15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Í gær lýsti hæstv. menntmrh. því hér yfir á hinu háa Alþingi, að ríkisstj. hefði ákveðið að taka á ný til vandlegrar athugunar frv. um grunnskóla og almenna fræðsluskyldu, enda þótt þau hefðu verið lögð fram á Alþ. í fyrra, eftir langa og kostgæfilega samningu í nefnd. Það, sem lengi ætti að standa, þyrfti vel að vanda, var inntak yfirlýsingar ráðh., en ekki virðist hæstv. ríkisstj. alltaf hugsa þannig, þegar til annarra mála kemur, og eru frv. um tekjustofna sveitarfélaga og tekju- og eignarskatt þar gott dæmi um. Enda þótt þau fjalli um málefni, sem snerta efnahagslega afkomu svo að segja hvers einstaklings þjóðfélagsins, þá telur hæstv. ríkisstj. sér stætt á þeim vinnubrögðum að fljótsmíða frv. í nefnd, skella skollaeyrum við öllum eða nær öllum ábendingum samherja sem andstæðinga og virðist einráðin í að keyra þau í gegn á Alþ. með handjárn hringlandi upp á vasann. Heyra má ég boðskap yðvar n. virðist hún hugsa gagnvart gagnrýnendum, en ráðin er ég í að hafa hann að engu.

Hin varúðarfulla afstaða hæstv. menntmrh. gagnvart breytingum á fræðslulöggjöfinni gleymist með öllu gagnvart breytingum á skattalöggjöfinni. Nú skal það strax tekið fram, að ég tel ýmislegt horfa til bóta í till. hæstv. ríkisstj. frá gildandi lögum. Jafnvel að það gæti verið vel nothæfur stofn að réttlátari og hagfelldari skattalöggjöf en nú gildir. En svo augljósir og varhugaverðir eru gallar enn á, að umtalslaust er skynsamlegast að heita varhygð hæstv. menntmrh. enn frekar við skattafrv. en skólafrv., sem ég drap á í upphafi, og því gerir Alþfl. það að höfuðtillögu sinni, að ríkisstj. taki sér umhugsunar- og endursmíðatíma á skattafrv. Slíkt væri henni, að menn ekki tali um þegnana, fyrir beztu.

Samkv. gildandi löggjöf eru bein opinber gjöld aðallega þessi: Ýmsir svo nefndir nefskattar, útsvar, tekju- og eignarskattur, fasteignagjöld. Samkv. skattafrv. nýju eigá nefskattarnir að færast inn í tekju- og eignarskattana, útsvörin að leggjast á brúttótekjur og ýmsir frádráttarliðir að falla niður í álagningu.

Hv. ríkisstj. hefur lagt á það þunga áherzlu í sókn sinni og vörn fyrir skattafrv. sínum, að afnám nefskattanna væri mikil réttarbót fyrir efnaminni þegna þjóðfélagsins og raunar óhjákvæmileg ráðstöfun, þar eð almannatryggingaiðgjöld og sjúkrasamlagsiðgjöld hefðu annars orðið óbærileg, og hafa talsmenn frv. nefnt í því sambandi, að þau hefðu sem nefskattur orðið að vera þetta ár um 22 þús. kr. á hjón, 15 þús. kr. á einhleypa karlmenn og 14 þús. kr. á einhleypar konur.

Ekki veit ég, hvort hér er um nákvæman útreikning að ræða, en hvað um það. Ég tek undir það, að fjármögnun almannatrygginga og sjúkratrygginga með nefsköttum að hluta var orðið úrelt kerfi, og því fráleitara sem við höfum sífellt meir og meir litið á og túlkað almannatryggingar fremur sem þjóðfélagslega samhjálp en keypt persónuleg réttindi. Ég tel þannig þá einföldun skattheimtunnar að fella nefskattana niður samkv. frv. til bóta. Hins vegar finnst mér varhugavert að færa þá aðgreiningarlaust inn í tekju- og eignarskattskerfið. Í fyrsta lagi tel ég, að svo mikilvæg samhjálp sem lífeyris- og sjúkratryggingar eru verði að hafa sinn sérgreinda fastmarkaða tekjustofn, annars verði hún um of háð náð ríkisvaldsins hverju sinni um framlög.

