09.03.1972
Efri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem ég vildi hér minnast á. Það er ekki hvað sízt af því, að hæstv. félmrh. vék að frv., sem ég flutti á sínum tíma, og lét í ljós undrun yfir, að þeim umbótamálum hefði ekki verið komið fram, sem ég tel ástæðu til þess að segja hér nokkur orð. Það er að vísu naumur tími, en úr því að talinn var tími til þess að fresta fundi ætti ekki að saka, þótt nokkrar mín, væru teknar til þess að ræða þetta svolítið betur.

Hæstv. félmrh, hélt því fram, að þær væru harla ósamstæðar brtt., sem fluttar væru af hálfu stjórnarandstöðunnar við þetta frv., og þá fyrst og fremst brtt. okkar sjálfstæðismanna. Við lýstum því yfir við 2. umr. málsins, sem honum er harla kunnugt um að voru aðalrök fyrir frávísunartillögu okkar, að hér væri um svo víðtækt mál að ræða og fjölþætt, að það hefði þurft að rannsaka miklu betur áður en það var lagt fyrir þingið. Það gegndi mikilli furðu, ef við værum þá reiðubúin til þess nú að bera fram heilsteyptar till. um skipan tekjustofnamála sveitarfélaga. Það veit ég, að hæstv. ráðh. skilur, að er útilokað að gera. Ég held hins vegar, að miðað við frv. eins og það er, sé fullt samhengi í þessum till. okkar og að þær sýni alveg vissa stefnumörkun, sem er annars vegar í þá átt að reyna að tryggja hag sveitarfélaganna betur en gert er og hins vegar að reyna að tryggja, að skattþungi almennings gangi ekki úr hófi fram. Og þessar till. okkar her, eins og frsm. hv. minni hl. heilbr.- og félmn. gat um, að skoða í samhengi við þær till., sem gerðar eru af okkar hálfu við breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, sem nú er til meðferðar í Nd.

Ég skal ekki fara að rekja þessar till. okkar hér, það var mjög skilmerkilega gert af frsm„ en það vakti nokkra undrun mína að heyra, að hæstv. ráðh., sem sat hér allan tímann, hafði ekki tekið eftir mjög greinargóðu yfirliti, sem flutt var um hvaða áhrif þessar till. hefðu á tekjur sveitarfélaganna, því að hér er náð allverulegum árangri í þá átt að bæta aðstöðu þeirra. Hæstv. ráðh. vildi láta líta svo út í sínu máli, sem mér finnst ekki réttlátt af honum að gera, því að hann veit, að það er rangt, að þetta sýndi, að við vildum frekar auka skattþungann en hitt. Það er algjör misskilningur. Og till. fela það í sér, að við ætlum okkur að létta skattþungann og hér er um að ræða millifærslu frá ríkissjóði yfir til sveitarsjóðanna eins og við gerum ráð fyrir í okkar till., og það verður svo aftur í sambandi við till. okkar við tekjuskattinn, sem það kemur til álita, hvort gengið er þar óhæfilega á hlut ríkissjóðs. Það er annað mál, en ég held sannast sagna, að frekar megi telja það furðulegt, að við höfum þá komið saman á skömmum tíma till., sem eru það heilsteyptar eins og þessar till. eru, til breyt. á þessu frv. Það skal hins vegar tekið fram, að þessar brtt. fela ekki í sér það, sem við helzt vildum gert hafa, vegna þess að við vorum bundin við frv. og gátum að sjálfsögðu ekki á þessu stigi farið að flytja nýtt frv., umskapa málið í heild.

Við teljum, eins og gerð var grein fyrir í nál. 1. minni hl. n., að það sé mjög óheppilegt, að verið sé að gera skattkerfið flóknara, sem þó virðist alls ekki vera tilgangur eða ætlun hæstv. ríkisstj., heldur að gera það einfaldara, en það er verið að gera það flóknara með ýmsum atriðum í þessum nýju lögum. Sumt stefnir að vísu í rétta átt, það skal fúslega játað. Það er ýmislegt í þessu frv., sem stefnir í rétta átt, og því dettur manni ekki í hug að neita. En það stefnir t.d. í ranga átt að miða í þessu frv. við brúttótekjur, en í tekjuskattsfrv. við nettótekjur, og það er mjög slæmt, að þetta skuli vera gert, vegna þess að mér skilst, að hugsunin í skattalagabreytingum undanfarin ár hafi í rauninni hjá öllum flokkum verið sú, að við ættum að reyna að gera skattkerfið einfaldara, m.a. með það í huga að gera mögulegt að innleiða staðgreiðslukerfi skatta. En þetta mun mjög torvelda, — sem er alveg öfugt við það, sem ég hygg, að hafi verið tilgangurinn, — að hægt sé að innleiða það kerfi, að miða við mismunandi aðferðir við álagningu útsvara og tekjuskatts.

