07.03.1972
Efri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er von, þegar rætt er um frv. um tekjustofna sveitarfélaga, að rætt sé um stefnu í skattamálum í heild, sérstaklega þegar á sama tíma er verið að ræða í Nd. frv. til l. um breyt. á tekju- og eignarskatti. Ég býst við því, að við játum öll meira og minna, að skattbyrðin í þjóðfélaginu verði að miðast við gjaldþol skattþegnanna. Fyrir hitt er svo ekki loku skotið, að mismunandi mat gildi hjá hverjum og einum, jafnvel eftir stjórnmálaskoðunum, hvert gjaldþol borgaranna sé. E.t.v. er þetta mismunandi mat byggt á þeim mismunandi stefnum, sem ríkja í stjórnmálunum. Annars vegar er sú stefna, sem leggur áherzlu á það, að borgararnir sjálfir hafi sem mest umráð yfir aflatekjum sínum og vald til þess að ráðstafa þeim. eftir því sem þeir telja skynsamlegt á hverjum tíma, og svo hin stefnan, sem kveður svo á, að hið opinbera, stjórnvöld eigi að hafa vit fyrir borgurunum og samkv. því sé ekkert við því að segja, þótt langt sé seilzt ofan í vasa borgaranna í skattheimtu, sem notuð sé siðan til þess að efla opinbera sjóði og úthluta úr þeim. eftir því sem ákveðið er. Hér er óneitanlega um það að ræða, hvort réttlætanlegar séu, að svo miklu marki sem svo kallaðir vinstri flokkar og núv. stjórnarflokkar vilja, millifærslur milli borgaranna með viðkomu í opinberum sjóðum. Þessar millifærslur eru að vissu marki nauðsynlegar og við sjálfstæðismenn erum fylgjandi þeim. eins og t.d. þegar þær eru fólgnar í eflingu tryggingakerfisins, en við viljum leitast við að koma í veg fyrir það, að þær millifærslur séu í því fólgnar, að tekið sé úr einum vasa og látið í hinn, jafnvel sama skattborgara, því að við slíka aðferð rýrnar fjármagnið þegar, vegna kostnaðar við skattheimtuna og innheimtuna, skriffinnsku og loks kostnað við úthlutun að nýju.

Það er veikleiki stjórnmálamanna að þykjast gera allt fyrir alla, án þess að gera því skil, að reikninga þessa borga engir aðrir en allur almenningur í landinu. Þess vegna á meginmarkmiðið og meginviðmiðunin við endurskoðun skattalaganna auðvitað að vera sú, að hver og einn ráði sem mest sínu eigin aflafé. En þótt mat okkar á því, hvert gjaldþol borgaranna sé á hverjum tíma, sé e.t.v. að nokkru byggt á þessum skoðanaágreiningi í stjórnmálum, þá held ég, að við ættum að vera sammála um það, að við verðum þó að gera okkur alla vega í upphafi grein fyrir, hvert gjaldþolið er að mati hvers og eins okkar, og ekki fyrr en það er komið fram að ráðstafa tekjunum. En hér er öfugt að farið; fyrst eru útgjöldin ákveðin með samþykkt fjárlaga, sem hafa hækkað meira í einum áfanga en nokkur dæmi eru til um áður, en látið skeika að sköpuðu, hvernig aflað skuli teknanna, og við stöndum í þeim sporum, — eða alla vega standa stjórnarflokkarnir, sem ábyrgð bera á fjárlögunum, í þeim sporum, — að verða hvað sem kostar að afla þeirra tekna, sem fjárlög gera ráð fyrir.

Um það hefur verið rætt í umr. um þessi skattafrv., hvort þau hafi í för með sér þyngingu á skattbyrði eða ekki. Það var svo að heyra á frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., að hér væri ekki um neina þyngingu á skattbyrði almennings í landinu að ræða. Hann vitnaði þar til Efnahagsstofnunarinnar. Forsenda þeirrar skýrslu er sú, að gert er ráð fyrir því, að beitt verði skattvísitölu 6.5%, og það er á þeim forsendum, sem Efnahagsstofnunin dregur þessa ályktun. Ég kem síðar að því, að hér er gefin forsenda af hálfu stjórnvalda, sem biðja um þennan útreikning, Efnahagsstofnuninni til handa, sem henni er nauðbeygður einn kostur að fylgja. Það er rétt út af fyrir sig, svo langt sem það nær, að sé miðað við þá forsendu, er hægt að fá út, að krónutala skattlagningar eftir gamla kerfinu og hinu nýja yrði álíka há, en þetta er alröng forsenda. Við skulum samt sem áður ganga út frá því í bili, að hún sé rétt, og þá vil ég á þeim grundvelli draga mjög í efa, að skattbyrðin aukist ekki.

