07.03.1972
Efri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í umr. hv. síðasta ræðumanns og hv. 6. þm. Reykv. En ég held, að við, sem vorum hér við 1. umr., ættum að muna það, að þar kom fram, að frv. það, sem hér er til umr., hafi ekki verið lagt fram í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Hygg ég, að það segi nægilegt í þessu efni.

Þessar umr., sem hafa orðið um þetta frv., eru nú orðnar alllangar. Það hefur margt komið fram, en ég hygg, að það sé einkennandi fyrir málflutning stjórnarliða, hæstv. félmrh. og þeirra stuðningsmanna ríkisstj., sem hafa talað við 1. umr. um þetta frv. og nú við 2. umr., að þeir hafi lagt megináherzlu á tvennt. Í fyrsta lagi, að frv. efli sjálfstæði sveitarfélaga, og í öðru lagi, að létt væri skattbyrðum af þeim, sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Þetta hvort tveggja hefur verið nægilega hrakið og marghrakið í umr. Ég skal því ekki tefja umr. með því að endurtaka það, sem aðrir hafa sagt um þetta efni og ég sjálfur sagði um þetta efni við 1. umr. málsins. En ég get þó ekki stillt mig um að víkja að atriðum, sem sýna sérstaklega vel misræmið á milli þess annars vegar, sem ríkisstj. og lið hennar segist vilja, og hins vegar þess, sem þeir ætla að gera. Ég tek aðeins dæmi. Þau sýna, að hinn langi tími, sem ríkisstj. hefur tekið sér til umhugsunar milli 1. og 2. umr., hefur ekki nægt til þess að samræma orð og gerðir, nema síður sé. Ég sagðist skyldi taka dæmi.

Ég vík að einu atriði í brtt. meiri hl. heilbr: og félmn. á þskj. 389. 5. líður er á þá leið, að við 10. gr. bætist nýr stafl., sem hljóði: e. Bankar og sparisjóðir. M.ö.o., meiri hl. n. gerir það að till. sinni, að lögð verði landsútsvör á banka og sparisjóði. Við fyrstu sýn kann það að þykja ekki óeðlilegt að hafa bæði banka og sparisjóði undir þessu ákvæði. En þegar betur er að gáð, þá sjá menn, að í þessu sambandi er um gerólíka hluti að ræða. Bankarnir hafa starfsemi, sem dreifist út um allar byggðir landsins, bæði með útibúum, sem þeir hafa, og með lánastarfseminni, sem í mörgum greinum fer eftir almennum reglum og nær til alls landsins.

Þessu er ekki til að dreifa um sparisjóðina. Starfsemi sparisjóðanna er bundin við ákveðin byggðarlög, í flestum tilfellum við ákveðið sveitarfélag. Það er yfirleitt regla þessara lánastofnana, að þær lána ekki út fyrir byggðarlögin. Einmitt vegna þessa séreðlis sparisjóðanna eru þeir ákaflega þýðingarmiklir fyrir hin einstöku byggðarlög og til uppbyggingar víða um landið og stuðla að því, sem við köllum jafnvægi í byggð landsins. Það er ekki óalgengt, að það sé hægt að finna orsakasamband milli vel rekins sparisjóðs og blómlegs byggðarlags. Þetta þekkja allir, sem nokkuð þekkja til landsbyggðarinnar. Með því að hér er um gerólíkt að ræða, banka og sparisjóði, þá á í þessu efni ekki að mínu viti að gilda það sama um hvort tveggja.

Ég hef ekkert á móti því og tel raunar eðlilegt, að lagt sé landsútsvar á bankana. Það mætti spyrja, hver væri ástæðan hins vegar fyrir því, sem lagt er til í brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn., að það verði kveðið svo á, að bankarnir skuli greiða 1% af mismun heildarútlánsvaxta og heildarinnlánsvaxta banka. Ég skal ekki segja, hvað þetta nemur miklum fjárhæðum eða reiknað er með, að þetta nemi miklum fjárhæðum. Mér þykir eðlilegt, að það séu gefnar hér upplýsingar um það. Þær hafa ekki komið. En ég bendi á það, að bankarnir hafa margs konar starfsemi, meiri starfsemi heldur en innlán og útlán gera, og ég varpa fram þeirri hugmynd, hvort ekki komi eins til greina að leggja á nettóhagnað hankanna, en ekki tiltaka þessa skattálagningu með þessum hætti.

