20.03.1972
Efri deild: 60. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

161. mál, lántaka vegna kaupa á þyrlu og viðgerðar á varðskipinu Þór

Auður Auðuns:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. vitnaði í það, að ég hefði sagt, að ég harmaði, hvernig ástandið væri í húsnæðismálum Landhelgisgæzlunnar. Hann hefur sjálfsagt skrifað það niður hjá sér, og ég rengi það ekki, en ég leiðrétti þá mitt mál þannig, að ég átti að sjálfsögðu við, á hvaða stigi húsnæðismál Landhelgisgæzlunnar væru. Og hæstv. ráðh. sagði, að þau mundu líklega vera þá í hörmulegu ástandi, en ég vil segja hæstv. ráðh. það, að aðbúnaður Landhelgisgæzlunnar á þeim stað, sem hún nú er, er vissulega ekki sá, sem æskilegur væri, og það hefur satt að segja ekki verið í því gert að bæta þar úr, vegna þess að það var beðið með, að hægt væri að flytja í nýju lögreglustöðina.

Hæstv. ráðh. sagði, að Landhelgisgæzlunni muni hafa verið ætlað húsnæði í nýju lögreglustöðinni. Já, ég verð þá að svara því til, að sá hæstv. ráðh., dómsmrh., sem eftirlætur rn. hans þetta húsnæði, hefur sjálfsagt vitað betur um það en svo, að það muni hafa verið ætlað í lögreglustöðinni húsnæði fyrir Landhelgisgæzluna. Og ég vil bara minna á það, þegar hæstv. ráðh. talar um, að það hafi verið sagt, að henni muni hafa verið ætlað húsnæðið, að því hefur beinlínis verið lýst yfir hér á þingi og það síðast á síðasta þingi af mér, að það væri og hefði verið ætlunin og ákveðið, að Landhelgisgæzlan flytti í nýju lögreglustöðina. Sú bygging hefur verið við það miðuð á margan hátt, en ég skal ekki fara að fjölyrða um það, hvaða hagræði er að þessu líka fyrir aðrar stofnanir, sem undir dómsmrn. heyra. Ég vil þó nefna t.d. almannavarnir og lögreglustjórnina. Ég álít, að þetta sé algerlega óafsakanleg ráðstöfun. Hæstv. ráðh. lýsti hér húsnæðisvandræðum utanrrn. Ég skal ekki bera brigður á það, sem hann sagði í þeim efnum, en að til þess að bæta úr þeim þrengslum þyrfti að ráðast að Landhelgisgæzlunni, — ég vil orða það svo, — og það einmitt nú á þessum tímum, til þess finnst mér þurfa anzi mikla einurð, satt að segja, vitandi það, hvað Landhelgisgæzlan væntanlega á fram undan með útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Það hefði vissulega mátt leita annars staðar fyrir sér um húsnæði fyrir utanrrn., og ég vil nú vitna til þess, að kommissaraforsjá landslýðsins telur sig þurfa 900 fermetra húsnæði. Það er nú líklega ríflega það, sem utanrrn. hefur talið sig þurfa. Þessir 900 fermetrar eru sjálfsagt a.m.k. tvöfalt stærra húsnæði en rn. telur sig þurfa. Ég veit ekki, hvað rétt er í því. En mér er sagt, að hún sé búin að fá inni, og ég sé ekki, hvers vegna hefði þá ekki kannske jafnvel mátt ganga fyrir að leysa vandræði utanrrn. Ég skal hreint ekki gera lítið úr þeim.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta atriði, húsnæðismál Landhelgisgæzlunnar. Ég get fullvissað hæstv. ráðh., um það, að það er ekki bara hér innan veggja þingsins, sem hneykslunarorð heyrast um þá ráðstöfun, heldur heyrast þau sannarlega víðar.