sem nú skipa stjórnarliðið. Það var alltaf verið að leita að því neikvæða og í þeirra augum var allt ómögulegt, sem þáv. stjórnarlið lagði til og framkvæmdi, án þess að minnstu tilraunir væru þá til þess gerðar að nota orku sína í að flytja jákvæðar till. til úrbóta þeim vandamálum, sem við var að etja hverju sinni. Það er þó ekki fyrr en eftir myndun núv. hæstv. ríkisstj., 14. júlí s.l., sem þessum vösku mönnum verður það ljóst, að lengur verður ekki vikizt undan því að benda á leiðir til úrbóta á öllu því, sem þeir höfðu áður svo mjög fundið að. En hvaða leið valdi svo hæstv. ríkisstj. út úr sínum sjálfskapaða vítahring? Hver meðalgreindur maður hlýtur að skilja, að það hlaut að verða erfitt fyrir menn með slíkan feril að baki að eiga nú allt í einu að standa ábyrgir gerða sinna í augum alþjóðar. Ríkisstj. fann hins vegar leið út úr þessum vanda. Hún samdi í snarheitum langan loforðalista, þar sem landsmönnum var lofað öllu fögru, og nefndi hann stefnu núverandi ríkisstj., málefnasamning. En þá þrengdist nú fyrst vítahringurinn, því að eftir var þyngsta þrautin, sem var sú að framkvæma hinn langa loforðalista, og um þessar mundir eru efndirnar að koma fram.

Þveröfugt við málflutning fyrrv. stjórnarandstöðu hvarflar ekki að okkur Alþfl.-mönnum að segja, að hæstv. núv. ríkisstj. hafi ekkert til gagns unnið og allar hennar stjórnarathafnir hafi verið til óþurftar. Þeir málaflokkar, sem ríkisstj. hefur flutt, hafa og einnig verið á þann veg, að Alþfl. hefur beinlínis stuðlað að framgangi þeirra, það sem af er þessu þingi. Má þar nefna afstöðu flokksins til frv. ríkisstj. um almannatryggingar, sem var nánast það eitt að flýta gildistöku laganna um fjóra mánuði. Lögin, sem Alþfl. hafði beitt sér fyrir gildistöku á fyrir síðustu alþingiskosningar og fékk samþ. einróma þá, voru, þrátt fyrir það, kölluð hraksmánarlegar bætur til þeirra, sem minnst mættu sín í þjóðfélaginu. Efnislega studdi Alþfl. einnig frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins, þrátt fyrir það að ein brtt. við frv. var felld. Til viðbótar þeirri yfirlýsingu, sem út var gefin af hálfu Alþfl. strax eftir myndun núv. ríkisstj., að hann væri í stjórnarandstöðu, þá var því jafnframt yfir lýst, að hann mundi hafa málefnalega afstöðu til einstakra mála nú sem fyrr. Slík afstaða núv. stjórnarliða meðan þeir voru í stjórnarandstöðu hefði verið talin óhugsanleg. Hverrar tegundar eða efnis, sem málefnin voru, skyldi niðurstaða þeirra ávallt vera sú ein að vera á móti mótmælanna vegna.

Eftir þeim frv., sem nú eru til meðferðar í báðum d. Alþ. og um skattamál fjalla, er ætlunin að fara við skattaálagningu á tekjur, sem aflað var á s.l. ári. Þeir aðilar, einstaklingar og félög, sem opinber gjöld greiða, hafa í góðri trú hagað sinni tekjuöflun samkv. núgildandi lögum. Með þeim breytingum, sem hér er fyrirhugað að lögfesta, 2–3 mánuðum eftir að tekjuárinu lauk, er því verið að læðast aftan að gjaldendum, sem e.t.v. hefðu með öðrum hætti staðið að tekjuöflun sinni, ef þeim hefði verið ljós fyrirætlan núv. hæstv. ríkisstj. í þessum málum.

Sama máli gegnir í raun og veru um sveitarfélögin sjálf, sem eðlilega miða framkvæmdaáætlanir sínar við hugsanlegar tekjuáætlanir samkv. gildandi lögum. Sú stefna, sem hér er mörkuð, veldur stórkostlegum aðstöðumun til tekjuöflunar fyrir hin einstöku byggðarlög og bólar enn þá lítið á viðleitni stjórnvalda til þess að jafna þennan gífurlega mun. Aðstöðugjaldið hefur í þessum efnum reynzt mörgum sveitarfélögum nauðsynlegt tæki til þess að jafna alögur innan sveitarfélagsins og að ná til gjaldþegna, sem ekki hefur reynzt unnt að ná til með öðrum hætti. Úr því á nú að draga.

Frv. um tekjustofna sveitarfélaga hefur nú um nokkurt skeið verið til athugunar í heilbr.- og félmn. deildarinnar, þótt margir fundir hafi ekki verið haldnir um málið. Svo hefur virzt, að allur undirbúningur hafi ekki verið sem skyldi, því að sjálft stuðningslið hæstv. ríkisstj. hefur talið nauðsynlegt að flytja allmargar brtt., eða 18 talsins, við sitt eigið frv., allt fram á síðasta fund n. um málið, 1. marz s.l. Allur málatilbúnaður þessa frv. er með þeim hætti, að til fádæma má telja. Og þar er áreiðanlega beitt meira kappi en forsjá og virðist um of hafa setið í fyrirrúmi að flytja brtt. við gildandi skattalög til ríkis og sveitarfélaga breytinganna vegna, en ekki að sama skapi aðgætt, hverjar afleiðingar umræddar breytingar muni hafa í för með sér. Um þessi efni vitna glöggt þau fjölmörgu erindi, sem Alþ. hafa borizt frá fjölmennum samtökum í tilefni af flutningi þessa frv., sem ýmist hafa inni að halda algjör mótmæli gegn því að frv. nái fram að ganga, eða að til vara eru fluttar óskir um að ótal breytingar verði gerðar á frv., eigi það að ná fram að ganga. Aths. þessar ná allt inn í traustasta stuðningslið núv. ríkisstj. og mun það m.a. orsökin fyrir því, að afgreiðsla málsins í n. hefur tekið lengri tíma en upphaflega var áætlað og endanlegar till. þeirra við eigið frv. lágu ekki fyrir fyrr en á síðasta fundi í þeirri n., sem málið hafði til meðferðar. Þess ber þó að geta, sem vert er, að þessar sjálfsgagnrýnistillögur eru margar nokkuð í bótaátt frá frv. sjálfu. Og vonandi tekst Alþ. að færa þær enn til bótaáttar.