Ég bendi á það, að sá munur er á gamla kerfinu og hinu nýja, að samkv. gamla kerfinu eru fleiri skattgjöld frádráttarbær. Til þessa er ekki tekið tillit, þegar sú ályktun er dregin, að skattbyrðin sé álíka. Í öðru lagi eru fleiri gjöld samkv. gamla kerfinu bundin í vísitölunni, þannig að hækkun þeirra kemur fram í hækkuðu kaupi, og auðvitað er það út af fyrir sig ekki aukning á skattbyrði, ef laun hækka svo að samsvarar hækkun skatta. Þegar hvor tveggja þessi atriði eru tekin til greina, aukin og meiri frádráttarhæfni gjalda samkv. gamla kerfinu og frádráttarhæfni nefskatta og ýmissa annarra gjalda, svo og það, að þessi gjöld hafa áhrif á vísitöluna og eru uppi borin eða hækkun þeirra er uppi borin með hækkuðu kaupi, þá er vitaskuld ljóst, að skattbyrðin eykst samkv. nýja kerfinu, þótt aðeins sé byggt á skattvísitölunni 6.5.

Nú er það auðvitað aðeins tilbúningur stjórnarflokkanna sjálfra að byggja á skattvísitölunni 6.5. Það er enginn, sem segir, að það sé eitthvert náttúrunnar lögmál. Í upphafi viðreisnarstjórnarinnar var það markmið sett, að almennar launatekjur væru ekki skattskyldar við ríkissjóð, og þegar rætt var um almennar launatekjur, þá var miðað við dagkaup í ákveðnum flokki samkv. Dagsbrúnarsamningum ásamt með einni stund í eftirvinnu 6 daga vikunnar. Við þetta var persónufrádráttur hjóna ákvarðaður og í hlutfalli við það aðrir persónufrádrættir. Þetta var fyrst gert álagningarárið 1960 og við þessa persónufrádrætti var svo stuðzt við álagningu 1961, 1962 og 1963 óbreytt að krónutölu. Þá hafði auðvitað þróunin orðið sú, að þeir voru minna virði vegna verðbólgu, þannig að álagningarárið 1964 var persónufrádráttur aukinn ásamt með hækkun á tekjuskattsstigum. Árið 1965 var persónufrádrátturinn enn aukinn í samræmi við almennar launatekjur og breytingar gerðar á tekjuskattsstigum, þannig að 10, 20 og 30% tekjuskattsstigum var breytt í 9, 18 og 27%. Sömuleiðis var nýr persónufrádráttur samþykktur af útsvari. Frá álagningarárinu 1965, sem hefur talizt grunnár bæði í tekjuskattsálagningu og tekjuútsvarsálagningu, hefur verið gengið út frá því, að persónufrádrættir og skattstigar breyttust samkv. skattvísitölu. Skattvísitala hefur verið ákveðin þannig, að hún hefur 1966. 1967 og 1968 verið hærri en vísitala almennra launatekna og framfærsluvísitala. Vegna þeirra áfalla, sem við urðum fyrir á árunum 1967 og 1968 og kom fram í skattlagningu 1969 og 1970, tókst ekki að halda í horfinu við ákvörðun skattvísitölu, samanborið við vísitölu almennra launatekna og framfærsluvísitölu, þannig að þá myndaðist nokkurt bil þar á milli. Við skattlagningu 1971, ákvörðun skattvísitölu í fyrra, var leitazt við að vinna þetta bil upp, eins og fyrrv. fjmrh. hafði lýst yfir að mundi verða gert, þegar batnandi árferði gerði það kleift, og þá var skattvísitalan aukin mun meira en framfærsluvísitalan jókst þá á milli ára, en ekki að fullu eins mikið og vísitala almennra launatekna hafði vaxið.

Ef við lítum á, hvernig dæmið stendur núna, þá þyrfti skattvísitalan að vera 24%, ef hún ætti að ná fullkomlega framfærsluvísitölunni, og 33%, ef hún ætti að ná fullkomlega vísitölu almennra launatekna. Ábending 1. minni hl. heilbr.- og félmn. um skattvísitölu 21.5% er við það miðuð fyrst og fremst, að áætlanir Efnahagsstofnunarinnar gerðu ráð fyrir því, að almennar tekjur milli ára hefðu aukizt um það hlutfall, en auk þess er þessi ábending um skattvísitölu og þessi till. um skattvísitölugildi fyrir álagningarárið 1972 við það miðuð, að unnt væri að ná vísitölu almennra launatekna í áföngum nú í ár og á næsta ári, ef svo heldur fram sem horfir, að góðæri haldist í viðskiptakjörum og aflabrögðum. Hér er þess vegna með fullri aðgát og ábyrgðartilfinningu að farið, og það virðist mjög gagnrýnisvert, að núv. stjórnarflokkar, fyrrv. stjórnarandstaða, sem gagnrýndi það mjög, að skattvísitalan fylgdi ekki framfærsluvísitölunni, skyldi ekki huga að því að ná upp að einu eða neinu leyti því, sem skattvísitalan var orðin á eftir hækkun framfærsluvísitölunnar, þrátt fyrir fyrri gagnrýni sína þar að lútandi.

