06.03.1972
Neðri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

20. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. var eitt af fyrstu frv., sem voru lögð fyrir þetta þing, og hefur það því verið alllengi í landbn. Málið var sent til umsagnar eftirtöldum aðilum: Búnaðarsambandi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði og Dýralæknafélagi Íslands. Umsagnir þessara aðila voru allar jákvæðar, en Dýralæknafélagið gerði till. um eina breytingu, sem landbn. tók til greina.

En eftir að þessar umsagnir höfðu borizt og málið var komið á afgreiðslustig, bárust n. mjög eindregin tilmæli um að senda Búnaðarþingi þetta frv. til umsagnar, og n. bárust ýmis gögn um það, að e.t.v. væri álitamál, hvort binda ætti þennan innflutning við það kyn, sem er tiltekið í frv., þ.e.a.s. Galloway-kynið. Þar sem landbn. taldi mikilvægt, að um þetta mál næðist samstaða, var ákveðið að bíða með afgreiðslu málsins eftir Búnaðarþingi, og frv. var sent til þeirra. Búnaðarþing mælti svo samhljóða með því, að frv. yrði samþ. í því formi, sem það var upphaflega samið.

Eins og kemur fram á þskj. 380, mælir landbn. einróma með því, að frv. verði samþ., en gerir þó till. um þrjár breytingar. Hin fyrsta er, að í stað orðanna í 1. mgr. 11. gr., „að Bessastöðum á Álftanesi eða annars staðar, ef hentara þykir“, komi: er verði valinn staður, þar sem góð skilyrði eru til einangrunar og önnur aðstaða ákjósanleg að dómi yfirdýralæknis og stjórnar Búnaðarfélags Íslands.

Önnur tillagan er um sama efni, að í stað orðanna í 1. mgr. 13. gr., „á Bessastöðum á Álftanesi eða annars staðar, ef hentara þykir“, komi: er verði staðsett í samráði við yfirdýralækni og stjórn Búnaðarfélags Íslands.

Ástæður fyrir þessum breytingum eru þær, að landbn. leit svo á, að þessi staður væri alls ekki vel valinn til þess að hafa þar slíka stöð, og a.m.k. væri ekki rétt að hafa Bessastaði þarna í lögunum.

Þriðja brtt. er svo við 20. gr., að í stað síðasta málsl. fyrri mgr. og síðari mgr. komi: Gripi stöðvarinnar skal fella og fara með afurðir eins og ákvæði 17. gr. mæla fyrir um. Jafnframt skal ítarleg rannsókn fara fram á því, hvort gripirnir hafa verið haldnir nokkrum sjúkdómum. En þessi gr. er í frv. þannig: „Gripi stöðvarinnar má því aðeins flytja burt þaðan lifandi, að eigi hafi verið notað innflutt sæði s.l. tvö ár í stöðinni og að tryggt sé talið að dómi yfirdýralæknis, að slíkum flutningi fylgi ekki smithætta.“ Í 19. gr. segir þó: „Aldrei má flytja búfé úr sóttvarnarstöð ríkisins“, og í grg. er einmitt sagt hér, með leyfi forseta: „Lagt er til, að eingöngu verði leyft að flytja inn djúpfryst sæði og eingöngu til notkunar í gripi, sem geymdir verði ævilangt á sóttvarnastöð ríkisins.“ Okkur þótti því rétt að breyta 20. gr. í samræmi við það, sem stóð í grg. og í upphafi 19. gr., eins og ég hef lesið, enda er þetta einmitt það atriði, sem Dýralæknafélag Íslands benti á, að nauðsynlegt væri að breyta í frv.