Sem betur fer hefur hv. meiri hl. n. gert þær lagfæringar á þessu frv. að afnema hið dæmalausa atriði að hafa 26 skattstiga, sem var auðvitað með eindæmum. Og satt að segja gegnir furðu, að mönnum skuli hafa hugkvæmzt að setja saman slíka till., enda hefur það verið afnumið og það ber vissulega að viðurkenna það.

Það er eitt atriði í þessu máli, sem hér hefur verið vikið að og hv. 6. þm. Sunnl. vék sérstaklega að og ég satt að segja furða mig á, að hv. n. og hæstv. ráðh. skuli ekki hafa skoðað betur niður í kjölinn. Það er svo kallaður aukahlunnindaskattur. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að það sé mjög hæpið, að þessi skattur fái staðizt að lögum og sé ekki brot á stjórnarskránni, þar sem mismunað er þannig í skattheimtu eins og hér er gert ráð fyrir að gera. Það er ekkert að segja við þeirri hugsun, sem hér er að baki, að sveitarfélög vilji gjarnan ná til þeirra, sem eiga hlunnindi innan sveitarfélaga. Ég býst við, að það sé átt við laxveiðihlunnindi og eitt og annað af slíku tagi, og sveitarfélögin telja óhagstætt, að það séu utansveitarmenn að eignast þetta og sveitarfélögin fái ekki skatta. En það er alveg ný hugsun, sem ég vara mjög alvarlega hæstv. ríkisstj. við og tel, að hún þurfi að láta sína sérfræðinga athuga, hvort fái staðizt, að leggja aukaskatta á menn eftir því, hvar þeir eiga eignir. Kann að vera rétt að reyna að ná þessum tilgangi, að ná einhverjum meiri hluta til sveitarsjóðanna, en það verður þá vitanlega að gerast með því að veita þessum tilteknu aðilum einhver skattfríðindi á annan hátt, annaðhvort með skiptingu útsvara eða með einhverjum öðrum hætti. Auðvitað er skipting útsvara vandræðafyrirbrigði. En það verður að gerast á þann hátt, að tveir menn borgi ekki mismunandi háa skatta eftir því. hvað þeir eigi í eignum á landinu, að svo miklu leyti sem þeir gera það ekki í því fasteignamati, sem er afgerandi um gjaldsákvörðunina. Það er önnur saga, ef eignin er dýrmætari, þar sem hún liggur, eins og á sér stað, við skulum segja húseign hérna í Rvík. eða norður á Skagaströnd. Það er ekkert við því að segja, að menn borgi mismunandi af slíkum eignum. En að tveir menn, sem eiga nákvæmlega jafnverðmæt hlunnindi, borgi mismunandi háa skatta, vil ég fullyrða, að a.m.k. sé full ástæða til að álíta að fái ekki staðizt og láti nærri, eins og hv. 6. þm. Sunnl. orðaði það, að hér væri um eignarnám að ræða. Ég er ákaflega hræddur um, að það eigi eftir ýmislegt á að ganga, áður en þetta verður látið gott heita, ef það er ætlun hæstv. ráðh„ sem auðvitað ræður þessu máli, að láta þetta ganga til enda með þessum hætti. Ég vil beina því mjög alvarlega til hans, af því að ég veit, að hann vill ekki gera neitt það, sem fær ekki staðizt, að hann láti athuga það af fullri gaumgæfni, áður en frv. endanlega er komið í gegnum þingið, hvort þetta ákvæði fái staðizt og hvort ekki sé nauðsynlegt að reyna að ná því fram, sem þarna er hugsunin að ná fram, með einhverjum öðrum hætti.