Ef við hverfum nú aftur að því, hver skattbyrðin er, miðað við skattvísitölu 21.5%, sem er, eins og ég hef frá skýrt, ekki óeðlileg víðmiðun, þá kemur fram í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar, sem dags. er 29. febr., að heildarálagningartölur mundu vera samkv. gamla kerfinu rúmlega 7 milljarðar, en samkv. nýja kerfinu um 7 milljarðar 750 millj. kr. Skattbyrðin samkv. fyrirhuguðum lögum mundi þannig aukast um yfir 750 millj. kr. Hér er þess vegna ekki um það að villast, að um mikla þyngingu skattbyrðarinnar er að ræða. Þegar við erum að tala um samanburð á skattbyrði milli ára, þá er auðvitað sá rétti samanburður að taka skattaálagninguna eins og hún er í raun og veru á árinu 1971 samkv. þeim skattseðlum, sem menn fengu þá, og hins vegar taka skattútreikning samkv. fyrirhuguðum lögum á árinu 1972. Ef hlutfall skattgreiðslna ér meira hið síðara ár miðað við heildartekjur skattþegnsins, þá er um aukningu skattbyrðarinnar að ræða. Það hygg ég, að ætti að vera öllum mönnum ljóst. Nú mundu stjórnarsinnar e.t.v. gagnrýna mig fyrir þetta á þeim grundvelli, að ég tæki ekki tillit til hækkaðra útgjalda, sem skattborgurum kæmi að gagni, og vitaskuld er það rétt, að við getum haft ólíkar skoðanir á því, hvort hækkuð opinber gjöld koma skattþegnunum að gagni og hvort réttlætanlegt sé á hverjum tíma að auka skattbyrðina á þeim grundvelli. Það er út af fyrir sig annað mál, en við verðum að gera okkur sjálfstæða grein fyrir því, hvort skattbyrðin þyngist frá einu ári til annars, og við skulum ekki fela það, og það er alla vega vísbending um það, að núv. stjórnarsinnum sýnist ekki vænlegt að segja, að aukin útgjöld komi fólkinu að auknu gagni, ef þeir vilja ekki kannast við þá augljósu staðreynd, sem fram hefur komið í útreikningi á áhrifum frv., að skattbyrðin fer stórlega vaxandi með tilkomu þeirra.

Það er auðvitað mjög mikið álitamál, með hvaða hætti skuli leggja á skatta til hins opinbera. Það er ekki eingöngu e.t.v. tilefni til ágreinings, hve háir skattarnir eigi að vera í heild og samtals, heldur og hvers konar skatta skuli á leggja og í hvaða mynd. Í nál. meiri hl. heilbr.- og félmn. Ed. og 1, minni hl. heilbr.- og félmn. Ed. og 1. minni hl. fjhn. Nd. kemur fram, að það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að það beri fyrst og fremst að leggja skatta á eyðslu fremur en tekjuöflun eða eignamyndun. Við teljum, að það beri að stilla sköttum á tekjuöflun og eignamyndun í hóf til þess að draga ekki úr viðleitni manna til þess að leggja sig fram um að skapa verðmæti fyrir sig og þjóðarbúið í heild. Við teljum það ekki nauðsynlegt, að hærri tekjur einstaklinga eða einstakra hópa þeirra hafi í för með sér lægri tekjur fyrir aðra einstaklinga eða aðra hópa innan sama þjóðfélags. Við álítum þvert á móti, að meira og öflugra framtak einstaklinganna og meiri tekjuöflun, sem fer í kjölfar slíks framtaks, sé til þess fallið að hækka tekjur alls almennings í landinu og bæta lífskjörin og auka kaupmáttinn. Það er af þessum ástæðum, sem við teljum mjög varhugavert að skattleggja tekjuöflun og eignamyndun, svo að ekki sé dregið úr þessum hvata manna til þess að skapa sér og umhverfi sínu meiri og betri lífskjör, og það er á grundvelli þessarar skoðunar okkar, að við teljum að draga beri úr beinum sköttum, bæði tekju- og eignarsköttum, en fremur eigi að leggja á óbeina skatta.

