15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. ræddi dálítið áðan um það misrétti, sem við stefndum að í þessu frv. með álagningu útsvars á gifta konu og ógifta. Ég get nú ekki séð þetta misrétti. Það er að vísu rétt, að frádrag fyrir hjón er 7 þús., en fyrir einstakling 5 þús., þannig að það er þessi munur, sem hægt er að segja, að sé á þessu tvennu. En kona, sem er gift og vinnur fyrir 200 þús. kr., borgar að öðru leyti eins í sveitarsjóðinn miðað við það frv., sem við stefnum hér að að lögfesta. Ef þessi gifta kona hefði fengið helmings frádrátt, þá hefði þetta útsvar ekki verið mikið, ekki hennar gjöld. Ég held, að miðað við að leggja á brúttótekjur, þá sé mjög óeðlilegt að breyta þessari reglu, sem hefur gilt, enda byggist þessi breyting okkar á því, að prósentuálagningin er tiltölulega mjög lág. Það er ekki hægt að segja annað.

Þm. ræddi töluvert um þá hugmynd, að allar konur telji fram sér, hvort sem þær eru giftar eða ógiftar. Ég kannast nú ekki við, að þetta sé beint hugmynd Alþfl., en ég veit auðvitað ekki, hver á hugmyndina, ég skal ekkert segja um það. Ég hreyfði þessu máli hér fyrir rúmu ári, en ég tel ekki, að ég hafi átt hugmyndina, dettur það ekki í hug. Þetta er bara gömul hugmynd. Og í sambandi við það, þegar ég ræddi þetta mál. þá var ég að tala um vanmat á heimilisstörfunum, og til þess að öðruvísi væri litið á störf þeirrar konu, sem hugsar um börn og bú, heldur en virtist vera í þjóðfélaginn, þá væri þessi breyting m.a. nauðsynleg að mínu mati. Annars ætla ég ekkert að fara að þrátta við hv. þm. um það, hver á þessa hugmynd. Ég geri ráð fyrir því, að hvorki ég né Alþfl. eigi hana, hún sé miklu eldri.

Hv. 11. landsk. þm. gat um það, að ástæða hefði verið til þess að orða öðruvísi eða breyta till. um að skattleggja hlunnindi jarða. Ég verð að játa, að ég er honum sammála í raun og veru. Ég hefði óskað eftir því, að orðalagið væri öðruvísi á þessari gr. en það er, og ég get vel tekið undir það. En okkar stefna var sú að gera ekki till. um breytingar, nema sem við gætum tryggt, að færu strax í gegn, vegna þess að það er yfirlýst stefna, að endurskoðuninni verði haldið áfram á þessum hvorum tveggja lögum, bæði um tekjustofna sveitarfélaga og um tekju- og eignarskatt, og þó að við hefðum óskað eftir í vissum tilvikum, að hefði verið annað orðalag á sumum þessum lagagr. eða frvgr., þá vildum við ekki vera að fara ofan í það á þessu stigi málsins og töldum það raunar ekki fært.

Hv. 8. landsk. þm., Bragi Sigurjónsson, flutti hér langa ræðu, og hann taldi, að fasteignaskattur væri mjög óréttlátur í mörgum tilvikum. Ég lít á fasteignaskatt í raun og veru þannig, að menn séu að borga yfirleitt fyrir þá þjónustu, sem þeir fá vegna sinnar fasteignar af sveitarfélaginu, og mér finnst það eðlilegt, að hver og einn, sem á fasteign, borgi fyrir slíka þjónustu með slíku gjaldi. Það er alveg rétt, að það verður að stilla þessu í hóf. Og í sambandi við það, að það er horfið að því, að t.d. landbúnaður borgar minna fasteignagjald en annar atvinnurekstur, það byggist fyrst og fremst á þessu, að í sveitahreppunum er það tiltölulega svo lítil þjónusta, sem sveitarhrepparnir veita þeim, sem eiga þar fasteignir, miðað við,það, sem er í þéttbýlinu. Það er auðvitað lengi hægt að deila um aðferðir til þess að ná þeim tekjum, sem þjóðfélagið þarf nauðsynlega að fá og sveifarfélögin, en einhvern veginn verður að fá þetta og ég held, að fasteignaskatturinn sé síður en svo óréttlátari skattur en ýmsir aðrir skattar. Ég verð að segja það, að ég tel aðstöðugjaldið óréttlátari skattheimtu. T.d. ef atvinnureksturinn verður fyrir stórfelldu tjóni, þá verður hann að borga aðstöðugjald af þessu tjóni. Og það tel ég vera miklu hæpnari aðferð.

