09.03.1972
Efri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins geta þess til að vekja athygli hv. dm. á því, að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur á fundi sínum í fyrradag samþykkt enn á ný áskorun til Alþ., og með því að hv. I. þm. Vesturl. vitnaði annars vegar sérstaklega í fyrri samþykkt sambandsins og fulltrúaráðsfundar þess í janúarmánuði s.l. og hins vegar, að því er ég einnig hygg, í þessa nýju yfirlýsingu stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga að nokkru leyti, þá tel ég ástæðu til þess, að hv. dm. sé kunnugt, hvað í þessari ályktun felst.

Það hefur verið spurt um það og nokkuð rætt og jafnvel um það deilt, hvort Samband ísl. sveitarfélaga telji fram komið tekjustofnafrv. fullnægjandi. Það er alveg rétt, að fram hefur komið í ályktun fulltrúaráðsfundar, að að mörgu leyti telji sambandið frv. stefna í rétta átt og horfa til einföldunar. Ég er að vísu ekki sammála seinni liðnum, en get tekið undir það, að í nokkrum atriðum horfir frv. sem slíkt í rétta átt, en að meginstefnu til, nefnilega þeirri að sjá sveitarfélögunum fyrir nægilegum tekjustofnum, er frv. mjög gallað, eins og ég hef þegar rakið og skal ekki endurtaka nema þá að litlu leyti.

En þessi ályktun stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga gerir það alveg ljóst, hvaða augum samtökin líta frv. eftir að brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. eru komnar fram. Og í þessari yfirlýsingu segir stjórnin, með leyfi forseta: ,.Stjórn sambandsins telur, að enn sem komið er skorti mjög á, að þau meginsjónarmið, sem fram komi í þeirri ályktun fulltrúaráðsfundarins [frá því í janúar] hafi verið tekin til greina af meiri hluta n. Stjórnin beinir þeim eindregnu tilmælum til Alþ., að gerðar verði breyt. á frv. í samræmi við ályktun fulltrúaráðsins. Stjórnin ítrekar það, sem segir í ályktun fulltrúaráðsins„. “Síðan er tekinn mjög mikill kafli úr þeirri ályktun en sá kafli er tekinn upp í nál. l. minni hl. heilbr.- og félmn., svo að ég skal ekki endurtaka hann, nema að þar segir, „að tekjustofnakerfi það, sem í frv. felst, gefi alls ekki nægilegt svigrúm til tekjuöflunar.“ Og vitnað er til skýrslu Efnahagsstofnunarinnar og fleiri aðila, að það vanti talsvert til að heildartekjur sveitarfélaga verði þær sömu samkv. lagafrv. á þessu ári og þær hefðu orðið samkv. gildandi lögum og álagningarreglum sveitarfélaga á síðasta ári, og er þó tekið fullt tillit til lækkunar útgjalda sveitarfélaga.

Þá er bent á nokkur atriði, sem lagfæra þarf. Síðan er rétt að það komi fram, sem stjórnin segir: „Stjórn sambandsins er þó ljóst, að sitthvað af ábendingum fulltrúaraðsins hefur verið tekið til greina og metur það fyllilega, en meginatriðum í ályktun fulltrúaráðsins hefur þó ekki verið sinnt, svo sem vonir stóðu til, og áréttar stjórn sambandsins eindregnar óskir um, að frv. verði breytt í samræmi við ályktanir fulltrúaráðsfundarins. Ef svo verður ekki gert, telur stjórnin, að töluvert sé gengið nærri sjálfstæði sveitarfélaganna, en slíkt virðist henni vera gagnstætt yfirlýstri stefnu allra þingflokka.“

Ég vildi láta þetta koma hér fram, því að þetta álit stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga styður að meginefni til það, sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram í umr. um þetta tekjustofnafrv.

