16.03.1972
Efri deild: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

20. mál, innflutningur búfjár

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 20, var flutt í Nd. og hefur hlotið afgreiðslu þar með lítils háttar breyt., sem allir voru sammála um. Efni þessa frv. er að leyfa innflutning á sæði nautgripa til þess að koma hér á hreinræktun holdanautakyns, en það hefur mjög skort á, að það væri framkvæmanlegt hér á landi, því að sá stofn, sem fluttur var inn fyrir all löngu, er nú orðinn svo blandaður, að ekki er talið, að hægt sé að halda svo áfram án þess að ná í frumstofninn á nýjan leik.

Þetta mál var um tíma mikið deilumál, en hefur nú breytzt þannig, að yfirleitt hefur það fengið mikið fylgi og þar á meðal samtaka bænda, bæði á Búnaðarþingi og annars staðar, sem það hefur komið upp. Í sambandi við þetta er gert ráð fyrir, að hér verði eingöngu flutt inn sæði frá holdanautum. Sett verði upp hér stöð til þess að einangra stofninn, meðan verið er að fá um það fullkomið öryggi, að ekki geti komið hér upp sjúkdómur í sambandi við þennan innflutning. Það er mál manna, að sá stofn, sem ætlað er að flytja inn, sé þekktur sem gæðavara á kjötmarkaðinum, og það er talið hagkvæmara í alla staði að hafa aðeins eina stofntegund í sambandi við þennan innflutning.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að segja fleira um þetta að þessu sinni, en legg til. að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.