15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., 4. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, kvaðst vera alveg viss um, að heildarstefna þessara skattafrv. væri rétt. Ég vissi áður og fyrr, að hv. þm. er pólitískt trúgjarn maður, en hann var sakleysið sjálft, þegar hann sagði þetta hér, og fékk ég þá nýja staðfestingu á því. Ég vil minna þennan hv. þm. og stjórnarliða á það, að skattar eru einkum lagðir á í tvennum tilgangi. Þeir eru í fyrsta lagi lagðir á til þess að afla ríkissjóði og sveitarfélögum tekna og í öðru lagi til þess að hafa áhrif á hegðun borgaranna.

Með sköttum er auðvelt að hvetja almenning til mikillar öflunar tekna og sparnaðar eða takmarka tekjuöflun þeirra og hvetja til eyðslu. Sú stefna, sem hverju sinni er uppi í skattamálum, hefur því einna afdrifaríkust áhrif á efnahagslega velferð einstakra borgara og þjóðarbúsins í heild. Mér er til efs, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarsinnar hafi gert sér næga grein fyrir þessu, enda margupplýst hér á hinu háa Alþ., að fáir eða engir sérfróðir menn í skatta- og efnahagsmálum hafi komið nálægt því að móta þessi skattafrv., sem nú eru til umr. í báðum deildum Alþ., með tilliti til þeirra heildaráhrifa, sem þau kynnu að hafa á efnahagskerfið. Vera má, að einhverjir sérfróðir menn hafi fjallað um einstök atriði þessara frv. hver í sínu horni, en áreiðanlega án allrar heildaryfirsýnar um þær afleiðingar, sem þau kynnu að hafa í næstu framtíð á velferð einstakra borgara og þjóðarheildarinnar.

Frv. munu hafa eftirfarandi stefnuatriði í för með sér. sem ég mun fyrst og fremst ræða að þessu sinni: Stórhækkun tekjuskatta af almennum launatekjum, margföldun eignarskatta og fasteignaskatta, skerðingu á fjárhagslegu svigrúmi sveitarfélaga, afnám takmarkaðra skattfríðinda við beina þátttöku almennings í atvinnurekstri auk verulegrar íþyngingar í sköttum atvinnufyrirtækja, og síðast en ekki sízt fela frv. í sér breytingar á hinum svo nefndu nefsköttum í tekju- og eignarskatta. Frv. var einnig ætlað, eins og þau voru fyrst lögð fram hér á Alþ., að skerða verulega skattkjör aldraðra og sjómanna, svo og fleiri aðila, en vegna megnrar óánægju alls almennings og fyrir þrýsting frá stjórnarandstöðunni hafa verið gerðar leiðréttingar á hluta af ýmsum þeim aðförum í meðförum þingsins. Sú meginstefna í skattamálum, sem fram kemur í þessu frv. og sem hæstv. ríkisstj. virðist staðráðin í að framkvæma, kemur mér á eftirfarandi hátt fyrir sjónir að því er varðar efnahagslega velferð borgaranna og þjóðarbúsins:

1. Einstaklingum með venjulegan skattfrádrátt og 230 þús. kr. brúttótekjur og hjónum með þrjú börn og venjulegan frádrátt með 420 þús. kr. í brúttótekjur mun verða gert að greiða 54–55 kr. af hverjum 100, sem þessir þjóðfélagsþegnar afla fram yfir það í viðbótartekjur. Þetta merkir, að nær allir fullfrískir launþegar á Íslandi, sem eru að vinna að þjóðarframleiðslunni, lenda í hátekjuskatti, sem svo hefur verið nefndur, samkv. þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir um tekjur manna á s.l. ári og hæstv. ráðh. og stjórnarsinnum hljóta að vera kunnar. Reynslan hefur sýnt, hvað gerzt hefur hjá þeim starfsstéttum, sem hafa á undanförnum árum komizt í að greiða hæstu tekjuskatta, en fóru þó í raun aldrei yfir 50% af síðustu krónunum, sem viðkomandi vann sér inn. Ég fæ ekki betur séð en það hafi sannazt í skóla reynslunnar, hvað muni gerast, þegar allur þorri launþega í landinu stendur frammi fyrir þeirri staðreynd um skattlagningu, sem hér blasir við. Þegar frá líður, mun þessi skattstefna draga úr vilja borgaranna til þess að afla sér verulegra umframtekna fram yfir nauðþurftir og þar með draga úr þjóðarframleiðslunni, skerða kjör launþega og jafnframt að sjálfsögðu ekki verða sá tekjustofn fyrir ríkissjóð, sem fyrirhugað var.