Ég vil svo aðeins ítreka það, að brtt. þær, sem 1. minni hl. heilbr.- og félmn. hefur hér flutt, horfa mjög til bóta í þá átt, að sveitarfélögin fái aukinn þátt og hlut í beinum tekjusköttum, og bætir úr því, sem óbreytt tekjustofnafrv. mundi leiða til, nefnilega til þess, að slitið væri á tengsl milli atvinnurekstrar og sveitarfélaga. Með því að sveitarfélögin haldi áfram sínum óbreytta hlut í tekjuskatti félaga, eða í raun 23% af hreinum tekjum félaga atvinnurekstrarins, þegar á heildina er litið, þá er stórt skref stigið í átt til þess, að þessum tengslum sé við haldið. En það er hvorum tveggja, atvinnurekstrinum og sveitarfélögunum mjög mikilvægt og er til þess fallið, að sveitarfélögin kosti fremur kapps um það, að skapa atvinnurekstri í sveitarfélögum sínum viðunandi skilyrði og geri þau skilyrði aðlaðandi fyrir atvinnuvegina.

Þá tel ég rétt að minna á, að auknir persónufrádrættir samkv. brtt. I. minni hl. heilbr.- og félmn. eru réttlætismál, annars vegar gagnvart skattþegnunum og hins vegar einnig gagnvart sveitarfélögunum. Gagnvart skattþegnunum er það til að taka, að réttilega hefur verið hér haldið fram ágæti þess, að afnumdir eru persónuskattar eða svo kallaðir nefskattar. Bent hefur verið á, að margir tekjulitlir námsmenn og aðrir lágtekjumenn hafi þurft að borga slíka skatta og þeir hafi numið 10 þús. kr. eða um það bil á síðasta ári. Með hinum lágu persónufrádráttum, sem tekjustofnafrv. gerir ráð fyrir, eins og það liggur nú fyrir í d„ er fyrirsjáanlegt, að margir námsmenn með nokkrar sumartekjur mundu þurfa að greiða útsvar til sveitarfélags. Sömuleiðis liggur það beint við, að ýmsir lágtekjumenn og lágtekjuhópar yrðu útsvarsskyldir til sveitarfélags. Hér er um að ræða óréttláta skattheimtu gagnvart skattþegnunum, en einnig og um leið mjög ótraustan tekjustofn fyrir sveitarfélögin í landinu, sem eiga að sækja þessa fjármuni til þessa tekjulága fólks. Og í þessu kemur einnig fram skýringin, af hverju ýmis þau sveitarfélög, sem hingað til hafa verið á flæðiskeri stödd og þurft að nota álag á útsvarsstigann, auka mjög tekjur sínar með hinu nýja fyrirkomulagi, sveitarfélög eins og Siglufjörður og aðrir kaupstaðir landsins, þar sem fólk hefur haft lágar tekjur. Þetta lágtekjufólk lendir í útsvarsgreiðslum samkv. hinu nýja frv.

Ég vil svo árétta þá skoðun mína, að þótt rétt sé og að vísu eðlilegt, að fasteignaskattar hækki nokkuð, þá er nauðsynlegt, að þeir séu hóflegir og á þá sé litið sem þjónustuskatta fyrir þjónustu, sem sveitarfélögin inna af hendi. Fasteignaskattar mega því ekki hækka og alla vega alls ekki í einum áfanga svo mikið sem ráð er fyrir gert, en það gæti orðið, samkv. því, sem formælendur frv. hafa hér sagt, um þreföld eða sjöföld eða jafnvel upp undir áttföld hækkun, sem þar er á ferðinni. Það er óviðunandi og þess vegna ástæðulaust að benda sveitarfélögum á álagsheimild 50% hækkunar þessara skatta, og raunar tæpast raunhæfur tekjustofn fyrir sveitarfélögin, heldur verður annað til að koma, eins og á er bent í till. 1. minni hl. félmn.

Ég vil svo aðeins að lokum enn á ný aðvara hæstv. ríkisstj. að gera nú ekki alvöru úr þeirri fyrirætlun sinni að fá þetta tekjustofnafrv. samþ. óbreytt. Ég tel nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. horfist í augu við þá þörf sveitarfélaganna fyrir trausta tekjustofna, sem sannanlega er fyrir hendi, ef þeir eiga að sinna þeim verkefnum, sem þeim eru falin nú í lögum og sem eðlilegt er, að íbúar sveitarfélaganna geri kröfu um. Ég ítreka það, að með óbreyttum tekjustofnalögum er gengið nærri sjálfstæði sveitarfélaganna, sjálfsákvörðunarréttur þeirra er skertur og í þessu felst þróun, sem ég vænti, að við öll í hv. þd. séum andstæð.