15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. beggja d. ræddu sameiginlega um þetta mál, sem hér liggur nú fyrir, og tók n. hv. Nd. þátt í þeim störfum alveg fram að því, að n. í hv. Ed: klofnaði. En heilbr.- og félmn. Nd. varð sammála um, eftir að málið kom til hennar, að flytja nokkrar brtt., og er það í fullu samráði við hæstv. félmrh. Hér er ekki um neinar efnisbreytingar í raun og veru að ræða. Það er þó við 10. gr., að orðin. „og sparisjóðir“ falli niður. Þar var gert ráð fyrir, að lagt væri landsútsvar á banka og sparisjóði, en orðin „og sparisjóðir“ falla niður. Og í 26. gr., eins og hún kom frá hv. Ed., er dálítið ósamræmi. Eins og gr. var þar, er hún svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Útsvar samkv. 25. gr. hjá hjónum og einstæðum foreldrum, sem hafa fyrir heimili að sjá, skal lækka um 7 þús. kr. og útsvar einstaklinga um 7 þús. kr. Fyrir hvert barn 16 ára eða yngra, sem gjaldandi hefur á framfæri sínu, skal lækka útsvar hans um 1000 kr. Hafi gjaldandi fleiri en þrjú börn innan 16 ára“ o.s.frv.

Það er þetta atriði, að orðalagið: „fyrir hvert barn 16 ára eða yngra“, í 2. málsl., það breytist og verði í samræmi við hitt, enda eru 16 ára börn að jafnaði, eða eftir lögum, sérstakir framteljendur.

3. brtt. er svo sú, að eins og þetta var í 36. gr., var vísað í lögin frá 1964, í þann kafla um aðstöðugjöldin, en heilbr.- og félmn. varð sammála um það að taka heldur kaflann inn eins og hann var, með þeim breytingum þó, sem var búið að gera og felast í 36. gr. laganna. En þar sem ekki er um neina efnisbreytingu að ræða, þá ræði ég ekki það frekar. Þetta, eins og ég sagði áðan, er sameiginleg till. allrar n.

Að öðru leyti, eins og sést hér á þskj., skiluðu bæði 1. og 2. minni hl. sérstökum nál. Og 1. minni hl., fulltrúi Alþfl. í n., hv. 7. þm. Reykv., kemur hér með nokkrar till., en 2. minni hl. leggur til, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, og er það í samræmi við þann tillögutilbúning, sem var hafður í Ed.

Áður en ég ræði þetta frekar, langar mig til þess aðeins að athuga till. hæstv. 7. þm. Reykv., þar sem hann leggur til, að frá tekjum gjaldanda skuli draga, áður en útsvar er lagt á:

a. 50% af launatekjum giftrar konu samkv. reglum 2. mgr. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 68 frá 1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Við 1. umr. ræddi hv. þm. um þetta atriði og taldi, að stjórnarflokkarnir færu mjög illa með giftar konur með þessu nýja ákvæði, að þær mættu ekki draga frá, áður en lagt er á útsvar. En með gildandi lögum er ákveðið, að draga megi frá 50% af tekjum, áður en útsvar er lagt á. Ég vona, að hv. þm. og ég getum verið sammála um það, að í flestum — ég segi ekki öllum, en í flestum — tilvikum komi tekjur eiginkonu á hæsta álagningarskala, eins og lögin hafa verið, ef eiginmaður er í nokkurn veginn eða alveg fullri vinnu, í fullan álagningarskala, allt upp í 30%. Við skulum segja, að eiginmaðurinn hafi 400 þús. kr. tekjur, en konan 200. Eftir þeim álagningarreglum, sem gilda, mundi aðeins vera lagt á 100 þús. af tekjum þessarar konu, en hún fengi 30 þús. kr. útsvar á. þessar 100 þús. kr., ef tekjuupphæð hjónanna er þetta há, sem ég tiltek. En miðað við þær reglur, sem við leggjum til, þá geta það þó aldrei orðið nema 11%, þó að full álagningarheimild sé notuð, þessi kona gæti ekki fengið nema 22 þús. á sínar tekjur. Þannig leikum við þessa konu.

Ég er hér með útreikninga, sem eru gerðir af kunnáttumönnum. Hv. þm. kom hér með útreikninga, sem hann sagði, að hefðu. verið gerðir af kunnáttumönnum, og ég efast ekkert um það. En hér er ég einnig með slíka útreikninga. Og það kemur í ljós, að þó að allt sé tekið inn í dæmið, þ.e.a.s. fullur frádráttur á útsvari, og þarna eru tekin dæmi alveg af ákveðnum hjónum, tekjur eiginmanns. í öðru tilfellinu eru miðaðar við 140 þús. og eiginkonunnar 190 þús. Miðað við það, að þau búi í íbúð, sem er metin á 1 millj. 429 þús., þá mundi lækkun verða um 7 600 kr. á þessum hjónum. Þessi hjón eru með tvö börn. Ég get lánað hv. þm. þennan útreikning, ef hann bara vill.