2. Ljóst er, að margföldun eignar- og fasteignaskatta mun draga verulega úr áhuga alls almennings og þá einkum og sér í lagi ungs fólks á því að spara fé og varðveita fjármuni sína í varanlegum eignum. Það er einnig vandséð, hvernig ungt fólk á að geta eignazt fjármuni til þess að geta komið þaki yfir höfuðið, þegar tekjur þess, sem fara fram yfir það lága mark, sem ég áður greindi frá, eru skattlagðar með 55 kr. af hverjum 100, sem það vinnur sér inn. Afleiðingin af þessari stefnu verður augljóslega sú, að fólk gerir auknar kröfur til þess, að hið opinbera byggi íbúðarhúsnæði og leigi því með viðráðanlegum kjörum, eins og víða tíðkast erlendis. Þá geta menn eytt þeim litlu tekjum, sem menn fá að hafa, án þess að borga af þeim hátekjuskatt. Hér er því verið að hvetja til eyðslu almennings og kröfugerðar á hendur hins opinbera, sem þarf enn þá aukna skatta til þess að fullnægja.

3. Það er upplýst og viðurkennt af ráðh. hér á Alþ., að tekjustofnafrv. sveitarfélaganna, sem við ræðum hér nú í hv. d., mun óbreytt ekki sjá þeim fyrir eðlilegu fjármagni til þjónustu og framkvæmda, enda þótt af þeim sé létt nokkrum útgjaldapóstum. Sá varnagli, sem stjórnarliðið hefur seint og um síðir slegið með ákvæðum til bráðabirgða í frv., bendir ótvírætt til þess, að menn viðurkenna þá útreikninga, sem sýna þetta svart á hvítu. En þessi varnagli um eins konar ríkisframfærslu þessara sveitarfélaga, sem ekki ná saman endum í fjárhagsáætlun með þeim tekjum, sem felast í frv., dugir skammt. Víst er, að mörg sveitarfélög verða treg til þess að sæta þeim afarkostum að leggja 50% á fasteignaskatta, sem margfaldast fyrir, áður en álagið er lagt á þá, og leggja 1% hærra útsvar á brúttótekjur gjaldenda sinna en önnur sveitarfélög til þess að hljóta þessa náðargjöf úr ríkissjóði, sem heitið er með þessu ákvæði. Það er því alveg ljóst, að sum sveitarfélög munu heldur taka þann kostinn að skera niður þjónustu við borgarana og framkvæmdir, enda er það sýnilega ætlun ríkisstj. Hér er vegið að sjálfstæði sveitarstjórna, sem eru í miklu beinni tengslum við borgarana en ríkisvaldið, en samtímis er hlaðið undir miðstjórnarvald í Reykjavík. Þetta gerist þrátt fyrir stóraukna heildarskattbyrði almennings í landinu og sýnir það út af fyrir sig, að ríkissjóður hyggist hirða af þeirri skattahækkun bróðurpartinn, en nota löggjafarvaldið til þess að þrengja kost sveitarfélaganna.

Með frv. er í fjórða lagi stefnt að því að afnema þau mjög svo takmörkuðu fríðindi til handa almenningi, sem taka vilja beinan þátt í atvinnurekstri. Samkv. gildandi lögum átti arður af hlutafjáreign einstaklings, sem nam 30 þús. kr., að vera skattfrjáls, þó ekki hærri en 10%. Þetta merkir, að hluthafi t.d. í almenningshlutafélagi gat fengið að hámarki 3 þús. kr. arðgreiðslu skattfrjálsa vegna þessa ákvæðis. Þetta er auðvitað til þess gert að hvetja fólk til þess að leggja sparnað sinn beint í atvinnufyrirtæki fremur en leggja hann allan inn í banka og fá hann skattfrjálsan þar með ákvæðunum um skattivilnanir af vöxtum. Auðvitað er það þyrnir í augum ýmissa pólitískra afla, að almenningur gerist þátttakandi í atvinnurekstrinum. Þá þykir þeim voðinn vís. Þetta ákvæði var því afnumið á þeim forsendum, að það væri til að hygla þeim ríku, rétt eins og það skipti þá höfuðmáli að fá 3 þús. kr. undanþegnar skatti. Þetta er gott og lýsandi dæmi um þann rökstuðning, sem beitt er fyrir skattstefnunni í þessum frv. Hann er allur annar en sá, sem raunverulega býr þar að baki.

