20.03.1972
Neðri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

137. mál, skipan dómsvalds í héraði

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál., hefur dómsmrh. lýst yfir því, að hann hafi hug á því að láta fara fram allsherjarendurskoðun á skipan dómsmála í landinu. Hver þróun þessara mála verður, er ekki hægt að sjá fyrir nú, en skynsamlegt er að gera ekki neitt, er hamlað gæti gegn eðlilegri breytingu á dómstólaskipan landsins. Í trausti þess, að lagabreyting sú, er hér liggur fyrir, sé ekki því til fyrirstöðu, að slík breyting geti orðið með eðlilegum hætti, er n. í meginatriðum sammála um lagafrv. þetta með þeim breytingum, sem fram koma í áliti n. og eru hér á sérstöku þskj.

Sú breyting, sem gerð er á frv., felur í sér heimild til þess að fjölga dómurum í sakadómi Reykjavíkur, borgardómi Reykjavíkur og við bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði um tvo dómara. Heimild fyrir fjölda dómara við embætti bæjarfógetans á Akureyri, bæjarfógetans í Kópavogi, bæjarfógetans í Keflavík og bæjarfógetans í Vestmannaeyjum er hækkuð um einn dómara á hverjum stað. Tvær meginástæður lágu að baki breytingum þessum. Í fyrsta lagi virtist n. í sumum tilfellum, að dómarar væru of fáir miðað við núverandi dómsmálafjölda, ef stefna ætti að því, að dómarar einir kvæðu upp dóma og fjölluðu að öðru leyti eingöngu um hin vandasamari dómsmál. Í öðru lagi var talið, að rétt væri að miða eigi eingöngu við núverandi ástand. Skynsamlegt var talið að gera þær breytingar, er duga mættu nokkur ár. En eins og frv. er nú, er fjöldi dómara að mestu leyti undir ákvörðun dómsmrh. kominn, og þær breytingar, sem n. gerir nú till. um, að gerðar verði á frv., eru allar í heimildarformi.

Meðal þeirra aðila, er n. fékk álit frá, var Félag dómarafulltrúa, Dómarafélag Íslands og Dómarafélag Reykjavíkur, sem er deild innan Dómarafélags Íslands. Stjórn dómarafulltrúafélagsins lýsti þeirri skoðun sinni, að breyta bæri núv. löggjöf um dómstóla landsins á þann veg að leggja núv. dómarafulltrúakerfi niður. Stefna bæri að því, að dómarar dæmdu mál. en fulltrúum dómara væri aðeins heimilað að fara með vissa minni háttar þætti dómsmála. Í því frv., sem hér liggur fyrir, eru ekki ákvæði um takmörkun á þeim verkefnum, sem fulltrúa dómara er heimilað að vinna að. N. taldi ekki ástæðu til þess að ganga svo langt sem dómarafulltrúar vildu, en taldi hins vegar, að breyting sú, sem n. gerði á frv. gengi þó í sömu átt. Það yrði því á valdi forstöðumanns hvers dómaraembættis að haga svo verkaskiptingu, að öll hin meiri háttar og vandasamari dómsmál kæmu í hlut dómara að dæma.

Innan Dómarafélags Íslands eru skiptar skoðanir varðandi frv. þetta. Það eru einkum dómarar í Reykjavík, sem hafa lýst nokkurri andstöðu við frv. Meginástæðan fyrir andstöðu þessari er sú, að dómarar þessir telja, að réttara hefði verið að stefna að því að aðskilja sem mest dómsvaldið og framkvæmdavaldið. Í því sambandi er eingöngu átt við embætti utan Reykjavíkur. Slík skipting milli framkvæmdavalds og dómsvalds, sem hér er talað um, hefur átt sér stað í Reykjavík. Undir dómaraembætti utan Reykjavíkur, bæjarfógeta- og sýslumannsembættin, heyra fjölmargir þættir stjórnsýslulegs eðlis, svo sem skattheimta, umboðsstörf fyrir Tryggingastofnun ríkisins, sýslustjórn o.fl. Þróun þessara mála hefur orðið allt önnur í Reykjavík en utan. Fram til ársins 1917 var skipan þessara mála með svipuðum hætti í Reykjavík sem annars staðar í landinu. Með lögum, sem sett voru það ár, var bæjarfógetaembættinu skipt í tvö embætti, bæjarfógetaembætti og lögreglustjóraembætti. Árið 1928 var síðan gerð breyting á þessum embættum og stofnuð þrjú í stað tveggja áður. Aftur var gerð breyting á þessum embættum 1939 og síðan 1943, er upp var tekin sú skipun, sem í höfuðatriðum gildir nú, þ.e. þrjú dómaraembætti: borgardómaraembætti, sakadómaraembætti og borgarfógetaembætti auk tveggja annarra embætta: lögreglustjóraembættisins og tollstjóraembættisins. Árið 1961 var gerð sú breyting á lögunum frá 1943, að dómurum var fjölgað, en áður starfaði aðeins einn dómari við hvert dómaraembætti auk fulltrúa.

Heyrzt hafa raddir um, að nauðsyn beri til að endurskoða sveitarstjórnarskipan landsins. slíkar breytingar geta snert sýsluskipunina einnig. Einnig væri vafalaust tímabært að endurskoða innheimtudæmi landsins, en slíkar breytingar, ef gerðar verða, mega ekki verða til þess að heildarkostnaður hækki óhæfilega. Lögum um almannatryggingar hefur verið breytt og ýmsu í sambandi við sjúkrasamlögin, og er því líklegt, að varðandi umboðsmenn Tryggingastofnunarinnar utan Reykjavíkur geti orðið einhver breyting á. Það er því augljóst, að heildarendurskoðun í núv. sýslumanns- og bæjarfógetaembættum verður að framkvæma með tilliti til allra þeirra þátta, sem undir þessi embætti heyra, og er sennilegt, að þessi mál verði lengi að þróast og það verði langt þangað til, að tímahært verði talið að skipta dóms- og framkvæmdavaldi í öllum umdæmum landsins, þó að slík skipan eigi nú þegar fullan rétt á sér á öðrum stöðum. Hér kemur svo margt til greina og þá fyrst og fremst íbúafjöldi og stærð og lega umdæmanna. því tel ég, að rétt og skynsamlegt sé að breyta ákvæðum dómsmála utan Reykjavíkur, svo sem frv. gerir ráð fyrir, og bíða eigi eftir heildarendurskoðun, sem væntanlega fer fram á dómssýslu- og stjórnsýslukerfi landsins á næstu árum.

Þær brtt., sem n. varð sammála um að flytja, eru þannig: Við 2. gr. Í stað orðanna „8–10“ í 2. mgr. komi:

8–12. Við 4. gr. Í stað orðanna „5-7“ í 2. mgr. komi: 5–9. Við 7. gr. a. Í stað orðanna „1–3“ í 2. mgr. komi: 1–5. b. Í stað orðanna „1 eða 2“ í 3. mgr. komi: 1–3. c. Í stað orðanna „einn dómari“ í 4. mgr. komi: einn eða tveir dómarar.

N. stendur einhuga að flutningi þessara brtt.