En ég vík aftur að sparisjóðunum. Sparisjóðirnir eru ekki einu innlánsstofnanirnar úti á landi. Það eru til innlánsstofnanir víða um land, innlánsdeildir kaupfélaganna. Ég tek eftir því, að það er ekki í till. meiri hl. n. gert ráð fyrir að skattleggja innlánsdeildir kaupfélaganna. Þarna er þó um alveg hliðstæðar stofnanir, ég segi ekki alveg hliðstæðar, en svipaðar stofnanir að ræða. En ég geri það ekki að till. minni, að lagt sé á innlánsdeildir kaupfélaganna. Ég held, að hið sama eigi að gilda um innlánsdeildir kaupfélaganna eins og sparisjóðina og það eigi ekki að leggja landsútsvar á þessa aðila, hvorugan þeirra.

En víkjum nánar að þeirri hugmynd, mér liggur við að segja þeirri fráleitu hugmynd, að ætla að leggja landsútsvör á sparisjóðina. Og þá skulum við athuga, hvaða hugmyndir liggja til grundvallar landsútsvarinu. Í 10. gr. frv. eru ákvæði um það, óbreytt frá gildandi lögum, hverjir skuli greiða landsútsvörin. Það eru ríkisfyrirtæki, sem eiga að gera það og olíufélögin. Það var reiknað með því, þegar þetta var upphaflega sett í lög, að starfsemi olíufélaganna, eignir þeirra og tæki væru um allt landið.

Samkv. þessari grundvallarreglu um landsútsvar eru engar frambærilegar ástæður fyrir því að leggja landsútsvar á sparisjóðina. Þetta hefði mátt ætla, að væri nokkuð augljóst. En það hefur greinilega ekki verið ljóst þeim, sem gera þessa till., og þeim hefur meira að segja verið það svo óljóst, að ekki er samkv. till. meiri hl. n. gert ráð fyrir, að sama regla gildi um landsútsvar af sparisjóðum og önnur landsútsvör. En sú regla er nú í gildandi lögum um landsútsvör og er tekin upp í 13. gr. þessa frv., að fjórðungur landsútsvara, sem til falla í hverju sveitarfélagi, skal koma í hlut þess. Hvert einstakt sveitarfélag er þó látið njóta sérstaklega landsútsvarsins að nokkrum hluta. En samkv. þeirri brtt., sem hér er gerð, þá á þetta ekki að gilda um landsútsvar af sparisjóðum. Sjá allir, hvílík fjarstæða slíkt er, og ætti raunar ekki að þurfa að fjölyrða frekar um það.

Ég sagði, að ég ætlaði að láta mér nægja að taka dæmi. En þetta er gott dæmi um það, hvernig stjórnarliðar standa að þeim loforðum sínum að stuðla að því, að efldar verði hinar dreifðu byggðir landsins. Þeir gera till., sem miða algerlega í gagnstæða átt.

Ég skal þá taka annað dæmi, og það eru fasteignaskattarnir. Ég skal ekki ræða um þá hér á sama hátt og ég gerði við 1. umr. En ég minnist á þá hér af alveg sérstöku tilefni. Hv. 6. landsk. þm. ræddi um fasteignaskattana og gerði það með þeim hætti, að ég tel nauðsynlegt að víkja nánar að þeim. Það var helzt að skilja á þessum hv. þm., að fasteignaskattarnir væru mikið heillaráð. Hann lagði ekki sérstaka áherzlu á þá til að efla tekjustofna sveitarfélaganna. Það, sem hann lagði einkum áherzlu á, var, að þeir væru mikið heillaráð til þess að ná til þeirra, sem hefðu getað komizt undan sköttum. Ég hef ekki heyrt þetta sjónarmið fyrr, en hv. þm. lagði mikla áherzlu á þetta sjónarmið. Það má kannske mikið vera, að það sé ekki þetta sjónarmið, sem mestu ráði um það, að hæstv. ríkisstj. gerir það að stefnu sinni að hækka stórkostlega fasteignaskattana.