5. Með frv. er stefnt að því að stórauka álögur á atvinnufyrirtæki, og jafnframt er þeim verulega mismunað eftir rekstrarformi. Nú kann svo að vera, að hæstv. ríkisstj. hafi látið fara fram gagngera athugun á afkomu íslenzkra fyrirtækja, eins og hún gerði að sögn hæstv. forsrh., áður en málefnasamningurinn var gerður, og því þá um leið, að með þessum álögum sé hún ekki að ofbjóða gjaldþoli atvinnuveganna. Einhvern veginn grunar mig þó, að rennt sé blint í sjóinn með þetta eins og flest annað og stjórnarherrarnir ætli að kanna það eftir á, hvað þeir séu í raun að gera.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að atvinnufyrirtæki borga ekki laun með sömu krónum og þau borga skatta. Þau kaupa ekki vélar eða hagræða rekstri sínum með sömu krónum og þau borga í skatta. Það er vitað mál, að íslenzk atvinnufyrirtæki þurfa á næstunni mjög að auka samkeppnishæfni sína gagnvart erlendum keppinautum og þau þurfa almennt að auka mjög rekstrarhæfni sína til þess að geta staðið undir síhækkuðum launagreiðslum, t.d. 20% rauntekjuhækkun, sem ríkisstj. hefur lofað, styttingu vinnutíma og lengingu orlofs, sem orðin er. Þetta gera þau ekki með sömu krónunum og hið opinbera gerir þeim að greiða í skatta. Meðal annarra orða, ætli iðnrh. hafi látið kanna, hvað þessi skattafrv. koma til með að íþyngja íslenzkum iðnfyrirtækjum, sem eru að hasla sér völl á erlendum mörkuðum í harðri samkeppni? Kannske er hér farið að á hliðstæðan hátt og þegar iðnrh. staðhæfir, að hann ætli að reisa 145 mw. virkjun við Sigöldu til þess fyrst og fremst að framleiða raforku til húshitunar, en fjmrh. innheimtír söluskatt af þeim eina orkugjafa til húshitunar, en ekki olíu eða hitaveitu.

Þá kem ég að skrautfjöðrinni í þessu frv., breytingunni á nefsköttum í tekju- og eignarskatta. Hæstv. iðnrh. lét þau orð falla í umr. fyrir nokkru hér á hinu háa Alþ., að um sé að ræða, orðrétt: „langsamlega þýðingarmestu breytinguna á fyrrv. og núverandi skattkerfi“, og taldi þessa breytingu frá nefsköttum og yfir í tekju- og eignarskatta vera stórkostlega skattivilnun fyrir hina lægst launuðu. Þetta tel ég meira en hæpna fullyrðingu. þegar hafðar eru í huga heildarráðstafanir hæstv. ríkisstj. í skatta- og efnahagsmálum. Ráðh. sagði, að hér væri um að ræða, að nú yrðu í 220 millj. kr. innheimtar af þeim, sem hefðu tekjur og ættu eignir, í stað þess að þessi upphæð hefði að óbreyttu verið innheimt í jöfnum iðgjöldum til tryggingakerfisins. Það er út af fyrir sig mikil viðurkenning, sem felst í þessum orðum ráðh. Bæði er viðurkennt, að ekki er um afnám þessara nefskatta að ræða, eins og stjórnarsinnar nefna fyrirbrigðið af ásettu ráði, og í þessu felst viðurkenning ráðh. á stórhækkun tekju- og eignarskatta. En málið er ekki eins einfalt og ráðh. vill vera láta. Auðvitað þarf að bera saman núv. skattkerfi í heild og fyrirhugað skattkerfi, ef samanburður á að fást á þýðingu breytingarinnar frá nefsköttum í tekju- og eignarskatta. Ég skal nefna tvö dæmi, sem sýna þetta svart á hvítu.

Samkv. tekjustofnafrv. ber einstaklingi. sem hefur einungis rúmar 50 þús. kr. í brúttótekjur, að greiða útsvar. Á yfirstandandi ári munu þannig bæði einstaklingar og hjón borga hærra útsvar af lágum tekjum en áður og komast fyrr í útsvarsskyldar tekjur en áður. Þetta ásamt stórhækkun fasteignaskatta, sem lendir auðvitað bæði á fólki, sem á íbúðir eða leigir, merkir, að jafnvel hinir allra lægst launuðu borga nú nefskatta sína í formi útsvars og fasteignaskatta að verulegu eða öllu leyti. Líklegt er, að einn hópur manna geti talizt hagnast á þessari formbreytingu, eins og að henni er staðið af hálfu stjórnarliðsins, en það er skólafólk, sem er lengur en 6 mánuði í skóla ár hvert. Sveitarstjórnir hafa heimild til að lækka útsvör þeirra, og þetta fólk borgar sennilega óveruleg fasteignagjöld í einu eða öðru formi. Ástæða væri til að fagna þessu, ef málið væri svona einfalt, en þess mætti þó geta í leiðinni, að almannatryggingagjald og sjúkrasamlagsgjald hefði orðið, að því er talið er, um 14–15 þús. kr. á yfirstandandi ári fyrir einn einstakling. Þær verðhækkanir, sem orðið hafa vegna hagræðingar vísitölunnar og afnáms niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðum og sem voru bein orsök þessarar formbreytingar, munu þó þyngja framfærslukostnað námsmanna um svipaða upphæð yfir árið, ef að líkum lætur. Í framangreindu ljósi tel ég, að menn verði að virða fyrir sér það, sem hæstv. viðskrh. kallaði langsamlega þýðingarmestu breytingu á skattkerfinu. Það er nefnilega ekki nóg að líta á hana eina, heldur í tengslum við aðrar ráðstafanir hæstv. ríkisstj.

