20.03.1972
Neðri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

137. mál, skipan dómsvalds í héraði

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég sit í allshn. og er því einn þeirra nm., sem skrifa undir það álit n., sem nú hefur verið gerð grein fyrir. Hef ég engar aths. fram að færa við það, sem hv. frsm. gerði grein fyrir með áliti n., en vildi aðeins þó bæta hér við nokkrum orðum til að undirstrika ástæður eða forsendur þess, að ég tjáði mig fúsan til þess að fylgja þessu nál.

Eins og fram kom hjá frsm., var frv. vísað til nokkurra aðila, þ. á m. Dómarafélags Reykjavíkur og félags héraðsdómara, sem er Félag dómarafulltrúa, og kom fram í álitum beggja þessara aðila, að þeir voru mjög óánægðir með frv. og töldu það hvergi fullnægjandi. Mismunandi ástæður lágu hins vegar fyrir þeirri óánægju, sem fram kom hjá þessum aðilum, og frsm. gerði að nokkru leyti grein fyrir því. Vegna mjög ákveðinna ummæla frá Dómarafélagi Reykjavíkur um þetta frv. og sterkra skoðana, að því er virðist, í hópi dómara, sem eru í andstöðu við þetta frv., þá tel ég rétt að lesa upp hluta úr áliti Dómarafélags Reykjavíkur, sem dags. er 14. marz s.l. og undirritað af stjórn Dómarafélags Reykjavíkur og barst n., þegar um það var beðið. En í þessari álitsgerð segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Dómstólakerfi það, er við nú búum við, einkennist af því, að með dómsvald í héraði a.m.k. utan Reykjavíkur fara embættismenn, sem að aðalstarfi hafa með höndum stjórnsýslu. Héraðsdómararnir sjálfir, sýslumenn og bæjarfógetar, fara að litlu leyti sjálfir með þetta dómsvald, heldur fulltrúar, sem taldir eru starfa á þeirra ábyrgð. Þetta fyrirkomulag er í algeru ósamræmi við hugmyndir manna um réttarríki nú á tímum og við þær kenningar um þrískiptingu ríkisvalds, sem stjórnskipun okkar byggist á. Lítum við svo á, að stefna beri að því, að kerfi þessu verði breytt og dómsvaldið verði í höndum manna, sem hafa einungis dómsstörf á hendi. Hitt er svo annað mál. hvenær talið verður unnt að koma slíkri breytingu í framkvæmd, en allar breytingar, sem gerðar verða á dómaskipan og réttarfari, teljum við, að gera verði með ofangreint framtíðarskipulag fyrir augum og varast að gera nokkrar þær breytingar, sem séu í ósamræmi við það og geti beinlínis orðið til að seinka fyrir því. Dómsvald og framkvæmdavald hafa að miklu leyti verið greind í sundur í Reykjavík frá árinu 1940, og voru þá komnir á fót tveir héraðsdómstólar þar, sakadómaraembætti og lögmannsembætti. En hinu síðarnefnda var nokkru síðar skipt. Þegar svo var komið, var ekkert að vanbúnaði að gera dómstóla þessa að fjölskipuðum dómum, þar sem væru sjálfstæðir dómarar og dómstjórar, er veittu stofnunum forstöðu. Komst þessi breyting á á árunum 1961–1962.

Við þær hugmyndir, sem fram hafa komið um breytingar á núverandi dómaskipan, teljum við þetta að athuga:

a. Gert er ráð fyrir verulegri fjölgun dómara í Reykjavík. Hér í borg eru þegar 19 héraðsdómarar, og er það mjög há tala miðað við það, sem nokkurs staðar þekkist í öðrum löndum. Vaknar þá sú spurning, hvort Íslendingar séu svo miklum mun meiri málaþrætumenn eða afbrotamenn en menn af öðrum þjóðum eða hvort eitthvað sé bogið við réttarfarsreglur okkar. Við erum ekki andvígir því, að dómurum verði fjölgað í Reykjavík, en áður en það yrði gert, þarf að kanna, hvort álag mála sé raunar svo komið, að þörf sé á því og hvort ekki megi auka afköst núverandi dómara með öðrum hætti, svo sem með því að bæta undirbúning mála, og er þá einkum átt við opinber mál, eða þá með umbótum í starfsaðstöðu. Við fáum ekki séð, að bæta þurfi við dómurum til þess að annast stjórnsýslustörf.