En lítum þá nánar á fasteignaskattana og eðli þeirra. Fasteignaskatturinn þýðir það, að verið er að skattleggja eina tegund fjármunamyndunar umfram aðra. Hvaða ástæður eru til þess? Ég spyr. Er ekki hæpið að gera slíkt? Það hlýtur að vera tilgangur með þessu eða ætti að vera það eða a.m.k., að þetta ætti að hafa einhverjar afleiðingar. Það liggur beinast við að álykta sem svo, að skattur sérstaklega á þessum eignum dragi úr fjármunamyndun á þessu sviði. Er það þá gert til þess að örva fjármunamyndun á einhverjum öðrum sviðum, til þess t.d. að örva menn til þess að kaupa verðbréf eða kaupa hlutabréf? Og það má þá spyrja: er ástæða til þess að leggja meira á það fjármagn, sem er bundið við jörðina, heldur en það fjármagn, sem er geymt í bankahólfum eða peningaskápum?

Þá er önnur veigamikil spurning í þessu efni. Hvaða áhrif hefur fasteignaskattur á sparnaðinn í landinu? Og ef á að draga úr sparnaði í fasteignum, er þá ekki nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að örva annan sparnað, eða ætlast menn til, að eyðslan verði aukin? Það hefði t.d. mátt ætla, að um leið og ríkisstj. vildi draga úr þessum sparnaði, þá setti hún beina reglu til þess að örva sparnað t.d. í formi hlutabréfakaupa eða verðbréfakaupa. En þetta er greinilega ekki ætlun ríkisstj., sbr. að í frv. um tekju- og eignarskatt, sem liggur fyrir hv. Nd., er lagt til að fella niður ákvæði um skattfrjálsan arð af hlutafé að ákveðnu marki.

En hvernig kemur svo fasteignaskatturinn niður? Það á að leggja fasteignaskatt á atvinnureksturinn. Það kemur ákaflega mismunandi niður, því að það er mjög mismunandi, hvað atvinnureksturinn þarf á fasteignum að halda. Sá atvinnurekstur, sem við venjulega köllum framleiðsluatvinnuvegina, þarf á mestum fasteignum að halda. Það er sama, hvort það er sjávarútvegur, frystihús, landbúnaður eða sláturhús. Fasteignaskattur beinist fyrst og fremst að þeim atvinnuvegum, sem verða að leggja mest í fasteignir. Og innan einstakra atvinnuvega er þetta einnig mjög mismunandi, t.d. í verzlun. Sú verzlun, sem fæst mest við nauðsynjavörur, þarf alla jafna mestar fasteignir. En það er hægt að reka heildsölur með munaðarvörur án þess að eiga nokkrar fasteignir.

Ég hygg, að ef það er meiningin hjá ríkisstj. að ná sérstaklega til þeirra, sem betur eru settir í þjóðfélaginu, þá sé þetta ekki leiðin til þess. Þeim er í lófa lagið að festa fé sitt í öðrum eignum, sem ekki eru skattlagðar til jafns við fasteignir. En það á að auka stórlega fasteignaskatta á öllu íbúðarhúsnæði í landinu, og menn komast ekki hjá því að búa í húsum. Þessi skattur kemur ekki sérlega hart niður á þeim, sem hafa háar tekjur eða eiga miklar eignir. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði kemur harðast niður á þeim, sem verst eru settir í þjóðfélaginu.

Ég sagðist ætla að taka dæmi. Þetta var dæmi um það, að þegar stjórnarliðar segja, að þeir séu að leggja til málanna að bæta hag þeirra verst settu, þá eru þeir að gera þveröfugt. Svona mætti halda áfram að taka dæmi. En ég lofaði því, að ég skyldi ekki lengja þessar umr. um of. Mér þykir nægilegt að benda á þessi dæmi til þess að sýna fram á vinnubrögð stjórnarinnar í þessu máli.

Ég sagði í upphafi, að það hafi margir bent á annmarka þessa frv., og það hefur ekki verið dregið úr ádeilum og ábendingum við 2. umr. En svo er að sjá, kannske rætist úr því, að hæstv. félmrh. sé hættur að halda uppi vörnum fyrir þetta frv., því að það hefur ekki heyrzt eitt orð frá honum í þessum umr. Ég geri mér nú ekki mikla von um, að þar sé um hugarfarsbreytingu að ræða. En segja mætti mér, að bæði hann og ýmsir aðrir í stjórnarliðinu sjái nú betur en áður, að hyggilegra hefði verið að fara með gát í skattamálunum og undirbúa frv. og till. um þau af meiri kostgæfni og meiri fyrirhyggju en gert hefur verið.