Við 1. umr. um frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem nú er til meðferðar í hv. Nd., gerði ég nokkrar aths. ásamt fleiri þm., sem ég held, að hefði verið ómaksins vert fyrir hv. heilbr.- og félmn. að taka til athugunar. Þetta var ekki gert. Ég gerði aðallega brúttótekjuhugtakið að umtalsefni og spurði m.a. hæstv. félmrh., hvort hann teldi, að tekjur þarna innan 16 ára aldurs kæmu til tekna hjá foreldrum við álagningu útsvars, án skólafrádráttar. Ég spurði einnig um, hvort greiðsla bifreiðastyrkja eða fyrir síma o.s.frv. kæmi til tekna og útsvarsálagningar hjá þeim, sem við tekur, án frádráttar á kostnaði, sem viðkomandi hefði, svo og spurði ég, hvort maður, sem fær vaxtatekjur af skuldabréfi íbúðar, sem hann hefur selt, fái 10% útsvar af þeim vaxtatekjum. en engan frádrátt vegna vaxtabyrða af þeirri íbúð, sem hann býr í, ef hann skuldar í henni. Ég sé, að hæstv. félmrh. er ekki hér, en ég vil þá spyrja hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., hvort hann skilji efni frv. þannig, eins og ég hef hent á, að hægt er að skilja það. skilja efni þeirra.

Eitt atriði enn, sem gott væri, að einhver ráðh. eða stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. gæti upplýst mig um. Eins og menn muna eflaust, er í lögum um almannatryggingar ákvæði um lágmarkstekjutryggingu lífeyrisþega. Samkv. því eru einstaklingi tryggðar 120 þús. kr. í framfærslulífeyri á ári, og samkv. ummælum hæstv. trmrh. mun ekki af veita. Þetta skal ekki dregið í efa. Á hinn bóginn fengi einstaklingur, sem vinnur sér inn 120 þús. kr. í brúttótekjur, 7 þús. kr. í útsvar samkv. þessu frv. eða hefði einungis 113 þús. kr. tekjur til að lifa af yfir arið. Á hverju byggist það að dómi hæstv. ríkisstj. og stuðningsmanna hennar, að þessi einstaklingur geti lifað á minni tekjum en lífeyrisþegar? Vantar hér ekki markvissa heildarskipulagningu í samræmingu vinnubragða, eins og þeir, sem mest nota þessi hugtök, gætu hafa sagt?

Herra forseti. Ég hef hér fært rök að því, að heildarstefna núv. ríkisstj. í skattamálum sé röng og óskynsamleg. Hún miðar m.a. að því að leggja 55% hátekjuskatt á meginþorra launþega í landinu og stórhækka eignar- og fasteignaskatt. Þetta dregur úr vilja fólks til þess að afla sér tekna umfram brýnustu nauðþurftir og vilja fólks til þess að spara og koma sér upp eigin húsnæði. Stefnan leiðir því til samdráttar í þjóðarframleiðslu og kjaraskerðingar alls almennings á tímum óðaverðbólgu. Hér á að stefna þveröfugt, létta tekjusköttum af almennum launatekjum og sem mest af miðlungstekjum og örva með því almenning til að afla sér og þjóðarbúinu aukinna tekna. Það á að forðast sem mest að skattleggja fólk, þegar það er að framleiða verðmætin, sem verða til skipta. Í stað þess á að skattleggja eyðsluna og beita tryggingakerfinu um leið þannig, að stórar fjölskyldur greiði í raun hliðstæða neyzluskatta og hinar minni. Skattkerfið á að ýta undir sparnað, hvetja til beinnar þátttöku almennings í atvinnulífinu, auk þess sem það á að miðast við, að atvinnufyrirtækin geti bætt samkeppnis- og rekstrarhæfni sína, þannig að þau geti risið undir kjarabótum til starfsmanna sinna. Því miður er það frv., sem hér er til umr., ekki liður í slíkri jákvæðri heildarstefnu í skattamálum, auk þess sem á því eru veigamiklir tæknilegir gallar. Ég styð því þá till., að málinu verði vísað frá með fram kominni rökstuddri dagskrá.