09.03.1972
Efri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hafði nú vænzt þess, að hæstv. félmrh. yrði við framhaldsumr. Ætli það séu ekki líkur á, að svo verði? (Forseti: Ég skal athuga, hvort hægt er að ná sambandi við hann.)

Hæstv. félmrh. er nú viðstaddur. Mér leiðist að tala á bak gamalla samherja, þegar ég þarf að svara þeim, kann betur við hitt og þakka hæstv. ráðh. fyrir að mæta hér í salnum á ný. Ég vil enn fremur nota tækifærið til þess að þakka honum fyrir þau svör, sem hann gaf við fsp. mínum frá 2. umr. þess máls. Sannast sagna var ég orðinn úrkula vonar um, að hæstv. ráðh. ætlaði að láta til sín heyra í umr., og hefur þó margt annað fremur verið borið honum á brýn um dagana en að hann teldi það eftir sér að ganga í ræðustól.

En upplýsingar hans varðandi fsp. mínar, sem ég skal víkja að fyrst, sýna það, sem mig grunaði, að nálægt 20 þús. manns í landinu hafi ekki lengur sömu tryggingu eftir gildistöku laganna eða þess frv., sem hér er áformað að gera að lögum, eins og fyrir þau. Og afrek ríkisstj. í þágu þessa fólks, þessa hóps, sem er samansettur af fólki, sem velflest hefur látið af störfum, 67 ára og eldri, öryrkjum og ungu fólki, sem stundar nám meginhluta ársins, eru þau, að því er ætlað að eiga það undir heimildarákvæðum einstakra sveitarstjórna í landinu. Þetta er hér með borðfast af hálfu hæstv. ríkisstj. sem hennar skerfur til þessa fólks, og hefur þó hæstv. ráðh. ekki verið spar á stóryrði sín, bæði innan ríkisstjórna á undanförnum áratugum og utan þeirra, um nauðsyn þess að tryggja afkomu þessa fólks. Og ég hygg, að um það hafi heldur ekki verið ágreiningur meðal okkar hér á hv. Alþ„ að svo skyldi vera sem hefur verið í lögum til þessa. En þessa tryggingu á með frv. að afnema. Það liggur nú fyrir.

Sú trygging, sem verið hefur fyrir því, að hið opinbera greiddi þessi gjöld, er ekki lengur fyrir hendi. Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, þetta er framvegis í heimildarformi. Þá spyr ég ... (Utanrrh.: Gjöldin eru fallin niður.) Hæstv. utanrrh. grípur fram í og segir, að gjöldin séu fallin niður. Ég ætlaði að fá að ljúka máli mínu. Ráðherrar hafa forgangsrétt á að tala og fá áreiðanlega tíma til þess, ef þeir vilja. En það hefur mikið verið gumað af því undanfarna mánuði, að til móts við þetta fólk hafi verið komið gegnum tryggingarnar. Ég spyr nú, þegar þetta afnám liggur fyrir, þær tilfæringar, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert á vísitölugrundvellinum. Hvað er þá eftir af þeim bótum? Ef það er rétt, sem nýjustu fregnir herma, að sú tilfærsla, sem átt hefur sér stað á vísitölugrundvellinum, nemi um sex vísitölustigum, þá spyr ég: Hvað er eftir af þeim hótum, sem af hefur verið gumað undanfarna mánuði? Læt ég svo þetta nægja varðandi fsp. mínar frá 2. umr. málsins.

Í upphafi máls síns sagði hæstv. ráðh„ að honum kæmi það spánskt fyrir sjónir, taldi það reyndar vera yfirlýsingu okkar Alþfl.-manna, að við teldum frv. allt til bóta, en vildum aðeins gera á því frekari endurbætur eða till. til enn frekari bóta, sem rétt er eftir mér haft. En hann virtist í þessu forspjalli sínu að meginefni sinnar ræðu rugla því saman, að það voru tveir minni hl. í hv. n., og hann talaði jöfnum höndum um till. sjálfstæðismanna og till. okkar Alþfl.-manna. Og hann sagði, að ef till. okkar Alþfl.-manna hefðu verið samþ., þá þýddi það hundruð millj. kr., svona frítt út sagt, svo sem hans er von og vandi í sambandi við tölur. Þessi hundruð millj. kr., sem áttu að koma gjaldþegnum til góða, skulu sem sagt af þeim höfð með því að fella till. okkar Alþfl.-manna og þá m.a. fyrir forgöngu hæstv. ráðh. og hvatningu hans til stjórnarliðsins þar um. Þetta liggur þá einnig fyrir. Ég skildi reyndar ekki, þegar frá eru talin þau svör, sem hæstv. ráðh. gaf við mínum fsp., hvert erindi ráðh. átti upp í ræðustólinn annað en það að sannfæra okkur um það, að þetta frv. í heild væri allt til bóta. Ráðh. ruglar því nefnilega saman, að við töldum sjálfsgagnrýnistillögur ríkisstjórnarliðsins sjálfs til bóta á frv. frá því, sem það var í upphafi. Og það skal ég endurtaka hér og viðurkenna, að flestar till. stjórnarliðsins um þess eigið frv., sem það var knúið til að gera undir lok umr. í hv. heilbr.- og félmn., voru til bóta. Ein af þeim till. var till. mín í n., sem ég fagna mjög, að hv. stjórnarlið tók þar upp og gerði að sinni. Aðalatriðið er ekki það, hver flytur málið, heldur hitt, að menn horfi með sanngirni á þær till., sem verið er að gera hverju sinni, og þær komi réttum aðilum til bóta.

En ég vil ekki verða þess valdandi, að umr. um þetta lengist úr hófi fram, úr því sem komið er. Það virðist augljóst að sniðganga á, velflestar a.m.k., till. stjórnarandstæðinga og nánast allar till. okkar Alþfl.-manna aðrar en þessa einu, sem ég áðan nefndi og upp var tekin í n. En mér þykir hlutur ríkisstj. heldur lélegur í garð þess fólks, sem mest hefur átt að gera fyrir á 7 eða 8 mánaða valdaferli núv. ríkisstj., eldra fólksins, öryrkjanna og námsfólksins.

Ég skal svo ítreka það, sem ég sagði í minni frumræðu við 2. umr. Svo mikil sem ólga landsmanna er í dag í garð þessara frv., þá mun sú ólga enn aukast, þegar staðreyndirnar blasa við hverjum landsmanni, þegar skattskráin kemur út næsta sumar. Og ég öfunda ekki hæstv. ríkisstj. né einstaka ráðh., sem ábyrgð bera á þeirri bók.