20.03.1972
Neðri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

74. mál, bann við losun hættulegra efna í sjó

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Hér liggur fyrir til 2. umr. frv. til l. um bann við losun hættulegra efna í sjó, 74. mál d. á þskj. 82. Sjútvn. d. fékk málið til meðferðar. Hefur hún rætt það á fundum sínum og sent það til umsagnar eftirtöldum aðilum: Siglingamálastjóra, Hafrannsóknastofnuninni og Raunvísindastofnun Háskólans. Mun ég geta um nokkur atriði úr þessum umsögnum í sömu röð og ég nefndi hér áðan.

Siglingamálastjóri segir í sambandi við 2. gr. frv., að mengunarmálin heyri nú undir þrjú rn., og telur í því sambandi æskilegt, að öðru skipulagi verði komið á í þessum málum hið fyrsta til að hindra tvíverknað og sjá um, að mengunarmálunum verði gerð sem bezt skil. Að lokum segir siglingamálastjóri:

„Ég er því þannig að sjálfsögðu hlynntur, að lög verði sett um heimild ríkisstj. til að staðfesta umræddan alþjóðasamning, sem er liður í víðtækari aðgerðum til varnar gegn mengun umhverfis mannsins, og verði almenna heimildin veitt ríkisstj., eins og segir í 5. gr. frv., þá mundi það flýta afgreiðslu síðari alþjóðasamþykkta, þegar ekki þarf lengur að leita til Alþ. til heimildar til að staðfesta alþjóðasamþykktir um varnir gegn mengun alþjóðlegra hafsvæða. Einnig vil ég leggja á það áherzlu, að mjög aðkallandi er orðið, að skipulagningu og yfirstjórn mengunarmála hér á landi verði komið í fastari skorður en nú er, þar eð flest öll rn. virðast hafa eitthvert það verksvið, er snertir varnir gegn mengun umhverfisins, en málefnin oft mjög hvert öðru tengd.“

Þetta segir siglingamálastjóri. Ég vil leyfa mér að lesa einnig umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eins og yður er kunnugt, hefur Hafrannsóknastofnunin þegar hafið mengunarrannsóknir hér við land, og má því telja eðlilegt, að í 2. gr. bætist við ákvæði um, að reglugerðin um hin bönnuðu efni sé sett í samráði við Hafrannsóknastofnunina. Yrði þá haft samráð við stofnunina, hvað snertir þessa mengunarvalda, á sama hátt og haft er samráð við Siglingamálastofnunina, hvað varðar olíumengun. Það væri einnig í samræmi við upphaf aths. með frv., þar sem frv. er ætlað að vera þáttur í aðgerðum gegn þeirri miklu ógnun, sem mengun er öllu sjávarlífi.“

Okkur nm. fannst svo sjálfsagt mál. að samráð yrði haft við Hafrannsóknastofnunina við samningu reglugerðar samkv. 2. gr., að óþarft væri að binda það í lögum, en hins vegar nægjanlegt að leggja á það áherslu í framsögu með málinu, þar sem Hafrannsóknastofnun hefur þegar með höndum mengunarrannsóknir í sjó hér við land og er þar með sjálfkjörinn samráðsaðili að þessum málum.

Þá vil ég einnig leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa umsögn Raunvísindastofnunarinnar: „Líffræðiskoðarar eru sammála um, að þetta frv. sé æskilegt, svo langt sem það nær. Tvennt má benda á, sem getur orsakað mengun hafsins, en ekki verið getið um í frv. þessu: Hættuleg efni frá verksmiðjum, sem leidd eru út í sjó án þess að skip sé milliliður. Sama má segja um skolplagnir frá borgum og kaupstöðum. Ákvæði þyrftu að vera í lögum um, hvaða efni má fara í skolpleiðslur, sem leiða til sjávar eða vatns. Þetta væri e.t.v. efni í önnur lög.

Yfirgefin veiðarfæri fiskiskipa geta orðið alvarleg mengun í hafinu. E.t.v. verða líka samin önnur lög um það efni, þar sem fiskiskipum er gert að skyldu að slæða slík veiðarfæri upp, og verði með því strangt eftirlit.

Í 2. mgr. 1. gr. frv. segir:

„Bann þetta nær yfir: 1. Torleysanleg lífræn efni eða lífræn efnasambönd, sem leysast hægt í sundur, hvort sem er í lifandi verum eða við efnabreytingar. 2. Úrgang, sem hefur að geyma ofangreind efni eða efnasambönd (lífræn eða ólífræn) þungra málma eða eitraðra málma.“

Bann þetta nær aðeins til torleysanlegra lífrænna efna og eitraðra málmsambanda. Ástæða er til að hafa bannið mun víðtækara, og mætti orða 2. mgr. 1. gr. þannig:

Bann þetta nær yfir: 1. Öll eiturefni, lífræn og ólífræn, auðleysanleg og torleysanleg sambönd málma og málmleysingja. 2. Geislavirk efni. 3. Sprengiefni.“

Það sést á þessu, sem ég las nú síðast, að n. hefur orðið sammála um að gera brtt. við 1. gr., þannig að upptalningin er gerð víðtækari en gert er ráð fyrir í frv. sjálfu. Við urðum sammála um, að rétt væri að fara að ráðum sérfræðinga varðandi þetta atriði, en mér þykir rétt, að menn láti í ljós álit sitt á þessu viðhorfl. Það er deginum ljósara, að mengun af völdum hvers kyns úrgangsefna er alvarlegasta vandamálið, sem mannkynið á nú við að etja. Það er álit heimsfrægra haffræðinga og líffræðinga, að með þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í þessum efnum á undanförnum árum, verði allt líf dautt í sjónum eftir tiltölulega stuttan tíma, sumir nefna 50 ár, aðrir ekki nema 25, ef ekki verður snúið við blaðinu í þessum efnum. Allar þjóðir verði að leggjast á eitt að koma í veg fyrir frekari mengun en orðin er. Um þetta sjálfsagða mál mætti halda mikinn fyrirlestur. En ég vil aðeins nefna, að við Íslendingar getum a.m.k. lagt okkar lóð á vogarskálina, þótt ekki sé stórt í samanburði við þau, sem hinar stóru, iðnvæddu þjóðir gætu lagt þar á, þær þjóðir, sem valda og hafa valdið mestri mengun. Þar þyrfti að koma til stórkostleg hugarfarsbreyting til hins betra, ef ekki á illa að fara. Þetta frv. er spor í rétta átt af okkar hálfu, og mælir sjútvn. með samþykkt þess.