Þegar ég var að fá þetta, þá kom inn á skrifstofuna til þessa manns einn af forustumönnum Sjálfstfl. hér í Reykjavík. Hann kom með Morgunblaðið með sér til þess að láta þennan endurskoðanda reikna út skattana sína miðað við þau laun, sem hann hefur. Og hann var með tölu í Morgunblaðinu, sem einmitt passaði fyrir hann. Ég var svo lánsamur að vera þarna í næsta herbergi og heyrði, hvað fór fram. Og þessi maður var nú ekki tekjulágur. En miðað við niðurstöðu þessa endurskoðanda reiknaði Morgunblaðið honum rúmlega 100 þús. kr. meira í heildartekjur heldur en þessi endurskoðandi taldi, að hann mundi fá í alla skatta, þannig að það eru nú ýmsir útreikningar, sem eru harla einkennilegir.

Hér er ég með annað dæmi, sem ég get líka lofað hv. þm. að skoða, reiknað af þessum kunnáttumanni. Það eru hjón með tvö börn, eiginmaðurinn hefur 400 þús. og eiginkonan 100 þús. kr. Niðurstaða hans er sú, að miðað við þau frv., sem nú eru til afgreiðslu hér, og miðað við gildandi lög mundu þessi hjón fá um 12 700 kr. lægri skatta. (PS: Ellilífeyrisþegar?) Einhver var að tala um ellilífeyrisþega. — það er víst hv. þm. Pétur Sigurðsson. Og ein af þeim till., sem hv. 7. þm. Reykv. er með hér, er í samhandi við það, að á bætur frá tryggingunum. ellilífeyri, séu undantekningarlaust ekki lagðir skattar. En ég vil spyrja þennan hv. þm. og aðra hv. þm. hér, hvort það sé réttlæti, að menn, sem hafa kannske allt upp í millj. kr. laun, en til munu vera þeir menn, sem það hafa og ellilaun, þurfi ekki að borga skatt af þessum ellilífeyri. Er það réttlæti? Er það í samræmi við aðra skattlagningu? Ég er alveg sammála hv. þm. að því leyti, að það eigi hver og einn, án tillits til aldurs. að borga skatt miðað við þær tekjur, sem hann hefur, en að gamla fólkið eigi algerlega, hvað háar tekjur sem það hefur, að hafa slík fríðindi, það get ég ekki samþykkt.

Annars er dálítið merkilegur málatilbúnaður í sambandi við þessi mál hér á hv. Alþ. Við erum skammaðir fyrir, hvað þetta gangi hægt, þessi frv. séu búin að vera mjög lengi hér í þinginu. Þegar þetta frv. var til I. umr. í hv. Ed.. þá sagði varaformaður Sjálfstfl., að hann teldi, að þetta frv. mundi aldrei verða afgreitt fyrir lok febrúarmanaðar. Það er nú að vísu komið fram yfir 10. marz, en þetta var hans álit á fyrsta stigi þessa máls, að það yrði aldrei fyrr. En nú eru aftur á móti ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar mjög átaldir fyrir seinagang í þessu máli. Þannig heyrist nú svona sitt á hvað úr þessum herbúðum. (Gripið fram í.) Annars er það eiginlega merkilegt, að hér við I. umr. þessa máls talaði einn hv. þm. um það, að engin stefnumörkun væri í þessum frv. Þau stefndu sem sagt ekki að neinu sérstöku marki. En ef maður fer svo að athuga aftur á móti Morgunblaðið, þar sem verið er að segja frá ræðu fyrrv. fjmrh., þá leynir sér ekki, að hann álítur, að um stefnumörkun sé að ræða, og það mikið breytta, því að hann segir, með leyfi hæstv. forseta, að þetta muni hafa aukna skattbyrði í för með sér, og það sé ljóst, að það dragi úr eignamynduninni. Enda segir hann á öðrum stað í þessari ræðu, að Sjálfstfl. hafi lagt þau til, að lagt yrði á með óbeinum sköttum það sem þurfi að leggja á. En hvað þýðir þetta? Það þýðir, að í raun og veru er kjarni málsins sá, að stjórnarandstaðan vill að það séu einmitt þeir tekjuminni, sem verði að axla stærri hluta þessara byrða en stefnt var að með þessum frv., byrða, sem óhjákvæmilegar eru og við hljótum að vera sammála um, að þurfi á að leggja til að fá tekjur í ríkissjóð á móti útgjöldum. Það er í raun og veru það, sem okkur greinir á um.

