23.03.1972
Efri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

137. mál, skipan dómsvalds í héraði

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. beindi fsp. til mín viðvíkjandi því ákvæði, að það skuli fækkað um jafn marga fulltrúa og fjölgað er um dómara. Þetta er sem sagt ákvæði til bráðabirgða hér, þar sem segir, að við þau héraðsdómaraembætti, þar sem héraðsdómurum er fjölgað samkv. lögum þessum, skuli jafn margar fulltrúastöður lagðar niður. Þar af leiðir, að ef svo fer, að fulltrúi, sem starfar við þetta embætti, hlýtur ekki auglýst dómaraembætti, þá getur af því leitt, að hann verði að hætta starfi þar, og þá verður farið með hans starf eða stöðu á þann hátt, sem gera á samkv. almennum reglum, þegar staða er lögð niður. Það verður þá litið svo á og framkvæmt þannig, ef til kemur, að fulltrúastaða við þetta embætti verði talin lögð niður, og fulltrúinn á þá væntanlega að fá 6 eða 12 mánaða laun, eftir því hve lengi hann hefur starfað. Það hygg ég, að sé reglan eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Því skal ekki neitað, að þetta getur í einstaka tilfellum orðið erfitt í framkvæmd, en það hefur nú verið talið rétt að hafa þennan hátt á til þess að reyna að koma með þessum hætti í veg fyrir það, að um raunverulega starfsmannafjölgun og um aukin útgjöld yrði að tefla í þessu sambandi. En ef hægt er að fylgja þessu eftir í framkvæmd, þá ætti sú útgjaldaaukning, sem af samþykkt þessa frv. stafar, ekki að verða tilfinnanleg, því að þá verður sú útgjaldaaukning aðeins sá mismunur, sem er í því fólginn, að laun dómarans eru nokkru hærri en fulltrúalaunin. Þetta vildi ég nú segja um þetta atriði.

Hitt er svo rétt, eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði, að hér hefur verið um alllangt skeið starfandi eða átt að starfa a.m.k. nefnd,dómsmálanefnd. Ég man nú ekki alveg heitið á henni, en hún hefur átt að starfa að skoðun á ýmsum réttarfarsreglum og dómaskipun. Það eru nokkur ár, síðan þessi nefndarskipun fór fram. Það er eflaust rétt, og það veit ég, að er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv„ að þessi nefnd hefur fjallað um einstök frv., eða undir hana hafa verið borin einstök frv., sem varða þessi efni. Hins vegar hefur ekkert komið frá henni um þessa allsherjarendurskoðun, sem gert var ráð fyrir. Og ég er hræddur um, að það hafi lítið miðað í þá átt hjá henni. Það er út af fyrir sig ekkert undarlegt, því að hér er um vandasamt verkefni að ræða, og þessi nefnd er mjög fjölmenn. Ég geri ráð fyrir því, að það sé heppilegra að hafa þetta nokkru fámennari nefnd til að framkvæma allsherjarendurskoðun á þessu.

En þó að það yrði gert, þá er mér ljóst alveg eins og hv. 6. þm. Reykv., að þetta er ekkert áhlaupaverk, og það hlýtur eðlilega að taka sinn tíma, því að það er á mörg atriði að líta í þessu sambandi, m.a. það, sem hv. þm. drap á, að það er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá þeim sérstöku aðstæðum, sem hér á landi eru, sem gera það að verkum, að hér er eins og stundum endranær erfitt að ætla að taka alveg upp skipulag, sem tíðkast annars staðar og þar hefur reynzt vel og þar á við. Við verðum auðvitað hér eins og endranær að laga okkur nokkuð eftir aðstæðunum. En samt hygg ég nú, að það sé álit flestra þeirra, sem verulega hafa um þetta hugsað, að þörf sé orðin á endurbótum í þessu efni, og við þurfum að breyta skipan þessara mála hjá okkur í nútímalegra horf en það er nú í.

En þá kemur líka annað atriði til greina, og það er það, að hæu er við, að slíkar umbætur muni kosta nokkurt fé, og það er atriði, sem heldur er ekki hægt að horfa fram hjá, þannig að ég vil út af fyrir sig ekki gefa neinar gyllivonir um það, að það geti legið fyrir með skjótum hætti eða innan skamms niðurstaða af heildarendurskoðun þessara mála. En ég tel sjálfsagt og ég mun beita mér fyrir því, að farið verði að vinna að henni.