Meginstefna frv. um tekjustofna sveitarfélaga ásamt frv. um tekjuskatt miðar að því að þyngja beina skatta á meginþorra allra gjaldþegna þjóðarinnar. Hefur í því sambandi verið nefnd talan 70–80% gjaldenda. Í þessu sem öðru mun þó reynslan verða ólygnust, þ.e. skattskráin sjálf, þegar hún kemur fyrir almenningssjónir á sumri komanda væntanlega. Sú bók mun skýra álögurnar annars vegar og loforð núv. stjórnarflokka fyrir síðustu alþingiskosningar hins vegar um lækkandi skatta, svo að ekki verður um villzt. Þar munu birtast afleiðingar þeirra stefnu, sem ríkisstj. og stuðningslið hennar er með umræddum frv. að fara inn á.

Eins og ég áðan sagði, er erfitt að ræða efni þessa frv., án þess að jafnframt verði rætt fylgifrv. þess, sem nú liggur fyrir hv. Nd., um tekjuskatt, svo nátengd sem þessi frv. eru, en þau atriði verða áreiðanlega rædd hér, þegar málið kemur til deildarinnar. Alþfl. telur það til bóta í meginstefnu þessa frv., að þorri nefskatta verði lagður niður, og er fullvel ljóst, að í stað þess fjár, sem með þeim hefur veríð aflað, verða að koma nýir tekjustofnat og í því sambandi sé þess sérstaklega gætt, að heimila möguleika til jöfnunar á innheimtu þeirra án tillits til þess hvar menn eru búsettir. Meginstefna Alþfl. í skattamálum er sú, að launafólk greiði ekki tekjuskatt eða útsvar af þeim tekjum, sem nauðsynlegar eru til venjulegs lífsframfæris. Með þeirri stefnu, sem mörkuð er með þessu frv. ríkisstj., telur Alþfl. þetta ekki tryggt nema siður sé. Ég tel, að réttast sé að vísa þessu frv. til ríkisstj. aftur til framhaldsendurskoðunar, og geri það hér með að till. minni, sbr. það nál., sem útbýtt hefur verið í d. Ef það er hins vegar vilji stuðningsmanna ríkisstj. að knýja þetta frv. um tekjustofna sveitarfélaganna fram óbreytt, eftir að þeirra eigin brtt. hafa verið felldar inn í frv., verður þess freistað af hálfu Alþfl. að flytja brtt. til enn frekari breytinga á frv. í bótaátt og er það gert á sérstöku þskj. Endanleg afstaða Alþfl. til frv. mun ráðast af því, hverja afgreiðslu þessar till. fá ásamt öðrum till., er til bóta horfa, í meðförum Alþ.

Brtt. þær, sem fluttar eru á fyrrnefndu þskj. okkar, skýra sig að mestu sjálfar og þurfa því ekki mikilla útskýringa við. Fyrsta brtt. er um framlengingu aðstöðugjaldsins. Önnur um að undanþiggja bætur samkv. 11. kafla laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, útsvarsálagningu. Og þriðja brtt., sem er í fjórum stafliðum, er nánast til staðfestingar á þeim frádráttarliðum, sem eru í núgildandi lögum. svo sem helmingur tekna giftrar konu, hlífðarfatakostnaður sjómanna, námskostnaður vegna menntunar barna ásamt því að útsvar siðasta árs komi til frádráttar, hafi það verið greitt á réttum gjalddögum. Eina brtt. frá undirrituðum tóku stuðningsmenn stjórnarflokkanna í heilbr.- og félmn. þó til greina og hafa gert að sinni, og ber að þakka fyrir það. Það er till. um það, að launþegi sé laus allra mála í sambandi við skyldur sínar til skattgreiðslu, geti hann sýnt kvittun frá atvinnurekenda fyrir greiðslu á gjöldum sínum, er dregin hafa verið frá launum hans. Á þetta hefur mjög skort, þegar atvinnurekandi hefur ekki staðið í skilum, og þrátt fyrir það að viðkomandi hefur misst þar hluta af launatekjum sínum hefur hann verið sóttur til saka, ef atvinnurekandi hefur ekki staðið við sínar skuldbindingar.

Með tilkomu þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið með lögum um almannatryggingar til aukningar á bótagreiðslum til aldraðra og öryrkja, verður að telja, að um sýndan bita en ekki gefinn sé að ræða, ef síðan á að skattleggja þessar bætur. Þess vegna er það lagt til, að gjöld á þau verði ekki lögð.

Herra forseti. Ég hef farið nokkrum almennum orðum um þau frv., sem hér liggja fyrir um skattamál, og svo sem fyrr segir mun endanleg afstaða Alþfl. ráðast af því, hverja afgreiðslu brtt. fá við meðferð málsins.