16.03.1972
Neðri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hin svo kölluðu skattafrv. ríkisstj. eru nú orðin svo margrædd, að mörgum mun finnast næsta nóg komið. Skal ég ekki löngu máli bæta við þessar umr. En vissulega hefur ýmislegt fróðlegt borið á góma. Ég held, að varla verði sagt, að stjórnarandstaðan hafi tafið mál þessi eða haldið uppi málþófi fram yfir hið allra nauðsynlegasta. Á hinn bóginn vakti það nokkra athygli við meðferð hins fyrra frv. um tekju- og eignarskatt hér í hv. d., hversu málglaðir stjórnarsinnar voru og þó einkum tveir hæstv. ráðh. Létu þeir gamminn geisa í löngum ræðum hvað eftir annað, unzt svo var komið, að tími gerðist naumur, svo að jafnvel stjórnarandstæðingar styttu mál sitt eða féllu frá orðinu til að greiða fyrir för frv. á þinginu.

Það mun hafa verið búið að þæfa það mál talsvert mikið á stjórnarheimilinu og reyna að sníða af því verstu agnúana, þó að ekki yrði árangur sem erfiði.

Varð því að vonum, að frv. væri orðið eins konar „smertens barn“, — eins og danskurinn segir, — á sínu eigin stjórnarheimili.

Þá er og svo komið, að þingsæti gerast svo hverful um þessar mundir, að daglega má sjá nýja menn í gömlum sætum. M.a. hafa horfið að tjaldabaki nú um sinn tveir menn, sem hvað mest ræddu skattamálin fyrir stuttu síðan, hv. 5. þm. Austf. og hæstv. viðskrh. d það var minnzt hér um daginn, að stjórnarandstaðan hefði haldið uppi allkynlegri fræðslustarfsemi um skattafrv. margnefndu síðan fyrir jól. Það er nú svo, að þessi málefni snerta allan þorra landsmanna. Margs hefur því verið spurt og margt skrifað og skrafað um, hvers vænta mætti í þessum efnum. Fæstir þm. eru sérfræðingar í skattamálum. Þeir verða því að spyrja og spá eins og hverjir aðrir um ýmsa þætti þeirra mála og áhrif einstakra breytinga. Það er vafalaust nokkuð rétt, sem hæstv. félmrh. sagði og hafði eftir þekktum Vestfirðingi: „Ekkert er eins auðvelt og að ljúga með tölum.“ Þetta kann að hafa hent einhvern við þessar umr. Það er t.d. býsna fróðlegt að sjá fyrirsögn á forsíðu Tímans 8. þ. m., þar sem stendur með stærsta letri: „Skattar lækka á þorra gjaldenda.“ Það er enginn viðvaningsbragur á slíkum skrifum.

Því hefur verið haldið fram, að skattkerfið væri allt of flókið, nauðsyn bæri til að gera það einfaldara. Vissulega er þetta rétt. Lítið miðar í rétta átt hvað þetta snertir nema síður sé við þær breytingar, sem nú eru fyrirhugaðar.

Rætt hefur verið um að endurskoða þurfi verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þetta verk er að mestu óunnið enn. Þó er nú ætlað að létta af sveitarfélögum framlagi til lífeyristrygginga, hálfu framlagi til sjúkratrygginga og öllum löggæzlukostnaði. Að því er löggæzluna varðar, mun þó óráðið enn, hvenær sú breytta skipan kemur til framkvæmda eða hvernig málum verður hagað í einstökum atriðum, t.d. hvað snertir lögreglustöðvar, fangageymslur, aðrar eignir og útbúnað löggæzlu í hinum einstöku sveitarfélögum. Og ekki er mér kunnugt um, að lögreglumenn eða samtök þeirra hafi verið innt einu einasta orði eftir skoðun þeirra á þessu atriði, sem hefði þó ekki verið úr vegi, en að því var vikið mjög rækilega hér áðan af hv. 5. þm. Reykv.