Það eru nú liðin um 40 ár, síðan gerð var tilraun með að flytja inn nautgripi af holdanautakyni hingað til landsins. Þessi innflutningur átti sér stað 1933, en þá var flutt frá Skotlandi ein kýr og naut af Galloway-kyni og sitt nautið af hverju kyni, Skorthorn, Aberdeen-Angus og Highland. Gripirnir voru hafðir í sóttkví í Þerney. Hringskyrfi kom upp í nautgripunum, sem tókst ekki að lækna. Var þeim öllum lógað í ársbyrjun 1934, en Galloway-kýrin kom hingað með fangi og var nýborin, þegar þessum gripum var slátrað, og átti nautkálf. Hann var hafður í Þerney fyrsta mánuóinn, en Magnús Þorláksson á Blikastöðum tók kálfinn í sína vörzlu með samþykki atvmrh. og stjórnar Búnaðarfélags Íslands og hafði hann í sóttkví, svo lengi sem læknar töldu þörf á. Um þetta má sjá í Búnaðarritinu frá 1935 á bls. 16. Naut þetta, sem hlaut nafnið Brjánn, var selt Búnaðarsambandi Suðurlands og flutt á bú þess að Gunnarsholti. Síðan var það flutt að Sámsstöðum og kvígur undan því bornar saman við íslenzkar. Loks var nautið flutt að Hvanneyri og var þar í nokkur ár. Þar voru skyldleikaræktaðir gripir undan því. Eru allir holdanautablendingar í landinu komnir út af þessu eina nauti. Engin áætlun um skipulega notkun nautsins virðist hafa verið gerð, og gegnir það furðu, þar sem innflutningurinn fór fram á vegum ríkisins. Frá Hvanneyri dreifðust gripirnir síðan, og hætt var að blanda þeim saman við mjólkurkúastofninn. Voru blendingar til á nokkrum stöðum við sunnanverðan Faxaflóa og að Geldingalæk. Þegar Runólfur heitinn Sveinsson tók við starfí sandgræðslustjóra, safnaði hann saman þeim gripum, sem falir voru, m.a. frá Hvanneyri, og flutti á bú sandgræðslunnar í Gunnarsholti. Síðan bættust þar við gripir frá Geldingalæk. Síðan hefur Gunnarsholt verið miðstöð þessarar búgreinar og hlotið styrk frá Alþ. til þess, en það holdanautabú hefur aldrei verið undir umsjá Búnaðarfélags Íslands.

Innflutningur holdanautgripa hefur lengi verið áhugamál margra bænda, og hefur málið oft verið á dagskrá á Búnaðarþingi síðustu tvo áratugina. Það er þó ekki fyrr en 1955, að stærstu búnaðarsamböndin gerast málsvarar þess, að Búnaðarþing mæli með því, að sóttvarnastöð verði komið upp, og ekki er það fyrr en 1960, að meiri hluti Búnaðarþings mælir með slíkum innflutningi. Þessi tregða stafaði af ótta við sýkingarhættu, og talið var tilgangslaust að hreyfa málinu á Alþ., fyrr en Búnaðarþing mælti með innflutningi. Búnaðarþing 1960 kaus þriggja manna nefnd til þess að kynna sér holdanautamálið í heild, bæði innanlands, tilraunir í Laugardælum og búið í Gunnarsholti, og reynslu Norðmanna af innflutningi. Stóð rn. einnig að þessari nefndarkosningu. Nefndin ferðaðist til Bretlands og Noregs og skilaði sameiginlegu áliti árið eftir, enda þótt hún kæmi sér ekki saman um grg. Í ályktun til Búnaðarþings mælir nefndin með innflutningi djúpfrysts sæðis til hreinræktunar Galloway-kynstofnsins í landinu og í öðru lagi, að athugaðir verði möguleikar á að koma hér upp fleiri hreinræktuðum holdanautastofnum með innflutningi nýfæddra kálfa, svo sem af Aberdeen-Angus-kyni, og féllst Búnaðarþing á þá ályktun.

Nefnd var skipuð af rn. til endurskoðunar laga um innflutning búfjár. Hún skilaði frv., þar sem kveðið var á um almenna sóttvarnastöð. Rn. lét endurskoða frv. með tilliti til þess, að hægt væri að framkvæma innflutning holdanauta á ódýrari hátt, án þess að slakað væri á sóttvarnaráðstöfunum. Þetta varð til þess, að settur var sérstakur kafli um þennan innflutning. Var hann miðaður við, að sóttvarnastöðin væri á Bessastöðum, þar sem opinber búrekstur átti sér stað og nokkrar byggingar voru fyrir hendi. Þá var og aðeins gert ráð fyrir einu kyni, þar sem kostnaður yrði minni. Frv. var samþ. á Alþ. 1962. Fljótlega eftir þetta fór Búnaðarþing fram á það við landbrh., að hafizt yrði handa um innflutning, og þá tók rn. því vei. en úr engu varð, þar sem yfirdýralæknir synjaði um innflutninginn.

Eftir holdanautatilraunina í Laugardælum 1958 og 1960, sem ég ætla aðeins að minnast á síðar, jókst áhugi einstakra bænda á framleiðslu á holdanautablendingum til kjötframleiðslu, t.d. á Austurlandi og á nokkrum búum á Suðurlandi. Voru settar reglur um notkun þessara nauta samkv. ákvæðum búfjárræktarlaga. Má í þessu sambandi nefna Egilsstaðabúið á Völlum og Miklaholtshellisbúið í Flóa. Þá voru einnig fengin naut frá Gunnarsholti á sæðingarstöðvarnar í Laugardælum, Lundi og Hvanneyri. Hefur notkun þeirra aukizt á síðustu árum, enda hafa nú tvö síðustu árin verið settir á mun fleiri kálfar til kjötframleiðslu en áður var. Með tilkomu djúpfrystistöðvarinnar á Hvanneyri 1969 var kleift að hefja nautgripasæðingar í ýmsum héruðum. sem áður höfðu ekki haft bolmagn til þess að koma upp sæðingarstöðvum, og hafa þær breiðzt út hraðar en hægt var að búast við. Ýtir þetta undir nautakjötsframleiðslu í landinu.