b. Utan Reykjavíkur er í sumum umdæmum mikið um dómsmál, og sumir dómarafulltrúar munu starfa , þar einvörðungu sem dómarar. Réttarstaða manna þessara, status, er vissulega óviðunandi. Þeir hafa dómsstörf að aðalstarfi, meira að segja meiri háttar dómsstörf, og er skiljanlegt, að þeir vilji fá viðurkenningu á þessum störfum sínum. Sú hugmynd virðist hafa komið fram, að skipaðir yrðu allmargir dómarar utan Reykjavíkur, sem kvæðu upp dóma sjálfstætt og á eigin ábyrgð, en yrðu að öðru leyti starfsmenn eða aðstoðarmenn núverandi héraðsdómara. Er vægast sagt undrunarefni, að slíkar hugmyndir um skipan dómsvaldsins skuli ræddar í fullri alvöru. Eru þess áreiðanlega hvergi nein dæmi í veröldinni, að dómsvaldi sé svo skipað, að lögreglustjórar hafi á hverjum stað í þjónustu sinni dómara, sem teljast eiga sjálfstæðir í dómsstörfum, en séu jafnframt aðstoðarmenn lögreglustjórans í stjórnsýslustörfum: E.t.v. kann því að verða borið við sem andmælum gegn þessu, að núverandi skipan sé framkvæmd einmitt þannig, og er það rétt, en annað er það að búa við úrelta skipan, er byggist á eldri reglum, en að festa hana í sessi með nýrri löggjöf.“

Eins og heyra má, þá er þarna um stór orð að ræða, og kemur reyndar fram sama álit málað svo sterkum litum í fleiri umsögnum frá dómurum, sem n. barst, og fer ekki á milli mála, að þarna virðist þessum aðilum vera mikið niðri fyrir og þeir telja, að þetta frv. gangi í þveröfuga átt og festi sem sagt í sessi þá löggjöf og það fyrirkomulag, sem brýtur í bága við þá þrískiptingu, sem stjórnskipun okkar byggist á. Vegna þessara stóru ummæla tel ég rétt, að þau komi hér fram við umr. um þetta mál. Enn fremur víl ég vitna til aths., sem félag héraðsdómara hefur lagt fram, þar sem þeir leggja áherzlu á, að þetta frv. sé ekki heildarlausn á þessum málum, heldur sé einungis um skammvinna bráðabirgðalausn að ræða. Undir þessar aths. vil ég taka. Í aðalatriðum er ég sömu skoðunar og báðir þessir aðilar, að núverandi fyrirkomulag sé óviðunandi og nauðsynlegt sé, að heildarendurskoðun fari fram og till. lagðar fram í framhaldi af henni.

Ég var hins vegar fylgjandi því, að þetta frv. næði fram að ganga með þeim breytingum, sem það gerir ráð fyrir, vegna þess að ljóst var, að í fullt óefni var komið, ef ekki væri eitthvað reynt að ganga til móts við þá fjölmörgu dómarafulltrúa, sem sett hafa fram mjög ákveðna gagnrýni á núverandi skipan og sett fram vissar kröfur. Þær kröfur fela það aðallega í sér, að enginn eigi að dæma í máli, nema hann sé sjálfur dómari. Sú meginregla er þarna fest í lög og gert ráð fyrir því, að þeir dómarafulltrúar, sem nú dæma ásamt dómurum verði skipaðir dómarar, og í framhaldi af þessu dæmi enginn í máli öðruvísi en hann sé ábyrgur fyrir þeim dómi, sem hann kveður upp. Þessa meginbreytingu styð ég, og þess vegna fylgi ég frv., en það er líka gert með þeim fyrirvara, að hæstv. dómsmrh. hefur lýst því yfir mjög ákveðið, að heildarendurskoðun fari fram og nýtt frv. með tilliti til þeirrar endurskoðunar verði lagt fram hið allra fyrsta. Þessar yfirlýsingar hefur hæstv. ráðh. endurtekið hér nú við þessar umr., og fagna ég þeim, og ég vil taka fram, að einmitt þessi yfirlýsing er forsenda þess, að ég er samþykkur þessu frv.