Annars segir fyrrv. fjmrh. einnig í sinni ræðu, með leyfi forseta, að hann undirstriki það sérstaklega í sambandi við tekjuþörf ríkissjóðs, að sjálfstæðismenn beri ekki ábyrgð á 5.5 milljarða hækkun fjárlaga. Við skulum nú athuga þessa hækkun fjárlaga. Ég skal ekkert segja um það, hverju Sjálfstfl. vill í raun og veru bera ábyrgð á, en það væri kannske hægt að athuga, hvernig á þessum hækkunum stendur. Hækkanirnar eru þessar: Samkv. samningum við opinbera starfsmenn, miðað við fjárlög 1971, er hækkunin 963.5 millj. Framlög til trygginganna samkv. frv., sem fyrrv. ríkisstj. stóð að að samþykkja, eru 573 millj. og markaðir tekjustofnar samkv. lögum fyrrv. ríkisstj. eru 620 millj., eða samtals 2 milljarðar 156 millj. Tilflutningurinn á milli, frá sveitarfélögunum til ríkissjóðs, er tæpar 1 300 millj. Ég man ekki betur en stjórnarandstaðan greiddi atkvæði með hækkun trygginganna á síðastliðnu ári. Það er því ekki mikið eftir af þeirri hækkun, sem varð, sem sjálfstæðismenn hafa ekki beint og óbeint haft áhrif á eða stjórnarandstaðan í heild. Svona er nú málflutningurinn, og það getur vel verið, að einhverjum, sem les Morgunblaðið, þyki þetta góður málflutningur og sannleikanum samkvæmur, en það væri mjög æskilegt, að Morgunblaðið vildi birta það, hvernig þessar hækkanir hafa orðið til.

Eitt af því, sem rætt hefur verið um og deilt um, er, hvaða skattvísitala ætti að gilda, hver hún væri í raun og veru, við hvað ætti að miða, svo að það væri réttlátt gagnvart þeim, sem eiga að borga skatta, gagnvart almenningi í landinu. Og hv. stjórnarandstaðan hefur sagt, að hún ætti að fylgja í raun og veru kauphækkuninni, en ekki framfærsluvísitölunni. Þetta er alveg ný speki hjá þeim, miðað við a.m.k. þeirra vinnubrögð og viðhorf á undanförnum árum. Hvað hefur komið yfir mennina? Þeir, hv. stjórnarandstæðingar, fóru ekki einu sinni eftir því fyrr á árum, að skattvísitalan væri sú sama og framfærsluvísitalan eða hækkaði hlutfallslega miðað við hana. Nú á aftur á móti að fara eftir því, hver tekjuaukinn hefur orðið í þjóðfélaginu á þessu síðastliðna ári.

Við fyrri umr. þessa máls held ég það hafi verið hv. 9. landsk. þm., sem ræddi um fasteignaskattana og taldi, að þessi gjaldstofn væri ekki í því lagi, að það væri í raun og veru hægt að nota hann sem gjaldstofn öðruvísi en þetta væri allt endurskoðað, og hann deildi ekkert lítið á fyrrv. fjmrh. og fyrrv. ríkisstj. með þessari ræðu sinni. En sannleikurinn er sá, að Fasteignamatið hefur verið og er að vinna að þessum málum, hefur gert það alla tíð. Og það er alveg rétt, ef það er það, sem hann átti við, að allt millimatið utan af landsbyggðinni er ekki komið inn á spjöldin, en það kemur bara aldrei fyrr en nokkuð löngu seinna, því að þetta er nokkuð lengi að koma inn. (Gripið fram í.) Millimatið? Það er verið að vinna í því. Ég hafði samband við Fasteignamatið siðast í morgun og þeir sögðu mér þar, að það hefði verið í fullum gangi allan þennan tíma. Það er líka misskilningur hjá hv. ræðumanni, að matið hafi tekið gildi í árslok 1970 eins og hann sagði, það var núna um síðustu áramót, sem það tók gildi. Það var lögfest á síðastliðnu sumri og var þá miðað við, að það kæmi til framkvæmda 1. ágúst, en það tók ekki gildi fyrr en nú um síðustu áramót og ég held, að alveg sé ástæðulaust að álíta, að fasteignamatið sé ekki í því góða lagi, sem var a.m.k. 1970. Það hefur skánað síðan, miðað við þær upplýsingar, sem ég hef fengið, og þess vegna er engin ástæða til þess að óttast þennan tekjustofn.