Í öðru lagi tel ég, að eðlilegt væri, að lífeyris- og sjúkratryggingakerfi ríkisins sé að ákveðnum hluta fjármagnað eftir sama kerfi og aðrar lífeyris- og sjúkratryggingar, þ.e. með tilteknum hundraðshluta af tekjum manna. Þetta leggur Alþfl. líka til í nál. sínu við skattafrv. og býður ríkisstj. að standa með henni að slíkri lagagerð.

Í þriðja lagi tel ég, að ríkisstj. hafi beitt almenning efnahagslegum rangindum, þegar hún lætur ekki tilsvarandi útgjöld almannatryggingagjalda og sjúkrasamlagsgjalda telja áfram í vísitölu. Þessi gjöld eru nefnilega alls ekki felld niður á almenningi, heldur aðeins færð til í skattbyrðinni. Sömu hagræðingu hafði ríkisstj. um hönd varðandi ábyrgðartryggingar bifreiða og nemur hagræðing vísitölunnar launþegum í óhag á þessum tveimur atriðum um fjórum vísitölustigum. Svo þegar við þetta bætist, að hækkanir á búvörum skila sér ekki í vísitölu, svo að nær nemur tveim stigum, verða launþegar nú að þola bótalaust útgjaldahækkanir, sem nema um sex vísitölustigum, en það gerir um 14 400 kr. á ársgrundvelli fyrir mann með 20 000 kr. mánaðarlaun. Fer þá að fara glansinn af nefskattaniðurfellingunni. Þegar svo er íhugað, að allir 68 ára og eldri sem og öryrkjar greiða hvort eð er ekki almannatryggingagjöld samkv. gildandi álagningatreglum, né 67 ára og eldri svo og öryrkjar sjúkrasamlagsiðgjöld, en þetta mun vera um 19 000 manns og þeir verða að þola sex vísitölustig í verðhækkunum á matvörum bótalaust, þá hljóta allir að sjá, að hér hefur verið unnið fljótfærnislega að, því að engum dettur í hug, að ríkisstj. hafi vísvitandi ætlað að níðast á þessum hópi þjóðfélagsþegnanna. Hún hugsaði aðeins málið ekki til botns. Enn kemur hið sama að nokkru leyti fram gagnvart tekjulitlum námsmönnum. Ríkisstj. hampar því, að þeim sé mikill fengur í afnámi nefskattanna, en virðist ekki taka eftir, að nú nær samkv. frv. útsvarsálagningin til margra þeirra, sem sleppa eftir gildandi álagningarreglum. Þá áttu þeir margir hverjir rétt á því eftir almannatryggingalögunum, eins og þau hafa verið, að viðkomandi sveitarfélög greiddu almannatryggingagjöld þeirra og til þeirra nær - sem kauplækkun „vísitöluhagræðingin“, þannig að þegar á þennan námsmannahóp er litið sem heild, er ekki víst, að fyrirhugaðar breytingar verði þeim til léttis. Hitt er skylt að viðurkenna, að greiðsluskyldu sveitarfélaga á almannatryggingagjöldum gagnvart tekju- og eignalitlum námsmönnum og raunar fleira nota sér alls ekki allir, sem geta. Sumir vegna þess, að þeir þekkja ekki þann rétt sinn, sumir vegna þess, að þeim finnst niðurlægjandi að nota sér hann. En þegar sumir sleppa við gjöld sín, en aðrir ekki, skapar það að sjálfsögðu misrétti. Hvað þennan þátt snertir er því algjör niðurfelling nefskattanna réttarbót, en að hún komi jafnstórum hópi námsmanna til útgjaldalækkunar og ríkisstj. vill vera láta, dreg ég í efa, sbr. framansagt.

Málsvarar umræddra skattafrv. halda því mjög fram þeim til ágætis, að þau boði aukið réttlæti í álagningu skattbyrðarinnar. Ég hef þegar sýnt fram á haldleysi þeirra raka gagnvart öldruðu fólki og öryrkjum, einnig í vissum tilfellum hvað námsmenn snertir, og hér í umræðum hefur hv. 10. þm. Reykv. bent á, að hið sama á sér stað varðandi meginþorra sjómanna. Svo er líka um iðnnema. Ég finn heldur ekkert í frv., sem hindrar það fremur en gildandi álagningarreglur, að skattbyrðin haldi áfram að hvíla að meginþunga á launafólki, sem enga krónu getur falið af tekjum sínum og verður áfram að bera drjúga byrði fyrir hina, sem feluleikinn kunna og geta leikið.