Þegar ekkert varð úr innflutningi þrátt fyrir lagabreytinguna 1962, þótti ýmsum nauðsynlegt að hefja skipulega ræktun á úrvali úr Galloway-nautblendingum frá Gunnarsholti, og var ákvæðum þar að lútandi komið í búfjárræktarlög 1965. Eru þau á þann veg, að landbrh. er skylt, meðan lög um innflutning koma ekki til framkvæmda, að koma upp sérstöku búi til ræktunar á þeim Galloway-blendingum, sem til eru í landinu. Sé ræktunin í umsjá og undir eftirliti Búnaðarfélags Íslands. Varð að samkomulagi milli landbrn. og forsrn. á árinu 1965, að ræktun þessi færi fram á Bessastaðabúi, og voru 20 gripir valdir í Gunnarsholti og fluttir að Bessastöðum í janúar 1966.

Nokkru síðar tók forsrn. alhliða ákvörðun þess efnis, að á Bessastöðum yrði venjulegur holdanautabúskapur, án þess að þar færi fram sérstök ræktun. Holdanautastofninn var hins vegar talinn verðmætur með tilliti til ræktunarinnar, og óskaði Búnaðarfélag Íslands eftir því, að landbrn. útvegaði annan stað fyrir þessa gripi og ræktun á þeim.

Í ársbyrjun 1968 var ákveðið að leggja niður allan búskap á Bessastöðum frá 1. maí það ár. Útvegaði landbrn. samastað fyrir holdanautabú á Hvanneyri, og voru gripirnir fluttir þangað sumarið 1968. Hefur verið gerður samningur milli Búnaðarfélags Íslands og skólabílsins um tilhögun búsins, þar sem gert er ráð fyrir, að 30 holdakýr séu þar jafnaðarlega auk geldneyta. Þessi ræktun miðar í áttina, en ekki hefur verið hægt að dreifa nautum þaðan, þar sem haustið 1970 kom upp garnaveiki í kind á Hvanneyri, og hafa sauðfjárveikivarnir ekki viljað leyfa flutning á gripum þaðan. Er búið því óvirkt að því leyti, eins og er. Jafnframt ræktun stofnsins hafa verið gerðar athuganir á því, á hvaða aldri geldneyti henti bezt hótelmarkaði og hvernig þau taka fóðri, t.d. mismunandi miklu kjarnfóðri, til kjötframleiðslu. Nú eru alls 48 gripir á ýmsum aldri af þessum stofni á Hvanneyri.

Árin 1958–1960 var gerð merkileg tilraun í Laugardælum. Það voru teknir 32 kálfar, 16 Galloway-blendingar, þ.e. þeir voru af Galloway-kyni aðeins að 1/4, þar sem nautið var að hálfu leyti talið af Galloway-kyni, og 16 alíslenzkir kálfar voru teknir í þessa tilraun. Þetta voru 8 blendingsnautkálfar og 8 nautkálfar af íslenzkum stofni og svo 8 kvígur af íslenzkum blendingum. Þessir kálfar voru aldir alveg eins, fengu alveg sömu meðferð. En það, sem er eftirtektarvert í þessum tilraunum, er það, að blendingarnir þyngjast um 90 g meira á dag að meðaltali. Þeim var slátrað rétt tæplega tveggja ára, og þá var fallþungi að meðaltali af blendingunum 197 kg, en af íslenzku nautgripunum 152 kg eða munurinn var 45 kg. Bolakálfarnir voru allir geltir fjögurra mánaða, og voru Galloway-uxarnir að meðaltali 203 kg, en kvígurnar 190 kg, en íslenzku uxarnir 158 kg og kvígurnar 146 kg. Þetta er í raun og veru merkileg tilraun og gefur til kynna, að íslenzkir bændur mundu hafa töluverðan ávinning af því, ef þeir fengju svona stofn inn í landið, sem væri hægt að sæða íslenzku mjólkurkýrnar með.

Ég vildi aðeins rifja upp, hvernig þetta hefur gengið til á undanförnum árum, til þess að hv. þm. áttuðu sig betur á því, hvernig þetta hefur horft við íslenzku bændastéttinni og hvers vegna þeir keppa nú að því að fá þennan stofn inn í landið.