Ég hef ýmsa útreikninga í sambandi við skattana og ætla nú ekki að fara að lesa þá upp að þessu sinni, enda held ég, að það verði bezt að bíða og sjá til, hvernig skattseðlarnir líta út á næsta sumri. En auðvitað hljóta þær að verða fleiri krónurnar, sem hver og einn þarf að borga nú, vegna þess að það er enginn vafi á því, að tekjur manna hækka og það töluvert meira en gert er hér ráð fyrir, a.m.k. miðað við þær upplýsingar, sem Ég hef fengið. Ég tel ástæðulaust að óttast það, að sveitarfélögin fái ekki, a.m.k. flest, það sem þau þurfa. Það er fyrst og fremst vegna þess, að tekjurnar eru miklu meiri, og miðað við hverja eina prósentu, sem tekjurnar hækka, þá mun það gefa um það bil rúmar 30 millj. kr. í heild.

Ég spurði tvo endurskoðendur að því, sem telja fram fyrir stóran hóp manna hér í Reykjavík, hvað þeir álitu um tekjuauka manna. Að vísu er ekki hægt að taka mið af þessu, því að búast má við því, að þeir, sem koma til slíkra manna, séu þeir, sem hafa yfirleitt töluvert háar tekjur, a.m.k. miðað við allan almenning. En það hefur komið í ljós, að tekjuauki þessa hóps hefur orðið miklu meiri en 21%.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða miklu meira um þetta mál. Ýmsu mun sjálfsagt vera ábótavant í þessum frv., og það mun koma í ljós, þegar verður farið að leggja á eftir þeim, að þau þurfa breytinga við, enda er stefnt að því og því yfir lýst, að haldið verði áfram að endurskoða bæði þessi lög, sem við fjöllum um, og eins lögin um tekju- og eignarskatt, en ég er líka sannfærður um það, að það væri sama, hvað lengi við hefðum verið að fjalla um þessi mál, það hefði komið í ljós, að einhverjir hnökrar mundu reynast á þeim. En ég er alveg viss um, að heildarstefnan er alveg rétt, þessi stefna, sem felst ekki einungis í þessum frv., heldur í því að breyta tryggingakerfinu, að tryggja þeim, sem hafa ekki aðrar tekjur en eingöngu elli- og örorkulífeyri og slíkar greiðslur, að tryggja þeim mun meira en áður var. Þetta verður auðvitað ekki gert með öðru móti en taka peningana einhvers staðar annars staðar. Við getum auðvitað deilt um það, hvernig á að taka þessa peninga, en ég er sannfærður um, að það er rétt stefna, sem hér er farin, að þeir, sem betur mega sin í þjóðfélaginu, þeir eignameiri og þeir tekjumeiri, taki hlutfallslega meira á sínar herðar en hefur verið á undanförnum árum.

Í sambandi við aðstöðugjaldið er það mín skoðun, að það sé gjaldstofn, sem eigi að hverfa, og það er eiginlega dálítið fróðlegt að athuga það, sem í Morgunblaðinu er haft eftir fyrrv. fjmrh. Þar segir svo, með leyfi forseta:

Alþm. vék síðan að því, að jafnvel ekki á erfiðleikaárunum hefði skattbyrðin á Íslandi verið ákaflega há, miðað við þjóðartekjur og nálæg lönd, og mun lægri en í ýmsum löndum, þar sem ætla mætti, að skattar væru lægri. Hann gat þess, að í tíð fyrrv. ríkisstj. hefði farið fram hlutlaus athugun á skattkerfinu, sem sérfræðingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefðu annazt, og hefði þeim veríð ætlað að kanna, hvernig skattheimtunni væri hér háttað og hvort skattbyrðin væri hér óeðlilega þung. Þeir hefðu ekki talið skattheimtuna óeðlilega, en hins vegar bent á ýmis atriði, eins og aðstöðugjöldin, jafnframt því sem þeir töldu fasteignaskattana óeðlilega lága, og sagði þm., að það væri í samræmi við skoðun ýmissa innlendra sérfræðinga í efnahagsmálum. Sjálfur kvaðst þm. hafa verið því andvígur, að gengið yrði í hækkun fasteignaskatta, og hefði Sjálfstfl. það sem stefnumark.“

Þá veit maður þetta. Þetta stendur hér á síðum Morgunblaðsins og er haft eftir fyrrv. fjmrh., en þetta er nefnilega það, sem okkur greinir á um.

Ég vona, að það markmið, sem ríkisstj. hefur sett sér og stuðningsflokkar hennar, að hægt verði að lögfesta þetta frv. og þessi frv. fyrir næstu helgi, geti staðizt, og til þess að tefja ekki tímann ætla ég að láta staðar numið í bili.