06.03.1972
Efri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

33. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 379, samþykkti menntmn. að mæla með samþykkt frv. með þeirri einu breytingu, að 1. mgr. 6. gr. falli brott, og var um það haft samráð við skólastjóra Stýrimannaskólans, sem kvaðst ekkert hafa við þá breytingu að athuga, en innan n. kom sú skoðun fram, að óeðlilegt væri að binda með lögum skólaárið, heldur yrði það þá frekar á valdi ráðh. og skólastjórnar hverju sinni að ákveða það með öðrum hætti. Einstakir nm., eins og einnig kemur fram á þskj., hafa óbundnar hendur um afgreiðslu málsins og áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., er fram kunna að koma.

Þegar málið var tekið til umr. í n., lágu einnig fyrir tvær brtt. frá hv. 10. landsk., sem prentaðar eru á þskj. 58, og n. sem slík tók ekki afstöðu til þessara brtt. og hefur því ekki úttalað sig um það efni. Persónulega vil ég nota þetta tækifæri, þó að ég sé hér sem fulltrúi n. allrar, til að skýra frá því, að ég er samþykkur þeim till., sem um ræðir á þskj., og mun fylgja þeim við afgreiðslu málsins til 3. umr.

Ég tel ekki þörf á því, herra forseti, að fara um frv. frekari orðum. Það var rækilega skýrt við 1. umr. málsins og óþarft að endurtaka nokkuð af því, sem þá var sagt, en n., eins og ég áðan sagði, mælir með samþykkt frv. með þeirri breytingu, sem ég áðan nefndi á þskj. 379.