07.03.1972
Efri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs fyrst og fremst til þess að svara nokkru af því, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. (AS). Ég sé, að hann hefur nú brugðið sér frá í bili, og það er bezt að ég noti þá tækifærið til þess á meðan hann er í burtu að láta þess getið, að mér hefur verið bent á, að þegar ég talaði fyrr sem frsm. fyrir nál. I. minni hl. heilbr.- og félmn., þá muni mér hafa orðið á nokkur mismæli. Það var í sambandi við stallastigann fræga, hvernig útkoman yrði á framkvæmdinni. Ég býst við, að þm. hafi gert sér grein fyrir því, að þar var um mismæli að ræða. Ég tók þar annars vegar sem dæmi gjaldþegn, sem hefur 450 þús. kr. tekjur, hins vegar gjaldþegn, sem hefði 450 100 kr. og svo gjaldþegn, sem hefði aðeins undir markinu, sem í gr. er miðað við, sem sé 449 900 kr. Útkoman er sem sé sú, að ef þetta ákvæði hefði orðið að lögum, þá hefði gjaldþegn, sem hefði farið þetta 100 kr. yfir 450 þús. kr. markið, hækkað í útsvörum um 1000 kr. Ég gæti kannske bætt því við núna, að ef slíkur gjaldþegn hefði gert sér grein fyrir því, við hvaða ríkisstj. hann býr, þá hefði hann kannske haft vit á því að fara bónarveg að sínum vinnuveitanda og biðja hann um að lækka árstekjurnar um 200 kr., svo að hann þyrfti ekki að borga 800 kr. í viðbót með þeim.

En það, sem aðallega fékk mig til að kveðja mér hljóðs hér, eru orð hv. 1. þm. Vesturl., þar sem hann deildi á okkur í 1. minni hl. heilbr.- og félmn. fyrir það, sem í nál. er sagt, að ekki hafi verið efnd loforð stjórnarsáttmálans um að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í landshlutum við endurskoðun tekjustofnalaganna. Ég held, að engum hafi dottið í hug að skilja áður tilvitnuð orð í stjórnarsáttmálanum öðru vísi en svo, að þegar á annað borð átti að skipa nefnd til þess að endurskoða lögin, ættu Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin að fá aðild að þeirri nefnd. Það stendur hins vegar, að þessi nefnd hefur verið skipuð pólitískum fulltrúum stjórnarflokkanna. Hv. þm. vildi leggja það nokkuð að jöfnu, að í nefndina hefðu valizt sveitarstjórnarmenn. Það er rétt. Ég vil taka það fram, að ég hef nú ekki talað um reynslu eða reynsluleysi þeirra nm. Mér er engin launung á því hins vegar, að a.m.k. um sumt af því fólki má segja, að það muni hafa litla reynslu. En þó að þetta verði nú þaulreynt fólk heima í sínum héruðum og þekki vel til í sínu umhverfi, þá hefur það ekki þá yfirsýn, sem heildarsamtökin hafa. Og einmitt í því, að það hefur verið gengið fram hjá, eins og ég sagði í minni framsöguræðu, þeim, sem nánasta þekkingu og bezta yfirsýn hafa yfir þarfir og málefni sveitarfélaganna, það er í því, sem mistökin liggja við endurskoðun laganna.

Þá vildi hv. þm. meina það, — og ég vil gjarnan skjóta því hér inn, að mér finnst hv. þm. ekki hafa mikinn metnað fyrir hönd þessara samtaka, sem hann hefur nú lengi starfað í, — að honum þyki ekkert við það að athuga, að gengið sé fram hjá sveitarstjórnarsambandinu við skipun í slíka nefnd.

Þá taldi hv. þm., að það hefði verið haft samráð, og að því er mér skildist að hans dómi alveg fullnægjandi samráð, við Samband ísl. sveitarfélaga. Ég hef nú hér minnisblað um, hvernig slíkum samræðum hefur verið hagað. 16. ágúst var nefndin skipuð, endurskoðunarnefndin. Á stjórnarfundi sambandsins 13. sept. var samþ. að senda félmrh. og fjmrh. bréf varðandi samþykktir sambandsins um breytingar á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og leggja þar sérstaka áherzlu á, að ríkissjóður greiddi allan löggæzlukostnað frá ársbyrjun 1972. Þarna er það sveitarstjórnasambandið, sem á frumkvæðið. 30. sept. s.l. áttu formaður og framkvæmdastjóri sambandsins viðtöl við félmrh. og komu áframfæri við hann aths. um skipun endurskoðunarnefndarinnar. Lét ráðh. að því liggja, að fulltrúa sambandsins yrði bætt í nefndina, en af því varð þó ekki. Þarna er það aftur sveitarstjórnasambandið, sem á frumkvæðið.