Það er svo, að við höfum viljað setja það mark, að ekki beri að leggja á hærri skatta en 50% á síðustu krónuna, sem hver einstaklingur vinnur sér inn. Samkv. framlögðu tekjustofnafrv. og tekju- og eignarskattsfrv. er gert ráð fyrir 55% skattlagningu á einstakling. Samkv. gamla kerfinu var hér um að ræða hæst um 50–51% skattlagningu, þegar frádráttarhæfni útsvara var komin inn í myndina. Við teljum líka ákaflega gagnrýnisvert, að mjög fljótt er komið í þennan hámarksskatt samkv. fyrirhuguðum skattafrv. Þannig eru hjón með tvö börn komin í hámarksskatt þegar eftir 355 þús. kr. tekjur. Ég hygg, að það hafi komið fram í áliti Alþýðusambands Íslands um meðaltekjur í landinu, að þær hafi verið á síðasta ári milli 400 og 600 þús. kr. Það þýðir, að menn eru komnir í hámarkstekjuskatt áður en þeir eru komnir upp í meðaltekjur. Þetta tel ég algjörlega óeðlilegt og bera alls ekki vitni um það, að verið sé að taka sérstakt tillit til þeirra, sem meðaltekjur hafa eða lágar tekjur. Þá má og á það benda, að tekjuskattur á félög er ætlaður 53% og var hæstur 43%, ef frádráttarhæfni útsvara kemur inn í myndina, auk þess sem fyrningarreglur voru félögunum hagstæðari samkv. fyrri lögunum. Samkv. þessu teljum við afar varasamt og vafasamt að ætla svona mikla skattlagningu á tekjur manna og félaga. Þá er það og gagnrýnisvert, að eignarskattar hækka. Eignarútsvör falla að vísu niður, en hækkun fasteignaskatta gerir meira en að vega þar upp á móti, og samkv. brtt. meiri hl. n. er enn gert ráð fyrir því, að, eignarskattarnir hækki. Samkv. frv. áttu þeir að breytast þannig, að í stað 3 millj. kr. skattfrjálsrar eignar er aðeins 1 millj. kr. skattfrjáls eign, í stað þess að af næstu 3 millj. kr. eign átti að greiða 0.3% á nú af næstu 1 millj. kr. eign að greiða 0.4% samkv. frv., 0.6% samkv. breytingunni og í stað þess að eftir 6 millj. kr. eign átti að greiða 0.6% á nú eftir 2 millj. kr. eign að greiða 1%. Hér er um mikla hækkun að ræða, sem til þess er fallin að draga úr sparnaðarviðleitni manna. Ég minni á það, að það er ekki nema hófleg íbúð, sem er að fasteignamati húss og lóðar 2 millj. kr., og það er ekki óeðlilegt að ætla miðaldra fólki að eiga þetta skuldlítið ásamt e.t.v. einhverjum öðrum eignum, en þá er þetta ráðdeildarfólk um leið komið í eignarskatt. Og hann er tilfinnanlegur, þegar fasteignaskattarnir koma með í reikninginn, en samkv. frv. er ætlazt til þess, að þeir þrefaldist í krónutölu hér í Reykjavík, ferfaldist í krónutölu úti álandi, en með álagsheimildum er hér um að ræða 4.-földun í Reykjavík og úti á landi sexföldun. Ef hér kemur fram hækkun á fasteignamatsstofni um 10–20%, þá er hér um verulega aukningu á skattbyrði að ræða, sem verkar á móti því stefnumiði, sem flestir forsvarsmenn pólitískra flokka á Alþ., nema e.t.v. Alþb., hafa haldið fram, að stuðla beri að því, að hér á Íslandi, búi menn í eigin íbúðum ekki sízt. En þegar á þetta er bent og á það lögð áherzla, að fremur beri að innheimta gjöld til hins opinbera með óbeinum sköttum en beinum sköttum. þá er að því fundið, að óbeinir skattar komi þyngra niður á tekjulágu fólki og fjölskyldufólki. Ég er þeirrar skoðunar, að unnt sé að koma í veg fyrir það með því að haga svo beinum sköttum. persónufrádrætti og fjölskyldubótum, að þessum fjölskyldum sé bætt slík hækkun óbeinna skatta upp.

Ég bendi og á það, að það er almennt álit skattasérfræðinga, að óheinir skattar séu langtum tryggari tekjustofnar en beinir skattar, og það sé betra að hafa eftirlit með, að þeir innheimtist samkv. því, sem löggjöfin og stjórnvöld ætlast til, heldur en þegar um beina skatta er að ræða. Það er að vísu svo, að íhugunarefni gæti verið, í hverju hinir óbeinu skattar ættu að vera fólgnir. Við erum starfandi í EFTA og það samstarf ásamt viðleitni okkar til að tengjast með ákveðnum viðskiptasamningum Efnahagsbandalaginu gerir það að verkum, að ólíklegt er að hækka tollana, og þá sýnist hækkun söluskatts einkum koma til greina. En það kann að vera ákveðnum vandkvæðum bundið og því ástæða til þess að rannsaka, hvort ekki sé rétt að breyta söluskattinum í virðisaukaskatt. Hann er að vísu nokkuð flóknari, en hefur tvo meginkosti. Annars vegar þann, að hann er lagður á samkv. verðmætaaukningu á hverju stigi og hvert stig um sig hefur þess vegna eftirlit með því, að rétt sé fram talið af þeim stigum. sem á undan eru komin. Hinn meginkosturinn er sá, að hann örvar útflutningsframleiðsluna, því að útflutningsfyrirtækin fá hann endurgreiddan við útflutning. Þess vegna er það skoðun okkar að kanna beri eða réttara sagt halda heri áfram könnun þeirri, sem fyrrv. fjmrh. hafði látið gera að þessu leyti með það fyrir augum, að unnt verði að koma á slíkum skatti.

Ég hef nefnt þessa möguleika um óbeina skatta, vegna þess að við viljum vera ábyrgir um það, að sanngjörn skattheimta fáist til hins opinbera, hvort heldur er til ríkis eða sveitarfélaga. Hins vegar vil ég láta það koma skýrt fram. að við teljum okkur ekki bera ábyrgð á þeirri eyðslustefnu, sem núv. ríkisstj. hefur innleitt. Og við teljum það fara í öfuga átt við rétta og heilbrigða þróun, að hlutfall beinna skatta í tekjuöflun hins opinbera fer vaxandi með fyrirhuguðum tekjustofnafrv. og núgildandi fjárlögum fra því, sem verið hefur. Ef við lítum á þróun þessara mála undanfarið, þá vil ég geta þess, að hlutfall beinna skatta fór hækkandi fram til 1968 nokkuð, en hefur frá þeim tíma haldizt óbreytt. í grófum dráttum hef ég fengið upplýsingar um, að þróunin sé þessi: 1966 voru beinir skattar 18.8%, en óbeinir 80%, 1969 eru beinir skattar 19.3%, óbeinir 80.7%, 1970 eru beinir skattar 18.5% óbeinir 81.5%, 1971 eru beinir skattar 19.2% og óbeinir 80.8%, en 1972 eru líkur til, að beinir skattar verði 25.7%, en óbeinir 74.3%. Hér er um ríkissjóð að ræða, en sé litið á útsvör, aðstöðugjöld og fasteignaskatta sem hluta beinna skatta í tekjuöflun hins opinbera, verður myndin þessi, að 1968 voru beinir skattar 37.5%, óbeinir 62.5%, 1969 voru beinir skattar 37%, óbeinir 63%, 1970 voru beinir skattar 35.5%, en óbeinir 64.5%. Útlit er fyrir, að 1972 verði beinir skattar 40%, en óbeinir 60%.