Hv. 8. landsk. þm. sagði, að þeir færu illa út úr þessari breytingu, sem við ætlum að gera, þeir, sem fá sinn lifeyri úr almannatryggingakerfinu. Ég held, að við verðum að líta á þetta ekki eingöngu frá þessum lagafrv., heldur einnig frá þeirri breytingu, sem var gerð á tryggingagreiðslunum um s.l. áramót. Ég held, að við eigum að líta á þetta, ekki einungis þessi frv., heldur verðum við að líta á allt málið, hvernig þessi ríkisstj. býr að þessu fólki miðað við það, sem áður var, líta á það í heild. Og ég held, að ef það er gert, sé ekki hægt að segja, að þessi ríkisstj. og þingmeirihluti fari illa með þetta fólk, þvert á móti.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, byrjaði sína ræðu á því að segja, að ég hefði sagt það, — og þótti það firn mikil — að þessi stefna ríkisstj., þessi skattheimta, eins og hún er fyrirhuguð, stefndi í rétta átt. Ég er ekki óánægður með það, þó að hv. þm. og yfirleitt hv. sjálfstæðismenn séu á þessari skoðun, því að það kemur í ljós af hans ræðu, fyrir hvaða hóp manna hann talar hér. Það er ekki fyrir þá, sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu, það er fyrir hina. Og ég sætti míg mjög vel við það að fá slíkan dóm. (LárJ: Þú sagðir, að þú værir viss um, að hún væri rétt.) Ég er alveg viss um, að hún er rétt, og ég get vel unnað hv. þm. Lárusi Jónssyni þess að vera málsvari fyrir þá, sem eru efnameiri í þjóðfélaginu. Ég kæri mig ekki um að skipta hlutverkum við hann.

Hann gat um það, að stefnt væri að því, að þetta yrðu hátekjuskattar á venjulegar launatekjur. Séu þetta og verði þetta hátekjuskattar, þá mundi það hafa orðið svo eftir því kerfi, sem enn er í lögum. Ég er hér fyrir framan mig með álit, sem hefur verið gert af hagrannsóknarstjóra. Það eru niðurstöður, yfirlit um heildarskatta, beina skatta eða sem sagt alla skatta miðað við gamla kerfið og miðað við það kerfi, sem við stefnum að að lögsetja. Og niðurstaða hagrannsóknarstjóra er sú, að ef farið hefði verið eftír gamla kerfinu, ef nefskattarnir hefðu verið teknir og lagt hefði verið á miðað við þau lög, sem nú gilda, þá hefði heildarskattheimtan af almenningi í landinu orðið á bilinu frá 5 milljörðum 915 millj. til 5 milljarða 993 millj. En eftír því kerfi, sem við stefnum nú að að innheimta eftir, þá mundi þetta verða frá 5 milljörðum 827 millj. til 5 milljarða 876 millj. Og þá geta menn séð, — þetta er álit hagrannsóknarstjóra, — að munurinn er sem sagt ákaflega lítill. Hitt er svo alveg rétt, að verið er að breyta um og þeir, sem eru verr settir í þjóðfélaginu, bera minna. Það er rétt. Og þeir, sem hafa meiri tekjur, bera meira miðað við þessa breytingu, og það er það, sem hv. þm. er að kveinka sér undan.

Eitt af því, sem hann sagði, var, að niðurfelling beinu skattanna væri mjög vafasöm. Vafasamt væri, að hún væri mikið spor í rétta átt eða réttlátari leið. Hvernig er það t.d. með foreldra, sem eru með marga unglinga í skólum, eins og er víða í landinu, foreldra, sem verða að styrkja þessa unglinga við námið og borga svo fyrir þá alla nefskattana? Það verður að gera það. (LárJ: Hvað hækkar framfærslukostnaðurinn?) Hækkar framfærslukostnaðurinn? Hann hækkar a.m.k. lítið á móts við það. Ég þekki margar fjölskyldur, marga foreldra, sem losna nú við að borga 60–70 þús. í nefskatta, sem þeir hefðu orðið að greiða miðað við það kerfi, sem hv. þm. Lárus Jónsson harmar, að nú er horfið frá.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða hér fleiri atriði, sem hafa komið fram í ræðum hv. ræðumanna. Ég vil endurtaka það, að við vitum, að það muni koma fram, að ýmsir hnökrar eru á þessum frv. Það hefði verið sama, hvernig hefði verið unnið að þeim. Það er yfirlýst stefna, að það eigi að halda áfram að endurskoða þessi lög, bæði um tekju- og eignarskatt og um tekjustofna sveitarfélaga. Ég segi það enn og aftur, að ég er viss um, að sú heildarstefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið í þessum málum miðað við breytinguna á tryggingakerfinu, miðað við þær breytingar, sem nú er verið að leitast við að lögfesta, er í rétta átt. Við erum að færa þjóðfélagið til meiri jafnaðar en áður var. því ber að fagna. Og ég er viss um, að þegar skattseðlarnir koma í sumar, þá munu a.m.k. þeir, sem eru með miðlungstekjur og neðan við það, fagna þeirri breytingu, sem hefur orðið á í sambandi við þessa lögfestingu.