15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

8. mál, tekjur sveitarfélaga

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur athugað frv. það, sem hér er til umr. á þskj. 8, um tekjur sveitarfélaga samkv. gjaldskrám og reglugerðum. N. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt þess. Frv. er flutt vegna væntanlegrar gildistöku hins nýja fasteignamats 1. jan. n.k., en ýmsar tekjur sveitarfélaga miðast við fasteignamat, svo sem vatnsskattur, holræsagjald, gangstéttagjöld, sorphreinsunargjöld, lóðaleiga o.fl. Þar sem hið nýja fasteignamat er svo miklu hærra en það, sem nú gildir, er sveitarfélögum nauðsynlegt að setja nýjar gjaldskrár fyrir þá þjónustu og annað það, sem ég nefndi hér að framan og miðað er við fasteignamat. Í grg. frv. segir, að mjög ólíklegt sé, að allar sveitarstjórnir gæti þess að samræma þessi gjöld hinu nýja fasteignamati í tæka tíð, og er það sjálfsagt rétt, þótt engum detti í hug, að sami hundraðshluti af fasteignamati verði innheimtur fyrir þjónustu, eftir að hið nýja mat tekur gildi. Þau sveitarfélög, sem ekki gæta þess að fá staðfestar nýjar gjaldskrár, verða því að sætta sig við óbreyttar tekjur í krónutölu, þar til úr hefur verið bætt, verði þetta frv. að lögum.

Ég hef orðið var við þann misskilning, að með frv. þessu sé verið að meina sveitarfélögum að breyta gjaldskrám sínum. Þennan misskilning vil ég leiðrétta með vísun til þess, sem ég hef þegar sagt.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur fengið þetta frv. til umsagnar og mælir með samþykkt þess.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 3. umr. að þessari umr. lokinni.