Það skal tekið fram, að aðallega eru sambærilegar tölur frá 1968, en þá urðu breytingar á ríkisreikningunum. af því að tekið var tillit til almannatrygginga. Það skal tekið fram, að tölur frá 1969, (970 og 1971 eru teknar úr fjárlögum og notaðar eru áætlaðar tölur um tekjur sveitarfélaganna. Það skal og tekið fram, að það er vafamál, hvort telja eigi aðstöðugjöld til beinna skatta eða óbeinna, af því að þau eru að mörgu leyti lík söluskatti og að því leyti til lík óbeinum sköttum, en lík beinum sköttum í því, að ekki er heimilt að taka þau inn í verðlagið.

Ef við hverfum nú í bili frá skattheimtunni sem slíkri, þá vildi ég leggja áherzlu á það nú, þegar tekjustofnafrv. er til 2. umr., sem ég reyndar kom að við I. umr. þessa máls, að grundvöllur þess, að unnt sé að ræða um tekjustofna sveitarfélaga, er, hvaða verkefni þeim skuli falin. Það hefur lengi verið kappsmál Sambands ísl. sveitarfélaga að fá fram endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það fyrir augum, að verksvið sveitarfélaga væri aukið. Þessi endurskoðun hefur ekki orðið sá undanfari þessa tekjustofnafrv. sem nauðsynlegt hefði verið. Þvert á móti má segja, að að svo miklu leyti sem þetta tekjustofnafrv. tekur til verkefna sveitarfélaga, sé það fremur til þess fallið að minnka þau en auka við. Það er þó mjög mikið nauðsynjamál að auka við verkefni sveitarfélaga. Ef við viljum í raun og veru færa fleiri verkefni út til fólksins sjálfs og til staðarvalda, ef við viljum í raun og veru draga úr miðstjórnarvaldi og efla svo kallað jafnvægi í byggð landsins, þá liggur beinast við að auka við verkefni sveitarfélaga. Þetta hefur núverandi ríkisstj. látið sér í léttu rúmi liggja og vanrækt með öllu.

Í þessu sambandi er áberandi, eins og hv. frsm. 1. minni hl. heilbr.- og félmn. gat um í ræðu sinni hér áðan, sá skortur á samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga, sem fram kemur í undirbúningi þessa tekjustofnafrv. Ég skal ekki endurtaka það, sem hv. frsm. sagði um það, en vil þó benda á, að í nefndarstörfum, eftir að þetta frv. kom til athugunar n., þá hefur aðild Sambands ísl. sveitarfélaga að frv. og skoðun þess ekki verið önnur en sú, að formaður og framkvæmdastjóri samtakanna munu hafa setið á einum fundi nefndar morgunstund. Ef verklag fyrri stjórnar hefði verið við haft, þá hefðu fulltrúi ríkisvaldsins annars vegar og fulltrúi samtaka sveitarfélaga hins vegar mælzt sem jafnréttháir aðilar og samið sín á milli frv. sem þetta, eftir að hafa haft samráð hvor við sinn umbjóðanda og eftir að vera ábyrgir hvor gagnvart sínum umbjóðanda fyrir og eftir slíkan samning. Þetta var háttur fyrrv. stjórnar í þessum efnum, að því er tekur til samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga, en núverandi stjórn með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar hefur að þessu leyti, algjörlega gengið fram hjá samtökum sveitarfélaganna í landinu þrátt fyrir loforð í stjórnarsáttmála um að efla þá samvinnu.

Hér er eitt dæmi um það miðstjórnarvald og ég vil næstum því segja það einræðisvald, sem ríkisstj. reynir að efla með sér. Ég vil ekki draga undan, að ég tel það horfa til bóta í frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér er til umr., eins og ég raunar gat um við 1. umr. málsins, að í einstaka atriðum eru gerð hreinni skipti að því er sameiginleg útgjöld sveitarfélaga og ríkisins snertir, og á ég þá við, að hlutdeild sveitarfélaga í kostnaði af löggæzlu og í almannatryggingagjöldum er afnumin, þótt nokkur eftirsjá sé í þeim tengslum, sem t.d. þetta kostnaðarhlutfall sveitarfélaga veitti að því er snertir löggæzluna, þótt sveitarfélögum væri ekki veitt bein aðild að stjórn hennar. Hins vegar hefur aðeins hálft skrefið verið stigið að því er snertir hlutdeild sveitarfélaga í sjúkratryggingunum, og er þar þess vegna sama óljósa verkaskipting eða kostnaðarskipting og áður var.