Heildarskattbyrðina eftir þessu frv. og tekjuskattslögin skal ég ekki fara að ræða mörgum orðum hér, það er eðlilegra að gera það, þegar tekjuskattsfrv. kemur hér til meðferðar, sem verður eftir helgina, og þá munu vissulega verða gerðir að umtalsefni þeir furðulegu útreikningar, sem birtir hafa verið í því sambandi. Og ég verð að telja það mjög miður farið, sem einnig hæstv. félmrh. gerði hér, að bera Efnahagsstofnunina eða hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar, sem það heitir nú, fyrir sig til þess að sanna, eins og það er orðað í grg. þeirrar stofnunar, að það sé óverulegur skattþungi, sem hér sé um að ræða. Þetta er vegna þess, að þar er ekki um að ræða raunhæft mat á því, hvort hér er um skattbyrði að ræða eða ekki, heldur mat, sem er byggt á því sem óraunhæft er. Og það kemur þá svipað út eins og þegar verið er að tala um og vitna til þess, að ekki geti reikniheilinn Háskólans hafa gefið rangar upplýsingar. Útkoman fer nefnilega eftir því, hvernig þessir heilar eru mataðir, hvaða forsendur eru gefnar. Forstöðumaður hagrannsóknadeildarinnar, hagrannsóknarstjóri upplýsti í fjhn. aðspurður, að vitanlega væri þetta ekki rétt, ef gengið væri út frá réttum forsendum. en hann hefði ekki haft annað að miða við en það, sem ákveðið var í fjárlögum, að skattvísítalan hefði að öllu óbreyttu átt að vera 6.5 stig. En þessi vísitala er alröng. Það veit hver einasti maður, að hún er alröng. Skattvísitalan ætti að vera 21.5 stig og raunar hærri. Og ég trúi því ekki, að hæstv. félmrh. hafi skipt þannig um skoðun, að hann sé ekki sömu skoðunar og hann áður hefur verið um það, að skattvísitöluna eigi að nota til þess að auka ekki skattþunga milli ára, þannig að menn borgi ekki hlutfallslega hærra af sínum tekjum, þó að tekjurnar vaxi. En miðað við taxtabreytingar og það, sem vitað var og Efnahagsstofnunin vissi, þegar við háðum hana um þessar upplýsingar, gaf hagrannsóknarstjóri upp vísitöluna 21.5 stig. Samkv. henni vex skattbyrðin um rúml. 700 millj. kr. við breytinguna á þessum kerfum. Þetta vildi ég biðja hæstv. ráðh. að kynna sér, af því að ég trúi því ekki, að hann vilji ekki hafa það, sem réttara er í þessu efni, og gera sér grein fyrir því, að það er ekki hagrannsóknadeildinni að kenna, þó að hún komist að þessari niðurstöðu, vegna þess að henni er gefin röng forsenda af hæstv. fjmrh. til þess að gera þessa útreikninga. Þess vegna fæst þessi niðurstaða. Það er hægt að fá alls konar niðurstöður, ef maður bara hagræðir forsendunum, það vitum við öll.

