15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Lárus Jónsson:

Herra forsetl. Ég skal reyna að vera stuttorður og lengja þessar umr. ekki úr hófi fram. En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs er sú, að hv. 4. þm. Norðurl. e., frsm. meiri hl. n., svaraði ekki fsp. mínum um brúttótekjuhugtakið frekar en hæstv. félmrh. í gær við 1. umr. málsins. Ég vakti þá athygli á því, að þetta hugtak, brúttótekjuhugtakið, væri þokukennt og það mundi vefjast fyrir ýmsum að skilja það, og reyndi að rekja nokkur dæmi um þetta og spurði um skilning þessara manna á þessu hugtaki.

Ég skal taka eitt mjög skýrt dæmi um þetta, sem ég tek bara út úr fjölmörgum. Nú eru börn á framfæri foreldra innan við 16 ára aldur og hafa tekjur. Við skulum segja, að þetta séu 13 og 15 ára strákar, tveir, sem hefðu um 50 þús. kr. tekjur. Nú hefur þetta verið þannig áður, að þeir hafa fengið skólafrádrátt á móti, þannig að foreldrar þeirra hafa ekki verið skattlagðir af þessum tekjum þessara barna. En samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, skil ég það svo, að þessir foreldrar fái 5 þús. kr. útsvar vegna þessara barna. Ég vil fá úr þessu skorið. Er þetta skilningur hv. 4. þm. Norðurl. e., er þetta skilningur hæstv. félmrh., að svona verði farið að þessu? Mér sýnist vera nokkuð ótvírætt samkv. frv., að þetta verði gert svona. En ég vil spyrja um þeirra skilning á málinu.

Og úr því að ég er kominn hér, þá vil ég aðeins bæta nokkrum orðum við um margumtalaða greiðslubyrði skatta og samanburð á gamla og nýja kerfinu. Þá vil ég rifja það upp, að hæstv. viðskrh. henti á það, að Efnahagsstofnunin hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að samanburður á báðum tekjuöflunarkerfunum samkv. þeim yfirlitstöflum, sem hann hafði, hefðu í heild ekki neinar umtalsverðar breytingar í för með sér á milli skattkerfa. Mér er kunnugt um það, að þetta er skoðun hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar, en ekki það, sem kemur fram á nál. meiri hl. fjhn., sem birtist hér á þingbekkjum í dag, að þar væri um minni skattbyrði að ræða. En þetta er miðað við, að gamla kerfið sé framkvæmt með 6.5% skattvísitöluhækkun á sama tíma sem launatekjur í landinu hækka um 25%.

Gamla kerfið, við getum held ég allir orðið sammála um það, hefði því þýtt með þessari framkvæmd stórkostlega aukningu greiðslubyrðar skattþegna í landinu. Þetta er alveg ljóst, og hæstv. ráðh. tók dæmi um þetta, sem leiðir þetta alveg ótvírætt í ljós. Hann sagði: Efnahagsstofnun reiknaði út, hvað útsvör mundu hækka við 23% tekjuhækkun milli ára. Útsvör hækka ekki um 23%, heldur hækka þau um 34%, þannig að gamla kerfið með því lagi, sem samanburðurinn er byggður á, hefði þýtt stórkostlega aukningu greiðslubyrðar allra skattþegna í landinu og þess vegna hefur Efnahagsstofnunin eða hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar einfaldlega reiknað út, að nýja kerfið gerir það líka.