09.03.1972
Efri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það kemur fram í grg. með frv. og það hefur verið undirstrikað mjög rækilega af hæstv. ráðh., að forsvaranlega sé séð fyrir tekjustofnum sveitarfélaganna í frv. Við höfum þó hvorki séð útreikninga um þetta nákvæmlega í tölum, a.m.k. ekki einstakir þm., né hef ég heyrt þess getið rækilega í umr. Menn deila nokkuð um það, hve þessar tölur eru háar, en ég ætla þó, að það sé rétt hjá hæstv. ráðh., að forsvaranlega sé séð fyrir tekjustofnum sveitarfélaganna. Ég ætla þó aðeins að fjalla um vissan þátt í þessu, vegna þess að skattafrv. sem slík snerta hvert mannsbarn í landinu, og það, sem ég ræði um, snertir að sumu leyti tekjuskattsfrv. líka. Ég vil vegna þeirra svara, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan, ræða nokkuð um stefnu ríkisstj. í kjaramálum. En það var nú sú tíð hér áður, að bæði hæstv. forseti þessarar d. og hæstv. ráðh. létu okkur hafa það óþvegið hér í sölum Alþ., Alþfl.- menn og sjálfstæðismenn, vegna vitlausrar kjaramálastefnu á undanförnum árum.

Það er ekki svo lítill hópur og um það hefði verið talað fyrir kosningar, ef um 15–19 þús. manns hefðu með einu pennastriki sætt jafnmikilli kjararýrnun og þessi frv. gera ráð fyrir og stefna ríkisstj. í kjaramálum, því að það er staðreynd, að með niðurfellingu á nefsköttunum. sem við höfum lýst okkur fylgjandi allir þingflokkar, breytist vísitalan í sjálfu sér rúmlega um þrjú stig bara vegna þessa þáttar. En til þess nú að vísitalan lækki ekki sem slík, þá eru landbúnaðarvörurnar hækkaðar á móti, þannig að kaupgjaldið í landinu haldist í jafnvægi. En þetta fólk greiddi bara ekki þessa skatta, sem er verið að fella niður, þessi 15–18 þús. manns. Það greiddi ekki þessi gjöld. Hvað þýðir þetta raunverulega? Það þýðir auðvitað það, að framfærslukostnaður þessa fólks hlýtur að vaxa. Vísitalan lækkar vegna niðurfellingar á nefsköttum um rúmlega þrjú stig, það er ómótmælanleg staðreynd, og get ég lesið nóg upp um það, ef við vildum eyða tíma í það, en ég ætla ekki að gera það nema tilneyddur. Það hefur oft verið viðurkennt hér í sölum Alþ. og er hægt að fá um það nógar tölur og staðreyndir.

Þetta fólk verður að fá eitthvað á móti, og hlunnindin, sem það fær á móti í gegnum þetta frv. hæstv. ríkisstj., eru, eins og ráðh. sagði, lækkun eða að felld eru niður fasteignagjöld og fellt niður útsvarið. Þessar heimildir eru fyrir hendi, og þetta er það, sem á að leggja áherzlu á núna. Þetta hefði nú ekki verið talið stórmannlegt af okkur. Svo vel þekki ég til málflutnings þessara manna hér undanfarm fjögur ár, að þetta hefði nú ekki verið talið gera stórt strik í reikninginn hjá okkur. En aðeins til þess að minna á biblíu þeirra ríkisstj.-manna, þá segir þar, með leyfi forseta: „að leggja ríka áherzlu á, að takast megi að koma í veg fyrir háskalega verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarm ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum. Í því skyni mun hún beita aðgerðum í peninga- og fjárfestingarmálum og ströngu verðlagseftirliti.“

