13.03.1972
Neðri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. auglýsti víst eftir mér í ræðu um daginn og óskaði eftir að eiga orðastað við mig, þegar rætt var um frv. um tekjuskatt og eignarskatt hér í d. á dögunum. Það hefur ekki gefizt tækifæti til þess fyrir mig að svara því, sem hæstv. ráðh. sagði þá, fyrr en nú, en hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði rokið til að skrifa grein í Morgunblaðið um sérstakar árásir núverandi ríkisstj. á gamla fólkið í landinu. Ráðh. sagði orðrétt, að auðvitað hefði ekki þurft annað en að blaka við þessum manni, þá hefði hann verið búinn að vera með vitleysu sína. Annar rökstuðningur kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðh., að því er mér bezt er kunnugt. Þar sem hæstv. ráðh. og raunar fleiri hv. þm. hafa rætt tekjustofnamál sveitarfélaga, skattafrv. og tryggingalöggjöfina hér í samhengi við þessar umræður, þá vona ég, að mér leyfist það líka, og vil þá til upprifjunar út af þessu máli fyrir hæstv. viðskrh. og hv. stjórnarsinna rifja upp það, sem ég sagði í umræddri grein, í stuttu máli.

Það, sem ég benti á, var það, að svo nefnt afnám nefskatta létti ekki byrðum af gamla fólkinu, þar sem það hefði ekki greitt þessa nefskatta áður. Ég benti á, að hagræðing vísitölunnar, sem kemur fram í því, að sú formbreyting verður, að í stað nefskatta verða nú innheimt til trygginganna gjöld með öðrum hætti, sú formbreyting leiðir af sér lækkun vísitölunnar, sem verður til þess, að ellilífeyrisþegar fá ekki hækkaðan lífeyri sinn sem skyldi. Ég benti líka á það, að sérstakur persónufrádráttur ellilífeyrisþega, sem er í gildandi skattalögum, hafði verið numinn úr gildi eða verið stefnt að því að nema hann úr gildi með frv. ríkisstj. nú. Ég held, að þetta þrennt sé ómótmælanlega til að þyngja kjör ellilífeyrisþega. En ég ræddi líka sérstaklega um svo kallað tekjutryggingarákvæði almannatryggingalaga og bentí á, að það væri stórgallað að mörgu leyti, þótt á bak við það lægi merk félagsleg hugsun. Ég benti á, að menn, sem vinna sér fyrir lítils háttar tekjum. verði fyrir skerðingu vegna þessa ákvæðis, og ég skal nefna dæmi um þetta. Nefna má einstakling, sem vinnur sér fyrir 2–3 þús. kr. á mánuði, t.d. öryrkja. Hann fær ekki sína tekjutryggingu, hann fær einungis 10 þús. kr. eins og sá, sem ekkert vinnur, bæði fyrir vinnu sína og út úr tryggingunum. Þetta leiðir til þess, að menn mótmæla því óréttlæti, sem þeir eru beittir með þessum hætti, með því að láta vera að vinna, eða a.m.k. er mikil hætta á því.

Einnig er það svo, að þeir, sem eru óvinnufærir, en eru lífeyrisþegar, geta fengið 50–100% hækkun á sinn almenna lífeyri, þannig að ég lít svo á, að gallar á þessu tekjutryggingaákvæði séu það miklir og það verði svo fáum til gagns, að það vegi hvergi nærri á móti þeirri kjaraskerðingu, sem ellilífeyrisþegar hafa orðið fyrir af öðrum ráðstöfunum, sem ég hef talið hér að framan.

Ég vil benda hæstv. viðskrh. á það, að ég er ekki einn um þessa skoðun. Hæstv. trmrh. ræddi þetta mál sérstaklega við umr. hér, þegar almannatryggingafrv. var til umr., og þá benti hann á þessa sérstöku galla og taldi, að þeir væru svo veigamiklir að finna þyrfti á þeim ákveðna lausn. Sú lausn hefur ekki komið fram hér frá hæstv. ríkisstj., þannig að ég lít svo á, að orð mín fái fyllilega staðizt í þessari grein. Annars vil ég spyrja hæstv. ráðh., í hverju ég hef hallað réttu máli í þessari ágætu grein, sem ráðh. taldi ástæðu til að gera hér að umtalsefni, þótt hann rökstyddi ekki sitt mál.

Í því frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér er fyrst og fremst til umr., eru margir veigamiklir gallar. Margir ræðumenn hafa rætt þá galla hér á undan og ég tel ekki ástæðu til að endurtaka það, sem þeir hafa sagt. Því vil ég þó bæta við, að ég tel einn þýðingarmikinn galla á þessu frv. vera svo kallað brúttótekjuhugtak, þ.e. hvað við sé átt með brúttótekjum. Er átt við það, að lagt verði 10% útsvar á tekjur barna innan 16 ára, sem koma til tekna, teknamegin á framtali foreldra? Er átt við að lagt verði á hlunnindi brúttó, bílastyrki, símakostnað? Er átt við að lagt verði á vexti hjá skattþegn, sem hefur tekjur af skuldabréfi, sem hann á, vegna þess að hann hefur selt íbúð, en greiðir síðan vexti af skuldabréfi, sem hann skuldar vegna íbúðar, sem hann býr í? Er átt við, að 10% útsvar verði lagt á þessar tekjur, sem eru allar þess eðlis, að í raun og veru er hér ekki um að ræða neinar hreinar tekjur?

