15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. seinasta ræðumanns, að það má nú segja, að ýmsir hnökrar eru á þessu máli, og voru þeir þó fleiri í upphafi en nú er orðið. Ég er fyrir hönd stjórnarandstöðunnar þakklát fyrir það, að margar ábendingar stjórnarandstæðinga, sem fram komu strax frá upphafi meðferðar þessa máls, hafa verið teknar til greina, svo að útkoman lítur ekki út fyrir að verða eins slæm og ætla mátti í fyrstu, þótt sannarlega sé hún engan veginn fullkomin, fjarri því. Eins og orð hv. seinasta ræðumanns bentu til, þá má eiginlega segja, að þetta mál sé með algerum eindæmum að því leyti, að ég hef ekki orðið þess vör, að nokkur einasti stjórnarsinni sé ánægður með þetta frv. Ég held, að þeir séu allir óánægðir með það, þeir, sem að því standa. Það mætti kannske þá búast við, að ástæðan fyrir því, að þetta er afgreitt af þvílíku ofurkappi, væri sú, að menn ætluðu, að skattborgararnir yrðu þessum frv. ákaflega fegnir. Ég verð að segja það, að ég hef ekki mikla trú á því, að margir skattborgarar segi eins og einn heiðursmaður í Reykjavíkurborg sagði fyrir röskum 40 árum: enga peninga greiði ég með eins mikilli gleði og útsvarið mitt. Ég tek fram, að þessi orð eru höfð eftir þáverandi borgarstjóra í Reykjavíkurborg. Það verður kannske líka þannig, þegar öll kurl koma til grafar og ætlunin er að fara að leggja á skatta eftir þessum frv., að þá verði skattstjórarnir ekki í neinum vandræðum, þeir verði það ekki hér eftir fremur en hingað til, eða svo sagði hæstv. félmrh. hér við 1. umr. þessa máls, að engin ástæða væri til að óttast, að nokkur atriði í þessum frv. væru torskilin eða erfitt að átta sig á, hvernig framkvæma ætti. Vafalaust yrðu skattstjórarnir ekki í neinum vandræðum með þetta fremur en áður.

Undanfarnar vikur hafa málgögn ríkisstj. keppzt við í raun réttri að biðja afsökunar á því, að þetta frv. og fylgifrv. þess, sem nú er til umr. í hv. Ed., skuli vera lögð fram og ætlunin sé að afgreiða þau nú á næstunni. Ástæðan sé sem sé hækkun fjárlaga og samþykkt tryggingalaganna nú í vetur. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. nefndi hér í framsöguræðu sinni, að ekki ættum við þm. Sjálfstfl. að vera þessum framgangi mála mótfallnir, þar eð við hefðum nú tekið þátt í samþykkt hækkunar almannatrygginga, og enn fremur hefðum við samþykkt ýmsar till. fjárlaga. Ég vil rifja það upp, að við lögðum til, að fjárlög yrðu ekki afgreidd að svo komnum málum, eins og þá var gert. Og í sambandi við afgreiðslu tryggingalaga lögðum við til, að sett væri sérstakt bráðabirgðaákvæði þess efnis, að fyrirkomulag fjárhagsgrundvallar trygginganna yrði ekki ákveðið fyrr en síðar á þinginu á þeim tíma, seni við ætluðum, að þessi mál, sem nú eru til umr., væru einnig rædd, þannig að mál þessi væru öll skoðuð í samhengi og ekki væri unnt að segja, að með samþykkt eins máls væru menn að binda sig við allt annað mál. sem alls ekki var búið að skoða. En einhvern veginn finnst mér nú samt, að þessi afstaða hv. stjórnarsinna sé mannlega skiljanleg. Þeir hafa þegar sagt svo mikið, að eftirleikurinn verður örðugur, ef ekki verður áfram haldið, en gallinn á þessu er bara sá, að svo greinilega kemur fram, að þeim þykir í þessu máli svo miklu betra að veifa röngu tré en öngu. Ég held, að jafnvel þótt þeir hafi lýst því yfir í margnefndum málefnasamningi, sem ég var svo óforsjál að hafa ekki við hliðina á mér og ekki í minni skúffu og verð að biðja afsökunar á, að ég er kannske ein þm., sem frem þá synd að hafa ekki málefnasamninginn meðferðis, en ef ég man rétt, þá mun eitthvað hafa verið í honum minnzt á endurskoðun tekjuöflunarleiða hins opinbera og þess vegna telja hv. stjórnarsinnar sig nú bundna við að ganga frá þessum meingölluðu frv., sem hér eru til umr. En ég held, að almenningur á Íslandi hefði nú jafnvel fyrirgefið hæstv. ríkisstj., þótt framkvæmd þessa ákvæðis væri nokkuð frestað. Svo mikill skemmtilestur sem honum hefur nú verið í té látinn með þessum málefnasamningi, þá held ég, að fólki hafi algerlega verið ljóst, að þrátt fyrir stór orð væri nú ástæða fyrir þessa ríkisstj. jafnvel að skoða málin vel ekkert síður en aðrar ríkisstj. Enda er það það, sem við þm. Sjálfstfl. leggjum til, að þessum málum verði nú vísað frá og þau skoðuð betur. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. er þessu algerlega mótfallin. Nú við í. umr. málsins hér í dag sagði hæstv. ráðh., sá, sem nú hefur tekið sér fri frá þingstörfum, vegna anna við stjórnarstörf væntanlega, að þessi till. sjálfstæðismanna um að vísa málinu frá væri algerlega með eindæmum. Öllu vill þetta fólk fresta, sagði hæstv. ráðh. En það er ekki einungis það. Ég játa það, að svo ill þykja mér þessi frv., að mér sýndist frestur á þeim beztur, eins og jafnan flestum finnst frestur á illu beztur. En ástæða okkar er sú, að hér er um svo viðamikil mál að ræða, mál, sem snerta svo mjög ýmiss konar atriði í einkalífi fólks, afkomu þess, að við teljum sjálfsagt og almenning á Íslandi eiga kröfu á því, að málum sem þessum sé ekki bent hálfunnum inn í þingið, aðeins til að geta sagt á eftir, að svona og svona mörg stórmál hafi verið afgreidd og ekki svo minnzt á, með hvílíkum eindæmum það er gert.