Um leið og bent er á þessi skref til bóta, sem frv. um tekjustofna sveitarfélaga hefur í för með sér, og að því leyti má segja, að frv. leiði til einföldunar, þá er það víðs fjarri, að frv. leiði til einföldunar skattkerfisins að öðru leyti. Þegar þetta frv. er skoðað ásamt með frv. því, er Nd. hefur nú til meðferðar um breytingu á tekju- og eignarskatti, þá kemur fram, að samkv. þessu frv. um tekjustofna sveitarfélaga á að leggja útsvör á samkv. brúttótekjum, en samkv. frv. til breytinga á tekjuskatti á að leggja tekjuskatt á samkv. nettótekjum. Samkv. tekjustofnafrv. á persónufrádráttur að dragast frá eftir álagningu, samkv. tekjuskattsfrv. á persónufrádráttur að dragast frá fyrir álagningu. Hér er bersýnilega um slíkan rugling að ræða, að fjarri er því að leiði til einföldunar skattkerfisins, heldur er allt, að því er virðist, gert til þess að rugla skattþegninn, skattborgarann, sem þó er nauðsynlegt að geti gert sér grein fyrir í hverju tilfelli, hvað af honum verður innheimt af hálfu hins opinbera.

Og þá er ég kominn að því, hvernig þetta frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga sér nú fyrir tekjuþörf þeirra. Ég hef hér fyrir framan mig yfirlit yfir breytingar á tekjum sveitarfélaga vegna endurskoðunar laga um tekjustofna sveitarfélaga, sem hagrannsóknadeild hinnar nýju Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur útbúið, og kemur fram í því yfirliti, að sveitarfélögin eru, miðað við þetta breytta frv., ef brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. eru teknar með í reikninginn, en án heimildarákvæða frv., 933 milljónum kr. verr stödd heldur en samkv. gamla kerfinu. Til viðbótar þarf svo að taka tillit til, að ef notað er ákvæði í 27. gr. um það, að sveitarfélög hafi heimild til þess að undanþiggja ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega útsvari, þá þarf að koma til tekjulækkun, sem nemur 175 millj. kr. Þá eru sveitarfélögin samkv. þessu 1108 millj. kr. verr stödd samkv. fyrirliggjandi frv., en samkv. gamla kerfinu. Útgjaldalækkun þeirra vegna þeirra ástæðna, sem ég gat um áðan, nemur í heild 850 millj. kr., þ.e. sveitarfélögin eru í heild um 260 millj. kr. verr stödd miðað við gamla kerfið. Nú hef ég í þessu miðað við, að nýja kerfið væri nýtt til fullnustu, þ.e. 10% útsvör í öllum sveitarfélögum landsins, en það er kunnugra en frá þurfi að segja, að sveitarfélögin veita mismunandi þjónustu og hafa beitt álagningarstigum mjög mismunandi samkv. gamla kerfínu. Þannig er áætlað, að í heild hafi sveitarfélögin veitt 5.3% afslátt frá útsvarsstiga samkv. gamla kerfinu á síðastliðnu ári, og þetta getur verið mismunur frá því að vera með 12% álag á útsvarsstiga og til þess að vera með 60–70% afslátt frá útsvarsstiga. Ef við tökum þetta frávik til greina, 5.3% afslátt til jafnaðar samkv. gamla kerfinu, þá nemur það hvorki meira né minna en 160 millj. kr., þannig að í heild sinni má segja, að sveitarfélögin séu 420 millj. kr. verr stödd en samkv. gamla kerfinu. Og ef við svo tökum svigrúmið, sem sveitarfélögin hafa, þá geta þau e.t.v. unnið þessar 450 millj. upp með því að hækka tekjuútsvör einstaklinga úr 10% í 11%, en þó ekki nema náðarsamlegt leyfi ráðh. fáist, og með því unnið upp 310 eða 315 millj. kr., og hv. frsm. heilbr.- og félmn. benti á hækkun fasteignaskattsins um allt að 50%, 40–50%, og það gæti gefið 180–225 millj. kr. Með þessu skrimta sveitarfélögin aðeins í heild sinni. En með því að sum sveitarfélög, eins og ég sagði áðan, geta komizt af án þess að nýta allar heimildir, þá er fjárþörf hinna enn meiri en þessar tölur gefa til kynna. Og fyrir þeirri fjárþörf er með engu móti séð.

Í þessu sambandi vil ég aðeins geta þess, að sé Reykjavík tekin, þá gefa 11%, allar álagsheimildir, og 50% álag á fasteignaskatta þá útkomu, að okkur skortir 303 millj. kr. til að vera jafnsettir tekna megin, en útgjaldalækkunin er 375 millj. kr. Þegar þetta allt saman er haft í huga og það til viðbótar, að samkv. núgildandi kerfi hafa sveitarfélögin aðeins nýtt um 60% af aðstöðugjöldunum og hafa þar 400 millj. kr. upp á að hlaupa, þegar þess er sömuleiðis gætt, að sveitarfélögum er samkv. núgildandi kerfi heimilað að leggja 20% álag á útsvarsstiga og hann nemur yfir 600 millj., þá sést á því, að svigrúm sveitarfélaganna er að engu gert. Sum sveitarfélögin skortir blátt áfram á með fullnýttum öllum álagningarheimildum að geta séð fyrir nauðsynlegum útgjöldum. finnur sveitarfélög og fjöldinn er rétt þarna á mörkunum, og auk þess eru þau svipt öllum viðbótartekjuöflunarmöguleikum, sem þau hafa samkv. núgildandi lögum, þannig að það er útilokað fyrir þau að brydda upp á nýjum viðfangsefnum, leysa ný verkefni, sem sífellt koma fram í framfaraþjóðfélagi, eins og við viljum byggja, Íslendingar.