Annars er höfuðgalli þessa frv., eins og hér hefur raunar komið fram, sá, að með því er stefnt að skerðingu á svigrúmi sveitarfélaganna. Það hefur verið sýnt fram á það hér af hv. stjórnarsinnum, bæði ráðh. og öðrum, og það hefur verið talað um það af þeim, að með þessum skattafrumvörpum báðum aukist ekki skattbyrði í heild, það sé ætlað að afla skatta með hliðstæðum hætti og áður, en það hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi rökum, að í hlut sveitarfélaganna kemur minna út úr dæminu en áður, þótt tekið sé tillit til þeirrar tilfærslu, sem verður á milli sveitarfélaganna og ríkisins, að því er varðar ýmis útgjöld. Þetta er óvefengjanlegt og þess vegna er niðurstaðan sú, að bróðurparturinn af aukinni skattbyrði lendir í ríkiskassanum og svigrúm sveitarfélaganna skerðist að sama skapi. Hér er því um að ræða augljósa stefnu í þá átt að auka miðstjórnarvald, en draga úr sjálfsforræði sveitarfélaganna.

Í sambandi við þær miklu umr., sem hér hafa farið fram um skattbyrðina, og röksemdir hv. stjórnarsinna í því efni, hvort hún standi í stað eða lækki, að mér skilst. Mér skilst, að þeir séu helzt á því, að það sé minni skattbyrði eftir en áður, og bera þeir fyrir sig álit Efnahagsstofnunarinnar í því efni. Þá væri fróðlegt að spyrja þá, hvort þeim í raun og veru fyndist, ef gömlu lögin, eins og þau voru, hefðu verið notuð og skattvísitala 106 hefði verið notuð til að hækka persónufrádrátt og aðra frádráttarliði, eins og ætlað er, ef þessi lög hefðu verið notuð með þessum hætti, hefði þeim þá fundizt að um skatthækkun væri að ræða? Ég held, að þeir hafi svarað þeirri spurningu 100 sinnum, ef ekki 1000 sinnum, í umr. um skattamál hér undanfarin þing. Þá hafa þeir alltaf hamast, þegar skattvísitalan hefur hækkað minna en þeir hafa talið eðlilegt. En að skattvísitala hækki um 6% á sama tíma og tekjur manna hækka um 25%, að talið er, — það er nýjasta áætlunin, — það held ég að engum manni geti dottið í hug að kalla ekki skattahækkun og þess vegna hafa hv. stjórnarsinnar með þessu orðagjálfri sínu öllu í raun og veru sannað það, að um stórfellda skattahækkun er að ræða, jafnvel þótt þessi samanburður þeirra sé réttur á gamla kerfinu og nýja kerfinu, eins og þeir eru alltaf að bera á borð hér fyrir okkur. Þeir hafa í raun og veru sannað með því, að skattbyrði þjóðarinnar hækkar að miklum mun. Það sem stendur óhaggað í þessu öllu saman og það sem verður alvarlegasta afleiðingin við lögfestingu þessara frv. er það, að hver og einn einstaklingur veit það, að eftir að hann hefur fengið um 230 þús. kr. tekjur, fara 54–55 kr. af hverjum 100 af tekjum hans í ríkis- og bæjarkassann. Eftir að hver einstaklingur hefur náð þessu tekjumarki og eftir að heimili með þrjú börn hefur náð um 400 þús. kr. tekjuupphæð, þá veit hver fyrirvinna það, að 54–55 kr. af þeim, sem bætast við, fara beint í ríkiskassann og til viðkomandi sveitarfélags. Þetta er alvarlegasti ágalli þessa frv., þetta hlýtur að draga úr framtaki hvers og eins einstaklings, vilja hans til þess að vinna. Við þekkjum þetta mætavel, vegna þess að sumar stéttir hafa lent í þessu áður, ekki svona hrikalegu, en hliðstæðu áður, og þær hafa sagt og segja enn: Við leggjum ekki á okkur mikið erfiði til að draga fisk úr sjó fyrir ríki og bæ. En þetta gerir allur almenningur eftir lögfestingu þessara frv. og þetta er í samræmi við svo margt annað, margar aðrar ráðstafanir hæstv. ríkisstj., sem miða að því, að það verður samdráttur í þjóðarframleiðslunni á sama tíma sem verðbólga stórvex, og þetta þýðir auðvitað stórkostlega skert kjör, raunkjör alls almennings í landinu.