Svo eru á stjórnarfundi, fundi í stjórn sambandsins 4. okt., lagðar fram til umsagnar stjórnarinnar hugmyndir og till. endurskoðunarnefndarinnar um breytingar á II. kafla tekjustofnalaganna um fasteignaskatt. Stjórnin gerði till. um allmiklar breytingar og sumar þeirra hafa verið teknar upp í frv., eins og það var lagt fram, en aðrar ekki. Í byrjun okt. voru fulltrúar sambandsins svo loks kvaddir á fund endurskoðunarnefndarinnar, og af sambandsins hálfu sóttu þennan fund formaður og framkvæmdastjóri sambandsins og Jón G. Tómasson varastjórnarmaður, svo og Gunnlaugur Pétursson borgarritari. Vegna stutts fyrirvara náðist ekki í fleiri stjórnarmenn. Á þessum fundi voru fulltrúum sambandsins kynntar þá fram komnar hugmyndir í nefndinni um breytingar á tekjustofnalögunum og var þess óskað, að stjórn sambandsins fjallaði um þessar hugmyndir. 16. nóv. hélt svo stjórn sambandsins fund um málið ásamt nokkrum fulltrúaráðsmönnum sambandsins, sem staddir voru í bænum. Á þeim fundi mætti Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóri. Engar ályktanir voru gerðar á þessum fundi, aðeins rætt um málið á breiðum grundvelli og skipzt á upplýsingum, enda voru till. nefndarinnar ekki fullmótaðar þá, og var helztu niðurstöðum umr. þá komið á framfæri við formann nefndarinnar símleiðis. Eftir þetta hefur ekki verið frekar leitað til sambandsins né samráð við það haft um þessi mál.

Ég verð nú að segja, að ég held, að það gætu flestir verið mér samdóma um það, að þetta sé nú heldur rýr framkvæmd á því að hafa samráð við stjórn eða Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin um endurskoðun tekjustofnalaganna.

Þá vék hv. þm. nokkuð að verkefnaskiptingunni milli ríkis og sveitarfélaga. Það er tæpast hægt að kalla það því nafni, að þarna hafi farið fram verkefnaskipting. Það, sem gerzt hefur, er nánast það bara, að létt hefur verið af sveitarfélögum útgjöldum til málaflokka, sem þau hafa engin umráð yfir.

Þá vitnaði hv. þm. í ályktun þá, sem gerð var á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga dagana 18.–20. janúar s.l., þar sem að vísu er farið viðurkenningarorðum um frv., en ég verð nú að segja, að þegar áfram er lesið, þá fer að koma annað hljóð í strokkinn. Og þá, eins og ég hef áður minnzt á, er það alvarlegasta ásökunarefnið, að frv. gefi alls ekki nægilegt svigrúm til tekjuöflunar fyrir sveitarfélögin og það vanti talsvert til að heildartekjur sveitarfélaga verði þær sömu samkv. lagafrv. á þessu ári og þær hefðu orðið samkv. gildandi lögum og álagningarreglum sveitarfélaga á siðasta ári. Og þó tekið fullt tillit til lækkunar útgjalda sveitarfélaga.

Síðan er í ályktuninni vikið að þéttbýlum sveitarfélögum, sem muni lenda í miklum vandræðum, ef frv. verði að lögum. Og ég skal nú ekki endurtaka það, því að bæði er það í nál. okkar 1. minni hl. heilbr.- og félmn. og einnig las ég það upp hér í umr. í dag.

Það er ekki bara þetta. Svo eru talin upp ýmis einstök atriði, þar sem sambandið telur frv. vera ábótavant, og bent svo á breytingar, sem á því þurfi að gera. Nokkrar af þeim hafa svo verið teknar inn í brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. og hefði, eins og ég áður hef sagt, verið óþarfi að láta þær koma fram sem brtt., ef sveitarstjórnasambandinu hefði verið sá sómi sýndur að bjóða því aðild að endurskoðunarnefndinni og það hefði þar getað komið sinum aths. að.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. En ég vildi ítreka það, að ég tel það mjög ámælisvert og ég verð að segja mjög óskynsamlegt að ganga þannig fram hjá sveitarstjórnasambandinu við skipun í nefnd, þegar átti að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga, og ég hýst nú við því jafnvel, að þeir, sem því réðu, séu farnir að sjá, að það hafi ekki verið vel ráðið.