En lítum nánar á frv. um tekjustofna sveitarfélaga út af fyrir sig. Ríkisstj. telur því til ágætis, að með því sé létt byrðum af sveitarfélögum, svo sem kostnaði við löggæzlu og almannatryggingar og sjúkratryggingar að hluta. Ég er einn í þeim hópi, sem tel rétt, að ríkisvaldið beri fullan kostnað af löggæzlunni, þar eð það stjórnar henni að öllu. Samt sem áður get ég ekki annað en fundið að því, hvernig að þessu er staðið. ríkisvaldið segir allt í einu, svona skal þetta vera, og með einu pennastriki eru allir löggæzlumenn gerðir ríkisstarfsmenn, án þess að þeir séu spurðir um samninga þá, sem þeir hafa haft við sveitarfélög sín, eða látnir á nokkurn hátt vita, upp á hver býti þeir verði ríkisstarfsmenn. Þeir eru einfaldlega reknir milli dilka eins og kindur. Hefði ekki hér verið sjálfsögð kurteisi að hafa við þá viðræður og samráð um millifærsluna, svo að ekki kæmi til misskilnings og óþarfa leiðinda? Sú kurteisi hefði varla kostað peninga.

Ég tel einnig til mikils léttis fyrir sveitarfélögin, áð af þeim er færð greiðslubyrði almannatrygginga og sjúkratryggingar að hluta, en þó dreg ég mjög í efa, að rétt hafi veríð að færa með öllu úr höndum sveitarfélaga aðgæzluskylduna varðandi hækkaðan lífeyri fram yfir hinn almenna. Þar er kunnugleikanum á aðstæðunum alveg hafnað. Stærsta yfirsjón ríkisstj. Í þessu frv. varðandi sveitarfélögin tel ég hins vegar þá, að augljóst er, að lítið samráð hefur verið haft við samtök þeirra um gerð þess. Engin ný heildarstefna er mörkuð um skiptingu verkefna ríkis og sveitarfélaga, svo mjög sem þau mál hafa verið á dagskrá, og þó að byrðar séu teknar af herðum sveitarfélaga að hluta, þá eru tekjumöguleikar þeirra skertir stórlega, hvað félög og stofnanir snertir, hvað verst kemur niður á sveitarfélögum í vexti og uppbyggingu, en engum dettur í hug, að slíkt hafi verið ætlun ríkisstj. Frv. er hins vegar einfaldlega ekki nógu vel unnið.

Ríkisstj. telur frv. sínum það til ágætis, að þau einfaldi álagningarreglur. Mun hún þar fyrst og fremst hafa í huga niðurfellingu nefskatta og að útsvör verði tiltekinn hundraðshluti af brúttótekjum. Þar stendur hins vegar á móti, eins og hér hefur verið bent á í umr., að nú verða álagningarkerfin tvö, sitt með hvorum hætti, fyrir útsvör og fyrir tekjuskatt. Varla telst það einföldun. Þá get ég ekki varizt því að lýsa yfir kvíða mínum, hve hart það muni koma niður á ungu fólki, sem er að byggja sér eða kaupa sér íbúðir, að skuldavextir reiknist ekki frá við útsvarsálagningu. Ég þykist vita, að þetta sé hugsað sem lækning á þeim grunaða kvilla í núgildandi kerfi, að margur vaxtafrádrátturinn sé tilbúinn. En er ekki eitthvað bogið við þá lagfæringu, sem hittir fjölda manns saklausa með óbærilegum þunga? Enn sýnist mér hér bera að þeim brunni, að frv. séu vanhugsuð og fljótsmíðuð. Nú munu stjórnarliðar segja, að inn í frv. sé komið ákvæði, sem heimili að undanskilja nýjar íbúðir fasteignagjöldum í tvö ár. Þetta er rétt og verður ugglaust ýmsum til léttis, en getur þetta ákvæði ekki orðið býsna erfitt í framkvæmd? Hvað t.d. um íbúðir í blokkum, sem eru 2–3 ár í smíðum og teknar misfljótt í notkun og er ekki hætt við, að heimildin verði sums staðar notuð og annars staðar ekki, svo að misræmi og misrétti skapist? Og hvers eiga þeir að gjalda, sem brjótast í því að kaupa sér gamlar íbúðir, kannske af minni getu en þeir, sem byggja sér nýjar? Ekki virðist fasteignagjaldaívilnunin ná til þeirra. Hér virðist enn vanhugsun á ferðinni.

