23.03.1972
Efri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

137. mál, skipan dómsvalds í héraði

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, vegna þess að þessi mál bar á góma á þeim tíma, sem ég gegndi dómsmrh.- embættinu á s.l. vetri. Dómarafulltrúarnir áttu þá eða forsvarsmenn þeirra tal við mig út af þeim óskum þeirra og kröfum, að fulltrúastörfin yrðu viðurkennd sem dómarastörf og þeir fengju status samkv. því. Ég hlýt að segja, að mér fannst mikil sanngirni mæla með mörgu í þeirra kröfum, þótt þeirra upphaflegu kröfur, eins og orðaðar voru við mig a.m.k., gengju nú svo langt, að ég hefði ekki treyst mér til þess að beita mér fyrir, að þær næðu fram að ganga. Á s.l. vori, eftir að forsvarsmenn dómarafulltrúanna höfðu nokkrum sinnum átt viðræður við mig, tjáði ég þeim, að ég mundi, ef ég nú á þessu þingi ætti eftir að gegna dómsmrh.-embætti, hafa fullan vilja á að beita mér fyrir að flytja þeirra mál og ganga a.m.k. að einhverju leyti til móts við kröfur þeirra, en mér sýndist, að það hlyti að vera erfitt að gera sér grein fyrir því, hve langt skyldi ganga, nema á undan hefði farið könnun á eða athugun á verkefnum hjá embættunum, sem réttlætt gætu þessa breytingu.

Nú hefur komið fram frv., sem hér er til meðferðar í síðari þd., og ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þarna er komin hreyfing á málefni fulltrúanna. Ég get að sjálfsögðu ekki kveðið upp neinn fullnaðarúrskurð um það, hvort hér sé of skammt eða of langt í sakirnar farið, því að ég geri ráð fyrir, að niðurstöður byggist á þeirri könnun, sem fram hefur farið. Nokkur breyting hefur orðið á frv. í Nd., þar sem hækkuð var sú tala dómara, sem heimilt yrði að skipa í embætti.

Það var eitt atriði í ræðu hæstv. dómsmrh., sem ég mundi nú óska eftir að fá nokkra skýringu á. Hann tók þar fram, að þær dómarastöður, sem þarna yrði stofnað til, mundu verða auglýstar og þeir fulltrúar, sem eru við embættin, ættu ekki endilega forgang að þessum dómarastöðum. En þá vil ég spyrja hæstv. ráðh., því að um það er talað, út frá því er gengið, að það verði ekki um fjölgun að ræða: Verði dómarar ekki skipaðir í þessi embætti úr hópi fulltrúanna, getur það þá verið ætlunin að segja einhverjum fulltrúanna upp, ef ekki á að verða um fjölgun að ræða við embættin?

Ég vil svo aðeins láta þess getið, að hæstv. dómsmrh. hefur lýst yfir því, að hann muni beita sér fyrir allsherjarendurskoðun á skipan dómsvalds í héraði og þá að sjálfsögðu með það fyrir augum að aðskilja dómsvaldið og framkvæmdavaldið, sem, eins og við vitum, er á höndum sömu embættanna að mestu leyti hér í okkar landi.

Ég vil þá aðeins minnast á það, að í dómsmrh.-tíð Jóhanns Hafstein skipaði hann nefnd svokallaða dómsmálanefnd, sem maður hefur nú nefnt svo í daglegu tali, sem skipuð er bæði embættismönnum og fulltrúum frá samtökum. Fulltrúarnir hafa fengið aðild að nefndinni og dómarar, og ég man ekki betur en þessari nefnd hafi, þegar hún var sett á laggirnar, verið falin endurskoðun á skipan dómarakerfisins. Eins og þm. sjálfsagt rekur minni til, hefur þessi nefnd undirbúið ýmis frv., sem hér hafa verið lögð fram, stjfrv. Ég hef nokkurn kunnugleika af störfum nefndarinnar, sem var nú í minni ráðherratíð aðallega þá af einhverjum ákveðnum málum, sem hún vann að fyrir rn., en ég hef þó rætt við einn þann nm., sem hefur mjög mikið fylgzt með og gert sér far um að fylgjast mjög náið með þessum störfum. Og ég verð að segja, að það hefur satt að segja opnað mér enn þá betri sýn yfir það, hve vandasamt verkefni er hér um að ræða, og eins og hæstv. dómsmrh. áðan sagði, þá skil ég ekki, að hann megi vænta skjóts árangurs af þeirri endurskoðun.

Það liggur auðvitað í augum uppi, að strjálbýlið mundi gera hrein dómaraembætti, sem hefðu einungis dómsmálin með höndum, svo stór, að þau þyrftu að ná yfir stóran hluta landsins, til þess að það væri forsvaranlegur fjöldi mála fyrir eitt embætti, og mér hefur skilizt, að þetta muni nú vera sá erfiðasti og versti þrándur þar í götu.

Ég fæ ekki séð, — ég heyrði það á umr. í Nd. og hæstv. ráðh. vék einnig að því áðan, að það kynni að vera álitið, — að samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir, tefði heildarendurskoðun þessa mikla máls. Ég er sömu skoðunar og hæstv. ráðh., að það eigi ekki að tefja hana. Þó að ég, eins og ég áðan sagði, geti ekki fyllilega um það dæmt, hvort hér sé gengið of langt eða skammt, þá finnst mér, að þær umbætur, sem í þessu frv. felast, séu þess eðlis, að það sé full ástæða til þess að fagna þeim, og þær ættu ekki að þurfa að standa í vegi fyrir, að heildarendurskoðun gangi með þeim hraða, sem eðlilegur og mögulegur er.