Þá kem ég að hinu mikla umbótafrv. okkar hv. 1. þm. Reykv., sem frsm. 1. minni hl. heilbr.- og félmn. mun eitthvað hafa minnzt á við 2. umr. og hæstv. félmrh. taldi, að hefði nú heldur slaklega verið að unnið í tíð okkar sjálfstæðismanna í ríkisstj., úr því að ekki væri búið að koma þessu hugsjónamáli í framkvæmd. Það má e.t.v. til sanns vegar færa. En því fer víðs fjarri, að ekki hafi mörgu verið komið í framkvæmd af því, sem var í því ágæta frv. Þar var t.d. talað um að afnema skatta, að skattar til ríkisins skyldu ekki vera krafðir af lágtekjum, þ.e. þurftartekjum eða almennum launatekjum, eins og það mun hafa verið orðað. Þetta var sú stefna, sem mörkuð var 1960 með skattalagabreytingum, sem þá voru gerðar og þá var tekinn hinn almenni taxti Dagsbrúnar að viðbættum 1 klst. eftirvinnutíma og það notað sem persónufrádráttur. Það hefur að vísu gengið á ýmsu síðan um það, að skattvísitala hafi haldið þessu við, og fyrstu árin dró nokkuð úr þessum hlunnindum. Síðan hefur verið reynt að stefna, einmitt á síðasta ári, að þessu marki á nýjan leik með hækkun skattvísitölu meira en nam bæði framfærslukostnaði og almennum hækkunum launastiga og því hefur verið yfir lýst, að það hafi verið ætlunin, ef við hefðum mátt ráða. En það er sýnilegt, að það er ekki skoðun núv. hæstv. ríkisstj. að nota velgengnisárin til þess að ná aftur upp því, sem varð að slaka á í þessum efnum á erfiðleikaárunum og ég fór þá aldrei neitt dult með og játaði hér fúslega á hinu háa Alþ., að rétt væri, að skattarnir hefðu verið þyngdir og persónufrádrátturinn hefði ekki verið eins og hann hefði átt að vera, en það stafaði eingöngu af þessum ástæðum, einkum vegna hagsmuna sveitarfélaganna. Síðan þetta gerðist hafa vissulega líka verið aukin fríðindi giftra kvenna, viss hóps þeirra, þeirra kvenna, sem úti vinna, að 50% af launum þeirra hafa verið undanþegin skatti. Það gerðist eftir að þetta frv. okkar var flutt. Hins vegar er það rétt, að ekki hefur tekizt hingað til að ná fram því meginstefnumiði, sem við höfum enn í dag og höfum lýst yfir í sambandi við meðferð skattalaga nú, að við töldum eiga að stefna að, algerri sérsköttun hjóna. En það stafaði einfaldlega af því 1960, svo að ég upplýsi það mál, að vegna þess hvað hefðu verið auknir persónufrádrættir í sambandi við tekjustofna sveitarfélaga, lögðust sveitarfélögin mjög eindregið gegn því, að farið væri út á þessa braut, vegna þess að það mundi enn þá draga úr möguleikum þeirra til tekjuöflunar að fara þessa leið. Og þess vegna var þetta ekki gert. Ég lýsti því hins vegar yfir á síðasta þingi í sambandi við heildarendurskoðun skattalaga, sem þá var hafin, að stefnt væri að því nú við þá heildarendurskoðun, að þetta yrði gert. Því fer því víðs fjarri, að þetta hafi gleymzt. Það á sínar orsakir, að ekki tókst að framkvæma þetta að fullu, en meginatriði þessa frv., sem vitnað var til, hefur orðið að raunveruleika í tíð síðustu ríkisstj.

Herra forseti. Ég skal nú ekki þreyta langlundargeð manna. Ég býst við, að þeir séu að komast í aðra stemmingu en þá að hlusta mikið á umr. um skatta, og það er gott að geta gleymt þeim svona um stundarsakir. Ég er hræddur um, að þeir rifjist hins vegar upp illilega, menn vakni með alvarlega timburmenn, vonandi kannske ekki á morgun, en þeir timburmenn, sem verða kannske ekki minnstir hjá hæstv. ríkisstj., verði þegar skattskráin kemur út í vor. Jú, vafalaust verða menn að hafa þá. Ég veit, að hæstv. félmrh. er hraustur maður og hann hefur ýmislegt á sig tekið og gengið í gegnum margt um dagana, en ég hygg líka, að hæstv. ráðh. veiti ekkert af að safna kröftum þangað til, til að standa af sér þá flóðbylgju óánægju, og þeim, sem hafa trúað hæstv. ríkisstj. Að vísu hef ég nú engan enn þá hitt, sem gerir það varðandi þessi skattalög, en hafi einhver verið svo fávís, held ég, að það verði nánast skelfing, sem sá maður vaknar upp við, eftir að hafa séð skattseðilinn í vor. En þetta kemur kannske ekki svo mjög að sök, landsmenn eru undir þetta búnir að því leyti til, að þeir vita alveg, að það er verið að boða þeim rangan boðskap, sem tjóar ekkert að halda fram, og ég er hissa á, að greindir menn eins og hæstv. ráðherrar og talsmenn þeirra skuli halda fram, að þúsundir milljóna í auknum álögum merki bara einfaldlega það, að þetta sé tekið úr loftinu og ekkert þurfi að sjá fyrir þessu. Það væru meiri töframennirnir, sem það gætu, og það væri sannarlega þess virði, að hafa slíka menn varanlega í ríkisstj., það skal ég fúslega játa, ef þeir gætu hækkað fjárlög um á sjötta milljarð á einu ári, án þess að þess sæi stað og að þetta væru ekki auknar álögur á nokkurn þjóðfélagsborgara, og ekki aðeins það, heldur fái bara meginhlutinn af fólki aukin hlunnindi.