Aðstöðugjaldið er gjaldstofn, sem á að hverfa, sagði hv. 4. þm. Norðurl. e. hér í gær, og margir eru sama sinnis. Satt er það, að þessi gjaldstofn hvarf um stund úr 1. gr. tekjustofnafrv., en er nú aftur kominn á sinn stað. Það er hægara að leggja gjöldin á en losna við þau aftur. Sveitarfélögin eru hyrningarsteinar þjóðfélagsins. Allir eru sammála um, að sjá þurfi þeim fyrir nægum tekjustofnum, svo að þau geti sinnt sínum veigamiklu hlutverkum. En við setningu slíkrar löggjafar þarf vel að vanda undirbúning allan, svo sem bent hefur verið á. Sveitarfélögin þurfa að vera öflug og sjálfstæð, en ekki algerlega klafabundin einu allsherjar miðstjórnarafli, sem allt sogar til sín og ekkert fær staðizt. Hv. stjórnarsinnar hafa staðið þéttan vörð um frv. sín og hafa þau litlum breytingum tekið. Þó hafa óhjákvæmilegir gallar verið sniðnir af tekjustofnafrv. nú síðustu dagana, og ekki minna en heilum kafla hefur verið bætt inn í frv., V. kafla um aðstöðugjöld. Nokkrum brtt. hefur verið hreyft af hálfu stjórnarandstöðu við tekjustofnafrv., m.a. hér við 3. umr. Verða þær vafalítið leiddar undir högg og felldar við atkvgr. hér á eftir. Um þær skal ekki fjölyrt meira en orðið er. Það er að sjálfsögðu brýn nauðsyn, að allir séu jafnir fyrir skattalögum sem og öðrum lögum. Þar verður þó vissulega að hafa hliðsjón af ríkum hagsmunum þjóðfélagsins alls og einstakra byggðarlaga. Það er nauðsynlegt að fiska og vinna afla þann, sem dreginn er á land. Eins og nú horfir, hygg ég, að alveg sé óhjákvæmilegt að hafa í skattalöggjöf allvíðtækar reglur um skattfríðindi sjómanna. Þá virðist og mjög aðkallandi að hafa einhverjar slíkar heimildir tiltækar í lögum að því er varðar fólk það, sem starfar að fiskvinnslunni í landi. Það er oft gífurlegt vinnuálag á því fólki langt umfram óskir þess og jafnvel getu. En þetta er breytilegt eftir aflabrögðum frá ári til árs á hinum ýmsu stöðum. Það verður þó að viðurkenna, að erfitt er að koma slíkum reglum við, en ég bendi þó á eina, sem horfir í þessa átt. Það er 15. till. á þskj. 466, sem hér var rædd nokkuð áðan og skýrð.

Hag sveitarfélaganna ber að efla, án þess að réttur einstaklinga sé fyrir borð borinn. Ég vek enn athygli á 4. mgr. 23. gr. frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Þar er mjög víðtæk heimild til að áætla tekjur manna til útsvars, án þess að því er virðist að þeir fái hið minnsta tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér. Hin gamla regla, sem áður fyrr var viðhöfð, að jafna niður á gjaldendur eftir efnum og ástæðum, þótti ekki til frambúðar, þó að henni væri löngum beitt af mikilli réttsýni og samvizkusemi af þaulkunnugum mönnum.

Fjölmörg fleiri atriði mætti nefna, sem nánar og betur þyrfti um að fjalla. En þetta er aðeins fyrsti áfanginn. Skattalöggjöfin verður áfram í endurskoðun, segir hæstv. ríkisstj., og þá á stjórnarandstaðan að fá að vera með í ráðum. Það er vissulega full þörf á því að ráðfæra sig við hina færustu og hyggnustu menn, sem völ er á í þessum fræðum, sem svo mjög varða hag og heill þjóðfélagsþegnanna og allt efnalegt sjálfstæði þjóðarinnar.