Ég vil leggja áherzlu á það, að með þessum hætti, með því að skerða tekjustofna sveitarfélaga og álagningarheimildir svo mjög sem raun ber vitni um og ég hef nú sýnt fram á, þá er í raun verið að skerða sjálfsákvörðunarrétt þeirra og sjálfstæði. Ef sveitarfélögum er aðeins skömmtuð ákveðin krónutala, þá geta þau ekki hreyft sig neitt umfram þá fjárveitingu og verða að koma betlandi til ríkissjóðs eða opinberra aðila, ef eitthvert það verkefni er, sem þau telja til þjóðnytja fyrir sig og umhverfi sitt. Með þessum hætti er verið að beina sveitarstjórnarvaldinu í þann farveg, að það sé aðeins embættismenn ríkisins. Og úr því að svona stórt skref er stigið í þessa átt, þá skil ég ekki í raun og veru, hver meiningin er með sjálfstæðum sveitarstjórnarkosningum og sérstökum sveitarstjórnum, af hverju ríkisvaldið tekur þetta ekki allt ísínar hendur og gerir sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga að embættismönnum ríkisins, því að stórt skref í þá átt er verið að stíga með þessum lögum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ef sjálfstæði sveitarfélaga á að vera virkt og ef það er tilgangur stjórnvalda að efla jafnvægi í byggð landsins, þá á sveitarstjórn ekki að þurfa að koma knékrjúpandi fyrir stjórnarherrana í Reykjavík við hvert það verkefni, sem hún hefur áhuga á að leysa.

Hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. vildi gera lítið úr þessari skerðingu á fjárráðum sveitarfélaga. En þau eru samt geigvænleg, eins og ég hef lýst, og skert fjárráð þýða í reynd skert sjálfstæði. Hann sagði eitthvað á þá leið, að það væri ekkert óeðlilegt, að sveitarfélögin hefðu eðlilegt aðhald. Ég er út af fyrir sig alveg sammála honum um það. Sveitarfélögin hafa aðhald, því að þau eru sjálfstætt stjórnvald, sem ber sjálfstæða ábyrgð gagnvart kjósendum sínum. Ef þær fara ekki hófsamlega með skattlagningarheimildir sínar, þá verða sveitarstjórnirnar að standa reikningsskap gerða sinna fyrir kjósendum fjórða hvert ár. Og það er það aðhald, sem á að vera nægilegt í þessum sökum. Til viðbótar á ekki að þurfa að koma, að ríkisvaldið taki álagningarheimildir af sveitarfélögum. En það er út af fyrir sig ágætt af stjórnarsinnum að tala um aðhald sveitarfélaga í fjármálum. þegar þeir sjálfir hafa gert sig seka um að hækka fjárlög um 50% milli ára. Það skal vera ríkisvaldinu leyfilegt, sem bersýnilega á að segja, að sveitarfélög megi engu hnika til og horfast í augu við vaxandi verðbólgu í landinu, sem m.a. núv. ríkisstj. á sinn þátt í.

Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að það gæti horft til einföldunar á skattheimtukerfi hins opinbera, ef sveitarfélögum væru fengnir í hendur, annaðhvort að öllu leyti eða að miklu leyti, beinir tekjuskattar. Það er alla vega ljóst, að eðlilegt er, að sveitarfélögin hafi algeran forgang í þessum efnum, þar sem beinir tekjuskattar eru langmesti hlutinn af tekjuöflun sveitarfélaga, en hlutfallslega lítill þáttur í tekjuöflun ríkisins. Og alla vega væri það sanngjarnt, að sveitarfélögin fengju þann forgang í tekjusköttunum, að ríkissjóður hefði eingöngu það hlutverk, er lyti að tekjujöfnun milli þjóðfélagsþegnanna.

Þá vildi ég aðeins geta um það, að útsvörin eru samkv. lögum ákveðin 10% af tekjum næstliðins almanaksárs. Í upphafi var hér ætlunin, að væri um hrúttótekjur að ræða. Ýmsar undantekningar hafa verið gerðar í meðförum, þannig að hér er um mjög vandmeðfarinn skattstofn að ræða og óljósan, sem ýmsar deilur eiga áreiðanlega eftir að rísa um. Þess vegna væri í sjálfu sér eðlilegra að leggja á sama skattstofn og tekjuskattur til ríkisins er lagður á, nefnilega nettótekjur, og hefur Efnahagsstofnunin veitt mer þær upplýsingar, að 10% útsvör af brúttótekjum jafngildi um það bil 12.7% útsvörum af nettótekjum. En með því, að hér er í raun og veru ljóst, að ekki er séð fyrir tekjuöflun sveitarfélaga, væri eðlilegt, hvor leiðin sem farin væri, að hækka þetta hlutfall, þannig að útsvörin væru e.t.v. 10% af brúttótekjum, en með heimild til 20% álags sveitarfélögum til handa án þess að áskilið væri samþykki ráðh. Auðvitað segi ég þetta með þeim fyrirvara, að tillit yrði tekið til þess í tekjuskatti til ríkisins og hann lækkaður a.m.k. að sama skapi.