Ég hafði nú sannast sagna ekki ætlað mér að hafa svona mörg orð um frv. þetta almennt, en ástæðan er sú, að till. okkar nú við þessa umr. er einmitt sú að vísa málinu frá af þessum ástæðum, sem ég nú hef gert grein fyrir. Við viljum, að vandlega sé að málunum staðið, og ég held nú jafnvel, að margir stjórnarsinnar séu þess sinnis hið innra a.m.k. og gæti trúað, að helzt vildu þeir fylgja okkur í þessu máli og sæju, að þá væru þeir öruggari um sinn sóma heldur en með þeirri afgreiðslu, sem nú stendur fyrir dyrum.

Mig langar þá að víkja aðeins að litlu atriði í frv., sem varðar málefni aldraðra. Ég veit, að hver einasti hv. þm. ber málefni aldraðra mjög fyrir brjósti, það höfum við heyrt. Hins vegar hefur svo borið við í seinni tíð, að menn sjá allt að því ofsjónum að ofvelgja sé kannske við aldrað fólk, sem hafi eignazt einhverjar eignir, sem hefur e.t.v. lagt hart að sér, safnað einhverju fé fyrir til elliára, og því skuli að sjálfsögðu ekki ívilnað umfram aðra þjóðfélagsþegna. Sú skoðun hefur að vísu nokkuð til síns máls, að það sé ekki aldur fólks, sem máli skiptir í þessu sambandi, en ég verð að játa, að mér finnst hinir öldruðu borgarar í þjóðfélaginu eiga talsvert inni hjá okkur hinum. sérstaklega hjá þeim kynslóðum. sem hafa svo búið um hnútana, að sparifé þess hefur rýrnað. E.t.v. hefur það af ástæðum, sem við eigum kannske að einhverju leyti sök á, ekki getað búið eins vel í haginn fyrir sig um sín elliár og ella hefði verið. Þess vegna finnst mér, að aldraða fólkið eigi nokkuð inni hjá okkur, líka vegna þess að það er það, sem með sínu starfi hefur byggt upp þetta land, sem við nú búum í, og búið að flestu leyti í haginn fyrir okkur. Með þessi sjónarmið í huga flutti ég ásamt hv. 11. landsk. þm. nú fyrr í vetur till. til þál. hér í hv. Nd. um að sveitarstjórnir skyldu hafa heimild til að fella niður fasteignaskatt af íbúðum aldraðra, sem þeir hyggju sjálfir í og ættu. Tilgangurinn með þeim tillöguflutningi var einmitt að fá ákvæði þess efnis tekið inn í tekjustofnafrv., sem við vissum, að þá var á undirbúningsstigi, og ég vil þakka það, að gengið hefur verið til móts við þessa till., þó að hún að sumu leyti nái ekki eins langt og við lögðum til, en sé að öðru leyti víðtækari. Í frvgr., sem um þetta fjallar, er ekki sérstaklega tekið fram, að átt sé við þær íbúðir, sem aldraða fólkið býr sjálft í. Okkar till. miðaðist við það. Hins vegar er tekið fram, að þessi ívilnun megi koma til góða efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum. Við höfðum ekki sérstaklega tekið það fram. Við gengum út frá, að svo mundi vera, um lítil efni mundi vera að ræða í ákaflega mörgum og velflestum tilfellum með slíkt fólk, og jafnvel þótt um einhver sæmileg efni þessa fólks væri að ræða, sýndist okkur ekki ástæða til þess að innheimta fasteignaskatt af íbúðum þess, sem það hefði greitt af alla skatta og skyldur árum saman allan sinn starfsaldur. Þá fannst mér þjóðfélagið jafnvel gæti veitt þessu aldraða fólki það að sleppa þessum sköttum í ellinni.