Ekki er um það deilt, að fasteignagjöld munu stórhækka á gjaldendum. Flestir virðast líta á fasteignir sem sjálfsagðan og eðlilegan skattstofn og vegna verðhækkana fasteigna sé sanngjarnt, að fasteignagjöldin hækki. Hjá flestum er álagningarprósentan aðeins ágreiningsefnið. En eru fasteignagjöld á einkaíbúðum manna, meðan þær eru aðeins af nauðsynlegri stærð fyrir viðkomandi fjölskyldu, eru þau að öllu leyti réttlátur gjaldstofn? Í fjölmörgum tilfellum er þar lagt á eign, sem að miklum hluta er aðeins til á pappírnum, þar sem svo mikið er skuldað í þeim. Þegar svo skuldavextir fást ekki til frádráttar í útsvari, getur komið út hrópandi skattaníðsla. Skoðum svo aðstöðu margra aldraðra hjóna, sem eiga sína íbúð, segjum skuldlausa eða a.m.k. skuldlitla, en íbúðin viðhaldsfrek vegna aldurs, tekjur dvínandi, en fasteignagjöld stórhækkandi. Er hér ekki verið að vinna að því, að gamla fólkið neyðist í vaxandi mæli til að selja íbúðir sínar, sem svo aftur kallar á síaukin útgjöld sveitarfélaga og ríkis til hyggingar elliheimila? Mér er tjáð, að Danir setji m.a. undir þennan leka þannig, að fasteignagjöld aldraðs fólks megi skulda sem veðskuld á íbúðir þess, og þær veðskuldir gerist þá fyrst upp, þegar dánarbúin koma til uppgjörs.

Það hefur mjög verið deilt um það í þessum umr., hvort frv., ef samþ. verða, þyngi skattbyrðir almennings eða ekki. Ég ætla ekki að hætta mér út í þá talnaorustu. Þar verður skattseðillinn í vor sá, er síðasta orðið hefur. En þetta sýnist mér augljóst:

1. Fasteignagjöld stórhækka og sú hækkun leggst þungt á ungt fólk, sem hefur nýbyggt eða nýkeypt sér íbúðir, svo og tekjulágt aldrað fólk, sem íbúðir á.

2. Niðurfelling skuldavaxtafrádráttar við útsvarsálagningu kemur afar þungt niður á nýbyggjendur og nýkaupenduríbúða.

3. Hagræðing vísitölunnar vegna niðurfellingar nefskatta og fleiri atriða hittir aldrað fólk, öryrkja, sjómenn og sumt námsfólk í stórhækkuðum framfærslukostnaði, an þess að þessi hópur þegnanna hafi nokkurt hagræði af niðurfellingu nefskattanna.

4. Við rýrnun aðstöðugjalda sem tekjustofns fyrir sveitarfélög er stórlega skertur möguleiki þeirra til að ná gjöldum af félögum og stofnunum, sem sveitarfélögin hafa margvíslegan beinan kostnað af.

5. Tekjuskattsálagningin hittir allan meginþorra almennings með mjög vaxandi þunga fram yfir afnám nefskatta og hugsanlega léttingu útsvara.

Að öllu þessu athuguðu finnst Alþfl. fortakslaust rétt, að ríkisstj. dragi skattafrv. til baka til endursamningar. Hún hagi sér ekki eftir kenningunni: Heyra má ég boðskap yðar, en ráðin er ég í að hafa hann að engu, heldur skuli hún fara að einkunnarorðum hins vara menntmrh. gagnvart grunnskóla- og fræðsluskyldufrv.: „Það skal vel vanda, sem lengi á að standa.“