Ég ætla rétt að lofa hv. dm. að heyra nokkrar verðbreytingar, sem hafa átt sér stað undanfarið tímabil. Rúgbrauð kostaði 1. febr. 1971 26 kr., en núna 29 kr. Franskbrauð 18.50 kr., núna 21 kr. Vínarbrauð 4.60 kr., núna 5.50. Heilir skrokkar 101.50 kr. kg, núna í dag 138.50. Súpukjöt 124.50 kr., núna 165.50 kr. Dilkakjöt í heilum lærum 1 kg 130 kr., núna 171.60. Þetta snýr að þessu gamla fólki, og mætti hér margt lengur upp telja, en ég vil ekki tefja tíma enn þá meira en mér þótti nauðsynlegt að gera til þess að gera aths. við ummæli ráðh. hér áðan, þegar hann hafði ekki annað fram að færa handa þessu fólki en heimild til að lækka eða fella niður fasteignagjöld. Það er staðreynd, að framfærslukostnaður þessa fólks vex. Hið almenna launafólk í landinu fær sitt uppi borið að mestu leyti, og vil ég ekki véfengja útreikninga hæstv. fjmrh. og annarra aðila, sem fjölluðu um það mál. En þetta er alveg sérflokkur, þetta fólk í landinu, alveg sérflokkur. Og hagsmunir þess eru ekki tryggðir í frv., í hvorugu frv. Og ég skora á hæstv. ráðh. að hugleiða þessi mál, af því að ég trúi því ekki, að hann vilji ekki hag þessa fólks betri og meiri en frv. gerir ráð fyrir. Ég held, að of mikil fljótaskrift hafi verið á samningu frv., eins og hefur verið gagnrýnt hér í umr. Það er þess vegna, sem þau hafa siglt fram hjá þessum stóra hópi, gamla fólkinu, sem er 15–18 þús. manns, jafnvel upp undir 19 þús. manns, eins og kom fram í svari hæstv. ráðh. Það verður miklu verra fyrir þetta fólk að komast af bara á venjulegu lífsframfæri, þrátt fyrir það, að það fái auknar tryggingar, og þrátt fyrir það, að heimild sé í lögum til að lækka vissa skatta, fasteignaskatta. Nú á allt þetta fólk auðvitað ekki fasteignir, alls ekki. Við vorum svo ægilegir á s.l. vori, þáv. stuðningsmenn ríkisstj., að miða gjöldin við hærri tölu, allt að þrem millj. kr., varðandi skattinn í hreinni eign húsa, ef ég man rétt. Ég man ekki, hver viðmiðunin er núna, af því að ég hef ekki frv. við höndina, en mig minnir, að það sé 1 millj., þannig að hér er nú farið aftur á bak líka í þessu sambandi.

Þá er það hækkunin um daginn á búvörunum. Í plöggum frá Hagstofu Íslands stendur orðrétt, ég tók vissa þætti hér út áðan: „Af áætlaðri heildarhækkun koma væntanlega aðeins 0.32 stig fram í kaupgreiðsluvísitölu.“ Þetta á við hinn almenna launþega í landinu, sem hefur beinar tekjur af vinnu sinni, þ.e. launþegar eiga ekki samkv. gildandi ákvæðum að fá 1.2 vísitölustig. Samt verða þeir að taka þetta á sig, þ.e.a.s. hinn almenni launþegi, sem getur unnið, hvað þá um hina, sem hafa engar tekjur aðrar en þær, sem eru tryggðar með lögunum núna, 120 þús. kr. sem lágmarkslífsframfæri. Einhvern tíma hefði nú hæstv. ráðh. látið hér harðari orð falla.

Og um till. okkar Alþfl.-manna, og reyndar sjálfstæðismanna líka, sagði hann, að þær væru reytingur einn. Reytingur á vestfirzku hefur nú alltaf þótt heldur lélegur afli, og þess vegna hafa þeir fellt allt nema eitt atriði, sem við stöndum báðir að núna, þ.e. að fella sparisjóðina niður varðandi landsútsvarið. Og það vil ég þakka, því að það er ástæðulaust að vera að eltast við sparisjóði, sem eru jafnvel bundnir við örlítil svæði og eru gamlar, þægilegar og hjálpsamar stofnanir fyrir það fólk, sem er á þessum svæðum, og jafnvel gæti útreikningurinn einn við að eltast við þessi gjöld miðað við þá upphæð, sem hæstv. ráðh. gat um, verið meiri en væntanlegri tekjuöflun nemur, og þá hlýtur að vera rökrétt að vera ekki að eltast við sparisjóðina. En látum bankana eiga sig, þeir geta sjálfsagt borið þær byrðar, sem á þá eru lagðar.

Ég vil þá ekki tefja tímann meira, en vil aðeins undirstrika það, að hæstv. félmrh. og fyrrv. forseti ASÍ virðist vera ánægður með þessa þróun varðandi gamla fólkið. Má hann muna sinn fífil fegri í því sambandi.