Við munum væntanlega flytja brtt. þess efnis, að þessi heimild miðist aðeins við þær íhúðir, sem hinir öldruðu búa sjálfir i, enda hygg ég, að það muni hafa verið meiningin hjá þeim, sem sömdu þetta frv., að þetta sé aðeins ein af þessum flýtisvillum, sem e.t.v. hafa komið þarna inn í, og mér þykir líklegt, að þetta verði einnig framkvæmt þannig. En það er vel hægt að hugsa sér, að tekjulítill maður eigi e.t.v. fasteignir fleiri en eina, sem hann láti annan búa í gegn vægu gjaldi eða jafnvel engu. En okkar till. hafði sem sagt miðazt einungis við þær íbúðir, sem hið aldraða fólk byggi sjálft í.

Ég mun aðeins víkja að skattamálum hjóna, sem hér hafa verið nokkuð til umr. Sjálfstæðismenn hafa markað sina stefnu í sambandi við það og lagt fram og orðað í nál. í sambandi við tekjuskattsfrv., sem hér var til umr. fyrir nokkrum dögum og fjallar um það, að tekjur hjóna skuli lagðar saman og því, sem út kemur, síðan skipt til helminga og þeim, hvoru hjóna um sig ætlaður skattur af helmingi þeirra samanlögðu tekna. Þetta er okkar skilningur á því, hvernig eigi að meta hlutdeild þeirrar konu, sem vinnur algerlega inni á heimili sínu og á þannig hlut í öflun teknanna. Við ætlumst ekki til, að þeirri konu sé ætlaður einhver ákveðinn hluti tekna eða einhver ákveðin upphæð sem laun. Það er ekki okkar hugsun að líta þannig á konuna sem launþega á heimili sínu, heldur einmitt, að hún sé framfærandi heimilisins alveg á sama hátt og maðurinn, og á þennan hátt ætlumst við til, að meginreglur hjúskaparlaga séu teknar til greina í skattalögum. Okkur er ljóst, að slík till. mundi kalla á ýmsar aðrar breytingar í skattalögum, hvort heldur varðandi tekjuskatt eða útsvar, og þess vegna þykir okkur ekki fært að gera sérstaka till. um það í sambandi við þetta mál né heldur tekjuskattsfrv. En við munum leggja til við 3. umr. málsins, ef okkar frávísunartillaga verður felld, að að svo stöddu verði leyft að halda þeim frádrætti á tekjum giftrar konu, sem nú tíðkast, ef sveitarstjórn óskar þess og félmrn. samþykkir, að það verði gert. Það getur vel staðið víða svo á í ýmsum stöðum, að um mikla tímabundna atvinnu sé að ræða, fólksekla sé á staðnum, og þá þykir okkur eðlilegt, að sveitarstjórn geti gripið til þessa ráðs til þess að hvetja þann vinnukraft til starfa við það starf, sem fólk skortir til vinnu við, að veita allt að 50% frádrátt frá tekjum giftrar konu, áður en til útsvarsálagningar kemur. Okkar till. mun miðast við það, að þessi heimild fái að standa, þar til heildarendurskoðun hefur farið fram á skattamálum hjóna, en hv. þm. hafa nú heyrt, að slík endurskoðun muni standa fyrir dyrum, ríkisstj. muni hafa vilja til að stefna að henni. Og í sambandi við það mál langar mig til að benda á eitt atriði sérstaklega. Og það er, að við þá endurskoðun verði höfð náin samvinna við sérfræðinga í sifjarétti. Ég held, að það, sem hefur valdið hvað mestri deilu um þessi mál, hafi einmitt verið það, hve örðuglega hefur gengið að fá sjónarmið sifjaréttar viðurkennd í skattarétti. Og með allri virðingu fyrir sérfræðingum í skattarétti, þá sýnist mér nauðsynlegt, að sérfræðingar í sifjarétti séu þarna hafðir með í ráðum til þess að eðlileg niðurstaða fáist á þessum málum og þær meginhugmyndir, sem nútíminn viðurkennir um sifjarétt, séu viðurkenndar í þessum lögum.