Þá vek ég athygli á því, að engan veginn er ljóst í 25. gr. og brtt. nr. 10 við þá gr., hvernig háttað skuli vanhaldaálagi sveitarfélaga, en eins og kunnugt er hefur útsvarsheimild hingað til verið bundin við ákveðna upphæð plús 5–10% vegna vanhalda. Spurningin er, hvernig hugsað er fyrir því með þessum lögum.

Ég vil svo víkja nokkrum orðum að fasteignaskattinum og leggja áherzlu á það, að ég tel hámark hans vera 1/2% og 1% og raunar má segja, að óeðlilegt sé að hafa þarna mismunandi skattprósentur, því að í fasteignamatinu er búið að taka tillit til arðsemi fasteigna. Látum það vera og sættum okkur við þessar mismunandi skattprósentur í fasteignaskatti, 1/2% og 1%, en þá tel ég samt sem áður vera hér um algert hámark að ræða og útilokað að vísa sveitarfélögum á að nota álagsheimildir nú þegar á fyrsta ári þessarar kerfisbreytingar. Ég gat um það fyrr í minni ræðu, hvílíka margföldun fasteignaskatta hér er um að ræða, bæði í Reykjavík og úti á landi, og að auka við þá margföldun með því að nýta álagsheimildina tel ég vera hreint neyðarúrræði og lýsi ábyrgð á því, ef til kæmi, algerlega á hendur núv. ríkisstj. En í þessu sambandi vaknar sú spurning, hvort rétt sé í 2. brtt. frá meiri hl. heilbr.- og félmn„ að hún eigi við 3. gr. frv. (Forseti: Má ég skjóta inn í. Það er prentvilla, það á að vera 5. gr.) Það er einmitt það, því að ella væri búið að taka álagsheimildina af, og ég mundi ekkert finna að því út af fyrir sig, en vildi þó vekja athygli á því.

En það er annað, sem kemur fram í hugann í sambandi við fasteignaskattana, og það er það, sem hæstv. félmrh. sagði hér við I. umr. þessa máls og hv. frsm. meiri hl. n. segir hér áðan, að til mála komi 10–20% hækkun á fasteignamatsstofni, sem geti valdið hækkuðum tekjum sveitarfélaga. Í því sambandi vil ég lýsa eftir, hvað liði þeirri lagagerð, sem nauðsynleg er til þess að binda í kerfi reglulega endurskoðun og endurnýjun fasteignamats þess, sem miðað er við 1. jan. 1970. Mér er kunnugt um það, að nýjar eignir hafa í raun og veru ekki verið metnar samkv. nýja fasteignamatinu eða reglum þeim, sem það byggir á, heldur hefur það byggzt á gamla fasteignamatinu. Og það er undir hælinn lagt, hvort þessar eignir eru komnar inn í hið nýja fasteignamat eða ekki. Meðan tíminn er látinn líða svona, eins og gert hefur verið síðasta ár, og tvö ár eru liðin frá því, sem fasteignamatið virðist miðast við, þá er smátt og smátt verið að gera ónýtt það mikla starf, sem var af hendi leyst með hinu gamla fasteignamati.

Ég vildi enn á ný lýsa yfir: Hvað líður ákvörðun og hvað er fyrirhugað um ákvörðun, ef ákvæði til bráðabirgða nr. 4 verður í lög leitt?

Herra forseti. Ég hef nú gerzt alllangorður um þetta frv. og skattafrv. í heild. Ég vil aðeins að lokum segja það, að hér er í fyrsta lagi stefnt að því að skerða tekjustofna sveitarfélaga og þar með sjálfsákvörðunarrétt þeirra og sjálfstæði. Það er verið að draga valdið frá staðarvöldum, sveitarstjórnum, til miðstjórnarvalds í Reykjavík. Það er í öðru lagi með þessum skattafrv. verið að auka opinbera skattheimtu og af því, sem ég sagði áðan, ljóst, að það er ríkisvaldið, miðstjórnarvaldið, sem ætlar sér sífellt stærri hlut af því.

Það er svo í þriðja lagi verið að auka skattbyrði alls almennings, og sú skattbyrði eykst og þyngist á öllum landsmönnum allt frá því að teljast til lágtekjufólks og þaðan af hærri tekjuflokka. Ég tel því, að mjög mikið óheillaspor sé stigið með samþykkt þeirra frv., sem hér hafa verið sýnd og rædd, óheillaspor, sem núv. ríkisstj. ber ábyrgð á og núv. ríkisstj. verður að standa reikningsskap fyrir gagnvart öllum almenningi í landinu, og ég er í engum vafa um það, að sá reikningur frá almenningi hér á landi mun birtast ríkisstj. innan tíðar.