20.10.1971
Neðri deild: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

8. mál, tekjur sveitarfélaga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er einfalt í sniðum og þarf lítilla skýringa víð. Eins og alkunnugt er, er ætlunin, að nýtt fasteignamat taki gildi með næstu áramótum, en margir tekjustofnar sveitarfélaga miðast við þetta fasteignamat og mundu margfaldast að krónutölu að óbreyttum lögum og reglugerðum og gjaldskrám. Þannig er um vatnsskatt, holræsagjald, gangstéttagjald, sorphreinsunargjald og lóðaleigu. Öll þessi gjöld mundu 15–20 faldast að upphæð, ef þetta frv. væri ekki flutt. Ég hygg því, að allir séu sammála um, að það sé sjálfsagt að samþykkja frv. sem þetta til þess að koma í veg fyrir slíka margföldun á þessum ákveðnu tekjustofnum sveitarfélaganna.

Ég hef ekki fleiri orð um frv., tel það fullskýrt fyrir þm. og legg til, að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.