Ég vil loks taka fram í sambandi við eina brtt., sem heilbr.- og félmn. flytur sameiginlega, að efnislega er ég henni ekki sammála. Formlega er hún leiðrétting, efnislega er ég henni ekki sammála. Fyrstu till. á því þskj., þar sem brtt. heilbr.- og félmn. eru prentaðar, eru þess eðlis, að við erum öll í n. efnislega sammála um þær. En seinasta till. fjallar um aðstöðugjald og ég vil taka það fram. að mér finnst það vera óeðlilegur tekjustofn, sérstaklega þegar ýmiss konar önnur gjöld, sem íþyngjandi eru fyrir atvinnuvegina, eru nýlögð á samtímis, fasteignaskattur stórhækkaður, þá finnst mér óeðlilegt að halda þessu gjaldi áfram, eins og þarna er lagt til. Öðruvísi hefði horft við, ef aðeins hefði verið um að ræða heimild, sem átti að gilda þetta ár, eins og upphaflega stóð í frv., en þá hefði einnig þurft að miða við það aðstöðugjald, sem hvert sveitarfélag hafði heimild til að leggja á í fyrra, en ekki þá upphæð, sem raunverulega var lögð á í fyrra, vegna þess að allur grundvöllurinn raskast svo mjög við samþykkt þessa frv., að ómögulegt er að sjá, hvaða heildarniðurstöðu, hver heildaráhrif það hefur á afkomu hvers sveitarfélags, ómögulegt er að sjá, hvort ekki yrði nauðsynlegt ýmsum sveitarfélögum að nota þær heimildir, sem þau framast hafa eftir þessum lögum, vegna þess hve tekjustofnar þeirra eru skertir.

Nú veit ég, að við þessu, sem ég er að segja núna, — eða mér þykir það raunar líklegt, of mikið er að segja, að ég viti það, — muni hæstv. ráðh. segja, að enn komi hér þessi rök sjálfstæðismanna um, að tekjustofnar ýmissa sveitarfélaga séu skertir, og líklegt þykir mér, að hæstv. ráðh. segi, að meira en helmingur allra sveitarfélaga á landinu fái auknar tekjur með samþykkt þessa frv. En það langar mig til að segja strax og fyrir fram, að þau eru æðimörg, sveitarfélögin í landinu, sem hafa samanlagt miklu færri íbúa heldur en þau sveitarfélög, sem bera skarðan hlut frá borði við afgreiðslu þessa máls. Þess vegna mun nú fleiri sveitarfélögum vera nauðsynlegt að nota ýmsar heimildir, sem frv. veitir, og jafnvel mætti benda á það, að mörg þessara sveitarfélaga eru þannig sett núna, að þar er mikil velmegun, mikil atvinna og mikill uppgangur. Ýmsum þessara sveitarfélaga er stjórnað af stjórnarandstæðingum. Það er væntanlega tilviljun og raunar hlýtur það að vera, miðað við allan flýti í undirbúningi þessa máls, að útkoman úr þessu verður sú, að fjölmenn sveitarfélög, sem stjórnarandstæðingar stjórna, munu neyðast til þess að nota ýmsar heimildir til hækkunar gjalda á gjaldþegnum sínum, þannig að ekki mundi til neinnar sérstakrar gleði horfa hjá gjaldþegnum þeirra sveitarfélaga. Það skaðar ekki, að á þetta sé bent nú strax, en væntanlega mun þessi útkoma vera tilviljun.